Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu er nú þegar búið að ná óhemju góðum árangri á Evrópumeistaramótinu sem fram fer í Frakklandi. Íslendingum var ekki spáð góðu gengi á mótinu og mættu íslensku stuðningsmennirnir með hóflegar væntingar til Strákanna okkar fyrir fyrsta leikinn í Saint Étienne um miðjan júní.
Jafntefli gegn Portúgölum og ömurleg viðbrögð Cristiano Ronaldo í kjölfar leiksins urðu til þess að það hlakkaði í áhorfendum, bæði hér í Frakklandi og heima á Íslandi. Íslenska liðið var búið að ná góðum úrslitum gegn stærstu stjörnu fótboltaheimsins í Evrópu, og félögum hans í portúgalska liðinu. „Íslendingar eiga ekki eftir að gera neitt á þessu móti,“ var haft eftir fúlum Ronaldo eftir jafnteflið.
Ísland gerði svo annað jafntefli gegn Ungverjum í Marseilles og þótti stuðningsmönnum og leikmönnum Íslands það heldur svekkjandi. Eitt stig úr þeim leik gerði það hins vegar að verkum að nú var Ísland komið annað stig í riðlakeppninni. Sigur gegn Austurríki í París gerði þau stig fimm og tryggði Íslendingum farseðil í útsláttarkeppni mótsins.
Metasúpan mikla
Stuðningsmenn Íslands mættu enn á ný til Suður-Frakklands með hóflegar væntingar fyrir leikinn gegn Englendingum í Nice. Leikur gegn svona stórþjóð í knattspyrnu í sextán liða úrslitum ætti eftir að verða erfiður. Sumir höfuðu hins vegar það á orði að Englendingum hefði nú aldrei gengið neitt sérstaklega á stórmótum, eins og rekið var í Kjarnanum um síðustu helgi. Einhverjir óskuðu sér það heitast að Ísland mundi halda jafntefli út fulla framlenginu svo úrslitin myndu ráðst í vítaspyrnukeppni. Það kom auðvitað ekki til þess því Ísland kláraði leikinn 2-1 í venjulegum leiktíma. Ísland mætir þess vegna Frökkum í París annað kvöld.
Í kjölfar leiksins gegn Englandi hefur Ísland hlotið athygli langt útfyrir landamæri fótboltaheimsins og orðið umtalsefni í vinsælum spjallþáttum vestanhafs auk þess að myndum af liðinu og stuðningsmönnum þess hefur verið slegið upp á forsíðum dagblaða um alla Evrópu.
Leikurinn gegn Englandi var ekki aðeins merkilegur vegna þess að Ísland valtaði yfir stórþjóð heldur einnig vegna þess að Ísland heldur áfram að setja ný met á þessu stórmóti. Leikurinn gegn Englandi setti tildæmis met sem enginn var að bíða eftir að yrði bætt því viðureignin er sú viðureign á Evópumóti sem er umtöluðst á samfélagsmiðlum. Það ætti hins vegar ekkert að koma á óvart, enda elska Bretar að tala illa um landsliðið sitt þegar því gengur ekki vel.
Óvæntur sigur Íslands á Englandi varð til þess að meira en 4,8 milljón tvít voru send á Twitter um leikinn á meðan honum stóð. Það jafngildir 135.000 tvítum á mínútu. Áður hafði metið verið 89.000 tvít á mínútu eftir að Dimitri Payet skoraði gegn Rúmenum í opnunarleik mótsins. Aðeins þrjár milljónir tvíta flugu um netheima á meðan þeim leik stóð.
Metin eru, eins og okkur Íslendingum er tamt, lang flest „miðuð við höfðatölu“. Við erum langt minnsta þjóðin til að keppa í lokakeppni Evrópumótsins, við eigum langflesta stuðningsmenn miðað við höfðatölu á lokamóti (sú tala er raunverulega orðin 10 prósent af öllum íbúum á Íslandi) og í hvert sinn sem við komumst áfram í mótinu bætum við eigið met um hversu langt minnsta þjóðin hefur komist í mótinu.
Ísland komið á opinbera metaskrá
Metalistinn á Evrópumótunum er langur og þar er nær allt talið til sem manni dettur til hugar. Þar eru markahæstu þjóðir á hverju móti, yngsti og elsti leikmaður, mesti fjöldi markaþrenna og þar fram eftir götunum. Og svo eru skrítin met eins og lengsti tími frá upphafi leiks til fyrsta marks í leik, fjöldi sjálfsmarka, fæst mörk á lokamóti og fæst mörk fengin í einu móti og lið verður meistari.
Svona mætti lengi telja en þegar farið er í gegnum listann þá má þegar finna Ísland á nokkrum stöðum.
Ísland hefur enn ekki tapað leik á stórmóti, og er um leið minnsta þjóðin til að geta staðhæft það. Landsliðið er eitt fimm annarra liða sem komist hafa í átta liða úrslit EM206 án þess að tapa leik. Eins og stendur þá er Ísland í öðru sæti á listanum yfir flest stig fyrir hvern leik. Wales (einnig í fyrsta sinn á EM) hefur fengið að jafnaði 2,25 stig í sínum fjórum leikjum en Ísland hefur fengið tvö. Í þriðja sæti er sigursælasta þjóðin í sögu EM; Þjóðverjar geta aðeins montað sig af 1,89 stigum í leik.
Lars Lagerback, einn þjálfara íslenska landsliðsins er að koma sér fyrir í metaskránni og þar með Íslandi. Lars er sá þjálfari sem hefur tekið þátt í flestum lokakeppnum EM eða fjórum sinnum. Hann fór með sænska landsliðið þrisvar á árunum 2000, 2004 og 2008 og nú það íslenska árið 2016. Um leið raðar hann sér á bekk með mörgum af þekktustu þjálfurum í heimi því hann er nú að fara með sína aðra þjóð á EM. Hinir þjálfararnir hafa nær allir þjálfað stórþjóðir sem með sanni má segja að eigi fast sæti í lokamótinu. Vel gert Lars!
Þá er Ísland komið í níunda sæti yfir þær þjóðir sem komist hafa oftast í átta liða úrslit lokakeppninnar. Við deilum því sæti með þremur öðrum þjóðum en ásamt Íslandi eru Pólland og Wales að taka þátt í fyrsta sinn á lokamóti EM.
Svo eru leiðinlegri met sem hægt er að telja upp. Ísland á eitt níu sjálfsmarka sem skoruð hafa verið í sögu lokamóts EM. Þrjú þeirra hafa komið í keppninni í ár og Birkir Már Sævarsson er svo óheppinn að vera einn þeirra. Þá hefur Ísland aldrei tekið þátt í vítaspyrnukeppni, en dæmi hver um sig hvort það sé gott eða slæmt.
Nokkuð óraunhæft er að segja að Ísland eigi séns í önnur met á þessari mótaskrá. Ekki strax í það minnsta því sumar þjóðirnar hafa verið að keppa á lokamóti EM í marga áratugi.
Frakkland - Ísland
Eins og áður sagði þá mætir Ísland gestgjöfunum frá Frakklandi í París annað kvöld. Það verður í annað sinn sem þessar þjóðir mætast á Stade de France, síðast lék Ísland gegn Frökkum þar í undankeppni EM 2000 og tapaði Ísland þá með tveimur mörkum gegn þremur frá Frökkunum eftir spennandi leik.
Frakkar eiga raunar mjög góðu gengi að fagna á Stade de France, hafa spilað þar 80 sinnum, unnið 49 leiki og tapað 10. Franska landsliðið hefur heldur aldrei tapað á þessum velli í lokakeppni stórmóts; unnið fjórum sinnum og gert eitt jafntefli gegn Ítalíu í úrslitunum árið 1998 og unnið leikinn í vítaspyrnukeppni.
Ísland á yfir höfuð ekki góðu gengi að fagna gegn Frökkum í keppni á vegum evrópska knattspyrnusambandsins. Fimm leikjum hafa Íslendingar tapað með markatöluna 17-2 fyrir Frökkum. En! Ísland hefur heldur ekki átt góðu gengi að fagna, yfir höfuð, þar til fyrir fáeinum árum.
Áður en Ísland lék sinn fyrsta leik á EM 2016 birti Kjarninn átta lykilatriði um mótið. Þar var sagt frá þeim stuðlum sem helstu veðbankar voru að gefa á að Ísland myndi lyfta bikarnum eftir úrslitaleikinn 10. júlí. Stuðullinn var þá 125/1 en er nú 40/1. Við erum reyndar með hæstan stuðul af þeim þjóðum sem eftir eru í keppninni. Frakkar voru fyrir mót taldir sigurstranlegastir í mótinu og eru það enn með stuðulinn 11/4.