„Við fundum ekki neitt,“ segir Þórunn Hreggviðsdóttir nágranni minn. „Erum bara hér heima í algjörri slökun, að elda og hlusta á Vikulokin.“
Að kvöldi 13. febrúar sat ég úti á svölum er allt fór að skjálfa. Glerið í svalahandriðinu titraði, fyrst í örstutta stund en svo aftur og af meiri krafti.
Þetta var kunnugleg tilfinning. Jarðskjálftarnir á Reykjanesi fyrir um ári síðan höfðu hreyft við ýmsu heima hjá mér. Gamla ljósakrónan í stofunni hafði margoft sveiflast til og sömuleiðis hafði hin 100 ára veggklukka sem ég tók í fóstur frá foreldrum mínum fyrir mörgum árum tekið upp á því að slá, jafnvel á nóttunni. Eitthvað sem hún hefur harðneitað að gera á réttum tíma lengi.
En ég er ekki heima hjá mér á Íslandi. Ég er í Úganda. Í landi þar sem eitt elsta berg í heimi hefur fundist, berg sem er vel yfir 2,5 milljarða ára gamalt. „Þetta er eldgamalt land,“ segir Þórunn réttilega þegar ég inni hana eftir því hvort að hún hafi orðið einhvers vör.
„Kannski ók einhver á húsið?“ spyr ég, þótt ég telji ólíklegt að þessi titringur geti verið nokkuð annað en það sem ég þekki svo vel frá Íslandi: Jarðskjálfti.
Þórunn, sem hefur búið hér í nokkur ár og er öllu vön, telur að titringur frá tónlist úr nágrenninu (sem er stundum svo há að jú, hún gæti örugglega mælst á skjálftamælum) sé líklegasta skýringin. En ég er ekki sannfærð. Fer beint á vedur.is eins og sannur Íslendingur. Eða reyni sem sagt að finna sambærilega úganska síðu á netinu. Það ber ekki árangur. Fer rúnt á úgönsku fjölmiðlunum. Ekki stafkrókur um jarðskjálfta.
Getur það verið, hugsa ég með sjálfri mér, að einhver hafi ekið á húsið – og þá ef til vill með tónlistina í botni?
En svo vakna samfélagsmiðlar. Þó ekki fyrr en eftir fyrirspurn frá Þórunni. Og þá fæ ég grun minn staðfestan: 4,8 stiga jarðskjálfti varð í um 200 kílómetra fjarlægð frá höfuðborginni Kampala.
„Hann var gríðarlega sterkur hér í Fort Portal,“ skrifar Aubrey Price. „Sá stærsti sem ég hef fundið í 23 ár.“
„Ég er í Naguru og rúmið lék á reiðiskjálfi,“ skrifar Jaretta Baba.
„Við sonur minn hlupum í skjól, skjálftinn var svo sterkur,“ segir Jeff Cash.
Það er nefnilega það. Eldgamla Úganda var að hrista sig. Og skýringin er ekki langt undan. Þrátt fyrir að vera einn elsti landmassi á jörðu, þrátt fyrir að hér um slóðir hafi fyrstu mennirnir komið fram á sjónarsviðið, eru kraftar náttúrunnar svo sannarlega enn að verki. Að móta og breyta heiminum, djúpt innan úr iðrum plánetunnar okkar stórfenglegu. Í þetta sinn sem betur fer án þess að valda mannskaða eða miklu eignatjóni.
Um Úganda liggja tvær greinar Sigdalsins mikla, 8.700 kílómetra langs misgengis sem liggur allt frá Jórdandal í norðri, um allt Rauðahaf og í gegnum Eþíópíu, Kenía, Tansaníu og Mósambík í suðri. Við greinar þessar eru skjálftar ekki óalgengir og reyndar einnig í dældinni sem hið víðfeðma Viktoríuvatn er í á milli þeirra.
Flestir eru þeirra litlir. En við Rwenzori-fjöllin, skammt frá landamærunum að Austur-Kongó, eiga þeir það til að vera öflugir.
Fólkið við Nílarfljót hefur auðvitað í gegnum aldir og árþúsund orðið vitni að skjálftum. En heimildir um þá hafa hins vegar ekki verið skráðar nema frá blálokum nítjándu aldar eða um það leyti sem Bretar komu til Úganda og gerðu að sínu.
Sá stærsti sem staðfestar sögur fara af varð í mars árið 1966 í Toro-héraði. Hann var 6,6 stig og olli gríðarlegri eyðileggingu. Um 150 manns létust og um 1.300 slösuðust. Árið 1994 varð svo annar stór skjálfti, 6,2 stig, í nágrenninu.
Landmótunaröflin, jarðskorpuhreyfingar og eldsumbrot geta nefnilega minnt á sig hvort sem er á hinu kornunga Íslandi sem myndaðist fyrir um 25 milljónum ára eða í hinu ævaforna Úganda.
Sjö eldfjöll hafa gosið í landinu á nútíma en ekkert þeirra í nokkur þúsund ár. Rwenzori-fjallgarðurinn nær yfir til Austur-Kongó og þar í landi er mjög mikla eldvirkni að finna. Eldfjöllin Nyiragongo og Nyamuragira eru svo virk að segja má að þau séu stöðugt að. Annað þeirra gaus í fyrra.
Austur-Afríka er undraverður staður á jarðríki. Miðbaugur gengur um Úganda, sker Viktoríuvatnið ægifagra í tvennt, en á sama tíma er þar að finna jökla, m.a. í Rwenzori-fjöllunum, sem þó hafa látið verulega á sjá síðustu ár. Hér er ég alltaf í yfir þúsund metra hæð, þetta er háslétta í hitabeltinu svo loftslagið er einstaklega milt, allan árs hring.
Og gnótt er af auðlindum í náttúrunni. Jarðvegurinn er frjósamur og mögulega hentar ekkert svæði í víðri veröld betur til ræktunar. Flest allt þrífst hér af bestu lyst, hvort sem það eru ávextir og grænmeti, kaffi- og kakóbaunir eða sykureyr.
Undir jarðveginum, í hinu milljarða ára bergi, finnast eftirsóttir málmar á borð við kopar og gull og hið sjaldgæfa kóbalt einnig. Þá má ekki gleyma olíunni.
En þetta ríka land er engu að síður fátækt í þeim skilningi sem flestir leggja í það orð. Námuvinnsla er lítil. Olía fannst í vinnanlegu magni nýverið en stefnt er að því að flytja hana hráa út. Og landbúnaðurinn sem gæti fætt 200 milljónir manna glímir við ýmsar hindranir sem finnast svo víða í Afríku: Lélega innviði á flestum sviðum og gamaldags aðferðir við ræktun sem gera það svo að verkum að afurðirnar standast oft ekki þá staðla sem markaðir í Evrópu og Bandaríkjunum setja.
En það eru jákvæð teikn á lofti. Fjárfestingar í ýmsum geirum hafa aukist síðustu ár í nágrannalandinu Kenía og það sama er farið að eiga sér stað í Úganda. En sagan segir okkur að til að tryggja að íbúar þessa gullfallega lands njóti ágóðans og að hann fari ekki beint í vasa erlendra stórfyrirtækja og viðskiptamógúla þarf að halda vel á spilunum. Og hvort maðurinn með hattinn, Museveni forseti sem er einn sá þaulsetnasti í heimi, sé sá sem getur leitt þjóðina í átt til þeirrar velsældar sem hún á sannarlega inni, er ekki gefið.
„Er þetta jarðskjálfti?“ spyr Ósk Sturludóttir, sem starfar hjá Sameinuðu þjóðunum, samstarfsmenn sína sem hún situr með á fundi í Kampala. Það er 14. febrúar og nákvæmlega hálfur sólarhringur liðinn frá skjálftanum stóra sem skók svalirnar mínar. Þeir svara játandi. Þessi er enn stærri, 4,9 stig. En hann raskar ekki ró þeirra. Jafnvel ekki þótt hann standi lengur yfir og að Ósk finnist gólfið hreinlega ganga til. Enginn rífur upp símann og fer á vedur.is þeirra Úgandamanna eða á fréttamiðlana.
Því svona er þetta. Einn jarðskjálfti til eða frá, „minniháttar hristingur“ eins og einhverjir Kampala-búar lýstu honum á samfélagsmiðlum, þenur ekki taugar fólksins við miðbaug. En okkur Íslendingunum hér er tíðrætt um hann.
„Fannstu skjálftann?“ spyr ég Þórunni nágrannakonu mína um þann seinni. „Nei,“ segir hún og ákveðinna vonbrigða gætir í röddinni. „Ég var úti að eltast við tennisbolta og fann náttúrlega ekki neitt!“