Spilling er pólítísk ákvörðun

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður Pírata gerir upp árið 2020.

Auglýsing

Píratar berjast gegn spillingu vegna þess að þannig sköpum við betra og sanngjarnara samfélag þar sem allir sitja við sama borð. Við tryggjum að málefnaleg sjónarmið ráði för við ákvarðanatöku ríkisins með vörnum gegn spillingu. Við stuðlum að því að auðlindum þjóðarinnar sé útdeilt á sanngjarnan hátt með vörnum gegn spillingu. Við tryggjum að þau sem byggja þetta land hafi jöfn tækifæri gagnvart stjórnsýslunni, gagnvart löggjafanum, gagnvart dómstólum og gagnvart samfélaginu öllu með sterkum vörnum gegn spillingu. Og við vinnum sannarlega að sanngjarnara samfélagi með vörnum gegn spillingu. 

Píratar hafa aldrei og munu aldrei stunda pólitísk hrossakaup og sérhagsmunagæslu. Við munum aldrei láta annað en gagnrýna hugsun ráða för. Við tökum ákvarðanir út frá gögnum og þekkingu, ekki þrýstingi frá hagsmuna- og valdablokkum, andstætt því sem tíðkast í of mörgum íslenskum stjórnmálaflokkum. Í litlu samfélagi eins og Íslandi þar sem frændhygli og flokkadrættir eru allsráðandi eru slík stjórnmál ekki aðeins nauðsynleg, heldur líka arðbær. Því í spillingu felst gríðarlegt, fjárhagslegt tap fyrir samfélagið, sem gerir okkur fátækari, vanhæfari og óöruggari. 

Auglýsing

Spillingin er rándýr

Áætlað er að tekjutap hins opinbera á árunum 2006 til 2014 vegna eigna Íslendinga á aflandseyjum hafi numið um 56 milljörðum króna og á hverju ári gæti tapið vegna vantalinna skatta verið á bilinu 4,6 til 15,5 milljarðar króna. Peningar sem myndu skipta sköpum fyrir loftslagsmálin, heilbrigðiskerfið, nýsköpun, menntun og velferðarkerfið okkar, en stjórnvöld sýna þeim engan áhuga, eins og óþægilega löng vera okkar á gráum lista FATF sýndi glögglega. 

Áralöng vanræksla stjórnvalda gagnvart viðunandi vörnum gegn peningaþvætti – og milljarðarnir sem glötuðust af þeim sökum – var pólítísk ákvörðun. Það er líka pólitísk ákvörðun að aðhafast ekkert til þess að rannsaka öll þau mál sem gætu hafa farið fram hjá stjórnvöldum allan þann tíma sem eftirlit með peningaþvætti var í mýflugumynd.

Baráttan gegn spillingu er nefnilega ekki aðeins réttlætismál heldur líka gríðarstórt efnahagsmál. Þess vegna höfum við barist ötullega gegn spillingu og fyrir gagnsæi allt frá því að Píratar settust fyrst á Alþingi Íslendinga. En betur má ef duga skal. 

Seinagangur og símavinir

Reynsla undanfarinna ára sýnir ótrúlega sterka mótspyrnu ráðandi stjórnvalda við eðlilegum gagnsæiskröfum og ákalli á spillingarvarnir. Panamastjórnin sáluga er auðvitað grátbroslegt dæmi um ríkisstjórn sem var beinlínis leidd af tveimur aflandsbröskurum og því ekki að undra að grafið hafi verið undan eftirlitsstofnunum í hennar valdatíð, að eftirlit með peningaþvætti hafi verið í skötulíki og að rannsóknir á spillingar- og mútubrotum hafi einfaldlega ekki átt sér stað. Nú, eða að komið hafi í ljós að Íslendingar eiga hlutfallslegt heimsmet í fjölda reikninga í Panamaskjölunum.

Núverandi ríkisstjórn, sem lagði mikla áherslu á eflingu trausts til stjórnmála og viðskiptalífsins í stjórnarsáttmála sínum, hefur ekki uppfyllt þau fögru fyrirheit. Samkvæmt úttekt GRECO, samtaka Evrópuráðsins gegn spillingu, hefur ríkisstjórnin einungis sýnt lágmarks viðleitni til þess að uppfylla alþjóðlega staðla um varnir gegn hagsmunaárekstrum og spillingu hjá stjórnvöldum. Í sömu úttekt kemur fram, að ríkisstjórnin hefur algjörlega brugðist lögreglunni í öllu sem lýtur að spillingarvörnum. 

Þá staðfesti nýleg skýrsla OECD áratugalangt sinnuleysi stjórnvalda gagnvart rannsóknum á mútugreiðslum til erlendra opinberra starfsmanna. Sú skýrsla leiddi einnig í ljós að íslensk stjórnvöld tóku sér tvöfalt lengri tíma til þess að vinna úr beiðni namibískra yfirvalda um samstarf í Samherjamálinu heldur en almennt gerist, eða hálft ár í stað þriggja mánaða. Namibísk yfirvöld eiga greinilega enga símavini hjá íslenskum stjórnvöldum.

Núverandi stjórnvöld hafa endurtekið sýnt að þeim er hvorki treystandi fyrir því að taka á spillingu í stjórnmálum né viðskiptalífinu. Þau slugsa við varnir gegn hagsmunaárekstrum innan eigin raða, veikja mikilvægar eftirlitsstofnanir, setja eflingu trausts á stjórnmálum í nefnd en neita að setja nokkur viðurlög við því að brjóta gegn trausti almennings. Svo taka þau til við að grafa undan því trausti með samúðarsímtölum til símavina í Samherja eða myndatöku í auglýsingaboðsferð hjá Icelandair hotels og þykjast svo ekki skilja hvers vegna traustið er við frostmark. Þau segja eitt, en gera annað. 

Að segja eitt en gera annað

Fram undan er uppgjör við andstæður. Kosningarnar á næsta ári munu snúast um framtíðina en byggja á reynslu fortíðar. Hvernig flokkarnir hafa hagað sér og hvaða slagi þeir hafa tekið mun skipta meira máli en hvert flokkarnir segjast ætla að stefna. Komið er að sjaldséðum skuldadögum hjá fólkinu sem segist aðeins bera pólítíska ábyrgð á fjögurra ára fresti og hagar sér því af fullkomnu ábyrgðarleysi þess á milli.

Fólkið sem er í raun gangandi andstæður. Sækist eftir ábyrgð, skorast síðan undan ábyrgðinni og móðgast þegar bent er á það. Fólkið sem ærist þegar þingið veitir því aðhald, mætir ekki í hálaunuðu vinnuna sína af því að það nennir því ekki en vill svo rannsaka hvort öryrkjar vinni of mikið. Fólkið sem svívirðir konur og lögsækir öryrkja en þykist síðan tala máli þeirra á tyllidögum í pontu Alþingis. Fólkið sem segir eitt, en gerir annað.

Fólkið sem segir samstarf við Sjálfstæðisflokkinn óhugsandi en leitar síðan skjóls í Valhöll. Fólkið sem stingur höfðinu í sandinn þegar samstarfsfólkið stingur óþægilegum skýrslum undir stól. Krefst hærri veiðigjalda fyrir kosningar en lækkar þau svo við fyrsta tækifæri eftir kosningar. Talar fyrir öflugu velferðarkerfi en gerir Landspítalanum síðan að skera niður. Kallar „Atvinna, atvinna, atvinna“ en borgar svo fyrirtækjum fyrir að segja upp fólki. Talar gegn hækkun lægstu bóta en tekur viljugt við eigin launahækkunum. Stærir sig af femínisma en lítillækkar eina stærstu og mikilvægustu kvennastétt landsins í miðjum heimsfaraldri. 

Fólkið sem talar um ábyrgð gagnvart kjósendum en virðir ekki vilja kjósenda. Sem talar fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um flugvöll en hunsar þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrá. Segist ekki beita sér í einstaka málum en bjargar einstökum styrktaraðilum sínum. Hefur áhyggjur af virðingu Alþingis en ber ekki virðingu fyrir þjóðinni. 

Stjórnmálaómenning

Þetta þarf ekki að vera svona. Framundan er uppgjör við þessar andstæður. Það er ekki náttúrulögmál að stjórnmálamenn segi eitt en geri síðan annað. Það er ekki meitlað í stein að stjórnmálamenn axli aldrei ábyrgð á orðum sínum og gjörðum. Þetta er spurning um viðhorf, afstöðu til valds og ábyrgðar. Þetta er spurning um stjórnmálaómenningu sem hægt er að uppræta, strax á næsta ári.Nú, þegar aðeins ein meðganga er fram að kosningum, er fólk skiljanlega farið að spá í spilin. Hvernig ríkisstjórn verður hægt að mynda næsta haust? Hver geta unnið saman? Möguleikarnir eru margir, en eitt er þó alveg víst: Píratar eru ekki til í að gera hvað sem er með hverjum sem er fyrir valdastóla. Við höfum einfaldlega sýnt það í stjórnarmyndunarviðræðum, ólíkt öðrum flokkum. 

Það skiptir nefnilega engu máli hvað draumarnir eru stórir eða stjórnarsáttmálinn úthugsaður, allt drukknar það í valdatafli Valhallar. Sjálfstæðisflokkurinn er samofinn íslensku valdakerfi, innvígðir og innmúraðir sjálfstæðismenn stýra mörgum af stærstu fyrirtækjum og þrýstihópum landsins og við munum aldrei byggja upp réttlátt og spillingarlaust samfélag ef við aðskiljum ekki ríki og Sjálfstæðisflokk. Það er tími til kominn að gefa forstjóra Samherja tilefni til að hringja og spyrja um líðan sjávarútvegsráðherra. 

Píratar í ríkisstjórn

Píratar í ríkisstjórn munu stórauka gagnsæiskröfur á íslensk fyrirtæki innanlands og erlendis. Við munum efla eftirlit með fjármagnsflutningum milli landa og herða skattaeftirlit innanlands. Vegna þess að það margborgar sig. Píratar vilja banna þunna eiginfjármögnun, bókhaldsbrelluna sem stóriðjan notar til þess að koma sér undan skattgreiðslum hérlendis. Við munum efla varnir í peningaþvættismálum og auka eftirlit með viðskiptum við lágskattaríki.

Við munum að sjálfsögðu líka sjá til þess að ný stjórnarskrá, samin af þjóðinni, stjórnarskrárgjafanum, verði tilbúin til afgreiðslu við lok næsta kjörtímabils. Þar er einmitt að finna virka uppljóstraravernd, auðlindaákvæði sem hamlar auðlindabraski og lýðræðisbremsur almennings gagnvart þingi á rangri leið. 

Þetta þarf ekki að vera flókið

Okkur finnst þetta ekkert sérstaklega flókið. Allt sem Píratar gera; allar ákvarðanir, öll frumvörpin, allar fyrirspurnirnar og allt pönkið er fyrir venjulegt fólk. Það á að efla einstaklinga, auka réttindi þeirra og sjá til þess að kerfin okkar, sama hvað þau heita, létti fólki lífið. Framtíð Pírata byggir á gagnsæi, ábyrgð og réttindum einstaklingsins. Það er nefnilega nóg af öðrum þingmönnum sem mæta bara í vinnuna til að verja hagsmuni stórfyrirtækja, útgerðarinnar og fjármálageirans.

Það á að gera hlutina rétt. Það er pólitík Pírata. Ekki með því að giska hvað er best heldur með því að undirbúa sig vel og rökstyðja. Þú ferð ekki vel með almannafé með því einu að segjast ætla að gera það, þú þarft að sýna fram á það. Pólitík Pírata felst ekki í því að búa til reglur sem líta þokkalega út á pappír og þverbrjóta þær svo ef þær reynast koma sér illa fyrir bestu vini aðal.  

Nýtt ár, ný tækifæri

Yfirstandandi heimsfaraldur hefur reynt á heimsbyggðina alla og kippt fótunum undan fjölda fólks og heilu atvinnuvegunum hér á landi. Hann hefur einnig hrist upp í heimsmyndinni og sýnt okkur að ekki er endilega best að hjakka bara áfram í sama fari og áður, sem núverandi ríkisstjórn virðist þó harðákveðin í að gera.  Hún er ófær um að hugsa í nýjum lausnum enda felast hagsmunir hennar í því að halda lífinu í ríkjandi en úr sér gengnu valdakerfi.

Valdakerfi sem stendur fyrst og fremst vörð um sjálft sig, viðheldur spillingu og ójöfnuði og svífst einskis þegar það telur sér ógnað, hvort sem það er af hálfu stjórnvalda, fjölmiðla eða annarra.  Sem svarar með hroka og stælum, afsalar sér ábyrgð, bendir í allar áttir í skollaleik þeirra sem aldrei taka ábyrgð á gjörðum sínum og virðast hafa það sem sitt eina markmið að verja kerfið fyrir fólkinu sem það á að þjóna. Og ef gengið er of nærri þeim sem valdið hafa er splæst í gott lögbann. Hótað málsókn. Ráðist að persónu fólks og heiðri og því gerður upp illur ásetningur.

Við Píratar segjum það sem við meinum og gerum það sem við segjum. Umbúðalaust. Við köllum eftir svörum svo ákvarðanir séu upplýstar og ef við sjáum spillingu eða misnotkun á valdi þá bendum við á það. Það er ekki alltaf vinsælt en það er nauðsynlegt. Og það er af nógu að taka. Landsréttarmálið, Panama- og Samherjaskjölin, feluleikurinn með skattaskjólsskýrsluna, uppreist æru barnaníðinga, lögbann á Stundina, grái listinn hjá FATF, Klausturbar og fleira og fleira og fleira. Íslendingar eiga skilið betri, gagnsærri og ábyrgari stjórnmál – strax á næsta ári. 

Því við megum ekki gefast upp.

Vegna þess að við höfum tækifæri til þess að bæta samfélagið. Til þess að krefjast raunverulegra breytinga. Til þess að kalla eftir ábyrgð stjórnvalda og til þess að þrýsta á að nýja stjórnarskráin taki gildi. Ef við gefumst upp á lýðræðinu, á þinginu og á voninni þá vinna þau sem við vitum öll að eru ekki að vinna fyrir okkur.

Að þessu sögðu: Gleðileg jól og farsælt komandi kosningaár!Höfundur er þingmaður Pírata

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Ljóð til styrktar Konukoti og Frú Ragnheiði
Safnar er fyrir ljóðabókinni „Skugga mæra – skjáskot af jaðrinum“ á Karolina Fund.
Kjarninn 13. júní 2021
Róbert Wessman er forstjóri Alvogen og Alvotech.
Alvotech tapaði ellefu milljörðum króna í fyrra
Lyfjafyrirtækið Alvotech dró verulega úr tapi sínu í fyrra með að nýta yfirfæranlegt skattalegt tap. Eiginfjárstaða félagsins batnaði mikið, aðallega vegna breytinga á skuldum við tengda aðila.
Kjarninn 13. júní 2021
Jón Ormur Halldórsson
Stóra skákin – Átökin í kringum Kína
Kjarninn 13. júní 2021
Vladímír Pútín, forseti Rússlands, tekur í höndina á Joe Biden, þáverandi varaforseta Bandaríkjanna, í Moskvu fyrir tíu árum síðan.
Af hverju vilja Rússar alltaf vera í vörn?
Bandaríkjamenn og Rússar reyna nú að koma samskiptum ríkjanna í samt lag. Rússnesk stjórnvöld hafa þó lítinn áhuga á því að Rússland verði lýðræðissamfélag eftir höfði Vesturlanda – styrkur þess liggi í að vera óútreiknanlegt herveldi.
Kjarninn 13. júní 2021
Pigekoret, stúlknakór danska ríkisútvarpsins, með núverandi kórstjóra.
Skuggar fortíðar í stúlknakórnum
Michael Bojesen, einn þekktasti hljómsveitarstjóri Danmerkur og núverandi forstjóri Malmö óperunnar er kominn í ótímabundið leyfi. Ástæðan er frásagnir stúlkna sem voru í Stúlknakór danska útvarpsins undir hans stjórn frá 2001 – 2010.
Kjarninn 13. júní 2021
Jón Gunnarsson og Bryndís Haraldsdóttir.
Jón og Bryndís í öðru og þriðja sæti
Jón Gunnarsson endaði í öðru sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi og Bryndís Haraldsdóttir í því þriðja. 80 prósent kjósenda settu Bjarna Benediktsson í fyrsta sætið.
Kjarninn 13. júní 2021
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra fékk 82 prósent atkvæða í fyrsta sætið í prófkjörinu, samkvæmt fyrstu tölum.
Bjarni, Jón og Bryndís efst samkvæmt fyrstu tölum
Kjörstöðum hefur nú verið lokað í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi. Bjarni Benediktsson, Jón Gunnarsson og Bryndís Haraldsdóttir skipa þrjú efstu sætin nú þegar tæpur þriðjungur atkvæða hefur verið talinn.
Kjarninn 12. júní 2021
Kári Árnason
Einkareknar forvarnir
Kjarninn 12. júní 2021
Meira úr sama flokkiÁlit