Fylgið fellur hratt af þeim þremur flokkum sem sitja saman í ríkisstjórn. Allir mælast þeir nú með töluvert minna fylgi en þeir höfðu í kosningunum í október, þegar þeir fengu saman 52,8 prósent atkvæða, og myndu samanlagt nú einungis fá 45,5 prósent atkvæða. Nú segjast 53,1 prósent aðspurðra styðja ríkisstjórnina samkvæmt könnun MMR en sá stuðningur var 66,7 prósent þegar hún tók við.
Morgunljóst er að það mál sem hefur reynst ríkisstjórninni erfiðast er vantrauststillaga á Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra. Hún var felld en þingmenn Vinstri grænna sögðu ítrekað á opinberum vettvangi að þær teldu embættisfærsluna sem var undir í vantraustmálinu ranga. Þeir gætu bara ekki stutt vantraust því þá myndi ríkisstjórnin liðast í sundur.
Seta á valdastólum var mikilvægari en réttlætissannfæringin.
Ekkert að sjá hér: taka eitt
Fyrir tæpu ári síðan hófst langdreginn aðdragandi að því að ríkisstjórn sprakk. Ástæðan var sú að aðstandendur þolenda barnaníðinga og þingmenn vildu fá upplýsingar um hvernig níðingarnir hefðu fengið uppreist æru og hverjir hefðu veitt þeim meðmæli fyrir slíku.
Engin lög eða reglur eru til sem segja að dómsmálaráðherra beri að upplýsa forsætisráðherra um slík mál umfram aðra. Á sama tíma stóð sami dómsmálaráðherra í vegi fyrir því að fjölmiðlar, almenningur, þolendur brotamanna sem höfðu fengið uppreist æru og aðrir þingmenn fengu þessar upplýsingar. Það þurfti úrskurðarnefnd um upplýsingamál til þess að aðrir fengu þær.
Niðurstaðan varð opinberun á ömurlegu samtryggingarkerfi. Reynt var að leyna tilvist þess og þegar hún var upplýst þá nægði það til að fólkið sem stóð að Bjartri framtíð misbauð svo mikið að það fórnaði völdum, ríkisstjórnarsetu og tilveru sinni til að gera það sem þau töldu réttast að gera í stöðunni, sprengja ríkisstjórnarsamstarfið.
Nýr dans
Nú er nýr slíkur dans að hefjast. Innihaldið er sambærilegt. Leyndarhyggja, valdníðsla og sérhagsmunagæsla. Já, og meint barnaníð.
Rökstuddur grunur er uppi um að Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, hafi orðið uppvís að því að blekkja þingheim, leyna gögnum, að hafa ekki uppfyllt eftirlitsskyldu sína og gera ríkisstjórnina samseka í öllu saman með því að bjóða fram Braga Guðbrandsson, fyrrverandi forstjóra Barnaverndarstofu, sem fulltrúa Íslands og annarra Norðurlanda á alþjóðavettvangi.
Samkvæmt umfjöllunar Stundarinnar, sem er studd frumgögnum, liggur fyrir að Bragi hafði afskipti af máli sem hann átti ekki, samkvæmt lögum og reglum, að hafa aðkomu að. Staðfest er í minnisblaði skrifstofu félagsþjónustu í velferðarráðuneytinu, dagsett 6. febrúar 2018, að Bragi hafi farið út fyrir starfssvið sitt þegar hann beitti áhrifum sínum til að ná fram niðurstöðu fyrir hönd manns sem bað hann um að hjálpa syni sínum að fá umgengni við börn sem verið var að rannsaka hvort hann hefði brotið kynferðislega gegn.
Gögnin sem Stundin hefur birt sýna að ekki er um það deilt að Bragi vissi mætavel nákvæmlega hvaða ásakanir og grunsemdir voru undirliggjandi í málinu. Á meðal þeirra er útdráttur úr símtali sem Bragi átti við starfsmann barnaverndar Hafnarfjarðar. Bragi sagði í símtalinu, þar sem hann þrýsti á starfsmanninn um að heimila umgengni, að honum þætti „ótrúlegt að ef maðurinn sé raunverulega með pedófílu að hann brjóti á dætrum sínum strax og hann fái að hitta þær“.
Ekkert að sjá hér: taka tvö
Í umfjöllun Stundarinnar sem birt var á föstudag kom fram að Ásmundur Einar var með öll gögn ofangreinds máls undir höndum síðla í janúar. Hann fékk minnisblað frá skrifstofu félagsmála í ráðuneyti sínu 6. febrúar sem sagði að Bragi hefði farið út fyrir starfssvið sitt.
Samt ákvað Ásmundur Einar að leggja til við ríkisstjórn 23. febrúar, 17 dögum eftir að niðurstaða ráðuneytisins lá fyrir og eftir að hafa séð öll gögn málsins, að Bragi yrði boðinn fram sem fulltrúi Íslands á alþjóðavettvangi. Ríkisstjórnin samþykkti það og varð um leið samábyrg fyrir þeirri ákvörðun. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði við Kjarnann á föstudag að þær upplýsingar sem birtar voru í Stundinni þann dag hefðu ekki verið lagðar fyrir ríkisstjórn þegar sú ákvörðun var tekin. Það er erfitt að skilja þau ummæli á annan hátt en þann að Ásmundur Einar hafi einfaldlega leynt ríkisstjórninni upplýsingum um niðurstöðu rannsóknar ráðuneytis síns.
Í byrjun mars hóf velferðarnefnd frumkvæðisathugun á kvörtunum barnaverndarnefndanna gegn Braga og kallaði eftir öllum gögnum um málið. Allt frumkvæði kom því frá nefndinni. Þegar Ásmundur Einar var spurður um málið á þingi sagði hann að Bragi hefði ekki brotið af sér í starfi.
Ljóst er á þeim gögnum sem Stundin byggir umfjöllun sína á að þetta er einfaldlega rangt. Og það er staðfest með þeim upplýsingum sem koma fram í minnisblaðinu frá 6. febrúar. Bragi fór út fyrir starfssvið sitt og misbeitti þar með valdi sínu fyrir mann sem bað hann um það. Þó að Ásmundur Einar hafi ákveðið að það ætti ekki að hafa neinar afleiðingar fyrir Braga þá breytir það engu um að brot átti sér stað.
Til að gera fullyrðingu Ásmundar Einars um að ekkert brot hafi átt sér stað enn sérkennilegri þá tilkynnti hann í gær um að hann hefði lagt til að óháð úttekt færi fram á störfum forstjórans fyrrverandi. Það á sem sagt að rannsaka málið sem ráðuneyti Ásmundar Einars sagðist vera búið að rannsaka og komast að niðurstöðu í þegar Bragi var boðinn fram á alþjóðavettvangi, aftur. Eina ástæðan virðist vera sú að fjölmiðlar komust að því sem pólitískur vilji var til að leyna.
Viðbrögð Þorsteins Víglundssonar, forvera Ásmundar Einars í starfi, sem hóf rannsóknina á Braga, voru þessi: „Ráðuneytið fer með eftirlitsskyldu gagnvart Barnaverndarstofu og er því hinn rétti aðili til að sinna þessari rannsókn. Rannsóknin var sett af stað í ráðherratíð minni eftir að formlegar kvartanir höfðu borist frá Barnaverndarnefnd Reykjavíkur og Barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar. Vandinn er hins vegar sá að niðurstaða þeirrar rannsóknar sem fór fram hefur aldrei verið birt. Það var væntanlega ákvörðun ráðherra að gera það ekki. Án birtingar á niðurstöðu er engin leið að taka afstöðu til rannsóknarinnar. Það er ótrúlegt að ráðherra kasti með þessum hætti rýrð á vinnu eigin ráðuneytis án þess að sú niðurstaða hafi verið birt.“
Misbeiting valds
Samandregið þá er staðan þessi: Ísland bauð fram mann sem fulltrúa sinn til setu í Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna sem hafði verið undir rannsókn í velferðarráðuneytinu fyrir mögulegt brot í starfi. Fyrrverandi ráðherra málaflokksins segir ávirðingarnar sem settar voru fram á hendur fyrrverandi forstjóra Barnaverndarstofu mjög alvarlegar og gögn sem Stundin hefur nú varpað ljósi á sýna það án nokkurs vafa að hann beitti sér til að reyna að hafa áhrif á atburðarás vegna þess að maður sem tengdist málinu bað hann um það.
Það liggur fyrir að niðurstaða rannsóknar á meintum brotum forstjórans fyrrverandi hefur aldrei verið birt. Í stað þess hafi Ásmundur Einar Daðason, núverandi ráðherra, einfaldlega sagt þingheimi ósatt um niðurstöðu málsins, ákveðið einhliða að það að fara út fyrir starfssvið sitt sé ekki brot í starfi og leggja til við ríkisstjórnina að bjóða forstjórann fyrrverandi fram sem fulltrúa Íslands á alþjóðavettvangi. Af hverju Ásmundur Einar ákvað að gera þetta er einungis hægt að velta vöngum yfir. En hann gerði þetta.
Sá pólitíski angi málsins sem nú er til umfjöllunar snýst ekkert um Braga Guðbrandsson, fyrrverandi forstjóra Barnaverndarstofu. Hann snýst ekkert um það hversu gott framtak tilurð Barnahúss var og hversu vítt um heiminn sú góða hugmynd hefur breiðst. Hún snýst ekkert um öll þau góðu störf sem Bragi er talinn hafa innt af hendi eða áhrif hans á jákvæða þróun barnaverndarmála á Íslandi á undanförnum áratugum.
Þessi angi snýst ekki um föður meints geranda og hvort hann sé málkunnungur, kunningi eða vinur Braga. Hann snýst ekki um hvort meintur gerandi hafi brotið gegn börnum sínum eða ekki. Ómögulegt er fyrir þingmenn eða fjölmiðla að segja til um slíkt. Til þess höfum við lögreglu sem rannsakar og dómstóla sem úrskurða. Það er því fyrirsláttur að segja að verið sé að draga viðkvæm barnaverndarmál inn í pólitíska umræðu. Ef einhver fjölmiðill ákveður að feta þann veg, með nafngreiningum og öðru slíku, þá yrði slíkt vítavert. Enginn hefur gert það hingað til og vonandi gerir það enginn.
Þetta mál snýst um það hvort að forstjóri opinberrar stofnunar hafi misbeitt valdi sínu og hvort að ráðherra málaflokksins hafi ákveðið að sinna eftirlitsskyldu sinni gagnvart Barnaverndarstofu með boðlegum hætti. Það snýst um hvort að sá ráðherra hafi í kjölfarið ákveðið að leyna þingmenn upplýsingum og fengið ríkisstjórn til að samþykkja afgreiðslu á málinu án þess að upplýsa hana fyllilega um alvarleika þess.
Kröftug viðspyrna samtryggingar
Viðbrögðin um helgina, frá allskyns valdafólki víða að úr hinu pólitíska litrófi, sem á það sameiginlegt að vera hluti af samtryggingarkerfi þess, eru orðin mjög kunnugleg. Kröftug viðspyrna þar sem lagt er upp að þvæla málið, einblína á aukaatriði þess og leggja áherslu á að það sé eitthvað athugavert við þá sem spyrja spurninga, vilja rannsaka eða krefjast að ábyrgð sé öxluð. Þessa viðspyrnu sjáum við til dæmis í ritstjórnarskrifum Morgunblaðsins, í orðræðu stjórnarliða og í bloggfærslum gamalla valdamanna.
Öll viðbrögðin eru samkvæmt handbókinni. Heilög vandlæting gagnvart þeim sem kalla eftir því að allt sé uppi á borðum. Ásakanir um tilefnislaus upphlaup án þess að fjallað sé um efnisatriði málsins. Krakkinn ætti að skammast sín fyrir að segja að keisarinn sé allsber.
Svona var þetta líka í lekamálinu. Í aðdraganda þess að Panama-skjölin voru opinberuð. Í fyrra þegar tekist var á um aðgengi að gögnum um uppreist æru. Og mörgum fleiri málum þar sem almenningi hefur ofboðið framganga kjörinna fulltrúa.
Næstu skref verða alveg eins og í ofangreindum málum. Fjölmiðlar og valdir þingmenn standa í lappirnar, krefjast frekari upplýsinga og gagna og frekari ljósi verður varpað á mál sem varðar skýra almannahagsmuni. Þ.e. mögulegt brot ráðherra í starfi sem nú er rökstuddur grunur um að hafi átt sér stað.
Þegar því ferli er lokið munu ríkisstjórnarflokkarnir standa frammi fyrir því hvernig þeir ætla að takast á við stöðuna. Ætla þeir að verja ráðherrann sem leyndi upplýsingum og sinnti ekki eftirlitsskyldu sinni? Líklegasta niðurstaðan þar er sú að Framsóknarflokkurinn muni standa með sínum manni. Og Sjálfstæðisflokkurinn mun ugglaust gera það líka, sérstaklega vegna þess að Framsókn stóð fast með Sigríði Á. Andersen í Landsréttarmálinu. Þá stendur eftir hvað Vinstri græn, sjálfskipuð samviska og siðferðiskennd íhaldsstjórnarinnar, muni gera.
Og framtíð stjórnarsamstarfsins, sem hefur nú staðið yfir í fimm mánuði, mun ráðast á því.