„Sjáðu hvernig hann hneigir sig!“
„Hann horfir beint í augun á manni!“
Margir hafa skellt upp úr við að sjá myndbönd af hinum sérkennilega fugli skónefi (e. shoebill) á samfélagsmiðlum. Hann er ekki aðeins stór, getur orðið 1,5 metrar á hæð, heldur virðist hann ... tja, hvað skal segja ... eiginlega ekki eiga heima í nútímanum. Verandi einhvern veginn óraunverulegur. Forneskjulegur. Með gogg sem minnir helst á hollenska klossa.
Fólki finnst hann ýmist hlægilega aulalegur, eins og teiknimyndafígura, eða vera að undirbúa árás. Ekki síst þegar hann virðist hafa þann sem á hann horfir „í sigtinu“ með starandi augnaráði og gefa svo frá sér hljóð, m.a. með því að smella saman gogginum, sem líkist helst skothríð úr hríðskotabyssu.
En „risaeðlufuglinn“ eins og hann er gjarnan kallaður, er vissulega til. Og eftir að hafa verið ein af þeim sem skellihló af myndböndum af honum kom það skemmtilega á óvart að heimkynni hans eru meðal annars í Úganda, landinu sem ég dvel í um þessar mundir.
„Ég skil ekki þennan áhuga þinn á skónefi,“ segir kunningi minn þegar ég leita logandi ljósi að leiðsögumanni til að ferja mig út í fenin þar sem hann heldur til. „Úganda er stútfullt af alls konar dýrum! Við erum að tala um ljón, fíla og flóðhesta en þú vilt sjá skónef!“ heldur hann áfram undrandi.
„En ég hef séð þau flest. Og þessi er fyndnastur,“ svara ég hálf móðguð fyrir hönd skónefja þessa heims.
Það er nefnilega svo merkilegt að við mannfólkið elskum að sjá pöndur kútvelta sér í snjónum eins og börn, simpansa nota verkfæri og þar fram eftir götunum. „Mannleg hegðun“ annarra dýra fangar einhverra hluta vegna athygli okkar. Að þau séu „eins og við“. Á þessar tilfinningar er svo keyrt á samfélagsmiðlum og skónefur að hneigja sig passar fullkomlega inn í formúluna.
Ef þessi sjálfumglaða hegðun okkar verður til þess að dýrin sem klappa, „brosa“ eða bugta sig og beygja fá þá vernd sem þau þurfa vegna athyglinnar helgar tilgangurinn meðalið. Verði myndbönd sem okkur finnst fyndin til þess að við áttum okkur á sérstöðu annarra dýra og mikilvægi þeirra fyrir allt lífríki jarðar þá má Internetið vel vera barmafullt af þeim. Og auðvitað öllum hinum dásamlegu dýrunum sem búa á plánetunni Jörð.
Því líkt og svo fjölmargar aðrar dýrategundir í Úganda og annars staðar í Afríku er skónefurinn í útrýmingarhættu. Staða hans er metin „viðkvæm“ enda alveg örugglega innan við 10 þúsund slíkir til og líklegast innan við 5.000 þeirra eru villtir. Gengið hefur hratt á votlendið sem þeir kunna best við sig í, bæði hér í Úganda og í öðrum löndum Austur-Afríku.
Það er þó ekki eina ástæðan fyrir því að skónefjum hefur fækkað hratt síðustu öldina eða svo. Svo sérstakur fugl er nefnilega svo óheppinn að vera meðal þeirra dýra sem mennirnir vilja „eiga“ eða geyma í dýragörðum. Þar þrífast þeir sérstaklega illa og fjölga sér nær aldrei. Enn eru skónefir eftirsóttir á svörtum markaði. Auðjöfrar eru tilbúnir að borga milljónir króna til að smygla þeim frá Afríku og í einkadýragarða hér og hvar um heiminn.
En skónefurinn er einfari og kann allri athygli almennt illa. Meira að segja étur hann ekki með maka sínum, maka sem hann heldur þó oftast tryggð við allt sitt líf. Pörin búa sér hreiður í sefi og vilja svo takk fyrir pent fá að vera í friði frá öðrum sínum líkum.
Skónefur gerir flest hægt. Líka að fjölga sér sem er aftur veikleiki í aðþrengdri tilveru hans. Yfirleitt verpur hann einu sinni á ári. Stundum koma fleiri en einn ungi úr eggi en þessi undarlegi fugl vill aðeins þann sterkasta og stærsta og á það til að drepa aðra unga sína svo tryggja megi einum þeirra sem mesta möguleika á að komast af.
„Þetta er bátsferð sem tekur hálfan eða allan daginn. Og ég get ekki tryggt að þú sjáir skónef.“
Svar leiðsögumannsins Richard sem ég bað um að uppfylla þá ósk mína að sjá „risaeðlufluglinn“ með eigin augum veldur mér smávægilegum vonbrigðum. „Hann er hlédrægur, skónefurinn,“ segir hann. „Svona er náttúran.“
Vissulega. Og svo voru það einmitt náttúruöflin sem gripu í taumana og komu í veg fyrir að ég kæmist í leiðangurinn út á votlendið við strönd Viktoríuvatns. Eldingarnar sem ég vaknaði við nóttina áður lýstu upp himininn eins og ljósasýning á rokktónleikum. Rúmið titraði í kraftmestu þrumunum og í svefnrofunum fannst mér jörðin vera að rifna. Orðið „úrkomuákefð“, sem nú er svo oft talað um í ljósi loftslagsbreytinga, fær alveg nýja merkingu í huga mér.
Ferðinni er aflýst og þá eru góð ráð dýr. „Þú getur séð hann í dýragarðinum,“ segir hjálpsamur starfsmaður hótelsins sem ég er komin á til að láta drauminn um skónefinn rætast.
Ég fussa. „Ég þoli ekki dýragarða. Dýr eiga að vera úti í náttúrunni,“ segi ég með vandlætingu.
En þetta er ekki dýragarður í eiginlegri merkingu, bætir hann þá við og útskýrir að gamli dýragarðurinn í Entebbe sem Bretar stofnuðu snemma á sjötta áratugnum er þeir höfðu gert Úganda að nýlendu sinni hafi á síðustu árum breyst í athvarf fyrir slösuð og veik villt dýr. Að þar sé hlúð að þeim þangað til þau ná heilsu og þegar sá áfangi næst sé þeim sleppt aftur út í náttúruna verði því viðkomið.
Þrátt fyrir óþol mitt fyrir dýragörðum ákveð ég því að slá til. Og þannig atvikaðist það að ég hitti hinn goðsagnakennda Sushi.
Sushi kemur til móts við mig og dýrahirðinn Roland. Þeir þekkjast. Og hneigja sig hvor fyrir öðrum „að japönskum sið,“ segir Roland til að útskýra nafnið Sushi. Þetta er hins vegar náttúruleg hegðun skónefja. Svona heilsa þeir.
Sushi skellir saman goggnum og fær klapp á kollinn frá Roland og virðist vel líka. Fyrir mörgum árum átti að smygla honum úr landi. Sem betur fer tókst að bjarga honum úr klóm smyglarans en þá var hann ungur og þegar orðinn hændur að mönnum. Hann hefur gott pláss í dýraathvarfinu en „vissulega færi betur um hann úti í náttúrunni, ekki satt?“ spyr ég Roland vongóð. „Það er ekki víst,“ svarar hann. „Sushi er uppalinn hér og kann ekki að veiða sér til matar.“
Skónefir beita mjög sérstakri tækni við veiðar sínar í votlendi. Þeir standa grafkyrrir, jafnvel í sautján klukkutíma að því er dæmi sýna, þar til fiskar sem eru þeirra helsta bráð fara að líta á þá sem hluta af umhverfinu. Og þá lætur hann til skarar skríða. Skellir gogginum sem er beittur og með nokkurs konar krók framan á, um bráðina og gleypir hana að því er virðist í einum bita. Stóra sem smá fiska. Jafnvel krókódílaunga og vatnasnáka. Þolinmóðasti fugl allra tíma.
Þegar ég fylgist með Sushi og Roland eiga í samskiptum er engu líkara en að eldingu slái niður í höfðinu á mér. Nú veit ég af hverju skónefur heillar mig svo mikið!
Þetta eru ekki Sushi og Roland sem ég horfi á heldur hippógriffín og Hagrid í bókunum um galdrastrákinn Harry Potter. „Buckbeak“ eins og Hagrid kallaði goðsagnaveruna sem margir hræddust en hann tók ástfóstri við. Til að öðlast viðurkenningu hippógriffíns þarftu að hneigja þig fyrir honum. Ef hann svarar í sömu mynt ertu örugg. Ef ekki áttu fótum þínum fjöri að launa.
Ég hneigi mig að sjálfsögðu fyrir Sushi og hann gerir slíkt hið sama. Loksins hef ég séð hann, fuglinn sem myndi alltaf vinna störukeppni. Það eru forréttindi en alls ekki sjálfsögð mannréttindi að fá að berja öll þessi einstöku dýr Afríku augum.
Þetta er þeirra land.