Svo virðist sem að íslenskur stjórnmála- og fjármálaheimur sé að vakna skyndilega upp við þann vonda draum að á morgun verði Ísland mögulega komið á lista með ríkjum sem við viljum aldrei kenna okkur við.
Ástæðan er sú að árum saman brást Ísland ekki við kröfum Financial Action Task Force (FATF) um hvernig vörnum gegn peningaþvætti skyldi háttað. Raunar gerðum við nánast ekki neitt til að sporna við þeim vágesti. Þess í stað voru settar upp opinberar peningaþvættisleiðir af Seðlabanka Íslands. Þess í stað var ekkert gert til að tryggja að losun hafta byði peningaþvætti ekki heim. Þess í stað var litið undan gagnvart því að spilakassar á vegum Háskóla Íslands, Rauða krossins, SÁÁ og slysavarnafélags hafa verið notaðar sem peningaþvættisvélar fyrir glæpamenn. Þess í stað var ekkert gert til að fylla í göt í starfsemi lögmanna sem gat augljóslega verið misnotuð til að þvætta peninga. Þess í stað var raunverulegum eigendum eignarhaldsfélaga sem stofnuð voru á Íslandi áfram sem áður leyft að fela sig. Og svo framvegis.
Engin vilji var hérlendis til að sjá peningaþvætti, og afleiðingin var sú að stjórnvöld sáu það ekki. Það þurfti útlenska stofnun, í hlutverki barnsins, til að benda á að keisarinn var kviknakinn.
Afleiðingin er að Ísland mun mögulega fara á lista með Norður-Kóreu, Afganistan, Jemen, Írak, Úganda og fleirum á morgun. Bandaríkin og Bretland vilja að við verðum sett á hann. Evrópusambandið og aðildarríki þess vilja hindra það vegna þess að það lítur illa út fyrir EES-samstarfið, ekki vegna þess að við eigum það ekki skilið.
Þótt að það verði að vona að af þessu verði ekki, þá blasir alveg við að Ísland á skilið að lenda þessum lista.
Mun hafa alvarlegar afleiðingar
Fyrst að afleiðingunum. Í einu af fjölmörgum frumvörpum sem keyrð hafa verið í gegn síðustu mánuði til að laga íslenskt lagaumhverfi þannig að það samræmist eðlilegum kröfum samfélags sem vill ekki að peningaþvætti sé til staðar hjá sér er farið ágætlega yfir hvað gerist ef Ísland endar á listanum. Þar segir: „Bregðist ríki ekki við kröfum FATF hafa aðildarríkin sammælst um að beita hvert annað þrýstingi með því að setja ríki á sérstakan lista FATF yfir „ósamvinnuþýð“ ríki eða ríkjasvæði.
Löngu búið að hringja aðvörunarbjöllunum
Ísland gerðist aðili að FATF árið 1991 og skuldbatt sig þá til að samræma löggjöf sína að tilmælum samtakanna. Síðan gerðum við lítið sem ekkert til að standa við þá skuldbindingu.
FATF skilaði fyrstu skýrslu sinni um Ísland í október 2006. Í niðurstöðum hennar var skýrt tekið fram að samtökin hefðu áhyggjur af virkni eftirlits með peningaþvætti hérlendis.
Bæði Fjármálaeftirlitið og embætti ríkislögreglustjóra fengu athugasemdir fyrir að hafa ekki veitt nægilegum kröftum í málaflokkinn.
Brugðist var við með því að setja á fót peningaþvættisskrifstofu ríkislögreglustjóra. Á henni starfaði lengst af einn maður sem sinnti nær engri frumkvæðisskyldu heldur treysti á tilkynningar frá bönkum og öðrum aðilum um að viðskiptavinir þeirra væru mögulega að stunda þvætti. Auk þess ætlaði Fjármálaeftirlitið að framkvæmda reglulegri og ítarlegri úttektir á fjármálafyrirtækjum vegna þessa. Þær úttektir beindust fyrst og síðast að stóru bönkunum þremur: Kaupþingi, Landsbanka Íslands og Glitni.
Kjarninn greindi frá því í mars á þessu ári að eftirlitið hafi einungis klárað úttekt sína á einum banka, Kaupþing, þrátt fyrir að frumniðurstöður úr könnunum á hinum tveimur bentu til að þar væri að finna brotalamir sem leiddu af sér falleinkunn þegar kom að peningaþvættisvörnum. Ástæðan var sögð starfsmannaskortur og síðan sérstakar ástæður á fjármálamarkaði.
Svo kom hrun og fólk fór að hugsa um eitthvað annað en peningaþvætti.
Heilbrigðisvottorð fyrir falið fé
Það liggur þó fyrir að áður en að bankarnir hrundu og Íslandi var lokað með fjármagnshöftum þá komu valdir hópar, sem höfðu aðgang að betri upplýsingum og tækifærum en hinn venjulegi Íslendingur, hundruð milljarða króna hið minnsta fyrir annars staðar en á Íslandi. Hluti þeirra fjármuna var geymdur í aflandsfélögum í löndum þar sem engin upplýsingaskylda var til staðar.
Margir þeirra sem höfðu komið þessu fé undan voru í vandræðum með að nota það. Ástæðan gat verið sú að ekki hefðu verið greiddir skattar af því með réttmætum hætti í upprunalandi peninganna, eða engir skattar yfir höfuð. Nú eða að um væri að ræða fjármuni sem með réttu ættu að vera í eigu kröfuhafa sem höfðu lánað viðkomandi fé en ekki fengið endurgreitt.
Það var flókið fyrir þessa aðila að koma peningunum sínum aftur í vinnu. Ekki ósvipað því og það er fyrir fíkniefnasala að kaupa sér t.d. fasteign fyrir reiðuféð sem hann fær fyrir svartamarkaðsstarfsemi sína án þess að íþróttataskann hans, troðin af fimm þúsund köllum, veki upp réttmætar spurningar þegar hann ætlar að borga með innihaldi hennar.
Seðlabanki Íslands ákvað að skera þennan hóp niður úr snörunni með fjárfestingaleið sinni, sem var opnuð fyrir viðskipti snemma árs 2012. Í gegnum þá leið var hægt að ferja peninga sem faldir höfðu verið erlendis til Íslands, leysa út tugprósenta gengishagnað, fá 20 prósent virðisaukningu á féð og kaupa eignir á Íslandi eftirhrunsáranna á brunaútsöluverði. En mikilvægast af öllu var að þá fengu þeir heilbrigðisvottorð frá Seðlabanka um að peningarnir þeirra væru hreinir.
Á meðal þeirra sem nýttu sér þessa leið voru fyrrverandi eigendur fallina banka, fyrrverandi stjórnendur þeirra og menn úr hópi stærstu lántakenda bankanna sem höfðu í sameiningu tæmt þá innanfrá. Fjölmargir aðrir gerðu það auðvitað líka, innlendir og erlendir aðilar. Við vitum ekki nákvæmlega hverjir allir þeirra voru vegna þess að Seðlabanki Íslands vill ekki upplýsa um það.
Í skýrslunni stóð að það væri ekki hlutverk Seðlabanka Íslands að útdeila réttlæti í samfélaginu „með því að greina á milli æskilegra og óæskilegra fjárfesta, verðugra og óverðugra.“
Ísland fær loks verðskuldaða falleinkunn
Í apríl 2018 var FATF loks nóg boðið af þessari litlu eyju sem kaus að líta undan gagnvart augljósum brotalömum í peningaþvættisvörnum til að geta sagt við sjálfa sig að hér væri ekkert slíkt að finna. Samtökin skiluðu af sér nýrri úttekt þar sem niðurstaðan var sú að varnir landsins gegn peningaþvætti fengu falleinkunn.
Íslandi var gefið fram á mitt ár 2019 til að bregðast við. Skýrsla FATF ýtti verulega við málum hérlendis. Það þurfti að bregðast við þessum athugasemdum hratt, auk þess sem fyrir lá að fjórða peningaþvættistilskipun Evrópusambandsins yrði tekin upp í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES) í desember 2018.
Starfshópur á vegum dómsmálaráðherra var því settur í að semja frumvarp um heildarendurskoðun á lögum um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
Sú vinna skilaði því að Sigríður Á. Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, lagði fram frumvarp um ný heildarlög um varnir gegn peningaþvætti 5. nóvember í fyrra. Málið var afgreitt frá efnahags- og viðskiptanefnd 12. desember og síðari tvær umræður kláraðar daginn eftir. Frumvarpið varð að lögum með öllum greiddum atkvæðum þingmanna þann sama dag. Þau tóku gildi þann 1. janúar 2019.
Til viðbótar þurfti að laga til mjög víða annars staðar í stjórnsýslunni. Og það var gert, meðal annars með því að fjölga starfsmönnum á peningaþvættisskrifstofunni, sem nú hefur fengið nýtt nafn, og láta þá raunverulega gera eitthvað.
Í eftirfylgnisskýrslu sem birt var snemma í september 2019 kom fram að Ísland hefði uppfyllt 28 af 40 tilmælum sem FATF gerði kröfu um að löggjöf ríkja þurfi að uppfylla. Ísland uppfyllir ellefu tilmæli að hluta en ein tilmæli, sem lúta að starfsemi almannaheillafélaga, töldust enn óuppfyllt. Ráðist var í að keyra í gegn lög um þau fyrr í þessum mánuði.
Á morgun kemur svo í ljós hvort nóg hafi verið gert.
Óbragð vegna sinnuleysis
Frá hruni hefur blasað við að mengi fólks kom peningum undan því sem restin þurfti að takast á við. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem birt var í apríl 2010 var þetta staðfest að mörgu leyti og myndin varð enn skýrari sex árum síðan þegar Panamaskjölin sviptu hulunni af hversu mikið af peningum íslenskt fólk í aðstöðu til þess hafði falið á aflandseyjum.
Þessi hópur, sá sem orsakaði meðal annarra hrunið, hagnaðist síðan á því og hefur fengið að nýta þann hagnað til að sölsa aftur undir sig nýjar og fyrri eignir á Íslandi, er auðvitað bara einn af þeim sem sér tækifæri í slökum peningaþvættisvörnum. Þeir sem stunda skipulagða alþjóðlega glæpastarfsemi gera það auðvitað líka, sem og allir hinir hóparnir sem eru sífellt í leit að því að öðlast lögmæti fyrir skítugu peningana sína. Það þarf að vera ansi barnalegur til að halda að slíkir hópar hafi einfaldlega sleppt því að horfa til Íslands í þeim efnum, þegar peningaþvættisvarnir okkar voru engar, og Seðlabankinn var að bjóða upp á þvættisleiðir, en þess í stað einbeitt sé að því að nýta aðrar erfiðari og kostnaðarsamari leiðir í öðrum löndum.
Það var hægt að fara á eftir þeim peningum sem komið var undan hérlendis, en það var ákveðið að gera það ekki. Það var hægt að grípa þá þegar þeir flæddu aftur inn í íslenskt efnahagslíf, en það var ákveðið að gera það ekki. Það var hægt að laga augljósar brotalamir víða í íslenska kerfinu, en það var ákveðið að gera það ekki.
Frá því í janúar 2017 hefur Kjarninn skrifað tugi fréttaskýringa, frétta og skoðanagreina um peningaþvættismál. Það var meðvituð ákvörðun ritstjórnar vegna þess að um er að ræða eina augljósustu brotalöm sem fyrirfinnst í íslenskum kerfum. Viðbrögðin hafa verið algjört sinnuleysi, þar til á allra síðustu dögum og vikum. Það sá enginn það sem hann vildi ekki sjá, þótt það hafi blasað við.
Eftir situr óbragð í munni vegna þeirri stöðu sem er uppi. Og veik von um að nú muni stjórnmálamenn loksins taka sig til, klára að koma peningaþvættisvörnunum í almennilegt horf að öllu leyti og setji svo upp rannsóknarnefnd Alþingis til að fara yfir það líklega peningaþvætti sem hefur verið stundað hérlendis óáreitt, og á stundum með opinberri aðstoð, árum saman.