Áreiðanleikakönnun vegna mögulegra kaupa rekstraraðila kísilversins á Bakka á kísilverksmiðjunni í Helguvík stendur yfir og á henni að vera lokið á þriðja ársfjórðungi, þ.e. á tímabilinu júlí-september. Þetta kemur fram í nýjum árshlutareikningi Arion banka sem á kísilverið og allt sem því fylgir eftir gjaldþrot United Silicon árið 2018. Hinn áhugasami kaupandi er meirihlutaeigandi kísilvers PCC á Bakka í nágrenni Húsavíkur líkt og Kjarninn greindi frá fyrr á árinu. Arion banki og PCC skrifuðu undir viljayfirlýsingu um möguleg kaup í janúar.
Í grundvallaratriðum er tilgangur áreiðanleikakönnunar að samræma vitneskju og upplýsingar kaupanda og seljanda á félaginu sem um ræðir, í þessu tilviki Stakksbergi, dótturfélagi Arion sem heldur utan um eignirnar í Helguvík.
Í árshlutareikningi Arion segir að markmið bankans sé að kanna þá möguleika að selja kísilverið á grundvelli þeirrar vinnu sem farið hafi fram „en einnig að kanna sölu á innviðum til annarrar starfsemi“.
Vinnan sem farið hefur fram er m.a. umhverfismat á endurræsingu og stækkun kísilsversins sem lauk með áliti Skipulagsstofnunar um áramótin. Þá hafa raforkusamningar verið endurnýjaðir, starfsleyfi er enn í gildi og verksmiðjan verið endurhönnuð með tilliti til þeirra úrbóta sem gera þarf eigi að ræsa hana að nýju.
Grundvallarmarkmiðið, eins og það er orðað í árshlutareikningi Arion, er að hámarka not eignanna og að finna kaupanda sem sér tækifæri og hefur reynslu og sérfræðiþekkingu til að halda rekstri kísilversins áfram „í sátt við nærsamfélagið“.
Kísilverið í Helguvík hefur ekki starfað í um fjögur og hálft ár eftir að Umhverfisstofnun stöðvaði starfsemina eftir fjölda kvartana íbúa og ítrekaðra mistaka í rekstrinum sem ekki tókst að bæta úr. Allir ellefu fulltrúar í bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykktu í janúar bókun þar sem skorað var á Arion banka að falla frá áformum um endurræsingu hennar.
Enginn oddviti þeirra flokka sem nú eru í framboði í Reykjanesbæ vill að verið verði endurræst og kannanir hafa sýnt að íbúar eru á sama máli. „Við erum í því liði að við teljum þetta kísilver fullreynt og vonumst til að það opni ekki aftur,“ sagði Margrét Sanders, bæjarfulltrúi og frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ í leiðtogaumræðum á RÚV nýverið. „Það er bara búið,“ sagði Friðjón Einarsson, bæjarfulltrúi og frambjóðandi Samfylkingar og óháðra og benti á að fulltrúar allra flokka hefðu samþykkt að setja í aðalskipulag nýja stefnu fyrir Helguvík – að þar verði ekki mengandi iðnaður í framtíðinni.
Valgerður Björk Pálsdóttir, frambjóðandi Beinnar leiðar, sagði Helguvík kjörinn stað fyrir nýsköpunarfyrirtæki og Ragnhildur Guðmundsdóttir, oddviti Pírata og óháðra sagði: „Við viljum ekki mengandi stóriðju í Helguvík.“
Bæjaryfirvöld fara með skipulagsvaldið en Stakksberg á lóðina, er með starfsleyfi og í gildi er deiliskipulag sem Arion banki segir rúma allar nýjar byggingar sem fyrirhugaðar eru til stækkunar verksmiðjunnar. Bankinn sagði í umhverfismatsskýrslu sinni að ekki þurfi að gera nýtt deiliskipulag, aðeins breyta gildandi skipulagi í samræmi við þær byggingar sem fyrir eru og voru ekki í takti við fyrirliggjandi leyfi á sínum tíma.
„Og þá skulum við vera alveg skýr með það: Það verður barátta,“ sagði Margrét Sanders, oddviti Sjálfstæðisflokksins, í kosningaþætti RÚV, um þá afstöðu bæjaryfirvalda að útiloka kísilverið. „Arion banki heldur á þessu fyrirtæki,“ sagði hún. „Við verðum að fara í samræður og viðræður við Arion banka um að þeir standi við sína sjálfbærni stefnu.“
Í sameiginlegri bókun bæjarfulltrúa Reykjanesbæjar í janúar ítrekaði bæjarstjórn vilja sinn til samráðs við Arion banka um aðrar leiðir og annars konar starfsemi í Helguvík. Nýtt mat á umhverfisáhrifum, sem gefið var út um áramótin, gerði lítið til að breyta skoðun bæjaryfirvalda og íbúa sveitarfélagsins.
„Það er því ljóst að framundan gætu verið harðar langvarandi deilur milli aðila, verði áfram haldið með þessi áform, sem gera ekkert annað en að valda öllum aðilum verulegum skaða.“
Fulltrúar Arion banka sögðu á fundi umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis í byrjun febrúar að það að flytja kísilverið úr Helguvík yrði „svo óskaplegt“ að það væri „raunverulega ekki efnahagslega boðlegur kostur“. Ólafur Hrafn Höskuldsson, fjármálastjóri Arion banka og stjórnarformaður Stakksbergs sagði að um 15-20 milljarða króna fjárfestingu væri að ræða í innviðum til kísilframleiðslu. „Það er ljóst að þrátt fyrir það að búið sé að færa þessar eignir að mestu niður í bókum bankans þá felst ábyrgð í því að halda á þessari 15-20 milljarða fjárfestingu og það er þessi ábyrgð sem hefur verið okkar leiðarljós í verkefninu. Þegar maður talar um þessa ábyrgð þá felst vissulega ábyrgð í því að skoða gangsetningu á verksmiðjunni en það felst að sama skapi mikil ábyrgð og sóun í því að rífa niður þessa 15-20 milljarða og ekki kanna til hlítar hvort að hægt sé að gangsetja þarna verksmiðju sem hægt er að reka í eins góðri sátt við samfélagið og hægt er og í takti við kröfur eftirlitsaðila.“
Bókfært virði Stakksbergs var tæplega 1,4 milljarðar króna í lok mars og hafði þar með lækkað um 177 milljónir frá því í lok síðasta árs.
Í ársskýrslu Landsvirkjunar kom fram að hækkun á verði kísilmálms milli 2020 og 2021 hafi numið um 450 prósentum. Þar af hækkaði það yfir 200 prósent á einungis tveimur mánuðum, frá september og út október 2021.