5. Siðblinda staðfest
„Ólafur og Kaupþingsmenn, svindluðu stórkostlega á íslensku samfélagi. Þeir blekktu stjórnvöld, almenning og fjölmiðla til að komast yfir banka og til að hagnast um milljarða króna sem runnu inn í aflandsfélög.
Enginn þessara manna hefur beðist afsökunar. Enginn hefur skilað neinu af því fé sem þeir komust yfir með óheiðarlegum hætti. Enginn hefur sætt sig við niðurstöðu dómstóla í þeim málum sem rekin hafa verið gegn þeim, eftir reglum réttarríkisins.
Eina sem þeir hafa gert er að grafa undan dómskerfinu með því að borga lögmanna- og almannatengslaher hundruð milljóna króna fyrir að valda áframhaldandi skaða. Þeir hafa fengið meðgjöf hjá sumum fjölmiðlum sem hafa gert þeirra málstað að sínum. Og þeir skammast sín ekki neitt.
Það sem einkennir hegðun þessa hóps er algjör skortur á samúð og samlíðan. Athafnir þeirra eru að öllu leyti sjálfhverfar og þeir hika ekki við að beita blekkingum til að fá það sem þeir vilja. Þeir ljúga og sýna af sér fullkomið samviskuleysi. Hvatirnar sem drífa þá áfram eru peningar og völd. Allt eru þetta grunneinkenni klassískrar siðblindu.
Og í Hauck & Aufhäuser-fléttunni sýndi þessi hópur á sér allar þessar hliðar.“
Lesið leiðarann í heild sinni hér.
4. Það er verið að hafa okkur að fíflum
„Enn og aftur er verið að taka snúning á okkur. Sömu aðilar og tóku snúning á okkur í gerviuppgangnum fyrir hrunið og sömu aðilar og högnuðust ævintýralega á endurreisninni hér sem kröfuhafar eru að taka einn hring í viðbót áður en þeir fara með ávinninginn heim. Þeim er alveg sama um íslenskt samfélag. Þeir vilja bara græða sem mest á sem skemmtum tíma og fara síðan til að skipta ávinningnum milli huldumannanna sem standa að baki skrýtnu nöfnunum sem skráð eru á hluthafalistanna. Þeir eru ekki að fjárfesta hér vegna þess að þeir telja að framtíð Arion banka sé björt, ekki vegna þess að þeir hafa svo mikla trú á Arion banka, ekki vegna þess að þeir eru að veðja með íslenskum bönkum og íslensku efnahagskerfi.
Með orðskrúð er verið að fela það sem raunverulega er að eiga sér stað. Það er verið að hafa okkur að fíflum. Og það virðist vera að þeir sem það eru að gera muni enn og aftur komast upp með verknaðinn.“
Lesið leiðarann í heild sinni hér.
3. Hver ætlar að bera ábyrgð á Ásmundi Friðrikssyni?
„Og nú er spurning hvernig forystufólk, og raunar allir Sjálfstæðismenn, bregðast við grein Ásmundar sem birt var í morgun. Ætla þeir að fordæma hana, í ljósi þess að hún byggir ekki á neinu og er einungis til þess fallin að reyna að stilla örvæntingarfullu fólki upp sem ástæðu fyrir skertum lífsgæðum hluta landsmanna? Ætla þeir að stiga fram og segja hátt og skýrt að málflutningur Ásmundar eigi ekkert skylt við stefnu stærsta og áhrifamesta stjórnmálaflokks landsins? Eða ætla þeir að láta sem ekkert sé, virða „málfrelsi“ Ásmundar til að boða útlendingaandúð með innihaldslausum hræðsluáróðri og kanna hvort að Ásmundur nái að krækja í rasista-atkvæðin fyrir þau?
Yfir til ykkar. Nú er tíminn til að draga skýra línu í sandinn.“
Lesið leiðarann í heild sinni hér.
2. Munurinn á staðreyndum og spuna
„Það er ekki hlutverk fjölmiðla að taka þátt í spuna heldur að sjá í gegnum hann og upplýsa almenning um það sem raunverulega hefur átt sér stað. Mjög hefur vantað upp á að stærstu meginstraumsmiðlar Íslands hafi haft það að leiðarljósi við vinnslu frétta af úrskurði yfirskattanefndar í máli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.
Þar birtast ófrávíkjanlegar staðreyndir. Sú mikilvægasta er að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og eiginkona hans viðurkenna, í bréfi sem umboðsmaður þeirra sendi til ríkisskattstjóra 13. maí 2016, að þau hafi ekki greitt skatta í samræmi við lög og reglur. Og greiða viðbótargreiðslur í ríkissjóð vegna þess.
Það er mjög fréttnæmt og almenningur á rétt á að fá að vita um þessar upplýsingar. Því hlutverki stóð Kjarninn undir í morgun.“
Lesið leiðarann í heild sinni hér.
1. Fólkið sem stal frá okkur hinum
„Þessi orð eru ekki skrifuð vegna geðveiki þess sem sér ekki veisluna fyrir framan sig. Þau eru ekki skrifuð af fýlupúka sem nennir ekki að taka þátt í stemmningunni. Þau eru ekki skrifuð vegna öfundar gagnvart fjármagnseigendum. Þau eru skrifuð af réttlátri reiði og óþoli gagnvart því svindli og þeim þjófnaði sem hluti íslensks samfélags stendur fyrir gagnvart öllum hinum sem í því búa. Og því vantrausti sem atferli þeirra skapar sem grefur undan allri samfélagsgerðinni.
Það er nefnilega engin munur á því að ljúga beint að kjósendum sínum og því að leyna þá vísvitandi upplýsingum sem skipta máli.“