Boðað var til kosninga í september 2017 með skömmum fyrirvara. Þær skyldu fara fram í október sama ár. Þetta gerðist eftir að enn eitt hneykslismálið sem hverfðist um formann Sjálfstæðisflokkinn hafði komið fram. Nú var það hið svokallaða uppreist æru-mál, sem sprengdi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.
Í stuttu máli snérist það um að Sigríður Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, sagði Bjarna Benediktssyni, þáverandi forsætisráðherra, í júlí 2017 að faðir hans hefði skrifað meðmæli fyrir dæmdan barnaníðing sem óskaði eftir uppreist æru. Engin lög eða reglur eru til sem segja að dómsmálaráðherra beri að upplýsa forsætisráðherra um slík mál umfram aðra. Á sama tíma stóð sami dómsmálaráðherra í vegi fyrir því að fjölmiðlar, almenningur, þolendur brotamanna sem höfðu fengið uppreist æru og aðrir þingmenn fengu þessar upplýsingar.
Í september sama ár komst Úrskurðarnefnd um upplýsingamál að þeirri niðurstöðu að afhenda ætti fjölmiðlum umrædd gögn. Í kjölfarið var ofangreint opinberað, Björt framtíð sleit stjórnarsamstarfinu og kosið var í annað sinn á tveimur árum.
„Þetta er feðraveldið gegn börnum,“ sagði einn viðmælandi Kjarnans sem sat fund flokksins þar sem sú ákvörðun var tekin.
Banvæn blanda viðskipta og stjórnmála
Í aðdraganda kosninganna, nánar tiltekið 6. október það ár, héldu Vinstri græn landsfund.
Sama dag hafði Stundin birt umfjöllun um viðskipti sem Bjarni Benediktsson hafði átt með bréf í Sjóði 9 í aðdraganda hrunsins. Umfjöllun sem byggði á gögnum sem sýslumaðurinn í Reykjavík samþykkti síðar að setja lögbann á frekari umfjöllun um. Það lögbann var ári síðar úrskurðað ólögmætt.
Á landsfundinum hélt Svandís Svavarsdóttir, þungavigtarmanneskja innan Vinstri grænna, ræðu um banvæna blöndu viðskipta og stjórnmála þar sem hneykslismál tengd Bjarna voru í brennidepli. „Enn eina ferðina sáum við vörn formanns Sjálfstæðisflokksins þar sem hann var kominn út í horn í réttlætingu fyrir því að það kæmi til álita að auðmaður gætti sinna eigin persónulegu hagsmuna á sama tíma og hann væri við borð almannahagsmuna. Eina ferðina enn talaði hann um það að hann myndi ekki eftir 50 milljónum króna. Í fyrra hafði hann gleymt 40 milljónum sem voru í Panamaskjölunum [...] þessar tölur eru nálægt því kannski að vera ævisparnaður vinnandi fólks á Íslandi. Það eru tölur sem formaður Sjálfstæðisflokksins gleymir.“
Lífsnauðsynlegt að koma Sjálfstæðisflokk út úr stjórnarráðinu
Þetta sagði Svandís að væri til áminningar um það að auðstéttin á Íslandi hafi ráðið allt of miklu allt of lengi á Íslandi. „Þegar Bjarni Benediktsson bað Jóhönnu Sigurðardóttur að skila lyklunum að stjórnarráðinu þá var það ekki bara vegna þess að honum fannst það pólitískt, heldur vegna þess að honum fannst það persónulega. Honum fannst það persónulega að hann ætti lyklana að stjórnarráðinu vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ráðið lögum og lofum í stjórnarráðinu allt of lengi, og raunar svo lengi á lýðveldistímanum að það er beinlínis óhollt fyrir íslenskt samfélag hversu mikil undirtök sá flokkur hefur haft.“
Þessi banvæna blanda hafði, að sögn Svandísar, afhjúpast í aðdraganda hrunsins 2009, þegar Panamaskjölin komu upp og aftur þegar uppreist-æru málið skall á. „Þetta er endurtekið stef í íslenskum stjórnmálum að þessi blanda er banvæn. Og henni verður nú að linna. Nú er kominn tími til að koma Sjálfstæðisflokknum varanlega í fleiri en eitt kjörtímabil út úr stjórnarráðinu. Það er lífsnauðsynlegt fyrir íslenskt samfélag að gera það. Nú er lag, skoðanakannanir segja okkur það, nú höldum við fókus og löndum þessum prósentum inn í kosningum og gerum Katrínu að forsætisráðherra. Það er mikilvægt fyrir Ísland.“
Ræðunni var fagnað með miklu lófaklappi. Hana má sjá hér að neðan.
Nafnlausi áróðurinn sem virkaði
Þegar loks var kosið fengu Vinstri græn mun minna en þau höfðu haft væntingar til, eða 16,9 prósent atkvæða. Flokkurinn varð næst stærsti flokkur landsins, og þetta var næst besta útkoma hans í sögunni, en Sjálfstæðisflokkurinn endaði með 8,3 prósentustigum meira.
Í bókinni Hreyfing rauð og græn – Saga VG 1999-2019 eftir Pétur Hrafn Árnason sagnfræðing, sem kom út í desember 2019, var ástæða þess að þetta gerðist rakin.
Nafnlaus áróður gegn Katrínu Jakobsdóttur og Vinstri grænum, sem birtur var á samfélagsmiðlum og annars staðar á netinu í aðdraganda kosninganna 2017, hafði virkað.
Í bókinni kemur fram að þetta hafi verið mat Katrínar sjálfrar sem benti þar á að fylgi flokksins hafi fallið jafnt og þétt eftir að áróðurinn, myndbönd sem snérust um „Skattaglöðu Skatta-Kötu“, hófu að birtast. Í myndböndunum var „Skattaglaða Skatta-Kata“ sögð klifa á skattahækkunum og hóta eignaupptöku að sósíalískri fyrirmynd.
Í bókinni sagði: „Í lok eins myndbandsins runnu samklippur úr ræðum Katrínar á Alþingi inn í níð frá búsáhaldarbyltingu og myndum af upplausnarástandi með brennandi íslenska krónu í miðpunkti.“
Enn þann dag í dag hefur ekki verið opinberað með fullri vissu hverjir stóðu á bakvið félagsskapinn Kosningar 2017, sem bjó til áróðursmyndböndin og greiddi fyrir mikla dreifingu þeirra. Sú ríkisstjórn sem tók við eftir kosningarnar ákvað að það væri ekki lýðræðislega mikilvægt að komast til botns í því.
Það liggur þó fyrir að þar fóru stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins, enda beindist áróðurinn allur að þeim pólitíska andstæðingi sem ógnaði tökum hans á völdum mest hverju sinni.
„Mér finnst bakþankar leiðinlegir“
Þegar kom að stjórnarmyndun skipti ekki lengur máli „að koma Sjálfstæðisflokknum varanlega í fleiri en eitt kjörtímabil út úr stjórnarráðinu“. Það var ekki lengur lífsnauðsynlegt fyrir íslenskt samfélag að gera það. Hin banvæna blanda viðskipta og stjórnmála sem holdgervðist í Sjálfstæðisflokknum 6. október 2017 var gleymd mánuði síðar. Þess í stað var það talin ábyrg afstaða að klappa kvalara sínum, þeim sem Vinstri græn töldu að hefðu borið ábyrgð á fylgisfalli sínu síðustu dagana fyrir kosningar.
Í áðurnefndri bók um sögu Vinstri grænna var rætt við Svandísi um myndun ríkisstjórnar með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki. Þar sagði hún að efasemdir hennar um stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokki hafi fljótlega farið að eyðast eftir að samkomulag náðist um að Katrín fengi að verða forsætisráðherra. „Mér fannst þetta vissulega djörf ákvörðun en að sama skapi ótrúlega spennandi. Um leið og við vorum svo komin yfir þann hjalla að vega og meta hvort skyldi leggja út í þetta þá vann ég að því heils hugar. Mér finnst bakþankar leiðinlegir.“
Steingrímur J. Sigfússon, helsti hvatamaður að stofnun Vinstri grænna og formaður flokksins fyrstu tæpu fjórtán árin sem hann var til, var gerður að forseta Alþingis eftir stjórnarmyndunina. Hann sagði í bókinni að það ætti ekki að einblína á að flokkarnir tveir sem verið var að fara að mynda ríkisstjórn með þeim sem bæru ábyrgð á hruninu. Það hafi ekki verið flokkarnir „sem stofnanir sem ollu hruninu heldur sú stefna sem ákveðnir einstaklingar reyndu að framfylgja“.
Ekki væri hægt að festast í sögulegri hefndarhyggju.
Að hlusta af virðingu á fólk sem hugsar ekki alveg eins
Vinstri græn hafa breyst mikið á síðustu fimm árum. Pólitísk orðræða flokksins snýst ekki lengur um kerfisbreytingar, banvæna blöndu viðskipta og stjórnmála eða lífsnauðsynlega siðvæðingu stjórnmálanna. Það eru samtöl fyrir öfundarfólkið sem sér ekki veisluna og er alltaf með glasið hálf tómt. Nú snýst orðræðan í mun meira um að segja fólki að það hafi það ógeðslega gott þrátt fyrir að margir nái ekki endum saman, að mikilvægast í pólitík sé að sýna ábyrgð með stjórnarþátttöku og verða svo pirruð, jafnvel sár, þegar þeir sem hafa orðið fyrir gríðarlegum vonbrigðum með umbreytingu flokksins segja það upphátt. Þau varnarorð sem Vinstri græn fengu í byrjun stjórnarsamstarfsins frá velviljuðu fólki, um að einangra ákvarðanir ekki í litlum hópum, velja fleiri en þröngan hóp já-fólks sem ráðgjafa, forðast „bönker“-stemningu innan flokksins og leggja allt heila klabbið ekki einvörðungu á herðar Katrínu Jakobsdóttur hafa öll verið hunsuð. Allt sem varað var við, hafa þau gert.
Eitt skýrasta merki um þessar breytingar má finna í ræðu sem Katrín Jakobsdóttir flutti á flokksráðsfundi flokksins, sem fram fór 20. maí síðastliðinn.
Hvað eru Vinstri græn í dag án Katrínar?
Niðurrifsstjórnmálin eru sú krafa um kerfisbreytingar, réttlæti og heiðarleika sem Vinstri græn stóðu fyrir haustið 2017 og skilaði því að flokkurinn varð næst stærstur á Íslandi. Stjórnmálin sem flokkurinn hefur síðan, í hröðum en öruggum skrefum, fjarlægst svo mikið að hann er nú á móti þeim. Þótt aðrir flokkar sem teljast til niðurrifsstjórnmála hafi ekki unnið mikla sigra í síðustu kosningum þá bætti hluti þeirra við sig fylgi og enginn tapaði neinu í líkingu við það sem Vinstri græn gerðu.
Flokkurinn mældist með 7,2 prósent fylgi í könnun Gallup í júní, sem er lægsta fylgi sem flokkurinn hefur nokkru sinni mælst með í könnun þess fyrirtækis. Flokkurinn hresstist aðeins í síðasta mánuði, en er samt sem stendur að mælast með fylgi undir sínum versta árangri í kosningum til þessa. Þetta fylgi byggir á eftirstandandi persónufylgi Katrínar Jakobsdóttur. Kosningaherferð Vinstri grænna fyrir síðustu þingkosningar snérist einvörðungu um að það skipti máli að Katrín myndi stjórna áfram.
Hörmuleg niðurstaða Vinstri grænna í sveitarstjórnarkosningunum, þar sem flokkurinn fékk einn hreinan kjörinn fulltrúa á höfuðborgarsvæðinu, sýnir þessa stöðu svart á hvítu. Hverfi Katrín, og mögulega Svandís, úr stjórnmálum á næstu árum er erfitt að sjá hvað flokkurinn á að vera, fyrir hvað hann eigi að standa eða hverjir eigi að leiða hann.
Að skipta um persónuleika til að færa mörk
Að því leyti má taka undir orð forsætisráðherra að niðurrifsstjórnmálin, sem skiluðu því um tíma að yfir fjórðungur kjósenda ætlaði sér að gera Vinstri græn að stærsta stjórnmálaflokki landsins, hafi beðið skipsbrot. Það skipsbrot felst í því að Vinstri græn skiptu um lið og fóru að vinna ítrekað gegn flestu sem flokkurinn hafði áður sagst standa fyrir. Pólitískir andstæðingar urðu samherjar og fyrrum samherjar nýju andstæðingarnir. Nokkurs konar pólitísk persónuleikaröskun átti sér stað.
Í könnunum birtist skoðun fólks á þeirri ákvörðun Vinstri grænna að velja það að hlusta af virðingu á fólk sem hugsar ekki alveg eins. Skoðun fólks á innantómum loforðum í loftslags- og nátturuverndarmálum og afstöðu flokksins til NATO, sem eru í algjörri andstöðu við grunnstefnu flokksins. Skoðun fólks á skattalækkunum og öðrum efnahagsaðgerðum sem hafa fyrst og síðast gagnast efstu tekju- og eignarhópum samfélagsins. Skoðun á því að í dag eru 46 prósent landsmanna í lægsta tekjuhópnum annað hvort að ganga á sparnað eða safna skuldum til að hafa í sig og á. Skoðun fólks á því að hlutdeild vinnandi fólks í framleiðninni hafi farið minnkandi.
Skoðun á vangetu ríkisstjórnarinnar sem Vinstri græn leiða til að endurskipuleggja fjármálakerfið með hag neytenda að leiðarljósi eða aðgerðarleysi hennar við að ná fram réttlátri skiptingu á arðsemi sem fellur til vegna nýtingar á þjóðarauðlind. Skoðun á því að þrátt fyrir digurbarklegar yfirlýsingar hafi flestar innleiddar aðgerðir um aukið gagnsæi, aukna pólitíska ábyrgð, uppbyggingu trausts og siðvæðingu stjórnmála verið innantómar þegar kemur að framkvæmd.
Allt svo þau geti hlustað af slíkri áfergju á fólk sem hugsar ekki alveg eins að það sést stundum vart lengur hvar Vinstri græn byrja og Sjálfstæðisflokkurinn endar.
Hlustun og breytingar sem fyrrverandi framkvæmdastjóri Vinstri grænna spáði með frægum hætti fyrir um strax haustið 2017 þegar hún sagði að flokkurinn yrði ítrekað í þeirri stöðu að „að verja samstarfsflokkinn og mörkin munu sífellt færast til í samstarfinu líkt og í ofbeldissambandi. Þetta verður eins og að éta skít í heilt kjörtímabil, ef stjórnin endist svo lengi. Með ákvörðuninni um stjórnarviðræður setti flokkinn niður, trúverðugleikinn laskaðist verulega og vinstrið á Íslandi mun eiga erfitt uppdráttar næstu árin og áratugina.“