Með nýju eldishúsi fyrir varphænur og uppsetningu nýs varpbúnaðar verður stæðum undir fugla á ýmsum aldri á eggjabúinu að Vallá á Kjalarnesi fjölgað í allt að 95 þúsund. Núverandi leyfi þauleldisins sem þar er stundað gerir ráð fyrir 50 þúsund varphænum en í nýrri umhverfismatsskýrslu framkvæmdarinnar kemur fram að með áformuðum breytingum verði um 65.000-75.000 varphænur og 10.000-20.000 unghænur í eldishúsunum hverju sinni. Frá þeim munu falla um 1.400 tonn af skít á ári, skít sem dreift yrði í landi tveggja bæja á Vesturlandi.
Verði áformaðar breytingar að veruleika mun framleiðslugeta eggjabúsins aukast um 30-35 prósent.
Framleiðsla undir merki Stjörnueggja hófst á jörðinni Vallá á árinu 1970. Sá húsakostur á jörðinni sem tengist framleiðslunni samanstendur af sex húsum, auk þess sem sjöunda húsið er í byggingu. Elstu byggingarnar eru með búrum og voru þær byggðar á árunum 1970-1988.
Umhverfisþættirnir sem metnir eru í umhverfismatsskýrslu Stjörnueggja eru lyktarmengun, yfirborðsvatn, grunnvatn og sýkingarhætta. Er það niðurstaða mats fyrirtækisins að á heildina litið verði umhverfisáhrifin óveruleg.
Klébergsskóli á Kjalarnesi er í um 490 metra fjarlægð vestur af búinu og íbúabyggðin í Grundarhverfi er í rúmlega 650 metra fjarlægð. Tekið er fram í skýrslunni að aldrei hafi verið kvartað vegna lyktarmengunar, hvorki frá eggjabúinu sjálfu eða á þeim stöðum sem skítnum er dreift í dag.
Uppeldi hænuunga fram á búum í Sætúni og í Saltvík sem eru í nokkurra kílómetra fjarlægð frá Vallá. Unghænur eru fluttar nokkra vikna gamlar í eldishúsin á Vallá. Þá tekur við 4-5 vikna vaxtartími áður en þær byrja að verpa. Heildar dvalartími hæna í húsum á Vallá er um 60 vikur eða rétt rúmlega ár. Að þeim tíma liðnum er eldislotu lokið, eins og það er orðað, dýrin drepin og hræjum þeirra komið til urðunar hjá Sorpu.
Hanaungar kæfðir eða malaðir
Helmingur allra unga sem klekjast úr eggjum eru eðli málsins samkvæmt hanar. Þeir nýtast ekki til framleiðslu varphæna og er fargað, ýmist með gösun eða þeir malaðir til dauða. Báðar aðferðirnar eru viðurkenndar aflífunaraðferðir hér á landi og er beitt á tugþúsundir unga á ári.
Mikil umræða hefur verið um aflífun hanaunga í Evrópu síðustu misseri og mölun þeirra, þar sem þeir fara lifandi ofan í hakkavél, hefur verið harðlega gagnrýnd. Banna á aðferðina í Hollandi og Þýskalandi, svo dæmi séu tekin. Mannúðlegra þykir að kyngreina fóstrin og deyða hanana á meðan þeir eru enn í eggi.
Stækkun búsins á Vallá mun fela í sér að búr sem enn eru til staðar í nokkrum eldishúsum verða aflögð og hænurnar settar á palla á nokkrum hæðum. Með pallafyrirkomulaginu er hægt að koma mun fleiri dýrum fyrir í sama húsinu.
Í matsáætlun, fyrra skrefi í átt að umhverfismati framkvæmdarinnar, var gert ráð fyrir að endurnýja eldri byggingar búsins til að taka við auknum fjölda fugla. Frá því hefur nú verið horfið, segir í umhverfismatsskýrslunni, og stefnt að byggingu nýs eldishúss. Í kjölfarið verður eggjaframleiðslu „að öllum líkindum“ hætt í elstu húsunum.
Pallafyrirkomulagið er þegar til staðar í tveimur nýjustu eldishúsum Stjörnueggja að Vallá. Það er svar varphænubænda hér á landi og víðar við banni á varphænuhaldi í búrum sem tók gildi í Evrópu árið 2012. Íslensk bú fengu frest til síðustu áramóta að afleggja búrabúskapinn með öllu en gildistöku reglugerðarinnar sem um þetta fjallar var hins vegar frestað um eitt ár. Það þýðir að varphænur hér á landi hafa þurft að dúsa í búrum ellefu árum lengur en hænur í öðrum Evrópulöndum.
Geta að minnsta kosti hreyft sig meira
Með því að hætta með búrin geta hænurnar „meira sýnt sitt eðlilega atferli,“ sagði Brigitte Brugger, sérgreinalæknir í heilbrigði og velferð alifugla hjá Matvælastofnun, í samtali við Kjarnann síðasta haust. „Í búrunum geta þær lítið annað gert en að drekka og éta. Þær geta ekki sandbaðað sig. Þær geta ekki hvílst á prikum eins og þeim er eðlilegt. Þær geta ekki dregið sig í hlé til að verpa í hreiðri. Þannig að með því að taka búrin þá fá þær að minnsta kosti þennan aðbúnað, geta hreyft sig miklu meira og það styrkir líka beinin.“
En pallafyrirkomulagið mun ekki útrýma alvarlegum og sársaukafullum sprungum eða brotum á bringubeini sem rannsóknir sýna að um 85 prósent varphæna, hér sem og annars staðar, verði fyrir í eldishúsunum. „Bringubeinsskaði er vandamál hjá hænum í búrum en hann er ekkert minna vandamál hjá lausagöngu hænum af því að þá eru meiri líkur á árekstrum,“ sagði Brigitte.
Hænur eru ekki góðir flugfuglar en þær flögra þó um, sérstaklega ef þær fyllast ofsahræðslu. Þá geta þær lent á innréttingum í eldishúsunum og slasast. „Þær bara brotlenda,“ sagði Brigitte ennfremur í úttekt Kjarnans á málinu.
Annað sem talið er valda bringubeinsskaðanum er stærð eggjanna. Litlar hænur hafa verið ræktaðar til að verpa sífellt fleiri og stærri eggjum. Í verslunum á Íslandi eru til sölu stór – og jafnvel risastór – egg sem verpt er í búum hér á landi.
Meðal þeirra sem gagnrýnt hafa þessa gríðarmiklu eggjaframleiðslu sem stunduð er á Íslandi, þar sem um 200 þúsund varphænur eru haldnar á hverjum tíma, eru Samtök grænkera. Þau hafa barist fyrir aukinni meðvitund um meðferð dýra, m.a. þeirra sem ræktuð eru í þauleldi líkt og svín, varphænur og alifuglar.
„Karlkyns ungar í eggjaiðnaði munu alltaf vera drepnir og munu því alltaf þjást,“ sagði Valgerður Árnadóttir, formaður samtakanna, við Kjarnann í haust, spurð hvort hún teldi hægt að búa svo um hnútana að fólk geti keypt og neytt hænueggja án þess að þar búi þjáningar dýra að baki. „Það eru til minni bú og einstaklingar með hænur sem búa við góðar aðstæður í litlum hópum og fá að fara út og haga sér eins og þeim er eðlislægt. Þessi bú eru þó ekki mörg og framleiða ekki mikið af eggjum.“
Valgerður sagði að á meðan fjárhagslegur gróði vegi þyngra en velferð hæna verði þessu ekki breytt. „Það var ekki fyrr en tiltölulega nýlega að fólk fór að neyta hænueggja í svona miklum mæli,“ benti hún ennfremur á. „Egg eru engin nauðsynjavara sem krefst þess að þau séu framleidd á þann hátt að þau séu sem ódýrust. Slík framleiðsla hér á landi hefur orðið til þess að fáeinir einstaklingar hafa hagnast fjárhagslega og það hefur komið illa við smærri framleiðendur sem vilja veita hænum betra líf að keppa við lágt vöruverð verksmiðjubúskapar.“
Samtök grænkera segja hænur, og sér í lagi varphænur, hafa verið rannsakaðar nokkuð ítarlega. Þeim líði vel þegar þær geta kroppað í jörð og blakað vængjunum. Þær hafi náttúrulega þörf fyrir að fara í rykbað og tylla sér á prik. Þær vilji verpa í friði og finnist best að vera í hóp sem telji færri en hundrað. „Aðstæður á þauleldis verksmiðjubúum eru þannig að hænurnar geta ekki framkvæmt þessi eðlislægu atferli sem stuðla að heilbrigði þeirra og almennri vellíðan. Áætlun um að Stjörnuegg auki framleiðslu sína um 45 þúsund fugla þýðir eingöngu það að á hverri stundu eru hagsmunir 45 þúsund fleiri fugla virtir að vettugi,“ sagði m.a. í umsögn samtakanna við matsáætlun Stjörnueggja í fyrra.
Þauleldi verði skilgreint sem iðnaður
Eggjabúið á Vallá er eitt sex þauleldisbúa sem starfrækt eru á Kjalarnesi. En Reykjavíkurborg íhugar stefnubreytingu og hóf árið 2016 vinnu við mótun landbúnaðarstefnu fyrir Kjalarnes sem nýta átti til vinnu við breytingar á aðal- og deiliskipulagi. Lagði starfshópur sem fjallaði um málið til að ekki yrði heimilt að stofna til þauleldisbúskapar á öðrum jörðum eða lögbýlum en þeim sem þegar hafa útgefið starfsleyfi. Í öðru lagi var lagt til að svæði sem þauleldi er stundað á verði skilgreind sem iðnaðarsvæði en ekki landbúnaðarsvæði.
Breytingar á aðalskipulagi í þessa veru hafa ekki enn verið gerðar.