Út um allan heim er verið að fordæma notkun á skattaskjólum til að komast hjá greiðslu eðlilegra skattgreiðslna í heimalöndunum þar sem auður verður til. Paradísarskjölin, sem nýverið voru opinberuð, sýna að kóngafólk, viðskiptaforkólfar, stórfyrirtæki, háttsettir stjórnmálamenn og aragrúi stjarna úr kvikmynda- og tónlistarheiminum hafa nýtt sér sérfræðinga í skattasniðgöngu til að spara sér greiðslu skatta í samræmi við það sem hinn venjulegi launamaður þarf að greiða.
Við Íslendingar þekkjum þessa umræðu vel. Fyrir rúmu einu og hálfu ári var opinberað að elíta landsins, meðal annars leiðtogar þáverandi ríkisstjórnar, hafi verið að stunda nákvæmlega þetta í mæli sem er nánast óþekkt í heiminum. Sá viðbótarávinningur er til staðar fyrir hennar, sökum tilurðar íslensku krónunnar, að hópurinn ver sig fyrir sveiflum hennar og jafnvel stórgræðir á þeim, á meðan að almenningur þarf að taka aðlögun vegna gengisfalls út í gegnum veskið sitt og lífsgæði.
Vegna þessa var kosið haustið 2016. Áður en að þær kosningar fóru fram lá fyrir skýrsla starfshóps sem skoðaði og kortlagði umfang aflandseigna Íslendinga. Skýrslan var tilbúin um miðjan september 2016 og kynnt fyrir Bjarna Benediktssyni, þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra, í byrjun október saman ár. Skýrslan var hins vegar ekki birt fyrr en 6. janúar 2017.
Í henni var farið yfir það hvernig hluti þjóðarinnar – efsta lag hennar – hafi fært mikið magn af fé sem varð til á Íslandi til aflandsfélaga. Sumir voru að brjóta lög, en flestir voru bara að brjóta gegn almennu siðferði og samfélagsvitund.
Þeir sem þetta gátu gert voru fjármagnseigendur. Þ.e. ekki venjulegt launafólk, sem er uppistaða íslensks samfélags, heldur þeir sem hafa komist í umframálnir vegna tækifæra sem samfélagið, eða í sumum tilfellum stjórnmálamenn, hafa fært þeim.
Ríkasta eitt prósentið
Það er ekki sérlega stór hópur Íslendinga sem á miklar fjármunaeignir. Kjarninn greindi frá því í vikunni að alls hafi Íslendingar þénað 117 milljarða króna í fjármagnstekjur á árinu 2016. Tekjuhæsta eitt prósent landsmanna tók til sín 55 milljarða króna af þeim tekjum sem urðu til vegna fjármagns í fyrra, eða 47 prósent þeirra. Það er bæði hærri krónutala og hærra hlutfall en þessi hópur, sem samanstendur af 1.966 framteljendum (1.331 einhleypum og 635 samsköttuðum), hafði í fjármagnstekjur á árinu 2015.
Þessi staða þýðir að hin 99 prósent íslenskra skattgreiðenda, yfir 125 þúsund manns, skipti á milli sín 53 prósent fjármagnstekna sem urðu til á árinu 2016.
Kjarninn greindi frá því í fréttaskýringu 12. október síðastliðinn að þær rúmlega 20 þúsund fjölskyldur sem tilheyra þeim tíu prósentum þjóðarinnar sem eiga mest eigið fé hafi átt 2.062 milljarða króna í hreinni eign um síðustu áramót. Alls á þessi hópur 62 prósent af öllu eigin fé í landinu. Eigið fé hans jókst um 185 milljarða króna á síðasta ári. Eigið fé hinna 90 prósent landsmanna jókst á sama tíma um 209 milljarða króna.
Það þýðir að tæplega helmingur þeirrar hreinu eignar sem varð til á síðasta ári fór til tíu prósent efnamestu framteljendanna. Þessar tölur eru líka verulega vanmetnar, þar sem hlutabréf eru metin á nafnvirði í þeim og inn í þær vantar auðvitað allt féð sem er falið í aflandsfélögum.
Gerendur verða fórnarlömb
Umræðan á Íslandi í dag er ekki með fókus á því hvernig megi uppræta þá óværu sem skattasniðganga, eða í sumum tilvikum skattsvik, er. Þvert á móti var til umfjöllunar í Viðskiptablaðinu í vikunni að ríkasta fólk landsins, sem sumt hvert á marga milljarða króna, leiti sér nú sumt hvert ráðgjafar um hvernig það geti komist hjá því að greiða auðlegðarskatt verði slíkur lagður á.
Þar er meðal annars sagt að „þeir sem eru ef til vill í erfiðustu stöðunni í þessu tilliti eru að sögn viðmælenda Viðskiptablaðsins þeir sem eiga umtalsverðar eignir en standa til dæmis í rekstri hér á landi og geta ekki með góðu móti skorið á öll tengsl við heimalandið og farið af landi brott.“
Það er auðvelt að trúa því að það sé erfitt að eiga mikið af peningum. Sífellt eru að minnsta kosti sagðar fréttir af mjög auðugu fólki sem er í erfiðleikum með t.d. að standa rétt að skattskilum sínum. Þar má t.d. nefna Kristján Vilhelmsson, annan aðaleigandi Samherja og einn auðugasta mann landsins, sem skilaði ekki skattframtali í áratug þrátt fyrir að eiga meira en sex milljarða króna í eignir. Kristján átti einnig aflandsfélag í skattaskjólinu Tortóla sem, samkvæmt nýbirtum úrskurði yfirskattanefndar, hefur verið til rannsóknar hjá skattrannsóknarstjóra ásamt öðrum skattskilum hans.
Það veit fólk eins og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, og eiginkona hans sem samkvæmt endurskoðanda þeirra greiddu ekki skatta í samræmi við lög og reglur vegna aflandsfélagsins Wintris fyrr en eftir að hann var opinberaður í Panamaskjölunum. Og í kjölfarið voru endurákvarðaðar á hann og eiginkonu hans skattgreiðslur.
Þetta vita líka hinir auðmennirnir sem voru á meðal þeirra sem stofnuðu 1.629 aflandsfélög sem fengu íslenska kennitölu vegna banka- og hlutabréfaviðskipta á árunum 1990-2015. Sem færðu hundruð milljarða króna sem urðu til í íslensku hagkerfi út úr því til að annað hvort forðast greiðslu skatta eða til að fela peninganna, í einhverjum tilfellum frá kröfuhöfum sem þeir skulduðu. Og um leið hefur þessi hópur komist hjá því að greiða til samneyslunnar.
Ekkert flókið við að eiga peninga á Íslandi
Það tók ekki nema rúmt ár fyrir umræðuna að snúast frá því að nauðsynlegt væri fyrir fámenna þjóð að endurheimta skatttekjur sem hefur verið skotið undan af fámennri yfirstétt fjármagnseigenda yfir í það að sama fámenna yfirstétt er farin að hóta því að flýja land ef hún verður skattlögð frekar. Ekkert hefur í raun verið gert, að minnsta kosti sem hefur verið opinberað, til að sækja það fé sem skotið var undan, þrátt fyrir að það sé talið hlaupa á tugum milljarða króna. Fyrir því hefur skort pólitískan vilja og áræðni hjá þeim sem stýrt hafa landinu.
Eina sem liggur fyrir er að fjórir einstaklingar voru krafðir um 82 milljónir króna vegna upplýsinga um aflandsfélög þeirra sem var að finna í gögnum sem yfirvöld keyptu sumarið 2015, tæpu ári áður en að Panamaskjölin voru opinberuð. Um var að ræða, að einhverju leyti, sömu upplýsingar og komu fram í þeim.
Nokkrum dögum áður en að Panamaskjölin voru opinberuð var tekið viðtal við Sigurð Inga Jóhannsson, núverandi formann Framsóknarflokksins. Þar sagði hann að það væri „auðvitað talsvert flókið að eiga peninga á Íslandi“. Þegar hann var spurður að því hvort í lagi væri að eiga peninga á Tortóla svaraði hann því til að „einhvers staðar verða peningarnir að vera.“
Þetta virðist ekki hafa verið rétt greining hjá Sigurði Inga. Það virðist ekkert flókið að eiga peninga á Íslandi. Það er hægt að fara með þá út í aflandsfélög áður en að efnahagskerfi hrynur. Það er hægt að koma með þá aftur heim eftir gengisfall og kaupa upp eignir á brúaútsölu, meira að segja með 20 prósent virðisaukningu í boði Seðlabankans, án þess að eiga á hættu að opinber stofnun upplýsi um hverjir það voru sem nutu slíkra forréttinda. Og það virðist vera hægt að haga skattskilum í andstöðu við lög og reglum árum saman án alvarlegra afleiðinga.