Ég bara hangi í hárinu á þér
Jón Kalman Stefánsson rithöfundur skrifar um íslensk stjórnmál. Þar sem traktorinn heitir Sjálfstæðisflokkur, hægra afturdekkið eru Vinstri grænir, það vinstra Framsókn, annað framdekkið heimska, hitt aulabárðar.
Strákar, eigum við ekki að lyfta þeirri svörtu, hvað áttu við, æ, maður segir bara svona, lyfta þeirri svörtu, lyfta Bankasýslunni, lyfta Bjarna Benediktssyni, þarf þá að lyfta honum, nei, líklega ekki, en kannski þessum fatlaða, lyfta honum og skutla til Grikklands, og þessum tveimur stelpum, varla talandi á íslensku, lyftum þeim, og honum upp úr hjólastólnum, enda er hann í eigu ríkisins, maðurinn, nei, hjólastóllinn, lyftum þessu öllu, en ekki Bjarna, nei, þess þarf ekki, þau eru svo góðir vinir, þau Katrín Jakobsdóttir, þeirra vinátta bindur saman vinstri og hægri, vinstri íhald og hægri íhald, þeirra vinátta gerir þá ríkari ríkari, hún verndar Samherja og Brim, Brim sem rekur þá sjómenn sem sýna tilfinningar, veit ekki, ekki spyrja mig, en lyftum þeirri svörtu, þurfum ekki að lyfta Bjarna, hann er svo hávaxinn og þau svo traustir vinir, hann og Katrín, eða eins og skáldið sagði, traustur vinur, getur gert kraftaverk, bundið saman umhverfisvernd og virkjun, nýfrjálshyggju og gamlan sósíalisma, hún getur bjargað Bankasýslunni, gert þá ríku ríkari, gert pabba Bjarna ríkari, lyftum þeirri svörtu því Katrín og Bjarni eru vinir, þau lyfta stöðugleikanum, sagði skáldið að traustur vinur gæti gert kraftaverk, nei það var í gömlu lagi, ekki skáld þá, nei, ekki skáld, eigum við að lyfta skáldunum, nei nei, ekki þeim, bara þeirri svörtu, afhverju þá, veit ekki, kannski vegna þess að ég er pínu fullur, hún er svört, það er soldið fyndið, aldrei nein svört í sveitinni, eigum við þá að lyfta henni, æ, hvað er fallegra en vináttan?
Þetta getur ekki klikkað, því þú komst við hjartað í mér
Ég bara hangi í hárinu á þér, og sjórinn er fyrir neðan, orti Stefán Hörður Grímsson á síðustu öld, veit ekki alveg afhverju sú lína sækir núna á mig núna, þegar ég hugsa um vináttu, um að lyfta þeirri svörtu, og les um methagnað í sjávarútvegi í fyrra, upp á 65 milljarða eftir skatta og gjöld, hefði mátt byggja spítala fyrir það, bæta vegasamgöngur, halda nokkrar góðar veislur, en því miður, einungis fjórðungur af þeim milljörðum skilaði sér til þjóðarinnar, restin í vasa örfárra einstaklinga, þrátt fyrir að sú auðlind sem fyrirtækin nýta sér sé skilgreind sem sameign þjóðarinnar í Stjórnarskrá Íslands, en líklega tekur enginn þessa stjórnarskrá alvarlega því hagsmunir ráða alltaf; þeir eru okkar raunverulega stjórnarskrá; og ég bara hangi í hárinu á þér. Línan sú sækir á mig þegar ég hugsa um vináttu Bjarna og Katrínar, og um Sigurður Inga einhverstaðar að lyfta þeirri svörtu.
Hún er sögð það sterk, sú vinátta, að hún límir ríkisstjórnina saman, án þeirrar vináttu myndi allt sundrast og við steypast ofan í óvissu. Enda urðu margir órólegir, ef ekki skelkaðir, þegar Guðlaugur Þór bauð sig fram gegn formanni sínum nú á haustdögum. Sigri Guðlaugur er kannski úti um ríkisstjórnina; eða það voru skilaboðin sem bárust úr öllum áttum, líka innan úr röðum Vinstri grænna, frá áhyggjufullum Framsóknarmönnum, Sigurður Ingi sagði að vísu fátt, en einhver heyrði hann muldra, ég bara hangi í hárinu á þér, eigum við ekki að lyfta þeirri svörtu?
Og þá dettur manni í hug að vináttan sem bindur saman ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur sé efni í fallegt lag, og það jafnvel lag sem Páll Óskar er þegar búinn að semja; við setjum það á í útgáfu Hjaltalín; og þegar þú komst inn í líf mitt breyttist ég:
Þú komst, þú komst við hjartað í mér;
ég þori að mæta hverju sem er!
Upphrópunarmerkið er frá mér komið, biðst afsökunar á því, fór aðeins framúr sjálfum mér í geðshræringunni þegar ég sá Katrínu og Bjarna fyrir mér syngjandi lagið hvort til annars, og Sigurður Ingi dansandi fyrir aftan þau, alltaf með þessa furðulegu línu, eigum við ekki að lyfta þeirri svörtu, eins og hann geti ekki hætt að segja það, og strákarnir, þeir hlæja, þeim finnst þetta svo fyndið, alveg geggjað, svört kona á Búnaðarþingi, algerlega geggjað, eigum við ekki að lyfta henni og taka mynd; en það kom sannarlega við hjartað í mér að heyra af áhyggjum fólks yfir því, og það langt út fyrir raðir Sjálfstæðismanna, að ef Guðlaugur Þór sigraði Bjarna tæki óvissan við, og stöðugleikinn í hættu.
En Bjarni sigraði auðvitað, hann sigrar eiginlega alltaf, he´s the man, eins og sagt var í Keflavík hér í den – Here comes your man sungu þau í Pixies fyrir Katrínu og Vinstri græna. Bjarni var jólagjöfin þeirra í ár, en Guðlaugur Þór yppti bara öxlum og settist aftur í ráðuneyti sitt. Man ekki í augnablikinu hvað það ráðuneyti heitir, og hvort það heldur utanum umhverfisvernd eða virkjanir. Held raunar að Guðlaugur viti það ekki sjálfur, fékk þetta ráðuneyti í fangið fyrir tveimur árum, Vinstri grænir sögðu við Bjarna, æ, við bara meikum ekki umhverfisverndina, of mikil ábyrgð, of erfiðar ákvarðanir, og truflar líka laxeldið sem við viljum í hvern fjörð, það er alveg dúndurgróði í laxeldinu, og hvað er fallegra en að sjá þúsundir laxa synda í endalausa hringi frá vöggu til grafar – það sluppu að vísu 80 þúsund laxar úr einu sjóeldinu, sem er rosalegt, sem er áfall, enda brást ríkisstjórnin skjótt við og dró til baka ákvörðun sína um að hækka gjaldtöku á sjókvíaeldi í haust; hækkun sem átti að skila um 800 milljónum króna til samfélagsins.
Auðvitað var hætt við það, rosalegt áfall að missa 80 þúsund laxa, og ég geri ráð fyrir að forstjóri eða þá upplýsingafulltrúi Arnarlax hafi sett sig í samband við Katrínu eða Guðlaug eða Bjarna eða Sigurð Inga og sagt, 80 þúsund laxar horfnir, totally gone, de er borte, og þið ætlið í ofanálag að hækka gjöld á okkur líka, viljiði ekki bara skjóta okkar strax, ha, nei nei, auðvitað ekki, ég er líka upptekinn við að lyfta þeirri svörtu og þetta er rétt hjá ykkur, nóg að þið þurfið að þola eilífar árásir hatursmanna hagvaxtar og landsbyggðar með fullyrðingar um að laxeldi í sjó sé svo hroðalega mengandi að engin þjóð leyfi það lengur, sem er rugl og heimska og líklega bara öfund því það er sjóðandi gróði í sjóeldinu, gróði sem stoppar kannski ekki við í heimahéraði, heimurinn er ekki fullkominn, en hinu ríku halda þó áfram að verða ríkari og þá græða allir á endanum, nema kannski heimahéraðið, og samfélagið og náttúran, það er alveg rétt hjá þér en samt er þetta tóm öfund og ætlið þið í alvöru að láta okkur borga gjöld af ofsagróðanum, eru Hagsmunir ekki Stjórnarskrá Íslands, ha, jú, þeir eru það, alveg rétt, er þá engin virðing borin fyrir henni, á bara að vaða yfir okkur sem höldum hana í heiðri; hey, no worries, ég held bara áfram að lyfta þeirri svörtu, ekki hafa áhyggjur, við snarhættum við hækkun á gjaldtökunni og ég veit að Vinstri grænir styðja heilshugar sjókvíaeldi, þeim finnst svo róandi að horfa á lax sem hefur það eitt markmið að éta og synda í hringi, það er nefnilega svo frábær lýsing á flokknum okkar, segja þeir og komast við.
Þannig að, aftur, no worries, og geri ráð fyrir að Bjarkey eða einhver frá Vinstri grænum hafi hringt í ykkur hjá Arnarlaxi, eins og Kristán Þór Júlíusson, þáverandi sjávarútvegsráðherra gerði þegar Samherji lá undir illvígum árásum vegna þess að þeir voru bara duglegir að veiða fisk í Namibíu; hringdi í Arnarlax og spurði, eins og Kristján Þorstein Má á sínum tíma, elsku vinur, er allt í lagi með þig? Allt í lagi, hvað heldurðu, við misstum 80 þúsund laxa sem synda upp í árnar í kring og óhreinkast með því að blandast laxinum þar, við erum í sjokki, og það þykir engum vænt um okkur lengur. Iss, þetta er allt í lagi, við lyftum bara þeirri svörtu og drögum hækkanir á gjaldtöku til baka; æ, þú kemur við hjartað í mér, segir símsvarinn hjá Arnarlaxi, og þá varð Bjarkey svo glöð að hún lofaði N4 sjónvarpsstöðinni 100 milljónum, svo þau geti hjálpað til við að lyfta þeirri svörtu. Here comes your man; þetta getur ekki klikkað, ég bara hangi í hárinu á þér, hvað er fallegra en vináttan?
Stöðugleikinn er traktor, heyvagninn og Jón Gunnarsson
Ég myndi segja – stöðugleikinn. Ha, hvað áttu við, hvað með hann, stöðugleikann, ég myndi segja, já, margir segja, að hann væri í það minnsta jafn fallegur og vináttan, ef ekki fallegri!
Hver sagði það?
Kannski Katrín Jakobsdóttir, en manstu hvað það var geggjuð sena, sena ársins jafnvel, þegar Sigurður Ingi var nýbúinn að lyfta þeirri svörtu og þurfti síðan að útskýra hvernig það kom til; hann kom út úr Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötuna, fyrir utan beið fjölmiðlafólkið og vildi knýja hann svara, því kannski var ekkert sniðugt að lyfta þeirri svörtu, þótt við strákarnir hefðum vissulega hlegið okkur alveg máttlausa, meina, aldrei nein svört í sveitinni hér í den, nema, þarna kemur Sigurður Ingi, nýbúinn að senda frá sér yfirlýsingu á Facebook þar sem hann segist sjá eftir öllu, en maður spyr ekki að fjandans fjölmiðlunum, þeir vilja alltaf meira, algerlega óseðjandi svarthol, fyrir hverja starfa þeir eiginlega, fjölmiðlarnir, það er sko drullugóð spurning því þeir virðast nefnilega ekki starfa fyrir neinn og ég spyr, er það ekki hættulegt lýðræðinu, og í ofanálag neita sumir þeirra að samþykkja okkar túlkun á Stjórnarskránni, hvaða túlkun, að hagsmunirnir séu Stjórnarskráin, þeir neita því þá, já, helvítis óbermin, algjörlega hárrétt; þeir geta verið plága, en hafa þeir ekki verið kallaðir fjórða valdið, jú, einmitt, my point extactly, alveg óseðjandi í valdafíkn sinni og þessvegna viljum við Framsóknarmenn láta N4 fá 100 milljónir, og Vinstri grænir líka, ekki satt, jú, alveg rétt, þeir hjá VG eru að verða jafn frábærir og við, það kemur við hjartað í mér þegar ég hugsa um það, þeir fara svo hiklaust framhjá fagmennsku, vönduðum vinnubrögðum, öllu þessu sem hægir á okkur. Þetta er svo satt hjá þér, en samt eru ekki allir sammála, Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, sem er fyrrum blaðakona eða eitthvað, sagði til dæmis að það sem særi mest í N4 málinu sé ekki spillingin, heldur heimskan, það er hægt, sagði hún, „að varpa ljósi á spillingu og stundum uppræta hana, en það er erfiðara að uppræta hreina og klára heimsku.“
Áramótapistill Jóns Kalmans Stefánssonar árið 2021:
Var hún þá að kalla okkur heimsk, ég held það, svei mér þá, skandall, algjörlega, en kannski eruð þið bara fyrst og síðast aular. Hver sagði það? Eiríkur heitinn Guðmundsson útvarpsmaður og skáld, sagði einhverju sinni við sambærilegan gjörning þingmanna; þið eruð aular. Mér finnst nú helvíti hart að kalla okkur heimska aula, já, það er rétt hjá þér, og þau tvö hefðu aldrei þorað að lyfta þeirri svörtu eða senda 100 milljónir norður vegna þess að mágkona Framsóknarflokksins bað um það, meina, til hvers höfum við fjölskyldu, akkúrat, akkúrat; en ég myndi segja að stöðugleikinn væri annað orð yfir vináttu.
Sagði Katrín það? Eða var það Bjarkey? Er þessi Bjarkey mágkona Framsóknarflokksins, jú, líklega, eða eins og einhver sagði; Vinstri grænir og Framsókn eru öflugu dekkin undir þeim traktor sem Sjálfstæðisflokkurinn er, dragandi á eftir sér heyvagninn Hagsmuni. Þetta er geggjuð líking, þetta var ekki líking, hvað þá, veit ekki, þitt að skilgreina. En hvað er stöðugleiki? Ja, að lyfta þeirri svörtu, tryggja framgang N4, að Arnarlax geti sleppt fleiri löxum, að gróði stóru sjávarútvegsfyrirtækjanna fái að vaxa stöðugt, og að á síðasta áratug hafi ríkasta eitt prósentið að líkindum tekið til sín um helming allra fjármagnstekna, sem er geggjað, og svo gaman og fallegt og kemur við hjartað í mér að sjá VG og Framsókn snúast af afli sínu undir þeim traktor sem Sjálfstæðisflokkurinn er, hagsmunir, nýfrjálshyggjan á sólbekk á heyvagninum.
En í alvöru, hvað er stöðugleikinn annað en vinátta, ja, stöðugleikinn er til dæmis það þegar allir breytast einhvernveginn í Sjálfstæðisflokkinn; hann er það að ef Kristján Þór er ekki sjávarútvegsráðherra til að passa upp á brothætta hagsmuni Samherja, þá er Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra og sá kann að lyfta hlutum, ekki bara þeim svörtu, heldur öllu þessu flóttafólki, rífur þau upp úr hjólastólum, út úr skólum, sendir þau í skjóli myrkurs suður til Grikklands, á götuna þar; og þessvegna var auðvitað klappað fyrir honum á landsfundi Sjálfstæðismanna og Bjarni hrósaði honum sérstaklega fyrir dugnað í starfi, þú ert maðurinn, hrópaði hann; here comes the man! Hvað er stöðugleiki, ja, má ekki segja að Jón Gunnarsson sé stöðugleiki, hann er það að taka við færri flóttamönnum vegna stríðsins í Úkraínu en til að mynda 14 OECD-lönd sem eru fátækari en við, þannig að stöðugleikinn er Jón Gunnarsson og síðan Katrín Jakobsdóttir í sjónvarpinu að sannfæra þjóðina um að hér ríki jöfnuður, að fáir taki á móti jafnmörgum flóttamönnum, að Bjarni sé hávaxinn, að Sigurður Ingi hafi bara óvart spurt hvort það ætti að lyfta þeirri svörtu, já, auðvitað leiðinlegt með þessa flóttamenn, en stöðugleikinn er bara mikilvægari en líf þeirra. Og einhver spyr Katrínu, því hún er ekki bara flugmælsk heldur áhugamanneskja um skáldskap, þú þekkir sænska skáldið Tomas Tranströmer, já, auðvitað segir hún, hann var í hjólastól síðustu árin, samt kippti enginn honum upp, tróð inn í lögreglubíl, sendi til Grikklands, í sólina þar, sem voru örugglega mistök því það er svo næs að vera í sólinni, já, alveg rétt, nema, það eru þessar frægu línur eftir Tranströmer, í þýðingu Njarðar P. Njarðvík, þekkir þú þær?
Við brugðumst vel við og sýndum heimili okkar.
Gesturinn hugsaði: Þið búið vel.
Fátækrahverfin eru innra með yður.
Áramótapistill Jóns Kalmans Stefánssonar árið 2019:
Mér finnst þetta bara ótrúlega ósanngjarnt, segir Katrín, við Bjarni erum mjög góðir vinir, ég bara hangi í hárinu þínu, sjórinn er fyrir neðan, eigum við ekki að lyfta þeirri svörtu, já, hvernig var með það, var ekki Sigurður Ingi þarna fyrir utan ráðherrabústaðinn?
No worries, okkur er borgið
Jú, þarna er Sigurður Ingi, hann kemur niður tröppurnar, af ríkisstjórnarfundi, nýbúinn að lyfta þeirri svörtu og strákarnir hlógu, það var svo gaman, samt tók fólk þessu mjög illa, svo illa að það varð allt vitlaust og Sigurður Ingi, þessi trausti maður, ímynd hins trausta bónda, ímynd stöðugleikans, enda verið við völd meira eða minna síðan 2013, ásamt Sjálfstæðisflokknum, sem er geggjað, ennþá geggjaðra að nú eru Vinstri græn með þeim í liði, þau eru algjörlega með stöðugleikann á hreinu; stórkostleg tíðindi að þau í Vinstri grænum átti sig á því, já, rosalegur léttir hélt nemlig að þau væru svona villikettir og kommúnistar, nei nei, þau eru ekki kettir, manstu, þau sjá sjálfan sig í löxunum sem synda sína endalausa hringi í sjóeldinu, og að synda í hringi, það er stöðugleikinn, bingó, þú ert farinn að læra!
Áramótapistill Jóns Kalmans Stefánssonar árið 2017:
Og Sigurður Ingi?
Alveg rétt, hann kemur þarna niður tröppurnar, ennþá soldið hissa, að lyfta þeirri svörtu, það bara grín hjá okkur strákunum, er fólk alveg búið að missa húmorinn? Jú, líklega erum við alveg búin að missa hann, því Sigurður Ingi neyddist að endingu að senda frá sér yfirlýsingu þar sem hann baðst afsökunar. Og þarna kemur hann niður tröppurnar, sannfærður um að það sé nóg, hann hefur talað, sagt sitt, látum þetta að baki.
En, nei, það er ekki nóg fyrir það óseðjandi gímald sem fjölmiðlar eru, þeir fá aldrei nóg, þetta eru fíklar, fjölmiðlar, allir saman, já, eða sumir, ekki þeir góðu, en flestir þeirra eru svo ótrúlega ósanngjarnir, sífellt að gagnrýna, bera enga virðingu fyrir hagsmunum og spyrja spurninga sem særa mann, særa fjölskyldu manns og vini, ertu þá særður, já, ég er það, ég kom þarna niður tröppurnar, nýbúinn að lyfta þeirri svörtu, einhverjir skildu ekki djókið, þannig að ég baðst afsökunar á facebook, en það var ekki nóg, nei, greinilega ekki; því þarna kemur Sigurður Ingi niður tröppurnar, fjölmiðlamenn með hljóðnema og myndavélar stökkva á hann, ég er búinn að senda frá mér yfirlýsingu, segir Sigurður Ingi, það er nóg; en þá kemur sena ársins: þar sem Sigurður Ingi hleypur reiður, ringlaður og sár í hringi vegna þess að hann finnur ekki bílinn sinn, hann er með fjölmiðla á hælum sér, hann er með sirka hálfa þjóðina á hælum sér, hann er með alla þá á hælum sér sem fannst af einhverjum ástæðum að það væri mjög alvarlegt að einn af valdamestu mönnum þjóðarinnar hafi gantast með strákunum á þann hátt að það særði fólk, að sumir hafi viljað meina að grínið hafi borið í sér rasisma, fordóma, fyrirlitningu, sem eru mjög vond skilaboð, því ef þeir valdamestu mega grínast svona, taka aðrir minni það ekki upp líka?
Ummæli hans voru högg í magann, sagði einhver; og þessvegna var Sigurður Ingi eltur af þeim fjölmiðlum sem vilja að fólk svari fyrir gjörðir sínar, sem sjálfsagt er óþolandi, sem neita að samþykkja einhliða yfirlýsingu sem upphaf og endi, sem líta svo á að þessi tegund ummæla, úr munni valdamanns, eigi að ræða, að hann sjálfur eigi að stíga fram og taka umræðuna, að það væri svo mikilvægt fyrir þau sem upplifðu það sem högg í magann, að þau væri jaðarsett, talin síðri, ekki hluti af samfélaginu, að Sigurður Ingi skuldaði þeim og þjóðinni allri það að stíga inn í umræðuna, stækka sig með því að nota heimóttarlegan húmor sinn til að ræða opinskátt um undirliggjandi, stundum ómeðvitaða fordóma, því það er þannig, og bara þannig, sem við vinnum bug á fordómum – og samfélag með undirliggjandi, ómeðvitaða fordóma er ekki á góðum stað.
En hann gerði það ekki, tók ekki umræðuna, nei, hann rásaði bara um Tjarnargötuna, fann ekki bílinn, óþolandi fjölmiðlar á eftir honum, hvar er bíllinn, hvar í helvítinu er hann, helvítis Píratarnir hafa örugglega falið hann, þeir vilja alltaf hafa allt upp á borðinu, þeir skilja þeir ekki neitt, Píratarnir, já, skilja ekki að það truflar hagsmuni ef allt er upp á borðum, og hvað verður þá um Stjórnarskrána, manstu, hagmunirnir eru Stjórnarskráin, þessvegna er svo margt sem má ekki fá upp á borðið, þessvegna fáum við aulabárðana til að selja bankana, útdeila styrkjum, þessvegna er heimskan jafnmikilvæg og fúskið og spillingin, ef ekki mikilvægust.
Áramótapistill Jóns Kalmans Stefánssonar árið 2015:
Ertu að hrósa Pírötum, nei nei, ég er ekki að hrósa neinu, ég er bara að skrifa pistil, lýsa staðreyndum, annars hangi ég bara í hárinu á þér, sjórinn er fyrir neðan, og fátækrahverfin og þeir ríkari sem verða ríkari og ofsagróði stórfyrirtækja í sjávarútvegi og laxeldi, okkur er því óhætt, stöðugleikinn kemur við hjartað í okkur, og flugstöðin okkar á gömlu afréttum Njarðvíkur er sú óvinsælasta í heimi, hún er hola, Kristján Þór er þar stjórnarformaður, hann passaði upp á Samherja á sinni tíð, nú er hann það fyrsta sem tekur á móti gestum til Íslands, þetta getur því ekki klikkað, framtíðin er svo björt að ég þarf að kaupa mér sólgleraugu; traktorinn er með drif á öllum, hann dregur okkur örugglega áfram og dýpra inn í veröld og lögmál hagsmuna, með drif á öllum, og já, það er rétt, traktorinn heitir Sjálfstæðisflokkur, hægra afturdekkið eru Vinstri grænir, það vinstra Framsókn, annað framdekkið heimska, hitt aulabárðar. Þú komst við hjartað í mér, sjórinn er fyrir neðan – okkur er borgið.
Lestu meira um árið 2022:
-
4. janúar 20232022: Ár raunsæis
-
4. janúar 2023Árið þegar hugrekkið minnti á mikilvægi sitt
-
3. janúar 2023Orku- og veitumál í brennidepli
-
3. janúar 2023Stöndum vörð um velferðarsamfélagið
-
2. janúar 2023Farsælt starf er gefandi
-
2. janúar 2023Framtíðin kemur ekki af sjálfu sér
-
2. janúar 2023Loftslagsannáll 2022
-
2. janúar 2023Nýársheiti og hvernig skal brjóta þau
-
1. janúar 2023Þrennt sem eykur forskot Íslands
-
1. janúar 2023Það er bara eitt kyn – Mannkyn