5. Stöðu hverra þarf raunverulega að „leiðrétta“? (birtist 21. febrúar 2020) e. Þórð Snæ Júlíusson
„Það er flókið viðfangsefni að viðhalda stöðugleika, takast á við efnahagslegar áskoranir vegna áfalla síðustu ára og reyna að verja kaupmáttaraukningu launa á sama tíma. Það skilja allir.
En það gengur einfaldlega ekki upp að fara í allskyns sértækar aðgerðir til að gefa þeim sem ekki þurfa á því að halda peninga úr ríkissjóði, að leiðrétta laun hálaunafólks umfram alla eðlilega launaþróun og færa fjármagnseigendum hvert tækifærið á fætur öðru til að auka auð sinn og ítök í samfélaginu en ætla svo alltaf að láta þá sem verst standa í samfélaginu standa eina eftir „óleiðrétta“.“
Lesið leiðarann í heild sinni hér.
4. Að hafa ranga skoðun á Íslandi (birtist 13. júní 2020) e. Þórð Snæ Júlíusson
„Þeir sem reyna að stuðla að heilbrigðri lýðræðislegri umræðu og veita eðlilegt aðhald, t.d. flestir fjölmiðlar landsins, eru smættaðir af ráðamönnum og viðhlæjendum þeirra fyrir það. Sérstök lenska er að ráðast gegn nafngreindu fólki sem starfar í fjölmiðlum og ásaka það um óheilindi. Kerfisbundið er þrengt að rekstrarumhverfi þeirra með andvaraleysi og þegar það nægir ekki eru þeir ásakaðir um rangfærslur án raka. Sagðir ekki alvöru. „Fake news“.
Harkaleg viðbrögð fjármála- og efnahagsráðherra á fimmtudag slógu enda kórréttan tón inn í kjarnafylgishóp hans. Þar er að finna ansi marga pilsfaldarkapítalista sem gengur illa að skapa sér tækifæri með eigin verðleikum, og treysta því á flokkshollustu sem matarholu. Í staðinn, klæddir í hugmyndafræðilega grímubúninga frelsis, taka þeir að sér hlutverk tuddans á skólalóðinni. Taka við gaslampanum og lýsa með honum á samfélagsmiðlanna, samhliða því að hlæja dátt að fáránleika þeirra sem skilja ekki hvernig hlutirnir virka á Íslandi. Hér skiptir miklu meira máli hver þú ert en hvað þú getur.
Lesið leiðarann í heild sinni hér.
3. Við erum augljóslega ekki öll í þessu saman (birtist 15. apríl 2020) e. Þórð Snæ Júlíusson
„Við þessar aðstæður reyndu hagsmunagæslusamtök útgerðanna að losna við greiðslu veiðigjalda, að losna við gjöld á fiskeldi og að láta draum sinn um að losna við stimpilgjald af fiskiskipum verða hluta af neyðaraðgerðarpakka ríkisstjórnarinnar. Ofan á það bætist að ofurríkar stórútgerðir eru að láta skattgreiðendur greiða laun starfsfólksins í landvinnslu til að verja eigið fé hluthafa sinna og sjö útgerðir vilja að skattgreiðendur borgi þeim skaðabætur vegna þess að þær fengu ekki nægilega mikið af makríl gefins.
Hér er um stétt að ræða þar sem örfáir einstaklingar ráða öllu sem þeir vilja. Frekir og fyrirferðamiklir einstaklingar sem hafa vanist því að geta gengið um íslenskt samfélag eins og þjóðin sé til fyrir útgerðina, en ekki öfugt. Stétt sem á mörg hundruð milljarða króna í eigið fé. Sem á fjölmiðla. Sem hefur teygt anga sinna inn á fjölmörg önnur svið íslensks atvinnulífs og styrkt þannig tangarhald sitt á samfélaginu.
Þessi ofurstétt ætlar sér ekki að vera saman í þessu öllu með okkur hinum. Hún er í þessu fyrir sig sjálfa, ekki okkur hin.
Það þarf að segja hátt og skýrt við hana að nú sé komið nóg. Og beita öllum tiltækum tólum til að koma þeim skilaboðum til skila.“
Lesið leiðarann í heild sinni hér.
2. Stríðsrekstur fyrirtækis gegn nafngreindu fólki og gagnrýnum fjölmiðlum (birtist 11. ágúst 2020) e. Þórð Snæ Júlíusson
„Það trúir því enda varla nokkur með sæmilega meðvitund að hrein rætni og illska drífi margverðlaunaða rannsóknarblaðamenn áfram, frekar en metnaður til að upplýsa almenning og segja satt og rétt frá. Samherji ætti eiginlega að krefja þessa spunameistara sína um endurgreiðslu á útlögðum kostnaði, þar sem illa hannaðar árásir þeirra vinna fyrirtækinu mun meira skaða en gagn. Árásir sem alþjóðlegt stórfyrirtæki í sjávarútvegi með tugmilljarða króna veltu á ári birtir á heimasíðu sinni. Þeirri sömu og notuð er í daglegum viðskiptum þess.
Tilgangurinn er einungis sá að reyna að vega að æru fréttamanns og fjölmiðils sem dirfðust að opinbera Samherja. Og hræða aðra frá því að fjalla um fyrirtækið eða eigendur þess. Undirliggjandi skilaboðin eru: „Þið gætuð verið næst, sleppið þessu bara“.“
Lesið leiðarann í heild sinni hér.
1. Skammist ykkar (birtist 28. mars 2020) e. Þórð Snæ Júlíusson
„Fólki er tíðrætt um það um þessar mundir að við séum öll saman í þessu. Að samstöðu þurfi til svo að hægt sé að sigla í gegnum þetta ótrúlega ástand. Sú samstaða vex út úr því að veiran skæða fer ekki í manngreinarálit. Hún getur lagst á alla, óháð því hversu mikla peninga þeir eiga, hvort þeir séu langskólagengnir eða með grunnmenntun, hvort þeir eigi einbýlishús með heitum potti í garðinum eða leigi litla blokkaríbúð í úthverfi og hvort þeir vinni í vel borgaðri vinnu í einkageiranum eða hjá hinu opinbera.
Meirihluti þjóðarinnar virðist vera hluti af þeirri samstöðu. En það virðist nú ljóst að sumir ætli greinilega að kjósa sér aðra leið við þessar aðstæður. Þeir ætla að bjóða upp á rugl og ætla að sýna algjöran skort á auðmýkt gagnvart aðstæðunum. Þeir ætla jafnvel að nýta sér glundroðann.
Þeir ættu að skammast sín.“