5. Talin hafa breytt launaseðlum til að ná hærri greiðslum úr ríkissjóði vegna hlutabótaleiðar
Alls 160 launagreiðendur óskuðu eftir því að fá að breyta áður tilgreindum launagreiðslum til hækkunar áður en þeir sóttu um að setja starfsmenn á hlutabótaleiðina. Af þeim óskuðu 99 eftir breytingum á launagreiðslur fyrir janúar og febrúar 2020. Eftir breytingarnar hækkuðu uppgefin laun hópsins um alls 114 milljónir króna frá því sem áður var. Samhliða hækkuðu greiðslur vegna hlutabótaleiðarinnar til hans um sambærilega tölu.
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um hlutabótaleiðina sagði að leiða mætti líkum „að því að meirihluti umræddra breytinga byggi á hæpnum grunni og tilgangurinn sé að ná hærri greiðslum úr ríkissjóði. Ríkisendurskoðun telur að svo miklar breytingar veki upp spurningar um ástæður umræddra breytinga og að kanna þurfi réttmæti þeirra.“
Lesið fréttaskýringuna í heild sinni hér.
4. Enginn hefur sýnt annan eins forkastanlegan ásetning
Í byrjun mars var verið að takast hart á um fyrirhugaða Hagavatnsvirkjun.
Forseti Ferðafélags Íslands sagði það „hreina ósvífni“ og til marks um „fúsk og faglegt siðleysi“ að Íslensk vatnsorka ehf. reyndi að „svindla sér fram hjá faglegri skoðun“ með því að leggja fram tillögu að Hagavatnsvirkjun rétt undir þeim stærðarmörkum sem kallaði á meðferð í rammaáætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Á sama tíma væri boðað að aðeins væri um fyrsta áfanga að ræða. Til stæði að stækka virkjunina með því að nýta vatnasvið Jarlhettukvíslar sem væri á milli Langjökuls og móbergshryggjarins Jarlhetta.
Lesið fréttaskýringuna í heild sinni hér.
3. Flugmenn vildu að fólk með yfir milljón á mánuði fengi fullar atvinnuleysisbætur
Í marsmánuði var verið að samþykkja allskyns úrræði til að hjálpa fólki og fyrirtækjum vegna kórónuveirufaraldursins. Ljóst var að ríkissjóður yrði að taka á sig miklar byrðar. Eitt þeirra úrræða sem kynnt var til leiks var hin svokallaða hlutabótaleið. Félag íslenskra atvinnuflugmanna skilaði umsögn um hana þar sem kom fram að það teldi það sanngjarnt að fólk sem haldi launum frá atvinnurekenda sem yrðu yfir milljón krónur á mánuði myndu samt fullar atvinnuleysisbætur úr ríkissjóði. Ástæðan væri meðal annars sú að hópurinn hafi greitt svo mikið í skatt.
Lesið fréttaskýringuna í heild sinni hér.
2. Tíu staðreyndir um lúsmý
Mikill vargur hefur herjað á landsmenn síðastliðin sumur en hann leggst einkum á fólk í svefni, sækir inn um opna glugga á kvöldin og nóttunni á ákveðnum stöðum á suðvesturhorni landsins.
Um er að ræða lúsmý og Kjarninn fór yfir þetta fyrirbæri í tíu staðreyndum þegar ónot vegna þess stóðu sem hæst í sumar.
Lesið fréttaskýringuna í heild sinni hér.
1. Starfsmaður Samherja áreitti Helga Selja mánuðum saman
Starfsmaður Samherja og fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður, Jón Óttar Ólafsson, var, allt frá því umfjöllun Kveiks og Stundarinnar birtist þann 12. nóvember á síðasta ári og fram til ágústloka 2020, tíður gestur á Kaffifélaginu, kaffihúsi í miðbæ Reykjavíkur, einatt til að hitta á og ná tali af Helga Seljan blaðamanni á RÚV – en þar hittist hópur fólks iðulega á morgnana til að spjalla um daginn og veginn. Jón Óttar sendi enn fremur ítrekað skilaboð til Helga, bæði í gegnum SMS og Facebook-reikning eiginkonu sinnar.
Kjarninn fjallaði um málið í fréttaskýringu sem birtist 27. ágúst. Þar sagðist Helgi telja að tilgangurinn væri líklegast sá að hræða hann eða ógna að einhverju leyti.