Í Morgunblaðinu í fyrradag birti Andrés Magnússon, ritstjórnarfulltrúi blaðsins sem hefur starfað fyrir Sjálfstæðisflokkinn í mörgum af síðustu kosningabaráttum hans, svokallað Baksvið þar sem hann fjallar um pólitísk áhrif sölu á 22,5 prósent ríkisins í Íslandsbanka. Þar sagði meðal annars að „innan Vinstri grænna og Framsóknar hafa sumir rætt um það, að reynist niðurstaða ríkisendurskoðanda fjármálaráðherra óhagstæð, sé núverandi samstarfi sjálfhætt. Hefur í því samhengi verið rætt um að við geti tekið minnihlutastjórn Vinstri grænna og Framsóknar með hlutleysi Samfylkingar og Pírata og þingkosningum flýtt fram á vor.“
Það eru merkileg tíðindi þegar Morgunblaðið er farið að ýja að stjórnarslitum ríkisstjórnar sem Sjálfstæðisflokkurinn situr í. Sú minnihlutastjórn og tímasetning kosninga sem Morgunblaðið nefnir virðist þó óskhyggja til þess ætluð að kaupa Sjálfstæðisflokknum tíma til að ná vopnum sínum að nýju. Slíkt hefur áður gefist vel og hefur bjargað pólitísku lífi formanns flokksins þegar hann kemur sér í fullkomlega sjálfsköpuð vandræði.
En nú virðist hins vegar sem að Bjarni Benediktsson sé mögulega búinn með sín níu pólitísku líf. Hann er á verri stað en nokkru sinni áður pólitískt, eftir rúmlega 13 ára setu sem formaður.
„Ég er ekki að fara neitt,“ sagði Bjarni við blaðamenn sem hann neitaði að öðru leyti að ræða við eftir ríkisstjórnarfund á þriðjudag. Svo steig inn í bíl sinn og ók burt með hraði, samkvæmt frásögn mbl.is.
Allar kannanir benda þó til þess að þjóðin sé honum ósammála. Bankasöluklúðrið var of mikið. Bjarni gæti verið á útleið.
Að lifa af með því að ganga á inneign annarra
Í könnun sem MMR gerði í desember í fyrra, í kjölfar þess að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur endurnýjaði heit sín, var spurt um traust til ráðherra hennar.
Bjarni Benediktsson kom næst verst út allra. Alls 37 prósent sögðust treysta honum, sem var mun lægra hlutfall en hinir formenn stjórnarflokkanna mældust með, og alls 44 prósent sögðust bera lítið traust til hans.
Hinir foringjarnir í ríkisstjórninni, forsætisráðherrann Katrín Jakobsdóttir og sigurvegari síðustu kosninga, Sigurður Ingi Jóhannsson, mældust á frábærum stað í könnuninni í desember 2021 og með mikla pólitíska inneign. Alls sögðust 60 prósent treysta Katrínu og 53 prósent Sigurði Inga, en 18 prósent sögðust vantreysta þeim.
Á baki þessa trausts báru þau Bjarna og Sjálfstæðisflokkinn í enn eina ríkisstjórnina.
Úr vari faraldurs og inn í alvöru pólitík
Um síðustu áramót rann MMR inn í Maskínu. Hið sameinaða fyrirtæki birti í byrjun viku niðurstöður könnunar þar sem spurt var um traust til ráðherra.
Staða leiðtoga stjórnarflokkanna hafði breyst mikið á þeim örfáu mánuðum frá því að síðasta könnun var gerð.
Katrín hefur tapað fjórðungi þess trausts sem hún mældist með í desember og fjöldi þeirra sem vantreysta henni hefur næstum tvöfaldast. Traust á Sigurð Inga hefur hrunið um næstum 40 prósent og fjöldi þeirra sem vantreysta honum hefur rúmlega tvöfaldast.
Hvað veldur þessu?
Á það má benda að kórónuveirufaraldurinn kippti allri hefðbundinni pólitík úr sambandi og veitti óvenjulega samsettri ríkisstjórn, sem mynduð var um völd og stóla, skjól frá eigin stefnuleysi. Hún varð viðbragðsstjórn, ekki stefnustjórn.
Hið hugmyndafræðilega pólitíska tilgangsleysi ríkisstjórnarsamstarfsins hefur hins vegar staðið nakið fyrir framan okkur eftir að faraldurinn hætti að lita líf flestra. Ekkert stefnumál sem neinu skiptir hefur verið lagt fram, og hvað þá samþykkt, það sem af er þessu kjörtímabili. Ríkisstjórnin bara er. Mesta vinnan hefur farið í að fjölga ráðuneytum, og verja hneykslismál.
Bjarni óvinsælli en nokkru sinni áður
Það er því ekki óvinsæl stefna sem er að fella stjórnina, heldur hegðun og framkvæmd ákvarðana. Þar má nefna rasísk ummæli Sigurðar Inga um framkvæmdastjóra Bændasamtaka Íslands sem hann hefur neitað að ræða við fjölmiðla og þingið um sem neinu nemur. Hann átti að vera í óundirbúnum fyrirspurnatíma í dag en boðaði forföll á síðustu stundu. Það fer því að verða mánuður síðan að Sigurður Ingi sagði það sem hann sagði. Hann hefur enn ekki mætt fyrir þingið til að ræða ummælin og afleiðingar þeirra.
Samkvæmt lögum ber einn maður ábyrgð á þeirri sölu umfram aðra. Hann heitir Bjarni Benediktsson. Áðurnefnd könnun Maskínu sýndi að 71 prósent landsmanna vantreystir honum. Sjö af hverjum tíu. Einungis 18,3 prósent landsmanna treysta honum. Færri en tveir af hverjum tíu.
Til að setja þessar tölu í samhengi má nefna að það eru tíu prósentustigum fleiri en sögðust ekki treysta Bjarna eftir birtingu Panamaskjalanna og tíu prósentustigum færri en sögðust vantreysta Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni á þeim tíma. Hann sagði af sér sem forsætisráðherra í kjölfarið. Annað samhengi sem má setja þessa stöðu í er að vantraust á Bjarna hefur aukist um 27 prósentustig frá því í desember, eða um rúmlega 60 prósent.
„Þið eruð öll fífl, nema ég“
Viðbrögð Bjarna við fyrirliggjandi stöðu, þegar hann skilaði sér loks aftur heim úr löngu páskafríi, voru kunnugleg. Hann var vígmóður. Reiður. Eiginlega sármóðgaður. Þessi aðferð hafði virkað fyrir hann þegar fortíð hans í viðskiptalífinu varð að fréttaefni, þegar Panamaskjölin opinberuðu að hann ætti aflandsfélag, þegar faðir hans skrifaði upp á uppreist æru fyrir dæmdan barnaníðing og þegar hann var gripinn í partíi í Ásmundarsal á Þorláksmessu á sama tíma og ríkisstjórnin hafði bannað almenningi að hittast sem neinu nemur yfir hátíðirnar. Þessa taktík mætti draga saman í eina setningu: „Þið eruð öll fífl, nema ég!“ Að hann sé ekki vandamálið, heldur allir hinir.
Stjórnarandstaðan býður upp á mesta rugl sem hann hefur heyrt. Þingnefndir sem gerðu ekki athugasemdir við takmarkaðar upplýsingar getulausar. Fjölmiðlar lélegir. Kannanir eru „heimskulegar“. Almenningur skilur ekki að heildarmynd trompar aukaatriði eins og að pabbi hans hafi fengið að kaupa, að söluráðgjafar hafi sjálfir keypt ofan í að hafa fengið mörg hundruð milljóna króna þóknun úr ríkissjóði fyrir að hringja í vini og vandamenn, að fullt af kaupendum hafi selt hluti daganna eftir að þeir voru afhentir, að vafaatriði sé um að allir kaupendur geti talist fagfjárfestar og að það sé ekkert hægt að koma í veg fyrir að fólk sem setti banka á hausinn 2008, sé í virkri lögreglurannsókn eða hafi fengið tugi milljarða afskrifaða eignist banka. Kapítalisminn virki einfaldlega ekkert þannig.
Að þurfa að þjónusta heimóttarlega sveitalúða
Þetta er viðmótið sem má sjá hjá Bankasýslunni líka. Í minnisblaði hennar til fjárlaganefndar, sem birt var á þriðjudag segir: helstu mistökin voru að átta sig ekki á því hvað íslensk þjóð er takmörkuð. Að hafa ekki sýnt því nægilega mikla nærgætni að þessir heimóttarlegu sveitalúðar hérna á Íslandi skilji ekki hvernig stóru strákarnir í fjármálakerfinu leika sér. Þetta viðmót endurspeglast svo í samtölum við marga sem vinna við að færa peninga og fara í blauta hádegisverði á Snaps eða Kastrup, að því er virðist á stundum með forstjóra Bankasýslunnar. Hroki. Yfirlæti. Drambsemi.
Í kjölfarið eru svo alltaf gerðir út pólitískir skítadreifarar, á launum hjá almenningi, til að ráðast á fólk sem gagnrýnir eða veitir aðhald og ásaka þá um að hengja sig í aukaatriði með því að hengja sig sjálfir í aukaatriði. Nú reyna þessir gaslampar að nota hugtök eins og gaslýsingu og snúa þeim upp á aðra án þess að geta lesið sér til gagns um merkingu hugtaksins né að átta sig á að hegðun þeirra er orðabókaskilgreiningin á því.
Sá munur er á nú að tuddaskapur og frekja þeirra bítur ekki lengur. Sífellt færri láta lokka sig inn í smjörklípurnar sem dælt er út af þeim á samfélagsmiðlum.
Fókus reiðinnar er skýr: Hér var ríkisbanki seldur með hætti sem fólk sættir sig ekki við.
Þjóð með áfall ofið í erfðaefnið
Af hverju fer það í mænuna á íslenskri þjóð þegar ríkiseign er seld með fúski og þeirri áferð að útvalið, en illa þokkað, fólk með sviðna fortíð og nútíð hafi verið valið til að þiggja almannagæði umfram aðra?
Svarið við því er nokkuð einfalt. Hér voru bankar einkavæddir ofan í menn fyrir tveimur áratugum sem bjuggu til fjármálalega vítisvél á rúmum fimm árum, frömdu svo skeytingarlaus voðaverk með henni sem leiddu til ömurlegra afleiðinga fyrir fullt af venjulegu fólki.
Afleiðingarnar urðu meðal annars þær að gjaldmiðill Íslendinga veiktist um tugi prósenta, verðbólga fór í 18,6 prósent, stýrivextir í 18 prósent, atvinnuleysi fór í tveggja stafa tölu, ríkissjóður fór úr því að vera nær skuldlaus í að vera nær gjaldþrota, skuldir heimila margfölduðust, margir misstu heimili sín og sparnað, neyðarlög tóku gildi, fjármagnshöft voru sett á, Ísland þurfti að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eftir aðstoð og allt traust milli almennings og stofnana samfélagsins hvarf. Mótmæli urðu daglegt brauð, eldar voru kveiktir og pólitískur óstöðugleiki varð að normi.
Þetta áfall gleymist ekki. Þetta er enn í erfðaefni margra. Traustið sem hvarf er enda mesta þjóðarmein íslensku þjóðarinnar. Það litar allt í okkar samfélagi. Allt er tortryggt. Stóra pólitíska verkefni síðustu ára átti að vera að byggja upp það traust.
Stundum hefur það gengið ágætlega, lítil skref eru tekin fram á við. En svo gerist eitthvað sem orsakar að stór skref eru stigin afturábak.
Bankasalan er slíkt eitthvað.
Mistókst herfilega að ná mikilvægasta markmiðinu
Í ljósi sögunnar átti öllum að vera ljóst hvað illa framkvæmd bankasala myndi leiða af sér. Í fyrsta lagi er mikill meirihluti þjóðarinnar einfaldlega mótfallinn því að ríkisbankar séu seldir. En ef það yrði gert var gerð skýr krafa um að gagnsæi, jafnræði og heiðarleiki ríkti um það ferli. Auk þess ætti öllum með sæmilega sjón og heyrn að vera það sýnilegt að það skiptir þjóðina meira máli að traustir langtímaeigendur komi að bönkunum en hvað fæst fyrir þá. Í Hvítbók sem þessi ríkisstjórn lét starfshóp, sem leiddur var af stjórnarformanni Bankasýslunnar, vinna sagði: „Heilbrigt eignarhald er mikilvæg forsenda þess að bankakerfi haldist traust um langa framtíð. Í því felst að eigendur banka séu traustir, hafi umfangsmikla reynslu og þekkingu á starfsemi banka og fjárhagslega burði til að standa á bak við bankann þegar á móti blæs. Mikilvægt er að eigendur hafi langtímasjónarmið að leiðarljósi.“
Eina leiðin til að eyða tortryggni eru vönduð vinnubrögð og gagngerar rannsóknir
Stjórnmálamenn sem hafa ekki skilning á þessari stöðu, og búa ekki yfir næmni gagnvart þjóð sem telur þetta skipta gríðarlega miklu máli, eiga vart erindi í pólitík.
Margir snjallir pólitíkusar hafa sýnt af sér slíkan skilning og næmni. Í mars 2017 var til að mynda birt skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um aðkomu Hauck & Aufhäuser að kaupunum á 45,8 prósent hlut í Búnaðarbankanum í janúar 2003. Þá fór fram óundirbúinn fyrirspurnatími á Alþingi þar sem skeleggur stjórnarandstöðuþingmaður spurði þáverandi fjármálaráðherra út í það hvort niðurstaða þeirrar rannsóknar – sem var sláandi og sýndi að almenningur, fjölmiðlar og þingheimur hafi verið blekktur af ósvífnum hópi manna sem langaði að komast yfir banka – sýndi ekki að rík ástæða væri til að ráðast í ítarlega rannsókn á allri einkavæðingu bankanna árið 2003.
Í ræðu sinni sagði þingmaðurinn meðal annars: „Íslenskt samfélag hefur orðið gegnsýrðara af grunsemdum og tortryggni á síðustu árum þegar kemur að viðskiptalífinu og þessi tíðindi sýna að eina leiðin til að eyða þeirri tortryggni sé að sýna vönduð vinnubrögð, ráðast í gagngera rannsókn á söluferlinu öllu eins og Alþingi samþykkti árið 2012 þannig að hægt sé að horfa fram á veginn, draga lærdóm af ferlinu áður en ráðist verður í aðra einkavæðingu á hlut ríkisins í bönkunum. Ráðherra hefur boðað sölu á hlut ríkisins í bönkunum en hann hefur líka sagt að mikilvægt sé að taka sér þann tíma sem þarf. Er ekki ástæða til að ljúka rannsókn á þessu ferli þannig að við fáum allt fram um þetta mál sem hefur hvílt eins og mara á þjóðinni?“
Forsætisráðherra situr uppi með afleiðingarnar
Þessi þingmaður, Katrín Jakobsdóttir, varð forsætisráðherra þjóðarinnar nokkrum mánuðum síðar. Í dag sér hún engan tilgang, að minnsta kosti enn sem komið er, í því að skipa neinar rannsóknarnefndir. Í dag lýsir hún yfir fullum stuðningi við þann sem ber ábyrgð á bankasölu sem 83 prósent þjóðar treystir ekki. Í dag er hennar pólitíska hlutverk fyrst og fremst að verja verk Bjarna Benediktssonar.
Fyrir vikið er pólitísk inneign Katrínar að verða uppurinn. Traust til hennar hefur snarminnkað. Flokkur hennar er í frjálsu falli í skoðanakönnunum á landsvísu, ríkisstjórnarflokkarnir næðu ekki 40 prósent fylgi ef kosið yrði í dag og stjórnin því kolfallin í huga almennings. Í kjördæmi forsætisráðherrans, þar sem hún fékk 15,9 prósent atkvæða í haust, mælist fylgi Vinstri grænna fyrir komandi borgarstjórnarkosningar um sex prósent.
Til viðbótar liggur fyrir rúmlega átta af hverjum tíu landsmönnum eru óánægðir með bankasöluna. Til viðbótar liggur fyrir að yfir 70 prósent landsmanna vantreysta fjármála- og efnahagsráðherra. Til viðbótar liggur fyrir að flokkur hans hefur vart mælst með minna fylgi, jafn á landsvísu og í Reykjavík.
Allt ofangreint eru skýr skilaboð um að tími þeirrar tilraunar sem þessi sérkennilega ríkisstjórn er sé liðinn, að minnsta kosti í óbreyttu formi. Það þarf einhver að axla ábyrgð á því sem hefur gerst. Sá einhver er Bjarni Benediktsson. Annars þarf öll stjórnin að axla hana saman.
Það er hægt að horfast í augu við þessa stöðu strax eða hanga á roðinu og vonast til að það fenni yfir.
Pólitíska veðurspáin bendir hins vegar ekki til þess að mikil úrkoma sé í kortunum.