5. Ástarbrölt miðaldra í Reykjavík
„Um daginn fór ég að borða á matarmarkaðnum á Hlemmi með tveimur vinkonum. Önnur þeirra var í öngum sínum því hún var nýkomin frá spákonu og spákonan hafði boðað að hún myndi brátt hitta dásamlegan maka. Vinkonan fussaði pirruð yfir beikonvafinni bleikju: Og hvað á ég að gera við þennan dásamlega maka?! Mig langar ekkert í hann.
Af hverju ekki? spurði hin vinkonan og glotti sínu fallega ísmeygilega glotti.
Af hverju? hváði hin með munnfylli af bleikju. Þá þarf ég að fara að gera alla þessa makalegu hluti með honum. Keyra hringinn og lesa upp úr kortabók meðan hann keyrir og mæta með honum í endalaus fjölskylduboð með þessari dásamlegu fjölskyldu – sem hann á víst líka. Og hvað! Allar helgar verða dæmigerðir maka-laugardagar og maka-sunnudagar með þessari fjölskyldu hans eða að rölta um miðbæinn og fara á fjölskyldusamkomur. Ég bara nenni því ekki!“
Lesið greinina í heild sinni hér.
4. Auðvitað mega karlmenn reyna við konur
„Þannig að þegar einhver segir að karlar megi nú alveg reyna við konur, að þessi #metoo-bylting sé komin út í öfgar, þá má og á jafnvel að ræða það. Og segja: auðvitað mega karlar reyna við konur. Og konum er líka velkomið að reyna við karla. Og karlar við karla og konur við konur. En viðreynsla mun aldrei gefa þetta óbragð í munni og vanlíðan á sama hátt og áreitnin gerir. Tilfinningin gefur til kynna hvort um áreitni sé að ræða eða saklaust daður og hægt er að treysta þessari tilfinningu.
Hvernig geta það verið nornaveiðar þegar konur lýsa tilfinningum, reynslu og upplifun af ákveðinni hegðun? Er það einmitt ekki klassísk aðferð þeirra sem vilja kenna fórnalömbum um? Allavega er ég sannfærð, eftir að hafa lesið þessar hundruð sagna sem komið hafa fram í síðustu misserum, að áreitnin, ofbeldið og mismununin er raunveruleg en ekki hluti af „eðlilegum“ samskiptum milli kynjanna.“
Lesið greinina í heild sinni hér.
3. Þegar ég krassaði
„Við lifum á flóknum lífum, mörg hver. Fólk er í flóknu fjölskyldumunstri, skiptir um maka og blandar saman börnum, vinnur flókin verkefni á degi hverjum, venur sig á að vera undir stöðugu áreiti, ræður manneskjur í vinnu til að skilja eigin skattframtöl, lifir með hinum ýmsu nútímasjúkdómum og reynir að halda haus í lífsgæðakapphlaupi. Og ekkert við því að segja, svona er nútíminn.
Þetta eru auðvitað allt klisjur – en klisjur eru klisjur af því þær eru sannar og meira að segja sú setning er orðin klisja.
Nú gæti einhver sagt að málið væri að breyta um lífstakt. Það er hægara sagt en gert ef maður ætlar að þrífast í samfélagi nútímans. Eina sem maður getur gert er að draga úr notkun á samfélagsmiðlum, mæta í jógatíma, reyna að fókusera á einn dag í einu og lifa sem heilbrigðustu lífi. En gangverk hins daglega lífs heldur samt sem áður áfram að vera flókið.“
Lesið greinina í heild sinni hér.
2. Ósanngjarnt.is
„Hér verður fjallað um hversu erfitt og ósanngjarnt það getur verið að eignast barn með maka. Vert er að taka það fram að barneignir eru að langmestu leiti æðislegar eins og hægt er að sækja sér staðfestingar um með því að skoða fallegar myndir á instagram eða lesa facebookpósta mæðra þegar börnin þeirra eiga afmæli. Og börn eru svo náttúrulega óumdeild snilld. Það sem næst samt síður á mynd og er leiðinlegra afmælistal er hvað álagið sem barneignir eru leggst misharkalega á foreldra þess.
Ég ætla ekki að láta eins og eitthvað fórnarlamb hérna. Barn er guðsgjöf og allt það. Blessed be the fruit! Under his eye.
Mig langar bara aðeins að reyna að koma þessum flóknu tilfinningum sem leika um mann alveg frá því að manni verður fyrst flökurt og þangað til að maður sleppir því að fara í þúsundasta partýið því að það er auðvitað miklu mikilvægara að gefa barninu sínu áfengislausa mjólk að drekka en að fara í lukkuhjólið á English.“
Lesið greinina í heild sinni hér.
1. Að fæða barn
„Ég hafði vissulega heyrt misgóðar fæðingarsögur á meðgöngunni og einhverjar konur höfðu sagt mér að þetta væri hellað dæmi. Ég kinkaði alltaf kolli og virtist skilningsrík en hugsaði með mér: já já, fæðing er kannski erfið fyrir svona venjulega snakkpokakonu eins og þig sem hefur aldrei fengið tíu í leikfimi í MR eða drukkið tvo lítra af vatni á tveimur mínútum án þess að gubba. En ég mun hinsvegar fara létt með þetta.
Ó mikil var heimska mín og hroki.
Allar háræðarnar í andlitinu á mér sprungu. Ég hélt tvisvar að ég myndi örmagnast. Ég hef ekki tölu á því hversu oft mig grunaði að ég væri að kúka á mig og mér leið bara alveg fáránlega illa.*
Það sem kom mér mest á óvart er að það eru til konur sem hafa fætt barn oftar en einu sinni. Þær konur eru bilaðar. Því þær vita í hvað þær eru að fara. Hvað er að ykkur? Þetta er ekki retorísk spurning. Endilega hendið í opið bréf – ef þið hafið eitthvað til ykkar máls, ruglhausarnir ykkar!“