Þetta hljómaði allt svo einfalt. Sýnum samstöðu, komumst í gegnum bylgjurnar með því að sætta okkur við stórkostlegar takmarkanir í daglegu lífi, látum svo bólusetja alla og ferðaþjónustan mun koma okkur aftur á sama efnahagslega ról og áður. Treystið ríkisstjórn stjórnmálalegs stöðugleika til að eyða hundruð milljarða króna í þessa áætlun og kjósið hana aftur þegar áætlunin hefur gengið upp korteri fyrir kosningar.
En nú er þetta allt í einu ekkert svona einfalt lengur. Innan við mánuði eftir að endurkoma eðlilegs lífs var boðuð og hætt var að skima bólusetta, börn og þá sem voru með vottorð um fyrri sýkingar á landamærum er bólusett fólk að sýkjast. Til viðbótar er grunur um að fólk sem var einu sinni búið að fá COVID-19 sé að fá sjúkdóminn aftur. Og faraldurinn er í veldisvexti. Eftir að landamærin voru galopnuð þá hefur nýtt afbrigði veirunnar borist hingað til lands og grasserar nú alls staðar. Metsmitfjöldi er að greinast og Ísland stefnir hraðbyri í að verða rautt samkvæmt litakóðunarkerfi stærstu viðskiptalanda okkar. Þá verður talið hættulegt að ferðast til Íslands, mörg ríki munu vara við ferðum hingað til lands og sum munu banna slíkar. Ferðaþjónustuendurkoman mun deyja út vegna ákvörðunarinnar sem átti að tryggja henni lífvænleika.
Allt þetta átti auðvitað að blasa við. Líkt og Arnar Pálsson erfðafræðingur benti á í viðtali í Kjarnanum fyrir nokkrum dögum þá var fyrirséð að fullbólusett fólk myndi smita aðra, „sérstaklega í ljósi þess hvernig hegðun fólks úti í samfélaginu hefur verið upp á síðkastið.“ Ávinningi af bólusetningu væri hægt að tapa með því að sleppa öllum smitvörnum, vera sífellt í margmenni og „knúsa alla sem koma með flugvélum til landsins“.
Einungis til plan A
Almenn samstaða hefur ríkt um aðgerðir til að verja heilbrigðiskerfið og viðkvæmustu hópa samfélagsins gegn smiti hingað til. Annað er uppi á teningnum þegar kemur að efnahagslegum aðgerðum vegna faraldursins og þeim þáttum þegar heilbrigði og peningar blandast saman, eða vegast á.
Ákvörðun stjórnvalda, sem kynnt var á sérkennilegum blaðamannafundi með heilum sex ráðherrum 12. maí í fyrra, um að opna landamærin frá miðjum júní og hleypa ferðamönnum inn var tekin einungis tveimur mánuðum eftir að heimsfaraldur kórónuveiru skall á. Og mörgum mánuðum áður en búið var að þróa bóluefni við fyrstu afbrigðum hennar. Samhliða fjármagnaði ríkisstjórnin milljarða króna markaðsátak til að hvetja fólk til að koma til Íslands. Allt þetta til að keyra af stað atvinnugrein sem var átta prósent af vergri landsframleiðslu árið 2019. Grein sem fékk ferðamenn til að eyða 370 milljörðum króna hérlendis á því ári á sama tíma og Íslendingar eyddu 200 milljörðum króna á ferðalögum erlendis, sem þeir eyða nú að mestu innanlands.
Fyrsta tilraun til opnunar landamæra klikkaði illa
Áður en þessi ákvörðun var tekin fór ekki fram neitt almennilegt mat á þeim efnahagslega fórnarkostnaði á aðra fleti kerfisins ef ákvörðun ríkisstjórnarinnar myndi leiða til þess að faraldurinn tæki sig upp að nýju. Ákvörðunin virtist að uppistöðu byggð á átta blaðsíðna minnisblaði stýrihóps þar sem sjö og hálfri blaðsíðu var eytt í hagræn áhrif á ferðaþjónustu en sex línum í efnahagsleg áhrif á allt hitt ef ákvörðunin um að opna myndi skila annarri niðurstöðu en lagt var upp með. Stýrihópurinn talaði að uppistöðu við fulltrúa ferðaþjónustufyrirtækja og lobbýista þess iðnaðar á meðan að hann vann minnisblaðið. Við undirbúning ákvörðunarinnar voru engir málsvarar annarra greina eða hópa sem töpuðu á því ef veiran færi að dreifa sér um samfélagið að nýju kallaðir til álitsgjafar, enda hefð fyrir því að hagsmunir einnar ráðandi atvinnugreinar stýri pólitískri ákvörðunartöku á Íslandi. Fyrst var það sjávarútvegur, svo orka, þá bankastarfsemi og nú ferðaþjónusta.
Áður en júlímánuður ársins 2020 var úti hafði ný bylgja faraldurs hafist vegna smita sem bárust í gegnum landamærin og hertar aðgerðir sem skertu frelsi fólks og fyrirtækja verulega verið settar á. Þegar það var loks ákveðið eftir á að meta hagræn áhrif af því að forðast harðar sóttvarnaraðgerðir innanlands kom í ljós að mögulegur ávinningur af því gæti hlaupið á hundruðum milljarða.
Ákvörðun stjórnvalda, sem var illa undirbyggð og framkvæmd undir pressu frá einni atvinnugrein, reyndist afleit. Og hafði miklar afleiðingar. En stjórnvöld gátu staðið hana af sér, aðallega vegna þess að miklar vonir voru bundnar við að bóluefni sem myndi leysa öll veirutengd vandamál væri handan við hornið. Þá má ekki vanmeta að þeir sem gagnrýndu ákvörðunina opinberlega, eins og Gylfi Zoega, fengu á sig harða gagnrýni í stærstu einkareknu fjölmiðlunum, sem styðja ríkisstjórnina. Gylfi kallaði þetta „bunur“ í viðtali í maí sem væru viðbúnar þegar „þessir hagsmunaaðilar eiga dagblöðin.“
Knúsist í eðlilega lífinu
Spólum áfram um eitt ár. Stjórnvöld taka ákvörðun um að galopna landamæri landsins fyrir ferðamönnum í andstöðu við vilja þorra þjóðarinnar. Í könnun sem birt var í apríl kom fram að 92 prósent landsmanna vildu frekar harðari aðgerðir á landamærum en frekari takmarkanir innanlands. Samt tók ríkisstjórnin ákvörðun um gera tilraun á þjóðinni í þeirri von að hátt hlutfall bólusettra myndi tryggja að þetta yrði vinningsformúla í kosningunum í haust.
Allar takmarkanir á landsmenn voru afnumdar í kjölfarið og ráðherra hvatti fólk til þess að knúsast á sigurhátíð sem ríkisstjórnin hélt fyrir sig sjálfa í Safnahúsinu. Engin alvöru áhersla var lögð á að viðhalda einstaklingsbundnum smitvörnum til að forðast frekari útbreiðslu. Það var erfitt að skilja ráðherranna öðruvísi en að þetta væri einfaldlega búið.
Spunatími keyptur
29 dögum síðar var búið að hefta líf almennings á Íslandi á ný vegna þess að bólusetningin reyndist ekki sú töfralausn sem stjórnvöld – þau sem eiga að hafa bestu upplýsingarnar – höfðu selt okkur að hún væri og Ísland að stefna inn í sína stærstu bylgju til þessa frá því að faraldurinn hófst. Fréttir frá Ísrael, þar sem hlutfall bólusettra er afar hátt, benda til þess að fólk sé samt að veikjast alvarlega af veirunni. Þegar Ísland verður „rautt“ lokast að mestu sjálfkrafa fyrir komu ferðamanna til landsins.
Þar með er eina plan ríkisstjórnarinnar farið fyrir bí. Enda ákvað hún að kynna ákvörðunina um nýjar aðgerðir á föstudagskvöldi á Egilsstöðum. Það er vel þekkt aðferð að opinbera vondar fréttir eða erfið mál á þeim tíma, sem er oft kenndur við Bermúda þríhyrninginn þar sem hlutir hafa tilhneigingu til að hverfa sporlaust. Það er gert í þeirri von að landinn sé með hugann við annað í lok vinnuviku og að helgarvaktir fjársveltra fjölmiðla séu undirmannaðar af reynslulitlu fólki. Þannig sé hægt að ná frumkvæði í umræðunni. Kaupa sér spunatíma.
Mál sem skilgreinir allt okkar líf
Helgin var svo notuð til þess að reyna að selja þá hugmynd að aðrir stjórnmálaflokkar ættu ekki að gera sóttvarnir að pólitísku bitbeini. Nú þegar sigurplan ríkisstjórnarinnar var farið út um þúfur níu vikum fyrir kosningar þá eigi aðrir að sleppa því að bjóða upp á valkosti í þessum faraldri sem litar líf landsmanna meira en nokkuð annað. Og styðja bara við næstu stefnumarkandi skref þeirra sem voru að verða uppvísir af því að vera ekki með neina aðra áætlun en þá sem var að fara út um þúfur.
Áætlun sem hefur meira og minna krafist þess að landsmenn gefi eftir grundvallarmannréttindi og persónufrelsi vegna kröfu um samtakamátt til að endurheimta einhverskonar eðlilegheit, sem við þurfum nú enn og aftur að skila aftur til baka.
Skortur á aðhaldi hluti af vandamálinu
Stjórnarandstaðan er sannarlega ekki stikkfrí. Tilgangur hennar getur ekki einvörðungu verið að bíða eftir því að komast að völdum. Hún hefur gríðarlega mikilvægu aðhaldshlutverki að gegna. Því hlutverki er hægt að sinna jafnvel þótt að stutt sé við helstu áherslur fagmanna í sóttvörnum, enda ákvarðanir ríkisstjórnarinnar vegna faraldursins mun víðtækari en svo.
Í þessum faraldri hefur stjórnarandstaðan heilt yfir ekki staðið sig í stykkinu. Hún virkar á stundum óákveðin. Huglaus. Jafnvel löt. Það sést á fylgistölum sem sýna að mistök ríkisstjórnarinnar – þar sem ráðherrar hafa orðið uppvísir af því að fylgja ekki reglum sem þeir kröfðust þess að aðrir fylgdu og sífelldar tilraunir til að keyra ferðaþjónustuna í gang hafa bitnað á öðrum atvinnugreinum og stefnt heilbrigði landsmanna í hættu – hafa ekki skilað andstöðunni neinni styrkingu. Þvert á móti.
Þess í stað hefur stjórnarandstaðan eftirlátið ríkisstjórninni að túlka afleiðingar eigin ákvarðana í umræðunni, sem fyrir vikið hafa eðlilega alltaf verið túlkaðar henni í hag.
Það þarf skýra og hugaða valkosti
Nú stöndum við frammi fyrir algjöru endurmati á því hvernig við ætlum að takast á við veiruna. Ætlum við að halda áfram að vera með það sem meginmarkmið að keyra ferðaþjónustu aftur í gang, og láta þjóðina – óbólusett börn, óléttar konur og viðkvæma hópa þar með talin – verða fyrir veirunni? Ætlum við að ráðast aftur í harðar takmarkanir á frelsi og lífsgæðum landsmanna til að verja að minnsta kosti viðkvæmustu hópana fyrir henni?
Eða ætlum við að hugsa þetta allt upp á nýtt og velja til dæmis þá leið sem mikill meirihluti þjóðarinnar virðist kjósa? Að ákveða að halda veirunni úti eftir næsta átak með því að herða mjög aðgerðir á landamærum í skiptum fyrir takmarka- og veirulaust líf innanlands?
Nú þarf skýra og hugaða valkosti og langtímaáætlun. Þeir valkostir, sem verða bæði efnahagslegir og með heilbrigði þjóðar að leiðarljósi, verða svo lagðir í dóm kjósenda 25. september næstkomandi. Annað er ekki í boði.
Yfir til ykkar stjórnmálamenn. Svarið við ákalli um raunhæfa og hugaða áætlun mun líklega skilgreina pólitíska arfleið ykkar meira en nokkuð annað sem þið hafið komið nálægt, og munið koma nálægt í framtíðinni.