„Staðan á Íslandi er að mörgu leyti mjög góð og eftirsóknarverð [...] það er ekkert neyðarástand til staðar – neins staðar í íslensku efnahagslífi [...] Þessi aukni stöðugleiki síðustu ára hefur skilað sér í miklum ábata til heimilanna í landinu. Því hefur vafalaust verið eitthvað misskipt, en engu að síður hefur náðst gríðarlegur árangur fyrir meðalheimili í landinu.“ Þetta sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri í viðtali við Morgunblaðið sem birtist í fyrradag.
Hann varaði svo fulltrúa launafólks við því að sækjast eftir miklum launahækkunum í komandi kjarasamningum. Ef þeir gerðu það myndi Seðlabankinn bregðast við. „Við getum ekki tryggt kaupmátt launa, sem byggjast á algerlega óraunhæfum forsendum, nema með miklum vaxtahækkunum.“
Til að ná hinum margumrædda stöðugleika þurfi þrír armar sem þurfa að vinna saman: vinnumarkaðurinn, ríkisfjármálin og Seðlabankinn.
Þegar einn valdamesti maður landsins talar með þessum hætti er rétt að staldra við og máta orð hans við veruleikann.
Fjármagnstekjur
Í fyrsta lagi er það rétt hjá Ásgeiri að ábata síðustu ára hafi verið misskipt.
Stjórnvöld og Seðlabanki Íslands gripu til margháttaðra aðgerða til að takast á við efnahagslegar afleiðingar kórónuveirufaraldursins. Þær fólu meðal annars í sér styrktargreiðslur til fyrirtækja og veitingu á vaxtalausum lánum í formi frestaðra skattgreiðslna. Þá afnam Seðlabanki Íslands hinn svokallaða sveiflujöfnunarauka sem jók útlánagetu banka landsins um mörg hundruð milljarða króna og stýrivextir voru lækkaðir niður í 0,75 prósent. Þeir höfðu aldrei verið lægri. Þessar örvunaraðgerðir gerðu það að verkum að stórtæk tilfærsla varð á fjármunum til fjármagnseigenda.
Þar tala opinberar tölur sínu máli. Alls hækkuðu fjármagnstekjur í fyrra um 65 milljarða króna frá árinu á undan. Mest hækkaði söluhagnaður hlutabréfa, alls um 69,5 prósent. Þau tíu prósent landsmanna sem höfðu mestar fjármagnstekjur tóku til sín 81 prósent allra slíkra tekna á árinu 2021, alls 147 milljarða króna.
Skattaafsláttur og ekkert bólar á aðgerðum gegn skattsvikum
Í upphafi árs í fyrra var álagningu fjármagnstekjuskatts breytt. Eftir þær breytingar þarf til að mynda ekki að greiða skatt af vöxtum, arði og söluhagnaði hlutabréfa á skipulegum verðbréfamarkaði sem var undir 300 þúsund krónum og frítekjumark hjóna var hækkað upp í 600 þúsund krónur. Í ljósi þess að tekjuhæstu tíu prósent landsmanna eiga þorra þeirra hlutabréfa sem einstaklingar eiga hérlendis liggur fyrir að þessi skattafsláttur lendir að uppistöðu hjá þeim hópi.
Auk þess er einungis helmingur af útleigu íbúðarhúsnæðis sem fellur undir húsaleigulög skattskyldur ef ein íbúð er leigð út. Sá hópur sem er líklegastur til að eiga fleiri en eina íbúð, og því stunda útleigu íbúðarhúsnæðis, er efsta tekjutíundin.
Þá hefur ríkisstjórnin viðhaldið húsnæðisstuðningskerfi sem tveir flokkar hennar komu á árið 2014 og færði þorra beins stuðnings til tekjuhæstu hópa samfélagsins. Á árinu 2020 fór næstum helmingur, alls 2,2 milljarðar króna, af skattfrjálsri nýtingu séreignarsparnaðar til ríkustu tíu prósentanna.
Eigið fé
Ofangreint hefur leitt til þess að misskipting er að aukast hratt. Samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu Íslands um eignir og skuldir Íslendinga fóru 331 af þeim 608 nýju milljörðum króna sem urðu hér til í fyrra til efstu tíundarinnar.
Það þýðir að 54,4 prósent af nýjum auð sem varð til í fyrra lenti hjá þessum hópi. Þegar þróun á eignum og skuldum þjóðarinnar er skoðað aftur í tímann kemur í ljós að á árunum 2010 til 2020, á einum áratug, tók þessi efsta tíund að meðaltali til sín 43,5 prósent af öllum nýjum auð sem varð til á ári. Því átti sú þróun sér stað á síðasta ári að ríkustu tíu prósent landsmanna tóku til sín mun hærra hlutfall af nýjum auð en hópurinn hefur að jafnaði gert áratuginn á undan.
Eignir efsta lagsins eru auk þess vanmetnar. Hlutabréf í eigu einstaklinga eða félaga, sem eru að mestu í eigu ríkustu Íslendinganna, eru metin á nafnvirði ekki markaðsvirði og kvóti, sem er allt að 1.200 milljarða króna virði, er bókfærður á mun lægra verði en upplausnarvirði hans er, svo tvö dæmi séu tekin.
Það eru ýmsar leiðir til að vinna gegn svona misskiptingu. Ein er að hækka skatta á breiðu bökin og lækka kostnað hinna við að það draga fram lífið, annað hvort með skattalækkunum eða lækkun á lífsnauðsynlegri þjónustu sem hið opinbera veitir.
Ríkisstjórnin hefur ekki gert þetta. Hún hefur þvert á móti lækkað skatta á eignameiri og tekjuhærri umfram alla aðra. Þetta hefur falið í sér endurskoðun á tekjuskattskerfi einstaklinga, sérstaka hækkun persónuafsláttar, lægra tryggingagjald, endurskoðun á stofni fjármagnstekjuskatts, skattafslátt vegna stuðnings einstaklinga við almannaheillafélög, hækkun frítekjumarks erfðaskatts og fjármagnstekna og svo auðvitað lækkun bankaskatts. Flestar gagnast þær eignameira og tekjuhærra fólki umfram aðra.
Tekjustofnar ríkissjóðs hafa veikst um á fimmta tug milljarða króna árlega vegna þessa. Samhliða hafa velferðarkerfi og innviðir veikst verulega.
Skattasniðganga
Önnur leið er að bæta skattheimtu með því að vinna gegn skattsvikum. Það hefur enda legið fyrir lengi að íslenska ríkið verður af gríðarlegum tekjum vegna skattaundanskota á hverju ári. Í skýrslu um aflandseignir sem stjórnvöld létu vinna í kjölfar birtingu á Panama-skjölunum kom fram að tekjutap hins opinbera á árunum 2006 til 2014 vegna færslu á hagnaði í skattaskjól hafi numið um 56 milljörðum króna. Á hverju ári gæti tapið vegna vantalinna skatta verið á bilinu 4,6 til 15,5 milljarðar króna, á verðlagi þess árs.
RÚV greindi svo frá því í byrjun viku að nýbirt vísindagrein, skrifuð af þremur erlendum hagfræðingum á grundvelli talna frá OECD, sýni að ríkissjóður Íslands verði af um 22 prósent af áætluðum fyrirtækjaskatti vegna skattaundanskota á hverju ári. Það er um 15 milljarðar króna. Á hverju ári.
Þá er ótalin sú skattasniðganga í formi tekjutilflutnings sem fær að viðgangast innanlands. Í grein sem Arnaldur Sölvi Kristjánsson og Róbert Farestveit, hagfræðingar hjá ASÍ, skrifuðu í Vísbendingu í september í fyrra kom fram að þetta feli í sér að fólk skrái launatekjur sínar ranglega sem fjármagnstekjur, sem kemur meðal annars í veg fyrir að þeir greiði útsvar og heildarskattprósenta þeirra verður miklu lægri en ella. Þetta á sér aðallega stað á meðal atvinnurekenda með háar tekjur.
Hagfræðingarnir tveir sögðu að með því að takmarka slíkan tilflutning myndu árlegar skatttekjur aukast um allt að átta milljarða króna á ári, styrkja tekjuöflun sveitarfélaga og auka skattbyrði þeirra sem eru tekjuhærri.
Ekkert hefur verið gert til að setja tappa í þessi göt frá því að sitjandi ríkisstjórn settist að völdum fyrir næstum fimm árum síðan.
Fákeppni og launakjör
Á Íslandi eru markaðir ekki frjálsir í neinum eiginlegum skilningi. Hér ríkir samþjöppun, einokun og fákeppni. Ragnar Önundarson, fyrrverandi bankastjóri, orðaði þetta ágætlega í grein í Morgunblaðinu í sumar: „Keppt er um stóru viðskiptavinina, aðrir eru misnotaðir“. Í nánast öllum tilfellum eru engir snillingar sem eru að finna upp nýja hluti að stýra stærstu fyrirtækjum landsins. Þeir njóta góðs af kerfum sem gera þeim kleift að keppa ekki nema að litlu leyti.
Samt þykir nauðsynlegt að innleiða bónuskerfi fyrir yfirburðarfólkið. Það þykir nauðsynlegt að greiða þeim fimmtánföld mánaðarlaun í starfslokasamninga þegar þeir eru reknir. Það þykir nauðsynlegt að laun forstjóra skráðra félaga, sem sum hver fengu milljarða króna úr ríkissjóði í kórónufaraldrinum, séu vel á sjöttu milljón króna, eða sextánföld lágmarkslaun, á mánuði að meðaltali. Annars fáist hreint enginn nægilega hæfileikaríkur í störfin.
Miðgildi reglulegra heildarlauna fólks á Íslands, samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands, var 492 þúsund krónur í árslok 2015. Í lok síðasta árs voru þau 696 þúsund krónur og höfðu því hækkað um 204 þúsund krónur, eða 41 prósent á tímabilinu.
Laun þingmanna hafa hækkað um 430 þúsund krónur umfram þær krónur sem miðgildi reglulegra heildarlauna landsmanna hefur hækkað á tímabilinu og um 416 þúsund krónur umfram meðaltal reglulegra heildarlauna.
Ef horft er á laun ráðherra þá hafa þau hækkað um 770 þúsund krónur umfram miðgildi heildarlauna í landinu og 758 þúsund krónur umfram meðaltal þeirra.
Forsætisráðherra hefur svo hækkað um 875 þúsund krónur á mánuði umfram það sem miðgildi reglulegra heildarlauna hefur hækkað og 863 þúsund krónur umfram meðaltalslaunin. Hækkun á launum ráðherra á sex ára tímabili er því meiri en sem nemur heildarlaunum meðallaunamanns á mánuði.
Græðgi launamannsins
Í nýrri auglýsingaherferð á samfélagsmiðlum, sem sennilegast er keyrð af einhverjum anga verkalýðshreyfingarinnar í aðdraganda kjaraviðræðna, spyr leikarinn Þorsteinn Bachmann, í hlutverki sjálfumglaðs fulltrúa þeirra sem hagnast mest á ríkjandi kerfi og vilja verja það með kjafti og klóm, í hæðni: „Það er mikið talað um launahækkanir. Hvernig væri að líta í eigin barm, frekar en að gera endalausar kröfur á aðra? Ég bara spyr.“
Í þessum vel heppnuðu auglýsingum kristallast ástandið. Þegar kemur að launaþróun geta forsvarsmenn atvinnulífsins, stjórnarherrarnir og æðstu embættismenn þjóðarinnar leitt með góðu fordæmi. Það gera þeir ekki.
Skilaboð ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans eru, nú sem áður, einföld. Þið hafið það ógeðslega gott, jafnvel þótt ykkur finnist það ekki. Þess vegna eiga launamenn að stilla kröfum sínum í hóf, til að verja stöðugleikann.
Þið, venjulega fólkið, megið ekki vera of gráðug, þótt lífskjör ykkar hafi hríðversnað á örfáum mánuðum. Það er bara öfund gagnvart hinum duglegu og úrræðagóðu að fetta fingur út í það að fjármagnseigendur hafi á sama tíma makað krókinn.
Verjið okkar stöðugleika með því að gefa eftir ykkar lífskjör
Ótrúlegt en satt þá skilja flestir að það tapa allir á höfrungahlaupi víxlverkandi launahækkana. Það að sækja sífellt fleiri krónur í veskið skilar sér ekki í auknum kaupmætti heldur éti verðbólga hann upp með aukinni dýrtíð og stórauknum afborgunum af húsnæðislánum. Og það er sannarlega hægt að fá launafólkið til að taka þátt í að ná því markmiði að mynda stöðugleika með hóflegum kröfum. En það verður að vera stöðugleiki allra. Hinir angarnir; ríkisstjórnin, Seðlabankinn og atvinnulífið, verða að spila með og leggja sitt að mörkum. Það gera þeir ekki. Þvert á móti auka þeir misskiptingu og passa fyrst og fremst upp á sitt.
Það má ekki draga úr álagningu smásölufyrirtækja eða hagnaði banka á fákeppnismarkaði til að vinna gegn verðbólgu sem er að nálgast tveggja stafa tölu. Það myndi hafa svo neikvæð áhrif á arðgreiðslur og endurkaup á bréfum.
Það má ekki skattleggja ofurhagnað sem orðið hefur til vegna aðgerða stjórnvalda og Seðlabanka Íslands, eða vegna þess að sjávarútvegurinn vill ekki borga réttlát verð fyrir nýtingu þjóðarauðlindar. Það skekkir stöðu þeirra í alþjóðlegri samkeppni.
Það má ekki taka bónusa, gullnar fallhlífar eða ofurlaun æðsta lagsins til endurskoðunar, það fælir allt yfirburðarfólkið til útlanda.
Það má ekki taka til í ríkisrekstrinum til að nýta meira í þjónustu eða endurreisn millifærslukerfa til þeirra sem þurfa á peningum að halda til að ná endum saman, en minna í prjál eins og fjölgun ráðuneyta sem kostar 1,8 milljarð króna eða hugmyndir um að kaupa dýrasta húsnæði landsins undir vonarstjörnur Sjálfstæðisflokksins á sex milljarða króna. Það er svo leiðinlegt.
Svo ekki sé talað um fækkun sveitarfélaga, þó ekki væri bara til að losna við að borga öllum þessum tugum sveitarstjórum margar milljónir á mánuði til að mæta í vinnuna, eða á annan tug milljóna króna í biðlaun þegar þeir eru látnir hætta. Þá fækkar bitlingunum sem eru til úthlutunar fyrir duglega flokkshesta.
Það má alls ekki hækka skatta á fjármagnseigendur né bæta skatteftirlit þannig að hluti þeirra hætti að bæta fjárhagslega stöðu sína með því að stela frá hinu opinbera, því þá eiga þeir einfaldlega minni pening en þeim langar til að eiga.
Er þá sanngjarnt og réttlátt að láta þann sístækkandi hóp venjulegra launamanna sem á í erfiðleikum með að láta enda ná saman í hverjum mánuði bera einan ábyrgð á stöðugleika sem bætir fyrst og síðast fjárhagslega tilveru annarra?
Ég bara spyr?