Í gær birti forsætisnefnd Alþingis þá niðurstöðu sína að ekkert sé athugavert við það þegar þingmenn fái endurgreiðslu úr sameiginlegum sjóðum vegna keyrslu sem þeir ráðast í þegar þeir sinna prófkjörsbaráttu. Það er líka niðurstaða forsætisnefndar að þeir megi rukka Alþingi fyrir kostnað vegna keyrslu í kosningabaráttu. Svo ekki sé minnst á það ef þeir þurfi að sækja afmæli eða jarðarfarir. Þangað má líka keyra á kostnað skattgreiðenda. Að hluta til skattfrjálst.
Niðurstaða forsætisnefndar er sú að gildandi reglur um aksturskostnað þingmanna séu svo víðar að þær veiti „umtalsvert svigrúm, við mat á því hvað skuli teljast til starfa þingmanns.“ Með öðrum orðum þá má þingmaður í raun krefjast endurgreiðslu fyrir hvaða akstur sem er, svo lengi sem hann sjálfur, í eigin höfði, skilgreinir aksturinn sem hluta af þingmannastörfum sínum.
Þvert á móti er það niðurstaða forsætisnefndar Alþingis að engin skilyrði séu til staðar fyrir því að fram fari almenn rannsókn á endurgreiddum aksturskostnaði þingmanna. Nefndin telur einnig að ekki hafi komið fram neinar upplýsingar eða gögn sem sýni að til staðar sé grunur um að refsiverð háttsemi hafi átt sér stað við fram settar kröfur um endurgreiðslur vegna aksturskostnaðar sem kæra beri sem meint brot til lögreglu.
Undir þessa niðurstöðu skrifar forseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon.
Kerfislegt forskot á hina
Þetta er aðeins önnur nálgun en Steingrímur setti fram í viðtali í sjónvarpsþætti Kjarnans í febrúar, þegar umræða um ótrúlega háan aksturskostnað þingmanna var í hámæli. Þar sagði hann að þingmenn væru komnir „djúpt inn á grátt svæði“ þegar þeir væru að láta Alþingi greiða fyrir aksturskostnað sinn í prófkjörum eða í aðdraganda kosninga. „Prófkjör í flokki er svo langt í burtu frá þingmannsstarfinu að það að mínu mati ætti ekki að vera fullgilt ferðatilefni. Ekki nema að þú ættir önnur erindi með,“ sagði Steingrímur. „Eigum við bara að hafa það skýrt að þátttaka í prófkjörum er ekki tilefni til að senda inn eigin reikning?,“ bætti hann við.
Þá er líka staðfest að sitjandi þingmenn mega, í krafti þess svigrúms sem reglur um endurgreiðslu kostnaðar veitir þeim, nýta sér slíka peninga í kosningabaráttu flokka sinna. Það eru peningar sem flokkar utan þings hafa ekki aðgengi að.
Samtryggingin er sterk
Pólitískt samtrygging er eitt ömurlegasta birtingarform hinnar kerfislægu strokuspillingar sem einkennir samfélagið okkar. Þar sem meðvirkni og hagsmunir láta hið besta fólk líta fram hjá vanhæfni, lögbrotum, svindli og sjálftöku vegna þess að það er ekki hluti af pólitískri menningu að láta fólk bera ábyrgð á gjörðum sínum.
Þetta hefur birst aftur og aftur í málum þar sem skýrar og eðlilegar kröfur eru uppi um afsögn ráðamanna sem hafa t.d. orðið uppvísir af því að brjóta lög og valda um leið margháttuðum samfélagslegum skaða.
Þetta hefur birst í því að bersýnilega hefur verið svindlað í kosningum, með ólöglegum SMS-sendingum á og við kjördag, án þess að það hafi nokkrar afleiðingar. Þetta hefur birst þegar stjórnmálafólk velur að nýta nafnlaus hliðarsjálf við flokka til að taka við fjármunum í andstöðu við anda laga svo hægt sé að stunda pólitískt níð og áróður án þess að tengslin við borgunarmennina og flokkana sem þeir tilheyra verði gerð opinber. Þá tekur samtryggingin sig bara saman, lætur vinna málamyndaskýrslu um að það sé ekkert hægt að gera í þessu, og hið óeðlilega, og mögulega ólöglega, inngrip í hið lýðræðislega ferli látið óáreitt. Þetta var niðurstaða þrátt fyrir að Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) hefði sagt í skýrslu sinni sem birt var eftir þingkosningarnar 2017 að „umboð eftirlitsaðila til eftirlits með ólögmætum og nafnlausum kosningaáróðri á netmiðlum væri ófullnægjandi. Athugasemdir ÖSE eru alvarlegar og renna stoðum undir mikilvægi þessarar skýrslubeiðni.“
Vond pólitísk menning er ekki föst og óbreytanleg breyta
Samtryggingin birtist þegar nánast allir flokkarnir samþykkja að auka framlög til síns sjálfs um 127 prósent, líka til þeirra flokka sem svindluðu eða brutu lög. Og rökstuddur grunur er um að hafi haft hag af hinum nafnlausa áróðri. Með því voru send út þau skýru skilaboð að það margborgi sig að hafa rangt við. Raunar eru flokkar sérstaklega verðlaunaðir fyrir það.
Það eina jákvæða sem hægt er að taka úr svona framferði er að það opinberar hræsni þeirra stjórnmálamanna sem telja sig siðlega og umbótasinnaða í orði, en láta ímyndaðan pólitískan ómöguleika þess að láta fólk og flokka sem hafa rangt við sæta ábyrgð ráða ákvörðunum sínum á borði.
Það er vert að hafa í huga að ekkert kerfi er betra en fólkið sem stýrir því. Og vond pólitísk menning er ekki föst og óbreytanleg breyta. Hún er bara til vegna þess að fólk ákveður að halda henni við.
Það er hægt að taka á spillingu, svindli, vondu siðferði, leyndarhyggju og ólseigri frændhygli. Það er hægt að innleiða pólitíska ábyrgð. Það er hægt að koma í veg fyrir misnotkun á opinberu fé.
Það er hins vegar ekki gert. Vegna þess að stjórnmálamenn ákveða að gera það ekki.
Og það heitir að taka sérhagsmuni, til dæmis ríkisstjórnarsamstarf, langt fram yfir almannahagsmuni.