Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra skipaði fyrir helgi starfshóp sem á að endurheimta traust á stjórnmál, stjórnmálamenn og stjórnsýslu. Hópurinn á meðal annars að taka mið af starfi sem unnið hefur verið í tengslum við opinber heilindi hérlendis og erlendis, til dæmis væntanlegri fimmtu úttektarskýrslu GRECO, sem fjallar meðal annars um vernd gegn spillingu meðal æðstu handhafa framkvæmdavalds.
Með því að skipa hópinn er forsætisráðherra að bregðast við bersýnilegasta vanda íslenskra stjórnmála, og líklega íslensks samfélags. Það ríkir fullkomið vantraust á milli almennings og stjórnmála.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, fjallaði um þetta vandamál við fyrstu þingsetninguna sína í embætti, í desember 2016. Þar sagði hann meðal annars: „Fleira hrundi en bankar haustið 2008. Fólki fannst þingið hafa brugðist. Þótt margt hafi breyst til batnaðar er ljóst að ekki hefur skapast á ný það traust sem þarf að ríkja milli þings og þjóðar. Íslendingar dæma alþingismenn af verkum þeirra, framkomu og starfsháttum.“
Almenningur telur stjórnmálamenn spillta
Rannsóknir sýna að þetta mat Guðna er rétt. Í október birti Sigrún Ólafsdóttir, prófessor í félagsfræði, grein á Kjarnanum þar sem hún studdist við vísindaleg gögn og rannsóknir til að sýna fram á hvað hinum almenna borgara finnst um spillingu í stjórnmálum.
Þar kom meðal annars fram að árið 2003 hafi 31 prósent landsmanna talið að spilling væri frekar eða mjög útbreidd á meðal íslenska stjórnmálamanna. Eftir hrunið rauk hlutfall þeirra sem voru þeirrar skoðunar upp í 77 prósent. Eftir að Panamaskjölin opinberuðu aflandsfélagaumfang íslenskra ráðamanna var hlutfall þeirra sem töldu að spilling væri mikil í íslenskum stjórnmálum 78 prósent.
Ný mæling var gerð vorið 2017, þegar ný ríkisstjórn var nýtekin við og engin hneykslismál í umræðunni. Þá mældist hlutfall þeirra sem töldu að spilling væri í íslenskum stjórnmálum 68 prósent. Nær öruggt má telja að það hlutfall hafi hækkað eftir Landsréttarmálið og leyndarhyggjuna í kringum aðgengi að upplýsingum um þá sem skrifuðu meðmæli fyrir dæmda kynferðisbrotamenn sem hlotið höfðu uppreist æru, sem á endanum sprengdi ríkisstjórn.
Almenningur telur fyrirgreiðslu til staðar í stjórnmálum
Í grein Sigrúnar var einnig vitnað til alþjóðlegra kannana sem sýndu að Íslendingar telja mun frekar að það sé mikilvægt að hafa stjórnmálatengingar til að komast áfram í lífinu en þeir sem búa í nágrannaríkjum okkar. Þannig var helmingur Íslendinga þeirrar skoðunar samkvæmt alþjóðlegu viðhorfskönnuninni árið 2009 en einungis 18 prósent Dana. Í raun var minna bil á milli Íslendinga og Ítala (68 prósent) heldur en Íslendinga og flestra íbúa Skandinavíu. Og Ítalir eru þekktir fyrir flest annað en spillingarleysi.
Í alþjóðlegu viðhorfskönnuninni árið 2017 töldu einungis sjö prósent Íslendinga að nánast engir stjórnmálamenn í landinu væru viðriðnir spillingu. 34 prósent þjóðarinnar töldu að margir eða nánast allir stjórnmálamenn séu viðriðnir spillingu.
Kjósendur Sjálfstæðisflokksins, þess flokks sem hefur stýrt Íslandi nánast sleitulaust frá því að hann var stofnaður, eru ólíklegastir til að sjá spillingu (18 prósent) í stjórnmálalífinu en kjósendur Vinstri grænna (40 prósent) og Pírata (48 prósent) voru líklegastir til að telja stjórnmálalífið vera spillt.
Það er því hægt að slá því föstu að stór hluti íslensks almennings er þeirrar skoðunar að stjórnmálaleg spilling sé vandamál, og hægt að draga þá ályktun að sú staða spili stóra rullu í því að einungis 22 prósent landsmanna treystir Alþingi.
Starfshópurinn sem forsætisráðherra skipaði hefur því ærið verkefni fyrir höndum. Honum er meðal annars ætlað að „yfirfara reglur um hagsmunaskráningu bæði ráðherra og þingmanna með hliðsjón af ábendingum og alþjóðlegum viðmiðum. Annar þáttur er breytingar á lögum sem varða vernd uppljóstrara og umbætur í umhverfi stjórnsýslu og viðskipta, meðal annars í takt við ábendingar alþjóðastofnana.“ Hópurinn á síðan að skila skýrslu í september hið síðasta.
Þetta er allt góðra gjalda vert en það má vel velta því fyrir sér hvort þetta sé nóg.
Hvernig á að axla pólitíska ábyrgð
Það er nefnilega þannig að sitjandi ríkisstjórn hefur sýnt það í verki að það stendur ekki til að grípa til nýrra vinnubragða þegar kemur að því að axla pólitíska ábyrgð. Þrátt fyrir að dómsmálaráðherra hafi brotið gegn ákvæðum stjórnsýslulaga, bakað íslenska ríkinu miskabótaskyldu og mögulega umtalsverða skaðabótaskyldu þá situr hún hins vegar áfram með stuðningi forystumanna ríkisstjórnarinnar. Afstaða sama forsætisráðherra og skipaði hópinn sem á að auka traust til þess hvort dómsmálaráðherra eigi að segja af sér er sú að það hafi ekki verið mikið hefð fyrir slíku hérlendis. Í sjónvarpsþætti Kjarnans í byrjun desember sagði Katrín að það hafi „ekki verið hluti af menningunni“. Eftir að Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að dómsmálaráðherra hefði brotið lög sagðist forsætisráðherra þó taka þá niðurstöðu „mjög alvarlega“.
Það verður áhugavert að sjá hvernig Jón Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands og stjórnarformaður Gagnsæis, sem verður formaður starfshópsins sem á að auka traust á stjórnmál og stjórnsýslu, tekur á þessum málum. Í sjónvarpsþætti Kjarnans í október síðastliðinn ræddi hann nefnilega traust í garð stjórnmálamanna og ástæðu þess að það hafi dalað. Þar sagði hann að hérlendis ríki skilningsleysi á ábyrgð og eðli opinberra embætta, og að það skilningsleysi sé beinlínis átakanlegt. „Það kemur fram í því að stjórnmálamenn eru hvað eftir annað að taka algjörlega vitlausar ákvarðanir um hvernig þeir eiga að umgangast viðkvæm stórmál og spilla þar með trausti fyrir sér og kerfinu í heild sinni. Ég held að í mörgum tilfellum sé það ekki þannig að það sé einhver annarleg sjónarmið að baki heldur meira þrjóska, skilningsleysi og viljaleysi til þess að vinna með samfélaginu, vinna með frjálsum félagasamtökum til að finna leiðirnar til að bæta kerfið.“
Geta til að líta í eigin barm
Jón hitti naglann á höfuðið í umræddu viðtali. Það eru ákvarðanir og hegðun stjórnmálamanna sem orsaka vantraustið. Hertar hagsmunaskráningarreglur eru nauðsynlegar en traustið mun aldrei lagast fyrr en hegðun stjórnmálamanna verðskuldar það.
Þeir þurfa að tileinka sér getu til að líta í eigin barm þegar þeir gera mistök, og axla ábyrgð þegar svo ber undir með því að stíga til hliðar. Þá á viðkomandi líka afturkvæmt í áhrifastöður síðar meir, njóti hann trausts samflokksmanna sinna.
Stjórnmálamenn og stjórnsýslan þarf líka að opna sig upp á gátt. Leyfa ljósi að skína í öll horn og veita fjölmiðlum og almenningi allar þær upplýsingar sem þeir þurfa að fá. Aðgengið er enn mjög takmarkað og háð gerræðislegu mati stjórnmála- og embættismanna. Breyta þarf upplýsingalögum þannig að þau geri þeim ekki lengur kleift að synja um aðgengi að gögnum teljist þau vinnugögn. Í lögunum segir að vinnugögn teljist „þau gögn sem stjórnvöld eða lögaðilar[...]hafa ritað eða útbúið til eigin nota við undirbúning ákvörðunar eða annarra lykta máls.“ Það má því segja að flokka megi nær öll gögn sem vinnugögn vilji sá sem ber ábyrgð á ákvörðuninni ekki afhenda þau.
Þetta eru stóru ákvarðanirnar sem þarf að taka. Að hafa sjálfstraust og þor til að setja skilgreindar vinnureglur um hvernig pólitísk ábyrgð verði öxluð og að stórauka aðgengi fjölmiðla og almennings að upplýsingum.
Það hefur ekki verið gert. Enn er enginn vilji hjá ráðandi öflum til að axla pólitíska ábyrgð né að gera kröfu um að samstarfsmenn geri það. Það hefur ekki birst neinn sýnilegur vilji til að auka aðgengi að sjálfsögðum upplýsingum sem snerta almenning með beinum hætti. Þess í stað hefur vaninn verið sá að beina spjótum sínum að þeim segja frá vandanum, ekki þeim sem skapa hann.
Á meðan að svo er verður ekkert traust. Það þarf nefnilega að ávinna sér það með hegðun og ákvörðunum. Traust kemur ekki að sjálfu sér með því að panta skýrslu frá starfshópi.