Ísland er „best í heimi“ þegar kemur að jafnrétti. Greint var frá því í fréttum á síðasta ári að Ísland væri efst á lista í skýrslu Alþjóðaefnahagsráðsins (e. World Economic Forum) um kynjajafnrétti í heiminum tólfta árið í röð. Já, tólfta árið í röð.
Á eftir Íslandi komu Finnland, Noregur, Nýja-Sjáland og Svíþjóð. Í neðstu fimm sætunum sátu Sýrland, Pakistan, Írak, Jemen og í Afganistan mældist misrétti mest.
Auðvitað eru þetta gleðifréttir – því er ekki að neita. Forsætisráðherra gladdist yfir tíðindunum en í samtali við Fréttablaðið sagði hún að niðurstaðan endurspeglaði ekki endilega að kynjajafnrétti væri náð. „En hins vegar þá leggur það okkur ákveðna ábyrgð á herðar, það er horft til okkar sem forysturíkis og það leggur okkur þá skyldu á herðar að gera enn betur og sýna gott fordæmi,“ sagði Katrín.
Svo baráttan til að ná jafnrétti hér á landi heldur áfram. Hún endurspeglast jafnframt í þeirri metoo-bylgju sem reið yfir á síðasta ári en hún sýndi meðal annars að þrátt fyrir mikla vitundarvakningu síðan árið 2017 værum við ekki komin á leiðarenda í þeim málum.
Mikið verk er enn óunnið á mörgum sviðum samfélagsins, til að mynda innan dómskerfisins og varðandi viðhorf til þessa málaflokks.
Gleymdu konurnar
Síðasta ár markar þó – þrátt fyrir þessa opinberun – tímamót sem lýsir sér í ábyrgð eða réttara sagt hvernig samfélag vill að ábyrgðin liggi í þessum málum. Hún liggur ekki einungis hjá meintum gerendum heldur hjá okkur öllum. Að við tökum afstöðu, að þessi mál séu skoðuð af alvöru og fólk sé látið bera ábyrgð með þeim leiðum sem þykja eðlilegar í samræmi við brotið.
Við getum því staldrað aðeins við og fagnað þeim góða árangri sem þó hefur náðst í íslensku samfélagi varðandi kynbundið áreiti og ofbeldi – í viðhorfsbreytingu í samfélaginu og stöðu kvenna hér á landi. En verum ekki of fljót að fagna.
Því enn er hópur innan okkar raða sem fær aldrei réttlæti. Í þessum hóp eru konur sem leitað hafa til okkar og við vísað á dyr. Þetta eru konur sem eru ekki íslenskar og hafa flúið ömurlegar aðstæður – ekki einungis í heimalandinu – heldur í því landi sem þær hafa fengið alþjóðlega vernd.
Þetta eru konur sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi, kynfæralimlestingum og gríðarlegum fordómum. Þær bera þess líklega aldrei bætur og vegna pólitískra ákvarðana fá þær hvorki áheyrn né tækifæri til að vinna úr sínum málum hér í jafnréttisparadísinni á Íslandi.
Bíða örlaga sinna
Kjarninn hitti þrjár konur með slíka reynslu í lok síðasta árs en þær bíða nú allar eftir því að vera sendar í burtu af íslenskum yfirvöldum. Tvær þeirra eiga börn og dvelur dóttir annarrar þeirra með henni hér á landi.
Tvær þessara kvenna eru sómalskar en þær eru báðar þolendur grimmilegs ofbeldis og þarfnast sárlega aðstoðar fagfólks til að vinna í sínum málum. Þær hafa báðar orðið fyrir kynfæralimlestingum með tilheyrandi afleiðingum.
Þær eru báðar með viðurkennda stöðu sem flóttamenn í Grikklandi – og því fengið alþjóðlega vernd þar – og verða senda þangað um leið og færi gefst. Þær fengu ekki efnislega meðferð hér á landi og var það vegna svokallaðrar Dyflinarreglugerðar sem byggir á því að senda fólk til baka til þess lands sem það hefur fengið vernd.
Önnur konan greindi frá því að dvölin í Grikklandi hefði verið gríðarlega erfið. „Ég gekk í gegnum erfiða hluti þar, ég fékk engin tækifæri. Ég gat ekki fengið vinnu og mér var neitað um það að fá börnin mín til mín. Mér var sagt að það væri ekki möguleiki. Það var mjög erfitt. Ég þekkti engan á þessum slóðum sem gæti hjálpað mér,“ sagði hún.
„Þegar ég kom fyrst til Grikklands var ég færð í flóttamannabúðir í tjald með 10 öðrum. Þegar þú sefur í þannig aðstæðum þá getur þú ekki einu sinni snúið þér við, það er svo þröngt. Það er ekki mögulegt að fara á klósettið á nóttunni af ótta við að vera rænt. Það kom einu sinni fyrir mig en ég fékk óvænta hjálp svo mér tókst að sleppa.“
Varð fyrir miklum fordómum á götum úti
Þegar konan fékk vernd í Grikklandi og leyfi til að vera þar þá sagði hún að hún hefði misst öll réttindi, til dæmis bæði tjaldið og alla framfærslu eða aðstoð. „Þetta var hræðilegt reynsla,“ sagði hún og útskýrði að hún hefði orðið fyrir miklum fordómum á götum úti.
Henni var til að mynda neitað að koma inn í sumar verslanir. „Eigandinn bannaði mér þá að koma inn um dyrnar ef ég ætlaði að versla eitthvað. Ég lenti líka í því að krakkar hentu steinum í mig á götum úti og grísk manneskja neitaði að standa við hliðina á mér. Það þurfti alltaf að vera ákveðið bil á milli okkar. Þegar ég talaði við embættismenn þá hleyptu þeir mér ekki inn heldur heimtuðu að ég stæði fyrir utan dyrnar og að við myndum tala þannig saman.“
Þannig fékk hún sem hælisleitandi eilítið skjól og mat en eftir að hún fékk vernd þá fékk hún hvorugt. Þannig verða aðstæður konunnar þegar hún verður send til baka af íslenskum stjórnvöldum.
Boðinn peningur fyrir „kynlíf“
Hin konan frá Sómalíu sagði farir sínar heldur ekki sléttar í samtali við Kjarnann. Í úrskurði kærunefndar útlendingamála kom fram að eftir að Sahra fékk alþjóðlega vernd hefði henni verið hent út úr búðunum, hún hefði misst framfærslu sína og eftir það hafist við á götunni við afar erfiðar aðstæður. Henni hefði verið boðinn peningur eða aðstoð í skiptum fyrir „kynlíf“. Þá hefði hún ítrekað óskað eftir aðstoð grískra stjórnvalda en ávallt verið synjað. Hún hefði reynt að finna atvinnu og verða sér úti um nauðsynlegar skráningar í Grikklandi en án árangurs. Hún hefði þurft að greiða fyrir skattnúmer og kennitölu auk þess sem hún hefði engar upplýsingar eða leiðbeiningar fengið frá grískum stjórnvöldum.
Þá kom enn fremur fram að hún hefði ekki fengið nauðsynlega heilbrigðisþjónustu í Grikklandi og að hún hefði sjálf þurft að draga úr sér tönn. Þá hefði hún upplifað mikla fordóma í Grikklandi frá almenningi og lögreglan hefði ekki veitt henni aðstoð.
Þá er ótalið kynferðisofbeldi, nauðganir og gróft andlegt og líkamlegt ofbeldi sem hún varð fyrir að hendi manns þar í landi.
Frásögn þeirra ekki dregin í efa
Konan sagði við Kjarnann að hún hefði engan stuðning fengið eftir að hún fékk verndina þar í landi. „Yfirvöld sögðu mér að ég væri á eigin vegum og þyrfti að finna út úr hlutunum sjálf. Ég vissi aldrei hvert ég ætti að leita og ég svaf oft á götunni með öðru heimilislausu fólki. Suma daga gat ég fundið eitthvað að borða, aðra ekki. Svo nei, ég fékk engan stuðning frá grískum yfirvöldum.“
Þær lýstu báðar yfir miklum vilja til að vera á Íslandi. Hér gætu þær fengið þá aðstoð sem þær þyrftu á að halda og eygðu þær báðar von um að öðlast betra líf – að fá börnin til sín, finna vinnu og byggja sig upp.
Frásögn þeirra beggja var ekki dregin í efa af kærunefndinni. En vegna þess að þær eru nú þegar með alþjóðlega vernd í Grikklandi þá var umsókn þeirra hér á landi ekki tekin efnislega fyrir.
Lögmaður þeirra, Claudia Ashanie Wilson, óskaði eftir frestun réttaráhrifa og endurupptöku á máli þeirra en báðar áttu þær tíma hjá þvagfæraskurðlæknum vegna alvarlegra fylgikvilla limlestinga á kynfærum sem þær hafa orðið fyrir. Nýjustu vendingar í málinu eru þær að þeim hefur verið neitað – aftur. Svo nú tekur við ferli þar sem lögmaður þeirra mun vísa málunum til dómstóla. Á meðan bíða þær brottflutnings.
„Ég vil ekki deyja“
Þriðja konan er frá landi í vesturhluta Afríku. Hún er þolandi heimilisofbeldis, mansals og kynfæralimlestinga og bíður hún þess einnig að íslensk stjórnvöld sendi hana og unga dóttur hennar úr landi. Hún flúði til Íslands árið 2021 og hefur dóttir hennar náð að blómstra eftir komuna hingað til lands. Konan þráir ekkert heitar en að fá að byggja upp nýtt líf á Íslandi.
Þegar konan tók þá ákvörðun að fara til Íslands þá sleit hún á öll tengsl við vini og samstarfsfélaga – alla sem hún þekkti. Ástæðan var ofbeldisfullur fyrrverandi eiginmaður. Hún sagðist í samtali við Kjarnann alltaf vera hrædd, hvar sem hún er. „Ég vil ekki deyja. Ég fór frá heimahögunum þegar ég var mjög ung og ég hef gengið í gegnum svo mikið. Ég vil ekki deyja.“
Hún sagði að Ísland hefði orðið fyrir valinu vegna þess að hún taldi að hér gæti hún fengið frið. Hún sagðist vilja byggja upp líf hér á Íslandi, ekki síst fyrir dóttur sína. „Mig langar að vinna og mig langar að læra meira. Ég hef alltaf haft það í huga að klára menntun mína en ég þurfti eins og ég sagði áðan að flýja í skyndingu frá heimalandinu og hætta í námi.“
Hún sagði jafnframt að hún hefði ekki gert sér almennilega grein fyrir því að stöðugleikinn sem dóttir hennar hefur upplifað á þessu ári á Íslandi hefði haft svona góð áhrif á hana. „Sannleikurinn er sá að ég hef verið mjög róleg síðan ég kom hingað þangað til ég fékk synjun frá stjórnvöldum. Eftir þá ákvörðun hef ég verið mjög óróleg og mér líður ekki vel núna.“
Konuna langar að vera frjáls undan ofsóknum fyrrverandi eiginmannsins. „Mig langar að geta vaknað á morgnana án þess að vera ein taugahrúga yfir því hvað muni gerast fyrir mig og dóttur mína. Ég vil hætta að lifa í ótta.“
Þær mæðgur bíða enn eftir að vera fluttar af landi brott til þess Evrópulands þar sem konan er með alþjóðlega vernd og fyrrum eiginmaður hennar býr.
Ákvörðunin er ekki náttúrulögmál – heldur pólitík
Framtíð þessara þriggja kvenna er óljós en næsta víst er að þegar þær fara til baka mun ekkert gott bíða þeirra. Þær lýsa því best sjálfar.
Afstaða íslenskra stjórnvalda er skýr. Því þrátt fyrir svigrúm í lögum til að taka mál þeirra efnislega fyrir þá er það ekki gert. Það er nefnilega ekki náttúrulögmál að vísa þessum konum í burtu. Það er pólitísk ákvörðun. Það er pólitísk ákvörðun að taka ekki tillit til aðstæðna kvenna sem hingað flýja bagalegar aðstæður. Og ég leyfi mér að fullyrða að enginn sem flýr heimalandið gerir það að gamni sínu.
Stefna íslenskra stjórnvalda í málefnum fólks á flótta er hörð stefna og ómannúðleg. En þar sem pólitískar stefnur eru mannanna verk þá er hægt að breyta þeim – ef vilji er til. Við getum tekið þá ákvörðun að taka á móti þessum konum sem upplifað hafa hræðilegt ofbeldi, nauðganir og fordóma – og þá fyrst getum við stolt talað um Ísland sem jafnréttissamfélag fyrir konur. Þar til við gerum það þá er tal um kynjajafnrétti á Íslandi eintóm hræsni því þá sýnum við það og sönnum að sumar konur séu merkilegri en aðrar.
Gott er einnig að minna sig á þegar við Íslendingar hugsum um fólk í leit að vernd eða af erlendum uppruna að það er ekki baggi á samfélaginu okkar. Það er það ekki. Það gefur okkur þvert á móti tækifæri til að þroskast sem samfélag – læra og aðlagast. Þvert á heimóttarskap okkar verðum við að muna að við erum ríkt samfélag og getum hjálpað bæði Íslendingum og þeim sem leita til okkar eftir hjálp – og sýnt „gott fordæmi“ eins og forsætisráðherrann orðaði það svo vel. Við getum það ef viljinn er fyrir hendi.