Ríkissjóður Íslands verður, samkvæmt sviðsmyndum sem unnið er eftir hjá stjórnvöldum, rekinn í 250 til 300 milljarða króna halla í ár. Ástæðan blasir auðvitað við: gífurlegur kostnaður vegna neyðaraðgerða sem gripið hefur verið til vegna COVID-19 faraldursins og tekjufall sem hann mun leiða af sér.
Þorri þeirra aðgerða miðar að fyrirtækjunum í landinu í þeirri opinberu viðleitni að reyna að halda uppi atvinnustigi og vernda ráðningarsambönd. Sumar munu eldast betur en aðrar og deila má um hvort gera ætti meira fyrir valda hópa en minna fyrir aðra.
Það er kaldur veruleiki að breytt samfélag mun rísa upp úr þessum faraldri. Fjórða iðnbyltingin hefur fengið sterasprautu og tekið margra ára stökk á nokkrum mánuðum. Tækni- og netlausnir í fundarhaldi, verslun, þjónustu og ýmsu öðru hafa sýnt að þær virka. Fyrir mörg fyrirtæki felast í þessu stórkostleg vaxtartækifæri. Nettó, sem veðjaði að fullum krafti á netverslun með dagvöru hérlendis, hefur til að mynda gefið það út að netverslunin sé á örfáum vikum komin á stað sem áður var ekki reiknað með að hún myndi komast á fimm árum. Þegar tilkynnt var um nýjan forstjóra Haga, stærsta smásala á Íslandi sem hefur setið verulega eftir í netsölu, í gær þá snerist sú tilkynning að nær öllu leyti um að nýir tímar væru í verslun þar sem samfélagslegir þættir og tækniframfarir krefðust frumkvæðis og nýrrar nálgunar í verslun og viðskiptum.
Algjör óvissa í tólf til 18 mánuði hið minnsta
Fyrir önnur fyrirtæki sem hönnuð eru fyrir heiminn sem var mun felast í þessari hröðun dauðadómur. Mörg þeirra fyrirtækja starfa í ferðaþjónustu eða tengdum greinum.
Neyðarúrræðin sem hafa verið keyrð af stað, og eru greidd með okkar fjármunum, voru sett á fót annars vegar til að kaupa tíma fyrir fyrirtæki til að átta sig á aðstæðum á meðan að mesta rykið myndi setjast og hins vegar til að reyna að halda uppi atvinnustigi.
Augljóst er miðað við þá sviðsmynd að ótækt er að halda uppi þúsundum ferðaþjónustufyrirtækja í allan þann tíma fyrir ríkisfé á meðan að nær algjört tekjuleysi verður í geiranum.
Ekkert eftirlit með langdýrasta úrræðinu
Hlutabótaleiðin er langstærsta úrræðið sem ráðist var í. Um síðustu mánaðamót, á baráttudegi verkalýðsins, voru greiddir um tólf milljarða króna í framfærslu til þeirra 55 þúsund landsmanna sem eru atvinnulausir að hluta eða öllu leyti. Til að setja þá tölu í samhengi þá er hún hærri en heildargreiðslur vegna atvinnuleysisbóta á árinu 2018, sem voru ellefu milljarðar króna.
Þegar leiðin var lögleidd í mars fylgdu því allskyns skilyrði sem sneru að starfsmanninum sem yrði settur á leiðina. Lítil skilyrði voru hins vegar til staðar gagnvart fyrirtækjunum sem nýttu sér leiðina til að spara sér launakostnað með því að velta honum yfir á skattgreiðendur. Í lögunum segir að Vinnumálastofnun sé heimilt „að óska eftir upplýsingum og gögnum frá vinnuveitanda sem launamaður missti starf sitt hjá að hluta þar sem fram komi nánari rökstuðningur fyrir samdrætti í starfseminni, svo sem fækkun verkefna eða samdráttur í þjónustu.“
Í frétt Kjarnans frá 22. apríl síðastliðnum kom fram að Vinnumálastofnun hefði, sökum álags og tímaskorts, ekki óskað eftir neinum upplýsingum eða gögnum frá fyrirtækjum sem hafa skert starfshlutfall starfsmanna sinna um það af hverju fyrirtækin eru að ráðast í þessar aðgerðir. Engu fyrirtæki var því hafnað.
Hlutabótaleiðin átti að vera leið til að viðhalda ráðningarsambandi hjá fyrirtækjum sem orðið hefðu fyrir verulegu tekjufalli á meðan að hlutirnir væru að skýrast og í ljós væri að koma hvort þau ættu sér tilverugrundvöll í meira en nokkrar vikur. Hún var ekki hönnuð til að verja eigið fé fyrirtækja með milljarða króna árlega veltu eða hlutafé eigenda þeirra. Þannig hefur hún hins vegar verið nýtt af mörgum.
Þrátt fyrir að margbent hafi verið á það að nauðsynlegt væri að binda alla ríkisstyrki hið minnsta við fyrirtæki við það að þau myndu ekki greiða eigendum sínum arð eða kaupa eigin bréf af þeim, og með því færa peninga úr rekstrinum til hluthafa, þá var ekkert slíkt ákvæði sett inn í lög um hlutabótaleiðina.
Fjársterk fyrirtæki ganga á lagið
Fyrir vikið gengu mörg fyrirtæki með mjög sterka eiginfjárstöðu, og sem munu skila hagnaði á árinu 2020, á lagið. Stjórnendum þeirra fannst sem að þarna væri um að ræða styrki við hluthafa þeirra. Leið til að auka auð þeirra.
Bláa lónið, sem átti 12,4 milljarða króna í eigið fé í lok árs 2018 og hefur greitt eigendum sínum 6,6 milljarða króna í arð á tveimur árum, var eitt fyrsta fyrirtækið til að setja stóran hluta af starfsfólki sínu á hlutabótaleiðina.
Kjarninn greindi frá því 10. apríl að Samherji, stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins sem átti 111 milljarða króna í eigið fé í lok árs 2018 og hefur án nokkurs vafa aukið við það í fyrra, hefði sett starfsmenn í fiskvinnslum Samherja og dótturfélagsins Útgerðarfélags Akureyringa á hlutabótaleiðina.
Síðustu dagana hafa svo hrunið inn fréttir af skráðum félögum sem gerðu slíkt hið sama. Eldsneytissalinn Skeljungur borgaði hluthöfum sínum 600 milljónir króna í arð í apríl en setti sex dögum síðar hluta af starfsmönnum sínum á hlutabótaleiðina. Eftir að upp um þá komst ákvað Skeljungur að endurgreiða peningana í ríkissjóð og endurráða starfsfólkið að fullu. Í tilkynningu sagði að „að athuguðu máli telur Skeljungur að ekki hafi verið rétt að nýta úrræðið.“
Smásölurisinn Festi, sem gerir ráð fyrir 7,3 milljarða króna rekstrarhagnaði á yfirstandandi ári og hefur einungis frestað arðgreiðslum vegna síðasta árs fram á haust, setti fólk á hlutabótaleiðina. Það gerði líka hinn smásölurisinn Hagar, sem áttu 24,2 milljarða króna í eigið fé í lok nóvember í fyrra og hagnaðist um 2,3 milljarða króna á fyrstu níu mánuðum yfirstandandi rekstrarárs síns. Þetta eru sömu Hagar sem keyptu hlutabréf af þremur lykilstjórnendur sínum fyrir rúman milljarð króna á árunum 2008 og 2009 en gáfu svo tveimur þeirra 0,8 prósent hlut í félaginu aftur, sem þeir seldu svo að mestu 2016 fyrir hundruð milljóna króna. Tilkynnt var í síðustu viku að lykilstjórnendurnir tveir, sem hafa verið með frá tæplega fimm milljónum króna til rúmlega sex milljóna króna í mánaðarlaun undanfarin tæpan áratug, muni hætta hjá Högum í nánustu framtíð. Starfslok þeirra munu kosta yfir 300 milljónir króna vegna þess að þeir eru með eins og þriggja ára uppsagnarfrest.
Önnur skráð félög sem vitað er um að hafi nýtt sér leiðina eru Origo (hagnaðist um 425 milljónir króna á fyrsta ársfjórðungi þar sem tekjur félagsins jukust um 20 prósent frá árinu áður) og fjarskiptafyrirtækið Sýn (sem átti 8,8 milljarða króna í eigið fé um síðustu áramót).
Þessi fyrirtæki sem hafa verið talin upp hér töldu tilhlýðilegt að láta skattgreiðendur, almenning í landinu, greiða hundruð milljóna króna samanlagt í sína sjóði til að verja eigið fé þeirra og eign hluthafa.
Einstakt í heiminum
Áður en að opinberanir um þessa misnotkun á leiðinni fóru að birtast í hrönnum í fjölmiðlum hafði önnur misnotkun átt sér stað. Fyrirtæki höfðu, í samráði við Samtök atvinnulífsins, sagt upp fólki og látið ríkið greiða hluta af launum starfsmanna á uppsagnarfresti í gegnum leiðina.
Vinnumálastofnun steig þá inn og gaf skýrt til kynna að slíkt væri misnotkun á úrræðinu. Samtök atvinnulífsins sættu sig við þann skilning og hættu að ráðleggja aðildarfyrirtækjum samtakanna að gera þetta.
Í staðinn var soðin saman í skyndi ný lausn sem í fólst að greiða hluta launakostnaðar starfsmanna hjá fyrirtækjum sem höfðu upplifað tiltekið tekjufall á uppsagnarfresti. Þótt forvígismenn ríkisstjórnarinnar hafi kynnt áformin á blaðamannafundi sem hafði á sér svipað yfirbragð og fundirnir þar sem aðgerðarpakki eitt og tvö voru opinberaðir þá var sá munur á í þetta skiptið að ekkert frumvarp lá fyrir til að lögleiða aðgerðina. Þá hefur ekkert kostnaðarmat verið birt um hvað þessar stuðningsgreiðslur, sem fela í sér greiðslur að hámarki 633 þúsund krónur á mánuði í allt að þrjá mánuði, muni kosta ríkissjóð. Ekkert liggur fyrir um hvernig eftirliti með framfylgdinni verður háttað heldur. Enn ein leiðin fyrir hluthafa til að seilast í ríkissjóð hefur verið opinberuð.
Það blasir þó við að leiðin mun kosta marga milljarða króna, enda var hátt í fimmta þúsund manns sagt upp næstu daga í hópuppsögnum.
Það er einstakt á heimsvísu að ríkissjóður stigi inn með almennan opinn tékka til að gera fyrirtækjum kleift að segja upp starfsfólki svo hægt sé að verja eign hluthafa í þeim fyrirtækjum og tryggja að tæki, tól, fasteignir og viðskiptasambönd haldist áfram í sömu eigu.
Þessi aðgerð mun ugglaust verða skoðuð ítarlega þegar litið var í baksýnisspegilinn. Var nauðsynlegt að gera þetta gagnvart ferðaþjónustufyrirtækjum sem teljast ekki þjóðhagslega mikilvæg sem munu líklega ekki hefja alvöru starfsemi á ný fyrr en í fyrsta lagi einhvern tímann á næsta ári og geta ekki átt von á sambærilegum umsvifum í fyrirsjáanlegri framtíð? Er þetta forsvaranleg notkun á almannafé? Þurfa skattgreiðendur til dæmis að koma rútufyrirtækjum í „híði“ svo þeir geti, í samfloti við lífeyrissjóði og ríkisbanka, nýtt „híðið“ til að búa til ferðaþjónusturisa?
Neyðaraðstoð er ekki til að verja eigið fé
Við erum að taka mörg hundruð milljarða króna að láni vegna yfirstandandi aðstæðna. Samhugur er um að það sé verjandi til að standa vörð um velferðarkerfin okkar og til að reyna eftir fremsta megni að bregðast við þeim neyðaraðstæðum sem eru uppi í atvinnulífinu, þar sem fjórðungur vinnumarkaðarins er án atvinnu að öllu leyti eða hluta.
Þótt skilningur ríki á því að þetta muni kosta gríðarlega fjármuni, og að við sem yngri erum, og jafnvel börnin okkar, munum líkast til vera að greiða fyrir viðbragðskostnaðinn nú langt inn í framtíðina þá verðum við að gera þá skýlausu kröfu að almennilegt eftirlit sé með því hvernig fjármununum sé úthlutað og að gengið verði hart á þá sem misnota sér aðstæður til að verja eigin eignastöðu fyrst og síðast. Neyðarúrræði eru ekki fyrir fjármagnseigendur, þau eru fyrir samfélagið.
Það á að gera þá kröfu á stjórnvöld að þau fari vel með þá fjármuni sem við treystum þeim fyrir. Það á að gera kröfu á að þau herði allt eftirlit með þeim sem nýta sér neyðaraðgerðir stjórnvalda. Það á að gera þá kröfu að nýting allra aðgerða verði bundin því að ekki verði greiddur út arður eða keypt eigin bréf um nokkurra ára skeið.
En fyrst og síðast á að gera þá kröfu að fjársterk fyrirtæki í arðbærum rekstri skili neyðaraðstoðinni sem þau sóttu. Hún var ekki, og er ekki, fyrir þau.