Borgþór Arngrímsson blaðamaður hefur skrifað 400 fréttaskýringar fyrir Kjarnann en sú fjögur hundraðasta birtist fyrr í dag og fjallar um varphænur og hvernig líf þeirra sé ekkert sældarlíf.
Hann starfaði lengi sem fréttamaður á Ríkisútvarpinu en hann er menntaður leikhúsfræðingur og starfaði í um tuttugu ár sem framhaldsskólakennari í Keflavík.
Fyrsta fréttaskýringin sem Borgþór skrifaði fyrir Kjarnann birtist rúmum mánuði eftir stofnun miðilsins eða þann 26. september 2013. Borgþór hefur allar götur síðan skrifað vikulegar fréttaskýringar fyrir Kjarnann um hin ýmsu mál um allt milli himins og jarðar – með áherslu á málefni tengd Danmörku.
Sú fyrsta fjallaði um Danske Bank, langstærsta banka Danmerkur og vandræði hans á þeim tíma en Borgþór bjó í Danmörku á þeim tíma. Í fréttaskýringunni fjallaði hann um misheppnaðar auglýsingaherferðir, flóttaviðskiptavina frá bankanum og brottrekstur bankastjóra sem hafði aðeins setið í hálft annað ár.
Hótelið á hafsbotni, frægastur danskra leikara og skuggar fortíðar í stúlknakór
Vinsælasta fréttaskýring Borgþórs til þessa árið 2021 fjallaði um að í áratugi hefðu gengið sögur um að á hafsbotni norðan við Helsingjaborg í Svíþjóð lægi stærðar steypuhlunkur sem átti að vera hluti eins þekktasta hótels á Norðurlöndum. Í umfjöllun sinni um málið fór hann yfir það hvort þetta væri rétt.
Aðra vel lesna umfjöllun skrifaði Borgþór í byrjun maí á þessu ári en hún fjallaði um frægasta leikara Dana: Mads Mikkelsen. Hann fæddist í Kaupmannahöfn, lærði ballett og var atvinnudansari í 10 ár. Þrítugur að aldri lauk hann leikaranámi og er óumdeilanlega í dag frægastur allra danskra leikara. Borgþór fór meðal annars yfir það að gleymska hefði einu sinni næstum orðið honum dýrkeypt.
Í júní fjallaði Borgþór um skugga fortíðar í stúlknakór. Michael Bojesen, einn þekktasti hljómsveitarstjóri Danmerkur og núverandi forstjóri Malmö óperunnar var þá kominn í ótímabundið leyfi. Ástæðan var frásagnir stúlkna sem voru í Stúlknakór danska útvarpsins undir hans stjórn frá 2001 til 2010.
Burt með gettóin, Casanova handtekinn og listgjörningur eða skemmdarverk
Í gegnum árin hefur umfjöllunarefnið verið fjölbreytt og sjaldnast er komið að tómum kofanum hjá Borgþóri. Í nóvember 2020 skrifaði hann um atvik er brjóstmynd af Friðriki V Danakóngi eyðilagðist þegar deildarstjóri við Konunglega fagurlistaskólann í Kaupmannahöfn, ásamt hópi nemenda, henti styttunni sem var í samkomusal skólans í sjóinn. „List,“ sagði deildarstjórinn sem var sendur heim í kjölfarið.
Borgþór átti þriðju mest lesnu fréttaskýringu Kjarnans árið 2019. „Hann var bara svo sjarmerandi og umhyggjusamur,“ sagði dönsk kona um unga Ísraelann sem sagðist vera vopna- og demantasali, fyrrverandi orrustuflugmaður, og milljarðamæringur. Hvorki hún, né aðrar konur sem ungi maðurinn heillaði, grunaði hann um græsku í upphafi en svo kom önnur hlið í ljós.
Í mars 2018 fjallaði Borgþór um áætlun dönsku ríkisstjórnarinnar um að uppræta hin svokölluðu gettó. Átta danskir ráðherrar stormuðu inn á Mjølnerparken á Norðurbrú í Kaupmannahöfn en slíkt var ekki daglegur viðburður. Tilefnið var að kynna fyrrnefnda áætlun.
„Hygge“, kórónufrumvarp og sígaunafjölskyldan sem lifði sældarlífi
Borgþór velti því fyrir sér, eins og svo margir Íslendingar, í október 2017 hvað danska hugtakið hygge þýddi. „Er það stig sem nær hærra en bara að hafa það kósí? Nær eitthvað íslenskt orð yfir það? Eða er um að ræða sérstaka danska heimspeki?“
Í apríl 2016 fjallaði Borgþór svo um svokallað „kórónufrumvarp“ – og nei, ekki um veiruna, heldur frumvarp sem danski menningarmálaráðherrann lagði fram á danska þinginu. Frumvarpið fjallaði um tiltekið tákn, svonefnda lokaða kórónu. „Kórónumálið“ eins og það er kallað komst í fréttirnar um heim allan og þeim sem áttu hagsmuna að gæta varðandi þetta frumvarp fannst það hreint ekkert smotterí heldur stórmál sem varðaði bæði heiður og sögulega hefð.
Borgþór átti mest lesnu fréttaskýringu Kjarnans árið 2015: „Sígaunafjölskylda hefur lifað sældarlífi á „danska kerfinu“ í áratugi.“ Hún fjallaði um það að árið 1972 hefði júgóslavnesk sígaunafjölskylda komið til Kaupmannahafnar á gömlum Opel bíl með hrörlegt hjólhýsi í eftirdragi. Fjölskyldan kom sér fyrir á tjaldstæði í borginni og fékk hlýjar móttökur hjá borgaryfirvöldum. Engan grunaði þá að 43 árum síðar, og margfalt stærri, yrði fjölskyldan enn á framfæri danskra skattborgara, enginn úr þessum hópi myndi nokkru sinni sjá sér farborða með launaðri vinnu og hún hefði þegið jafngildi 1.600 milljóna íslenskra króna frá dönskum skattborgurum.
Borgþór er hvergi nærri hættur en hægt er að lesa nýjustu fréttaskýringu hans hér.