Már Guðmundsson, fyrrverandi seðlabankastjóri Íslands, skrifar grein sem birt var á Kjarnanum síðdegis í gær. Þar gerir hann athugasemdir við það orðalag að svokölluð fjárfestingaleið, sem Seðlabanki Íslands bauð upp á milli 2012 til 2015, hefði verið opinber peningaþvættisleið. Már vísar sérstaklega í leiðara sem birtist hér á þessum vettvangi 21. október 2019 vegna orða fjármála- og efnahagsráðherra um að það væri „ósmekklegt“ að kalla fjárfestingaleiðina opinbera peningaþvættisleið.
Fyrsta atriðið sem Már gerir athugasemd við er að fjárfestingaleiðin hafi opnað leið inn fyrir höftin fyrir þá sem áttu fjármuni utan þeirra. „Þetta er ekki rétt. Sú leið var opnuð í október 2009 þegar fjármagnshöft ár hér á landi voru afnumin.“
Það skal tekið fram að undirritaður hefur aldrei haldið því fram að fjárfestingaleið Seðlabankans hafi verið fyrsta opnun á höftin. Hún var hins vegar í eðli sínu þannig, vegna skilyrða og leikreglna, að hún bauð frekar upp á það að hægt yrði að ferja fé hingað til lands sem áður hafði verið komið undan, t.d. á bankareikninga á aflandseyjum.
Því er Már að svara röksemdarfærslu sem hefur ekki verið sett fram.
Bankar voru ekki á varðbergi
Már segir: „Þau sem komu inn með erlendan gjaldeyri eftir þetta þurftu að skipta honum í íslenskar krónur hjá fjármálafyrirtæki hér á landi og tilkynna um viðskiptin til Seðlabankans í gegnum fjármálafyrirtækið. Eftir það höfðu þau hvenær sem er heimild til útgöngu með þá fjármuni og alla ávöxtun þeirra. Samkvæmt lögum áttu bankarnir að kanna slíkar færslur eins og aðrar með tilliti til peningaþvættis og Fjármálaeftirlitið að hafa eftirlit með því að svo væri gert.“ Síðar í greininni segir hann: „útboðsskilmálum og í milligöngusamningum er skýrt tekið fram að fjármálafyrirtækin skyldu annast könnun á umsækjendum með tilliti mögulegs peningaþvættis. Það var ófrávíkjanlegt skilyrði að umsókn fylgdi staðfesting fjármálafyrirtækis að slík könnun hefði farið fram með jákvæðri niðurstöðu. Ætla mætti að þetta hafi valdið því að fjármálafyrirtækin væru meir á varðbergi en alla jafna.“
Eftirlitið var ekki á varðbergi
Kjarninn hefur síðar kallað eftir upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu (FME), sem á að hafa eftirlit með bönkunum í þessum málum, um hvort að peningaþvættisvarnir þeirra væru í lagi. Þann 8. mars 2019 birtist fréttaskýring í Kjarnanum þar sem fram kom að í úttektum sem eftirlitið gerði árið 2007 á íslenskum bönkum hafi verið gerðar alvarlegar athugasemdir við framkvæmd eftirlits með peningaþvætti. Þeirri niðurstöðu var ekki fylgt eftir „vegna starfsmannaskorts og sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði.“
Þann 31. maí 2019 birtist á Kjarnanum fréttaskýring um að Fjármálaeftirlitið hefði framkvæmt athugun á aðgerðum Arion banka gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Slík athugun á Arion banka hófst í október 2018 og leiddi til þess að eftirlitið gerði margháttaðar athugasemdir við brotalamir hjá bankanum í janúar 2019. Í athugun FME á Arion banka kom meðal annars fram að bankinn hefði ekki metið með sjálfstæðum hætti hvort upplýsingar um raunverulega eigendur viðskiptavina væru réttar og fullnægjandi og að þær upplýsingar hafi ekki verið uppfærðar með reglulegum hætti, líkt og lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka gerðu ráð fyrir. Eftirlitið gerði einnig athugasemd um að Arion banki hefði ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni í tilviki erlends viðskiptavinar, það taldi að reglubundið eftirlit bankans með viðskiptavinum hafi ekki fullnægt kröfum laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka né að verklag í tengslum við uppfærslu á upplýsingum um viðskiptavini hafi ekki verið fullnægt. Þá taldi FME að skýrslur Arion banka um grunsamlegar og óvenjulegar færslur hefðu ekki verið fullnægjandi. Arion banki segist hafa brugðist við öllum þessum athugasemdum en líklegt verður að telja að brotalamirnar hafi verið til staðar frá því að bankinn var settur á laggirnar í október 2008 og þangað til að FME gerði sínar athugasemdir rúmum áratug síðar.
Már segir í grein sinni: „Þórður Snær virðist gefa í skyn að Seðlabankinn hefði sjálfur átt að framkvæma peningaþvættisrannsóknirnar.“ Þetta er röng ályktun hjá Má. Það hefur því aldrei neitt annað komið fram í skrifum Kjarnans en að eftirlit með því að um „hreina“ peninga og „hreina“ viðskiptavini hafi legið hjá bönkum og lotið eftirliti FME. Ofangreint sýnir það augljóslega.
Þeir sem framkvæmdu, staðfestu
Már segir í grein sinni: „Hafi peningaþvættisathugunum fjármálafyrirtækja í tengslum við fjárfestingarleiðina verið ábótavant, sem ekki verður fullyrt um hér, stafaði það ekki af hönnun fjárfestingarleiðarinnar sem slíkrar og hefur þá líklega verið raunin í öðrum tilfellum einnig. Verkefnið var þá að bæta úr því.“
Það má koma fram að áhugi höfundar á fjárfestingaleiðinni kviknaði meðal annars eftir samtöl við alls þrjá einstaklinga sem unnu hjá bönkum á þeim tíma sem hún var opin, sem sögðu að þeir hefðu ekki kannað uppruna fjármuna sem þeir færðu fyrir viðskiptavini sína inn til landsins. Þeir hefðu einfaldlega látið þá skrifa undir skjal þar sem þeir vottuðu að peningarnir væru „hreinir“.
Tveir af þessum þremur sögðu höfundi að þeir hefðu talið sig hafa vissu fyrir því að einhverjir sem þeir hefðu aðstoðað, og þegið þóknun fyrir, hefðu verið að flytja hingað fé sem hefði annað hvort verið komið undan skatti eða undan réttmætum kröfuhöfum. FME hefur, líkt og áður kom fram, auk þess staðfest að bankarnir voru ekki að sinna því eftirliti sem þeir áttu að sinna.
Kjarninn hefur aldrei sagt að fjárfestingaleiðin hafi skilað Íslandi á gráan lista
Már segir í grein sinni: „Reyndar er það svo að því er ekki haldið fram í skýrslum FATF að þær athuganir sem eru framkvæmdar af hálfu bankanna á mögulegu peningaþvætti séu gagnslausar en eins og áður er fram komið var jákvætt vottorð fjármálafyrirtækis um slíka könnun skilyrði þess að fá að taka þátt í fjárfestingarleiðinni. Það er því alveg skýrt að grálistun Íslands hjá FATF hefur ekkert með fjárfestingarleiðina að gera.“
Því hefur aldrei verið haldið fram í skrifum Kjarnans að Ísland hafi verið sett á gráan lista vegna fjárfestingaleiðarinnar, enda legið fyrir frá því að úttekt FATF á peningaþvættisvörnum Íslands kom fram vorið 2018 að hún var þar ekki undir. Þar er Már því að hrekja framsetningu sem var aldrei sett fram.
Í aðgerðaráætlun stjórnvalda gegn peningaþvætti, sem birt var í ágúst, segir hins vegar að gjaldeyriseftirlit Seðlabankans skorti, og hafi skort, þekkingu á hættumerkjum og aðferðum við peningaþvætti. Engar lagalegar skyldur hafa hvílt á Seðlabankanum vegna aðgerða gegn peningaþvætti þrátt fyrir að hann haft umsjón með öllu gjaldeyriseftirliti og losun hafta á undanförnum árum þegar hundruð milljarða króna hafa verið flutt til og frá landinu. Þetta þurfi að laga.
Þarna er ekki um að ræða gagnrýni frá höfundi eða Kjarnanum, heldur íslenskum stjórnvöldum.
Dæmdir glæpamenn máttu nýta sér leiðina
Kjarninn hefur hins vegar verið sett úttekt FATF í samhengi við aðrar lélegar varnir Íslendinga gagnvart peningaþvætti. Þar stendur auðvitað fjárfestingarleiðin, og nánast algjör skortur á eftirliti með þeim sem nýttu sér hana, upp úr eins og Gúlíver í puttalandi.
Már segir sjálfur að eigið eftirlit Seðlabanka Íslands með leiðinni hefði „gengið á skjön við það verklag sem tíðkast í þessu sambandi, hefði líklega kostað töluverða fjárfestingu Seðlabankans í upplýsingum og mannafla og hefði líklega ekki verið athugasemdalaust af hálfu annarra."
Seðlabankinn setti það eina skilyrði, fyrir utan að bankar skrifuðu upp á „hreinleika“ viðskiptavina sinna, að einstaklingarnir sem nýttu sér leiðina væru ekki til rannsóknar vegna mögulegra brota á gjaldeyrislögum. Þeir máttu hins vegar vera til rannsóknar vegna allra annarra brota. Þeir máttu jafnvel vera dæmdir glæpamenn.
Már segir líka: „Rétt er að geta þess að skattrannsóknarstjóri hefur fengið allar upplýsingar um þá sem tóku þátt í fjárfestingarleiðinni.“ Kjarninn greindi einmitt frá því að embætti skattrannsóknarstjóra væri að rannsaka eitt mál tengt leiðinni í október 2018.
Það má líka koma fram að líklega eru engir rannsakendur á Íslandi jafn óánægðir með því hvaða framgang mál sem þeir rannsaka fá í kerfinu og þeir sem rannsaka skattsvik. Síðast þegar af fréttist biðu hátt í 100 fullrannsökuð mál þess að komast í saksókn, eða fyrnast annars. Magn þeirra sem sannað hefur verið að hafa svikið undan skatti, en hafa komist undan refsingu vegna þess að rannsakendum skortir fjármuni og framfylgdaraðilum skortir mögulega vilja eða getu, er að sögn þeirra sem best til þekkja feikilegur.
Útilokar ekki að peningaþvætti hafi átt sér stað
Már, sem er prýðilegur maður og náði heilt yfir ótrúlegum árangri í starfi sínu sem seðlabankastjóri, endurtekur í grein sinni niðurstöðu skýrslu sem Seðlabanki Íslands gerði um fjárfestingaleiðina sem birt var í ágúst. Þar var því haldið fram að tilgangurinn, að bræða snjóhengjuna, hafi helgað meðalið og að það væri ekki hlutverk Seðlabanka Íslands að útdeila réttlæti í samfélaginu. Við verðum seint á sömu blaðsíðu hvað varðar þessa nálgun.
Í niðurlaginu kemur Már þó loksins inn á þá gagnrýni sem raunverulega hefur verið sett fram í Kjarnanum á fjárfestingarleiðina, og er ástæða þess að hér hefur því verið haldið fram að hún hafi verið opinber leið fyrir mögulegt peningaþvætti.
Þar segir Már: „Þetta útilokar ekki að eitthvað illa fengið fé hafi sloppið í gegnum nálarauga fjárfestingarleiðarinnar þótt ekkert hafi hingað til bent til þess að það hafi verið algengt. Í þessu sambandi er vert að hafa í huga hvað felst í hugtakinu peningaþvætti. Einföld en algeng skýring er að peningaþvætti sé ferli þar sem ávinningi af ólöglegu athæfi sé umbreytt með þeim hætti að hann virðist lögmætur. Hér er það uppruni fjármunanna sem skiptir meginmáli. Að einstaklingur sem einhvern tíma hefur hlotið dóm flytji fé yfir landamæri þarf því ekki endilega að fela í sér peningaþvætti og skiptir þá engu máli hvað okkur kann að finnast um viðkomandi að öðru leyti.“
Samþykkið rannsókn
Það liggur fyrir, samkvæmt skýrslu Seðlabankans sjálfs, að félög með aðsetur á lágskattasvæðum, eða í löndum sem nýta sér slík svæði óspart í sinni fjármálastarfsemi, tóku þátt. Það liggur fyrir að bankarnir þekktu ekki viðskiptavini sína, samkvæmt úttektum FME. Það liggur fyrir að enginn annar kannaði hver uppruni fjármuna sem flæddu í gegnum leiðina var. Það liggur fyrir að Seðlabanki Íslands telur sjálfur að leiðin hafi ekki gætt jafnræðis, að hún hafi stuðlað að neikvæðum áhrifum á eignaskiptingu, að hún hafi mögulega opnað á peningaþvætti, að hún hafi gert „óæskilegum auðmönnum“ kleift að flytja hingað fé úr skattaskjólum. Það eru ekki orð Kjarnans eða höfundar þessa leiðara, heldur Seðlabanka Íslands.
Það liggur líka fyrir að gagnrýni Más á fréttaflutning Kjarnans byggir ekki á skrifum miðilsins, heldur að mestu á röngum ályktunum um hvað hafi falist í þeim fréttaflutningi.
Það er að óbreyttu hægt að rífast út í hið óendanlega um það hvort peningaþvætti hafi átt sér stað í gegnum fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands. Það er hægt að setja fram órökstuddar ásakanir um ósmekklegheit og villigötur.
En það sem liggur fyrir er að það veit enginn fyrir víst hvað gerðist, vegna þess að enginn fylgdist almennilega með því og enginn hefur rannsakað það af neinu viti. Rökstuddur grunur er um að þessi leið, sem augljóslega gat nýst til peningaþvættis sökum skilmála og eftirlitsleysis, hafi verið nýtt í þeim tilgangi en engin leið er til að sanna það nema að hún verði að fullu rannsökuð.
Már, og aðrir sem stóðu að leiðinni en telja hana hafa verið nauðsynlega, hljóta því að geta sammælst um það með höfundi að best væri að skipuð yrði rannsóknarnefnd Alþingis sem færi yfir fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands og rannsakaði hana í þaula.
Það er eina leiðin til að kveðja þessar umræður í eitt skipti fyrir öll.