Haustið 2014 hófust verkfallsaðgerðir lækna á Íslandi. Leiðarstefið í þeirri baráttu var kunnuglegt. Grunnlaunin voru of lág, læknar voru of fáir og of margir þeirra voru á leið á eftirlaun. Þeir fóru fram á tugprósenta launahækkanir og kerfisbreytingar. Það þurfti að taka þá „fram fyrir röðina“ til að ekki færi illa. „Leiðrétta“ það launaóréttlæti sem þeir hefðu verið látnir sæta til þess að þeir flyttu ekki bara allir til Svíþjóðar. Og eftir sæti þjóð með enga sérfræðilækna. Á þessum tíma voru starfandi á Íslandi 1.101 læknar.
Bjarni Benediktsson, þáverandi og núverandi fjármálaráðherra, kom ítrekað fram og sagði að ekki væri hægt að ganga að kröfum lækna vegna áhrifa sem það myndi hafa á vinnumarkaðsmódelið á Íslandi. Sama gerðu forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins. Það væri ekki endalaust hægt að „leiðrétta“ kjör einstakra stétta. Það smitaði alltaf yfir á aðrar.
Fjölmiðlar voru undirlagðir af fyrirsögnum á borð við „Allt stefnir í neyðarástand“, „Heilbrigðiskerfi á heljarþröm“, „Læknar hættir að koma heim“, „Alvarlegt ástand vegna uppsagna ungra lækna“, „Engir krabbameinslæknar á Íslandi 2020?“ og „Aðgerðum frestað og biðlistar lengjast“. Þjóðin fékk það sterkt á tilfinninguna að ef ekki yrði samið við lækna strax þá yrði Ísland ekki lengur velferðarríki heldur þriðja heims ríki.
Og læknar náðu eyrum þjóðarinnar. Skoðanakannanir sýndu að mikil meirihluti svarenda var þeirrar skoðunar að læknar ættu að fá launahækkanir umfram aðra.
Á endanum var samið við lækna 7. janúar 2015. Þeir fengu sitt í gegn og launakostnaður íslenska ríkisins vegna lækna hækkaði um tæp 30 prósent. Heildarkostnaðurinn, að meðtöldum kostnaðartölum vegna kerfisbreytinga, var enn hærri. Samkvæmt tölum Hagstofunnar voru 63 prósent lækna hér á landi karlar á árinu 2015.
Almannatengslaáhrifin
Læknar stærðu sig að því eftir að hafa samið að hafa ráðið almannatengilinn Gunnar Stein Pálsson til að vera því til ráðgjafar á meðan að læknar þrýstu á miklar launahækkanir. Í Læknablaðinu sagði formaður Læknafélagsins að ráðningin á Gunnari Steini hefði alveg tvímælalaust hjálpað til við að knýja fram verulega kjarabætur.
Þegar farið var að gera upp málið kom meðal annars í ljós, í samanburðartölum sem ASÍ tók saman, að heildarlaun lækna á Íslandi voru um 15 prósent hærri að meðaltali en á meðal kollega þeirra á Norðurlöndunum, þegar búið var að leiðrétta fyrir verðlagi og sköttum.
Síðan að samið var við lækna í byrjun árs 2015 hefur gengi krónunnar gagnvart sænsku krónunni styrkst um 35 prósent. Það er því ljóst að laun læknanna í þeim alþjóðlega samanburði sem þeir báru fyrir sig í verkfallsbaráttu sinni hafa hækkað feikilega í hafi á tímabilinu.
Eðlilega vildu aðrir hópar á vinnumarkaði, sem voru með lausa kjarasamninga, miða sig við þær hækkanir sem læknar fengu. Sérstaklega aðrar heilbrigðisstéttir sem störfuðu við hlið lækna í heilbrigðiskerfinu, t.d. hjúkrunarfræðingar, líklega stærsta kvennastétt landsins. Alþingi setti á endanum lög á verkfallsaðgerðir þeirra og vísaði deilunni til gerðardóms, sem hækkaði laun hjúkrunarfræðinga um 25 prósent á fjórum árum.
Ekki hægt að gera leiðréttingar
Bjarni Benediktsson ræddi stöðuna á vinnumarkaði á Alþingi í júni 2015, eftir að búið var að semja við lækna og deilur við hjúkrunarfræðinga stóðu sem hæst. Hann sagði vinnumarkaðsmódelið gallað og að hruni komið. Ítrekuð verkföll og kröfur um leiðréttingu launa sýndu það. Menn kæmu að samningaborðinu og sögðust hafa dregist aftur úr öðrum stéttum síðasta áratuginn og að það þurfi að leiðrétta.
Svo sagði Bjarni: „Mitt svar við þessu er: það er ekki hægt að gera leiðréttingar tíu ár aftur í tímann. Það geta ekki endalaust allir fengið leiðréttingar gagnvart einhverjum öðrum viðmiðunarhópum.“
En samt hægt að gera leiðréttingar fyrir suma
Rúmu ári síðar höfðu laun æðstu embættismanna á borð við ráðherra, þingmenn, aðstoðarmenn ráðherra, og dómara verið „leiðrétt“ af kjararáði. Sömu sögu er að segja af launum þeirra hópa sem miða sig við þessa aðila í launum. Allir í þessum hópum hækkuðu um tugi prósenta í launum. Þingmenn hækkuðu til að mynda um 44,3 prósent á kjördag 2016. Benedikt Jóhannsson, þá formaður Viðreisnar og verðandi fjármálaráðherra, sagði að launahækkunin væri „leiðrétting á inngripum undanfarinna ára.“ Bjarni Benediktsson sagði af sama tilefni að hann væri ekki spenntur fyrir því að grípa inn í launahækkunina.
Ein afleiðingin af þessu er sú að kostnaður við rekstur ríkisstjórnar Íslands, sem í felst launagreiðslur til ráðherra og sífellt fleiri aðstoðarmanna þeirra, hefur aukist um 208 milljónir króna frá árinu 2012 og er áætlaður 461 milljón króna í ár.
Þá er auðvitað ótalið sú hækkun sem orðið hefur á framlögum úr ríkissjóði til reksturs stjórnmálaflokka. Í erindi sem sex af átta stjórnmálaflokkum sem eiga fulltrúa á þingi sendu til fjárlaganefndar rétt fyrir jól í fyrra var farið fram á „leiðréttingu“ á framlögum til stjórnmálaflokka. Á milli jóla og nýárs var svo samþykkt að hækka framlögin um 127 prósent. Stjórnmálaflokkarnir skipta nú með sér 648 milljónum króna árlega.
Pólitískar ákvarðanir leiða til enn fleiri leiðréttinga
Í lok árs 2016 var loks tekin pólitísk ákvörðun um að færa ákvörðun um launakjör ríkisforstjóra undan kjararáði og til stjórna fyrirtækjanna, sem eru pólitískt skipaðar. Sú breyting tók gildi um mitt síðasta ár.
Í kjölfarið voru laun útvarpsstjóra hækkuðu um 16 prósent í 1,8 milljónir króna á mánuði, laun forstjóra Isavia um 20 prósent í 2,1 milljónir króna á mánuði, laun forstjóra Landsvirkjunar um 32 prósent upp í 2,7 milljónir króna á mánuði, laun forstjóra Íslandspósts um 17,6 prósent í 1,7 milljónir króna á mánuði og laun forstjóra Landsnets um tíu prósent í 1,8 milljónir króna á mánuði.
Í skýrslu sem Talnakönnun gerði og birti í apríl síðastliðnum kom auk þess fram að laun bankastjóra Landsbankans, sem er í eigu íslenska ríkisins, hefðu hækkað um 61,1 prósent milli 2015 og 2017 í 3,4 milljónir króna á mánuði. Laun bankastjóra Íslandsbanka, sem er líka að fullu í ríkiseigu, hækkuðu um 15,4 prósent á sama tímabili í 5,8 milljónir króna á mánuði.
Laun forstjóra leiðrétt í samræmi við þá sjálfa
Í efstu lögum einkageirans hefur átt sér stað sambærilegt launaskrið eftir að fennti yfir hófsemiskröfur hrunsins. Forstjórar fyrirtækja í Kauphöll, sem eru meira og minna fyrirtæki sem þurftu á fjárhagslegri endurskipulagningu að halda eftir bankahrunið og stunda þjónustustarfsemi á fákeppnismarkaði, eru með nálægt fimm milljónum króna að meðaltali í mánaðarlaun. Það eru 17-18föld lágmarkslaun.
Það sem einkennt hefur gengi félaga í Kauphöllinni undanfarið eru afkomuviðvaranir og minnkandi virði. Samtals hefur úrvalsvísitala hennar, sem er samansett af þeim félögum sem hafa mestan seljanleika, lækkað um 15 prósent á rúmu ári. Um er að ræða að uppistöðu eignir almennings, í gegnum lífeyrissjóðina sem eiga skráðu félögin að mestu, en þora ekki að stjórna þeim með virkum hætti.
Og laun karlanna sem stýra þessum félögum, sem eru að skila einhverri verstu frammistöðu sem þekkist á meðal kauphalla, hækka bara á meðan að þau eru á sjálfstýringu. Þau eru „leiðrétt“ svo þau séu í samræmi við viðmiðunarstéttir. Sem eru þeir sjálfir.
Sumir eru jafnari en aðrir
Samt eru ráðamenn alltaf jafn hissa þegar aðrar stéttir leggja fram kröfur sem eru í takti við ofangreint. Þegar þær 252 ljósmæður, kvennastétt sem vinna hjá ríkinu og er tæpur fjórðungur af fjölda lækna, vilja hækka grunnlaunin sín, alveg eins og læknar vildu og fengu fyrir nokkrum árum síðan.
Fjármálaráðherra sagði í upphafi mánaðar að það væri saga hins íslenska samningamódels „að allir líti á sig sem sérstaka og að þeir eigi að hækka meira en aðrir. Þannig höfum við farið í gegnum hverja kjaralotuna á eftir annarri og endað úti í skurði.“
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir í Fréttablaðinu í dag að hún sé hugsi yfir því að ljósmæður lúti ekki vilja ríkisins og hafni tillögu þess um lausnir sem séu ekki í samræmi við kröfugerð þeirra.
Það verður að segjast eins og er, þegar þau dæmi sem hér hafa verið nefnd eru skoðuð, þá virðist það fyrst og síðast vera karllægar stéttir sem voru þegar með mjög há laun í öllum samanburði sem líti á sig sem sérstaklega sérstakar. Aðrar stéttar, sérstaklega stórar kvennastéttir, eiga ekki að fara fram með sambærilegar kröfur.
Í desember verða 81 kjarasamningar lausir. Í mars 2019 bætast 150 við.
Ef ráðamönnum er alvara um að krefjast þáttöku launafólks í viðhaldi stöðugleikans, sem er auðvitað öllum til góða, þá verða þeir að sýna gott fordæmi og vinda ofan af þeim „leiðréttingum“ sem tekjuháum hópum hefur verið skammtað á undanförnum árum.
Sumir mega ekki vera jafnari en aðrir. Eða sérstakari.