Árið 2014 var tekin pólitísk ákvörðun um að breyta stuðningskerfi þeirra heimila sem voru með húsnæðislán á Íslandi. Í hröðum en öruggum skrefum myndi vaxtabótakerfið, sem miðlaði fjármunum úr ríkissjóði til tekjulágra og þeirra sem voru að koma undir sig fótunum, hverfa og nýtt kerfi skattafsláttar taka við.
Það fól í sér að allir tekjuhópar sem söfnuðu í séreignarsparnað gátu notað hann skattfrjálst til að greiða niður húsnæðislánin sín upp að ákveðinni upphæð árlega. Nýja kerfið var hluti af „Leiðréttingunni“ svokölluðu. Hin hluti hennar var millifærsla á 72,2 milljörðum króna úr ríkissjóði til hluta þeirra landsmanna sem voru með verðtryggð húsnæðislán á árunum 2008 og 2009. Þar af fór tæplega þriðjungur upphæðarinnar til þess fimmtungs landsmanna sem átti mestar hreinar eignir. Til að átta sig á hversu svívirðilega mikil ranghugmynd sú aðgerð var má til viðbótar benda á að 1.250 heimili sem borguðu auðlegðarskatt árið 2013, langríkasta fólk landsins, fengu samtals 1,5 milljarða króna í þennan ríkisstyrk.
Lengi hefur verið uppi rökstuddur grunur um að þorri þess skattaafsláttar sem fæst með því að nota séreignarsparnað til að niðurgreiða húsnæðislán hafi líka lent hjá ríkasta hópi landsmanna. Sérfræðingahópurinn sem vann grunnvinnuna að þessum aðgerðum gaf það til að mynda skýrt til kynna í skýrslu sinni sem birt var 2013. Þar stóð orðrétt: „Almennt eru tekjur þeirra sem spara í séreignarlífeyrissparnaði mun hærri en hinna sem ekki gera það.“
Nú hefur þessi tilfærsla frá þeim sem þurfa á peningum að halda til þeirra sem langar í meiri peninga verið staðfest.
Tugir milljarða til tekjuhæstu hópanna
Í umfjöllun sem birtist í mánaðaryfirliti Alþýðusambands Íslands (ASÍ) í vikunni kom fram að alls hafi 32,8 milljarðar króna fengist í skattaívilnun vegna skattfrjálsrar ráðstöfunar á séreignarsparnaði. Af þeirri upphæð fóru 28 milljarðar króna, 85 prósent heildar upphæðarinnar, til tekjuhæstu 30 prósent einstaklinga. Á árinu 2020 fór næstum helmingur alls skattaafsláttarins til þeirra tíu prósent landsmanna sem voru fyrir ríkastir, alls um 2,2 milljarðar króna. Ef sama hlutfall heildar upphæðarinnar hefur farið til þessarar ríkustu tíundar þá hefur þessi hópur, sem þarf sannarlega ekki á ríkisstuðningi að halda, fengið rúmlega 15 milljarða króna frá 2014.
Greiðslur vaxtabóta, sem stóðu hinum tekjuhæstu og eignamestu ekki til boða, hafa dregist saman um 75 prósent frá árinu 2013.
Ástandið bætist við fyrri mistök sem hafa verið gerð í húsnæðismálum. Þau stærstu voru að leggja niður félagslega íbúðakerfið í lok síðustu aldar. Þess í stað hafa stjórnvöld hlaðið í hverja patentlausnina á fætur annarri til að auka eftirspurn eftir húsnæði á markaði sem er mun frekar þjakaður af skorti á framboði. Má þar nefna 90 prósent lán Íbúðalánasjóðs, Fyrstu fasteign, hlutdeildarlán og þensluhvetjandi aðgerðir ríkisstjórnar og Seðlabanka til að stórauka útlánagetu viðskiptabanka í heimsfaraldri. Félagslegi vandinn hefur að uppistöðu verið færður á herðar skattgreiðenda í Reykjavík, en höfuðborgin er með 78 prósent hlutdeild í félagslegu húsnæði á höfuðborgarsvæðinu.
Allt hefur þetta leitt af sér fordæmalausar hækkanir á húsnæðisverði og veikt stöðu þeirra hópa sem standa veikast í samfélaginu og þurfa að leigja sér húsnæði.
Vandinn að birtast en stjórnvöld toga í ranga átt
Ein birtingarmynd þess er að um mitt ár 2020 var áætlað að um fjögur þúsund manns hafi búið í atvinnu- eða iðnaðarhúsnæði, sem eru ekki hugsuð sem mannabústaðir. Aðra mátti sjá í könnun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) á íslenska leigumarkaðnum sem birt var í fyrra. Þar kom fram að hlutfall ráðstöfunartekna allra leigjenda sem fer í leigu væri komið upp í 45 prósent. Samkvæmt HMS gefur það hlutfall til kynna mjög mikla greiðslubyrði að meðaltali sem teljast megi íþyngjandi. Í nýrri greiningu Eflingar kom fram að heimili láglaunaðra barnafjölskyldna nái ekki endum saman jafnvel þótt þau bæti við sig umtalsverðri aukavinnu þar sem laun þeirra duga ekki fyrir framfærslukostnaði eins og stjórnvöld meta hann. Þau eru tæknilega gjaldþrota.
Til viðbótar má gera ráð fyrir að hluti þeirra sem hafa komið sér inn á eignamarkað á síðustu tveimur árum með mikilli skuldsetningu lendi í umtalsverðum vanda í nánustu framtíð vegna hækkandi vaxtarstigs. Rúmlega tíu prósent fyrstu kaupenda var með greiðslubyrðarhlutfall umfram 40 prósent í lok árs í fyrra. Frá árslokun 2020 og til loka febrúar 2022, á fjórtán mánuðum, hefur greiðslubyrði óverðtryggðra lána með 85 prósent veðsetningarhlutfalli aukist um 18 prósent, samkvæmt samantekt Seðlabanka Íslands.
Slá má föstu að greiðslubyrði muni halda áfram að aukast á þessu ári samhliða frekari vaxtahækkunum, aukinni verðbólgu og áframhaldandi hækkunar á húsnæðisverði.
Einu framkomnu viðbrögð ríkisstjórnarinnar við þessari stöðu eru drög að frumvarpi fjármála- og efnahagsráðherra sem eykur heimildir fólks til að ráðstafa séreignarsparnaðinum sínum skattfrjálst til fyrstu fasteignakaupa. Frumvarpið eykur á eftirspurnarþrýsting í stað þess að vinna gegn honum. Togar semsagt í ranga átt.
Ákvarðir sem valda tilfærslu á fjármagni
Aðrir hópar hafa hagnast gríðarlega á þessu ástandi. Það á við um hluta millistéttarinnar sem hefur séð bókfært virði fasteigna sinna rjúka upp í verði á sama tíma og raunvextir hafa verið neikvæðir. En mest hafa þeir sem eiga mest – hlutabréf og aðrar fasteignir en heimili sitt – hagnast.
Skráð félög, flest á fákeppnismarkaði, keppast nú við að innleiða bónuskerfi. Forstjórar þeirra, sem eru þegar með að meðaltali sextánföld lágmarkslaun í mánaðartekjur, hafa sumir hverjir hækkað í launum um tugi prósenta milli ára. Á sama tíma öskra lobbýistar atvinnulífsins á torgum að ekkert svigrúm sé til þess að hækka almenn laun. Ríkisstjórn atvinnulífsins tekur undir.
Milli þessa dundar fjármála- og efnahagsráðherra sér við að selja banka í eigu ríkisins með milljarða króna afslætti á einni kvöldstund til „fagfjárfesta“. Miðað við fréttaflutning af þeim sem voru handvaldir á verulega ógagnsæjan hátt til að kaupa virðist nóg að eiga eignarhaldsfélag með fjárfestalegu nafni til að teljast slíkur.
Skattaafslættir fyrir tekjuháa og eignamikla
Stjórnvöld hafa líka, á undanförnum árum, einbeitt sér að því að innleiða skattalækkanir sem hafa að mestu skilað sér til hátekjufólks á meðan að beinir skattar á lágtekju- og millitekjufólk hafa hækkað. Álagningu fjármagnstekjuskatts hefur verið breytt þannig að nú þarf ekki að greiða skatt af vöxtum, arði og söluhagnaði hlutabréfa á skipulegum verðbréfamarkaði sem var undir 300 þúsund krónum hjá eintaklingum. Frítekjumark hjóna er 600 þúsund krónur.
Myndarlegar ívilnanir hafa verið innleiddar til að gera rafmagns- og tengiltvinnbíla ódýrari. Með þeim hefur ríkið gefið eftir milljarðatekjur. Þótt færa megi rök fyrir því að þær hraði orkuskiptum og vinni þar með gegn loftslagsvandanum liggur líka skýrt fyrir að það eru að mestu tekjuhæstu og eignamestu hópar samfélagsins sem hafa efni á að kaupa nýorkubíla. Í minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytisins frá því í desember í fyrra kom til að mynda fram að langhæsta hlutfall slíkra bíla er í Garðabæ og á Seltjarnarnesi, eða 16 prósent. Í þeim tveimur sveitarfélögum er hlutfall fjármagnseigenda langt yfir landsmeðaltali. Í grein sem birtist í tímaritinu Stjórnmál og stjórnsýsla árið 2017, og fjallaði um elítur landsins og innbyrðis tengsl þeirra, kom líka fram að flestir sem tilheyra elítunni búi í Garðabæ og á Seltjarnarnesi.
Seint á síðasta ári tóku svo gildi lög sem heimila skattfrádrátt allt að 350 þúsund krónum á ári vegna gjafa og framlaga til félaga sem skráð eru á almannaheillaskrá Skattsins. Við blasir að hóparnir sem eiga það mikla umframpeninga að þeir hafi efni á að setja nokkur hundruð þúsund krónur á ári í uppáhalds íþróttafélagið sitt eða það trúfélag sem stendur þeim næst eru að uppistöðu tekjuhæstu og eignamestu hópar samfélagsins.
Þá er ótaldir skattafrádrættir og styrkir vegna nýsköpunar, rannsókna og þróunar sem nema á annan tug milljarða króna á ári úr ríkissjóði og fara í að niðurgreiða starfsemi sem er, að stórum hluta, í eigu fjármagnseigenda.
Stefnir í niðurskurð, ekki skattahækkanir
Samkvæmt síðasta fjárlagafrumvarpi var gert ráð fyrir að samanlagður halli á ríkissjóði yrði yfir 600 milljarðar króna frá byrjun árs 2020 og út yfirstandandi ár. Gripa á til „afkomubætandi ráðstafana“ til að draga úr skuldasöfnun vegna þessa. Það þýðir að annað hvort verði skattar hækkaðir eða ráðist verður í niðurskurð á útgjöldum.
Í fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar er boðað aðhald í rekstri hins opinbera til að mæta þessari stöðu. Það þýðir á mannamáli niðurskurð á almannaþjónustu, ekki skattahækkanir. Þessi stefna er í andstöðu við það sem mátti lesa úr stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sem er þó bara nokkurra mánaða gamall, þótt orðalag hans hafi vissulega verið afar loðið svo hver stjórnarflokkur geti túlkað hann með eigin nefi.
Lítil alvara virðist þó hafa verið á bakvið flautið. Kjarninn kallaði eftir upplýsingum um hvernig þetta yrði framkvæmt og hvenær. Fyrst var fyrirspurnin send á forsætisráðuneytið sem beindi henni til fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Það sagði svo að forsætisráðuneytið ætti að svara fyrir þetta. Niðurstaðan varð þó sú að hvorugt ráðuneytið gat gefið nokkurt svar um hvað fælist í þessum boðuðu aðgerðum, hvenær þær yrðu innleiddar eða hver myndi framleiða þá innleiðingu. Á meðal hlægja þeir fjármagnseigendur sem taka neysluna og lífstílinn skattlíðið eða skattfrjálst í gegnum einkahlutafélög áfram alla leiðina í bankann af okkur takmörkuðu launþegunum sem borgum storan hluta tekna okkar til að standa undir samneyslu.
Pólitísk ákvörðun
Þetta er Ísland ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Land skattaívilnana sem beint er að ríku fólki. Land millifærslna úr ríkissjóði til þeirra sem þurfa ekki á þeim að halda. Land bónuskerfa og launaskriðs hjá þeim sem eru með mestar tekjurnar. Land ofurhagnaðar vegna ákvarðana stjórnvalda sem lendir hjá fámennu fáveldi.
Þessar ákvarðanir hafa verið innleiddar frá 2013. Sjálfstæðisflokkurinn hefur setið í öllum ríkisstjórnum síðan þá og ofangreint er hans efnahagsstefna. Framsókn var einungis utan stjórnar í nokkra mánuði á árinu 2017 og Vinstri græn hafa leitt ríkisstjórn frá því ári. Flokkarnir bera ekki sameiginlega ábyrgð á öllum þessum ákvörðunum. En þeir bera ábyrgð á að vinda ekki ofan af þeim og skipta um kúrs nú þegar við blasir að kórónveirufaraldursþynnkan lendir verst á viðkvæmustu hópum samfélagsins.
Þetta er kerfi sem mun bara halda áfram að auka á lagskiptingu milli elítu og almennings. Þrýstingurinn verður áfram sem áður á að fjársvelta stoðkerfi samfélagsins og selja þau svo til fjármagnseigenda. Þannig verður hægt að lækka skatta. Við það fjölgar kannski krónunum í vasa launamanna um nokkrar en lífsgæði þeirra rýrna verulega og nýju krónurnar eru langt frá því nægjanlega margar til að gera þeim kleift að kaupa þau gæði aftur á markaði.
Þótt formaður og varaformaður Framsóknarflokksins hafi nýverið sett fram hugmyndir um hvalrekaskatt, réttlátari skiptingu á hagnaði af sjávarauðlindinni, uppbrot á fákeppni og lýst yfir áhyggjum af sífellt meiri ítökum ríkasta fólks landsins í ótengdum geirum er ekkert fyrirliggjandi um að þessar hugmyndir verði að aðgerðum. Raunar benda samtöl við ráðherra til þess að svo verði alls ekki. Sjálfstæðisflokkurinn hefur engan áhuga á þessu og Vinstri græn hafa ekki sýnt neina sýnilega tilburði til þess heldur.
Eftir stendur land sem hefur öll tækifæri til að nýta miklar þjóðartekjur til að styrka innviði, efla almannaþjónustu og styðja vel við þá sem þurfa á því að halda. Það er ekki gert.
Þess í stað hefur verið tekin pólitísk ákvörðun að dæla peningum í ríkt fólk.