Árið 1929 var samþykkt frumvarp um stofnun verkamannabústaða á Íslandi, og fyrsti vísir að félagslegu íbúðakerfi varð að veruleika. Í 70 ára óx það kerfi, mest á níunda og tíunda áratug síðustu aldar, og innan þess gat tekjulágt fólk bæði keypt eða leigt húsnæði á verði sem það réði við. En mikilvægast var húsnæðisöryggið sem fylgdi.
Þeir sem leigðu borguðu hóflega leigu sem rúmaðist innan ráðstöfunartekna þeirra. Þeir sem keyptu gátu tekið félagsleg lán, sem voru þannig að vextir á þeim voru lægri, lánstíminn lengri og veitt voru hærri lán sem hlutfall af kostnaði íbúðar. Þetta kerfi gerði það að verkum að lágtekjufólk átti mun auðveldara með að eignast þak yfir höfuðið.
Árið 1998 voru félagslegar íbúðir á landinu alls 11.044 talsins.
Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem mynduð var eftir alþingiskosningar vorið 1995, boðaði í málefnasamningi verulegar breytingar á húsnæðismálum. Í þeim fólst m.a. að leggja niður Húsnæðisstofnun ríkisins, fyrri lánveitingum í félagslegum tilgangi var hætt og öll lánastarfsemi Byggingasjóðs verkamanna var aflögð.
Félagslega íbúðakerfið eins og það var á þeim tíma var einfaldlega lagt niður með lögum sem tóku gildi 1999.
Í aðdraganda þess var áformunum harðlega mótmælt, meðal annars af 40 verkalýðs- og félagasamtökum. Jóhanna Sigurðardóttir, síðar forsætisráðherra, flutti lengstu þingræðu sögunnar við aðra umræðu málsins til að sýna fram á andstöðu sína gegn því.
Þegar málið var svo afgreitt flutti Jóhanna aðra eftirminnilega ræðu. Þar sagði hún: „Með atkvæðagreiðslunni sem hér fer fram er innsigluð ósvífnasta og grimmilegasta atlagan sem við höfum séð um áratuga skeið að kjörum fátæks fólks á Íslandi. Þetta er svartur dagur í sögu félagslegrar aðstoðar í húsnæðismálum fátæks fólks á Íslandi.“
Ein stærstu hagstjórnarmistökin
Með pólitískum ákvörðunum voru allir þeir sem áður bjuggu í félagslegu kerfi færðir inn í almennt kerfi og gert að taka allt að 90 prósent lán til að kaupa húsnæði. Þeir þurftu að taka lán á sömu kjörum og aðrir sem þar voru en höfðu meira á milli handanna eða keppa við þá um takmarkað magn leiguíbúða. Þeir sem sátu í félagslegu íbúðunum akkúrat á þessum tíma fengu að kaupa eignirnar á lágu verði og þegar óumflýjanleg ruðningsáhrif á húsnæðismarkaði urðu gátu þeir selt þær með hagnaði. Þess vegna reyndist þessi aðgerð sértæk tilfærsla á fjármunum til afmarkaðs hóps.
Þessi pólitíska ákvörðun gerði það enda að verkum að eftirspurn eftir íbúðum til kaups og leigu á almenna markaðnum jókst margfalt á einni nóttu.
Lágtekjufólk og félagslega viðkvæmt var skilið eftir úti í kuldanum og möguleikum þeirra til að koma þaki yfir höfuðið fækkað stórkostlega.
Íþyngjandi greiðslubyrði
Staðan versnaði enn á árunum eftir hrunið. Fyrst var ekkert byggt af ráði árum saman og eftirspurn varð miklu meiri en framboð. Ofan á það fjölgaði ferðamönnum úr hálfri milljón í 2,3 milljónir á nokkrum árum án þess að innviðir, á borð við hótel, væru til staðar til að hýsa þá alla. Því var hluti almenna íbúðamarkaðarins tekinn undir það líka.
Ferðamannaiðnaðurinn er mannaflsfrekur þjónustugeiri með litla framleiðni. Til að hann gangi þarf mikið af starfsfólki. Það kom að utan, og þurfti að búa einhversstaðar. Frá lokum árs 2010 og fram til loka september síðastliðins fjölgaði erlendum ríkisborgurum á Íslandi úr 21.160 í 54.140, eða um 156 prósent. Þetta er fjölgun um 32.980 manns, sem eru fleiri einstaklingar en búa samanlagt í Garðabæ og Mosfellsbæ í dag.
Á ellefu ára tímabili hækkaði húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu, þar sem tveir af hverjum þremur íbúum landsins búa, um 160 prósent og leiguverð rúmlega tvöfaldaðist.
Þetta leiddi af sér neyðarástand sem bitnar mest á fátækasta fólkinu í landinu. Ein birtingarmynd þess er að um mitt ár í fyrra var áætlað að um fjögur þúsund manns bjuggu í atvinnu- eða iðnaðarhúsnæði, sem eru ekki hugsuð sem mannabústaðir.
Aðra má sjá í árlegri könnun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) á íslenska leigumarkaðnum. Þar kom fram að hlutfall ráðstöfunartekna allra leigjenda sem fer í leigu er nú 45 prósent. Samkvæmt HMS gefur það hlutfall til kynna mjög mikla greiðslubyrði að meðaltali sem teljast megi íþyngjandi. Í sömu könnun kom fram að 44 prósent leigjenda hjá einkareknum leigufélögum greiddu yfir 50 prósent af ráðstöfunartekjum sínum í leigu. Um 13 prósent leigjenda einkarekinna leigufélaga eða á almenna markaðnum greiða yfir 70 prósent af ráðstöfunartekjum sínum í leigu.
Ísland er með fimmtu hæstu leigu í heiminum sem stendur.
Hlutfall þeirra sem eru á leigumarkaði sem telja sig ekki búa við húsnæðisöryggi jókst milli ára, úr 16,1 í 18,9 prósent. Tveir af hverjum þremur eru leigjendur af nauðsyn, ekki vegna þess að þeir vilja það.
Peningar færðir til þeirra sem þurftu þá ekki
Hvernig hafa stjórnvöld reynt að leysa þetta? Aðallega með skammsýnum tískuaðgerðum sem hafa gert lítið annað en að fóðra milli- og efristéttina, skapa ruðningsáhrif og auka enn á vanda þeirra sem hafa það verst. Leiðréttingin færði 72,2 milljarða króna úr ríkissjóði til hluta landsmanna. Nokkrir milljarðar fóru meira segja til mjög efnaðra Íslendinga sem vantaði ekkert minna en peninga í lífinu.
Þá var ákveðið að leyfa þeim sem áttu eignir, eða uppfylltu skilyrði sem fyrstu kaupendur, að nota séreignarsparnaðinn sinn skattfrjálst til að borga niður húsnæðislánið sitt. Þeir sem þetta nýta eru eini hópurinn á Íslandi sem þarf ekki að borga skatt af séreignarsparnaðinum sínum. Frá miðju ári 2014 og til loka janúar 2021 hafði þessi hópur fengið 21,1 milljarð króna í meðgjöf úr ríkissjóði sem öðrum hefur ekki boðist. Um 17 prósent allra landsmanna og um 30 prósent allra sem eru á vinnumarkaði hafa nýtt sér úrræðið.
Hlutdeildarlán og aukið lánsfjármagn
Nýjasta patentlausnin eru svo hlutdeildarlán. Um er að ræða vaxta- og afborgunarlaus viðbótarlán frá ríkinu sem geta numið allt að 20 prósentum af kaupverði tiltekinna fasteigna. Ríkið fær síðan greitt til baka þegar fasteignin er seld. Lána átti út fjóra milljarða króna á ári í tíu ár, alls 40 milljarða króna.
Á fyrsta rúma árinu eftir að lánin urðu aðgengileg tókst hins vegar einungis að lána út 60 prósent þeirrar upphæðar, til alls 294 lántakenda. Ástæðan: Að hámarki er hægt að fá hlutdeildarlán fyrir íbúð sem kostar 58,5 milljónir króna, en það þarf þá að vera fjögurra svefnherbergja íbúð á höfuðborgarsvæðinu sem er að lágmarki 100 fermetrar. Hún þarf svo að vera ný, eða í það minnsta nýuppgerð sem íbúðarhúsnæði. Engin íbúð til sölu, hvorki ný né eldri, á höfuðborgarsvæðinu uppfyllir þessi skilyrði.
Hlutdeild banka í útistandandi íbúðalánum er nú um 70 prósent en var 55 prósent í byrjun árs 2020. Á sama tíma hefur vaxtamunur bankanna þriggja haldist svipaður en hagnaður þeirra stóraukist.
Afleiðingin: Miklu hærra húsnæðisverð
Frá byrjun árs í fyrra hefur verð á húsnæði á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 24 prósent. Á síðustu tólf mánuðum einum saman hefur verðið hækkað um 15,7 prósent fyrir fjölbýli á svæðinu og 17,5 prósent fyrir sérbýli. Á landsbyggðinni er hækkunin 9,2 prósent fyrir fjölbýli og 13,9 prósent fyrir sérbýli.
Þetta er afleiðing þess að framboð er miklu minna en eftirspurn. Birtingarmyndir þess eru meðal annars þær að í október seldust 37,8 prósent allra íbúða í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu yfir ásettu verði. Það hlutfall hefur aldrei verið hærra frá því að mælingar hófust. Meðalsölutími íbúða á höfuðborgarsvæðinu var tæplega 37 dagar í október og hefur aldrei mælst styttri.
Færri kaupsamningar eru gerðir. Sérstaklega hefur dregið úr sölu á litlum íbúðum, eins herbergja og stúdíóíbúðum, á höfuðborgarsvæðinu. Í byrjun síðasta árs voru yfir eitt hundrað slíkar til sölu en nú eru þær einungis níu. Þegar framboð af íbúðum var sem mest, í maí í fyrra, voru rétt tæplega fjögur þúsund íbúðir til sölu á landinu öllu. Nú eru þær 1.150 talsins.
Þessi þróun hefur líka verið leiðandi þáttur í stigvaxandi verðbólgu, sem er nú 4,8 prósent. Það þýðir að virði peninganna í vasa okkar er að rýrna. Slíkt bitnar verst á þeim sem eiga lítið af þeim.
Skattgreiðendur í Reykjavík látnir borga
Niðurlagning félagslega íbúðakerfis ríkisins færði vandann yfir á aðra, aðallega sveitarfélög. Á höfuðborgarsvæðinu hefur sá vandi nánast einungis verið axlaður af Reykjavíkurborg og skattgreiðendum sem búa þar. Kjarninn greindi frá því í lok síðasta mánaðar að hlutdeild Reykjavíkurborgar í framboði félagslegs húsnæðis á höfuðborgarsvæðinu er nú yfir 78 prósent.
Tilraun til að endurreisa vísi að félagslegu íbúðarkerfi með einhverri aðkomu ríkissjóðs var lögfest árið 2016 með lögum um almennar íbúðir.
Markmið þeirra laga var að bæta húsnæðisöryggi þeirra sem eru undir ákveðnum tekju- og eignarmörkum með því að auka aðgengi að öruggu og viðeigandi leiguhúsnæði. Þannig sé stuðlað að því að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu þeirra sem leigja húsnæðið og fari að jafnaði ekki yfir 25 prósent af tekjum þeirra.
Kjarninn greindi frá því fyrir ári síðan að íslenska ríkið hefði þá alls úthlutað 15,3 milljörðum króna í stofnframlög vegna almennra íbúða á landinu öllu frá árinu 2016, þegar lög um slík framlög voru sett.
Allt í allt þá höfðu verið veitt stofnframlög úr ríkissjóði til að byggja 2.625 íbúðir á landinu öllu. Alls voru 73 prósent af almennu íbúðunum í Reykjavík. Það þýðir að Reykjavík hefur verið að taka á sig næstum tvöfaldan hluta af uppbyggingu almenna íbúðakerfisins en hlutfall íbúa borgarinnar segir til um.
Það þarf að byggja 27 þúsund nýjar íbúðir til 2030
HMS hefur metið að byggja þurfi 27 þúsund íbúðir fram til ársins 2030 og að það þurfi 3.500 íbúðir á ári á fyrstu árum tímabilsins vegna viðvarandi óuppfylltrar íbúðaþarfar, aukinnar fólksfjölgunar og breytinga sem eru að verða á heimilisgerð og aldurssamsetningu þjóðarinnar. Samkvæmt því mati þarf að bæta í fjölda íbúða í byggingu til að uppfylla íbúðaþörf.
Ýmsar tillögur hafa verið lagðar fram. Sósíalistaflokkurinn kom til að mynda fram með loforð um að láta byggja 30 þúsund íbúðir á tíu árum, næði hann kjöri og inn í ríkisstjórn. Hvorugt gekk eftir. Samfylkingin lagði fram þingsályktunartillögu í byrjun yfirstandandi þings sem fól í sér að Alþingi myndi álykta að fela ríkisstjórninni að efla almenna íbúðakerfið með uppbyggingu eitt þúsund leigu- og búseturéttaríbúða á hverju ári, í samstarfi við húsnæðisfélög án hagnaðarsjónarmiða.
Í nýlegri könnun kom fram að 84 prósent leigjenda óhagnaðardrifinna leigufélaga á borð við Félagsbústaði eru ánægðir með að leigja þar. Um þriðjungi dýrara að leigja af einkaaðila en af opinberum aðila.
Hvað þarf að gera?
Staðan er þannig, og hefur að uppistöðu verið þannig árum saman, að ef þú ætlar að koma þaki yfir höfuðið þá skiptir mestu máli hvort þú getir treyst á meðgjöf foreldra eða annarra í stuðningsneti þínu. Flestar aðgerðir sem gripið hefur verið til fela í sér tilfærslu á peningum til þeirra sem eru þegar komnir á eignamarkað. Þeir sjá bókfært virði húsnæðis síns hækka hratt en húsnæðiskostnaðinn standa að mestu í stað, og stundum lækka. Margir innan þess hóps nýta ávinninginn til að fjárfesta í húsnæði sem þau búa ekki, og hafa tekjur af. Um síðustu mánaðamót voru 52.079 íbúðir, alls 35,1 prósent allra íbúða í landinu, í eigu einstaklinga eða lögaðila sem áttu fleiri en eina íbúðir.
Hinir sem eru fastir á leigumarkaði þurfa hins vegar að borga stærri hluta af ráðstöfunartekjum sínum í húsnæðiskostnað.
Það ríkja einfaldlega ekki jöfn tækifæri þegar kemur að grundvallarmannréttindum eins og húsnæðisöryggi.
Ástæðan er sú að flestir hvatar sem eru innleiddir miða að því að auka eftirspurn, ekki framboð. Það á sérstaklega við um íbúðir handa þeim sem minnst hafa á milli handanna. Það þarf að taka ákvörðun um að breyta þessu. Að þeirri ákvörðun þarf ríkið augljóslega að koma ásamt sveitarfélögum og eftir atvikum stéttarfélög og félagasamtök. Jafnvel lífeyrissjóðir.
Ísland er gott og ríkt land. Hér hefur ýmislegt breyst til mikils batnaðar á síðastliðnum áratugum. Sú staðreynd má hins vegar ekki breiða yfir það að hér er margt gert skakkt. Og með sérhagsmuni hópa ofarlega í fæðukeðjunni að leiðarljósi, ekki þarfir þeirra sem þurfa að bítast um brauðmolana.
Í samfélagi sem telur 374 þúsund manns, og er á meðal ríkustu landa heims aðallega vegna þess að auðlindir í sameiginlegri eigu þjóðar eru nýttir til að skapa hagvöxt, hlýtur að vera hægt að skapa húsnæðiskerfi þar sem flestum, ef ekki öllum, er tryggt húsnæði á viðráðanlegu verði.
Það er val að gera þetta ekki.