Um þessar mundir eru 70 ár síðan maður einn í Nýju Mexíkó, W.W. Brazel að nafni, sem gekk í leit að sauðum sem hann óttaðist um í kjölfar óveðurs nóttina áður, fann málmbrak á víð og dreif um landareign sína, sem og nýtilkominn grunnan skurð sem var tugi metra á lengd. Þessi fundur, sem var stutt frá bænum Roswell, átti svo sannarlega eftir að draga dilk á eftir sér og má segja að hann hafi markað kaflaskil í málefnaflokknum sem má kenna við „fljúgandi furðuhluti“ (eða FFH, eins og þeir kölluðust í Andrésblöðum á síðustu öld).
Það var sum sé í Júlí 1947 þegar Brazel, eða Mack eins og hann var jafnan kallaður, afhenti skerfaranum í Roswell fundinn og sá kom þeim áfram til yfirmanna hjá flughernum sem áttu bækistöðvar þar stutt frá. Þeir gáfu stuttu seinna frá sér litla tilkynningu þar sem fram kom að þeim hefði borist rústir einhvers konar „fljúgandi disks“. Og þar með var viftan úr máltækinu fræga komin í yfirvinnu, því að eftir að staðarblöðin sögðu frá tíðindunum komust landsmiðlar á sporið og smábærinn Roswell var í einni svipan orðinn miðdepill í nýuppsprottnum áhuga almennings á mögulegum lendingum geimvera hér á jörð.
Nokkrum dögum síðar sendi flugherinn út aðra tilkynningu þar sem fram kom að þarna hafi ekki verið neinn Fljúgandi diskur heldur aðeins veðurathugunarloftbelgur sem hafi hrapað til jarðar. Á kynningarfundi voru dregin fram nokkur af brotunum sem fundust. Skilaboðin voru skýr og undirorpin sönnunum. Ekkert hér að sjá. Haldið áfram.
Áhuginn á Roswell-atvikinu fór fljótt dvínandi og lá í dróma um áraraðir þar til á áttunda áratugnum þegar aftur fóru á flug sögur um það sem fundist hafi þessa örlaganótt.
Einn af þeim fyrstu sem hófu nafn Roswell aftur upp til frægðar var kjarneðlisfræðingurinn Stanton Friedman, sem hafði þá um nokkurra ára skeið helgað starf sitt leitinni að sönnunum fyrir tilvist og komu geimvera til jarðar (og er raunar enn „framarlega á því sviði“ ef svo mætti að orði komast).
Í mynd sinni UFO´s are real frá árinu 1979 birti Friedman meðal annars viðtal við Jesse Marcel, majór í flughernum. Það var einmitt sá sem skerfarinn í Roswell hafði látið vita af fundinum á sínum tíma og Marcel var einn af þeim fyrstu sem kom á brotlendingarstaðinn. Marcel sagðist í viðtalinu vera sannfærður um að það sem hann sá þar og flutti til baka á herstöðina, hafi ekki verið neinn veðurbelgur, heldur rústir geimfars. Þessa sögu hélt hann sig við, í aðalatriðum, allt til dauðadags.
Þessi mynd ásamt ýmsum greinum og bókum sem voru skrifaðar á svipuðum tíma, héldu fram svipuðum kenningum, að yfirvöld hafi reynt að villa um fyrir fjölmiðlum og almenningi um hina raunverulegu atburði í Roswell. Geimfar hafi brotlent þar, yfirvöld hafi tekið brakið – og jafnvel „jarð“neskar leifar stjörnuferðalanga – og geymt á „Svæði 51“, hinu annálaða öryggissvæði sem er nú eins konar samnefnari fyrir meintar yfirhylmingar bandarískra stjórnvalda. Þar séu geymdir þeir hlutir sem ekki þoli dagsins ljós.
Kenningar þessar hittu svo sannarlega í mark og skoðanakannanir frá þeim tíma sýna glögglega að almenningur var almennt á þeirri skoðun að geimverur væru til og hefðu haft viðkomu hér.
Flugherinn ákvað loks að kveða kjaftasögurnar í kút í eitt skipti fyrir öll og gaf út tvær skýrslur um málið á tíunda áratugnum. Sú fyrri var 1.000 blaðsíðna doðrantur sem kom út árið 1994, en þar kom fram að hluturinn sem fannst í Roswell var sannarlega tæki sem hékk í veðurloftbelg, en það var ekki hefðbundið veðurathugunartæki, heldur leynilegur tilraunatækjabúnaður sem átti að geta numið merki um kjarnorkutilraunir Sovétmanna.
Ekki varð hún þó til þess að sefa huga þeirra sem trúðu, og heldur bætti í ári síðar þegar fyrir augu almennings komu myndskeið sem áttu að sýna krufningu á líkömum geimveranna sem áttu að hafa fundist í Roswell.
Seinni skýrslan kom svo út árið 1997 og átti að slá á grunsemdir fólks í eitt skipti fyrir öll. Yfirskrift hennar var: Case Closed, eða „Málalok” og þar var tekið fram að ekkert í gögnum varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna gæfi til kynna að nokkurs konar lífverur hefðu fundist ítngslum við atburðina í Roswell á sínum tíma. Ekki væri heldur um neins konar yfirhylmingu að ræða af hálfu yfirvalda.
Merkilegt nok hefur skýrslugerð opinberra stofnana ekkert slegið á þá bjargföstu trú margra að geimskip hafi brotlent við Roswell árið 1947. Þeir benda á ýmis konar misræmi í skýringum, en hafa þó ekki sannað sitt mál með óyggjandi hætti. Hvort þeim takist það einn daginn er ómögulegt um að spá, en sagði ekki einhver frómur maður einhverntíma að sannleikurinn leyndist einhversstaðar þarna úti?