Frakkar ganga að kjörborðinu á sunnudaginn og greiða atkvæði í fyrstu umferð forsetakosninganna þar í landi. Aldrei hefur verið svo mjótt á munum milli efstu frambjóðenda; munurinn milli fjögurra vinsælustu frambjóðanda hefur jafnvel verið innan vikmarka.
Umræðan í Frakklandi hefur jafnframt sjaldan verið eins skautuð. Á það hefur verið bent að þessar kosningar, sem áttu fyrst og fremst að fjalla um framtíðina og stefnu Frakklands, hafa svipt hulunni af djúpstæðum göllum í frönsku samfélagi.
Kosningarnar eru taldar vera afar mikilvægar fyrir framtíð Frakklands enda fjalla þær um grundvallarhugmyndir sem snerta hinn almenna samfélagssáttmála og alþjóðasamstarf.
Franska kosningakerfið er töluvert frábrugðið því íslenska og stjórnskipan landsins ekki eins og við eigum að venjast hér, á Norðurlöndunum, í Bretlandi eða Bandaríkjunum.
Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands efnir til opins fundar á morgun, föstudaginn 21. apríl, í Lögbergi klukkan 12. Þar munu Phillipe O'Quin, sendiherra Frakklands á Íslandi, og Gérard Lemarquis, fyrrverandi blaðamaður og kennari, ræða um kosningarnar með viðstöddum.
Hér eru fimm hlutir sem gott er að hafa í huga þegar við lesum fréttir af frönsku kosningunum.
Tvær umferðir í kosningum
Þeir sem hafa kynnt sér hugmyndirnar sem hafa komið fram í kringum umræðu um nýja stjórnarskrá á Íslandi ættu að kannast við einhverjar þær hugmyndir sem stuðst er við í Frakklandi. Ein þeirra hugmynda var að forseti Íslands yrði kjörinn í tveimur umferðum eins og í Frakklandi.
Í forsetakosningunum í Frakklandi er forseti kosinn til fimm ára í tveimur umferðum. Ef einn frambjóðandi nær ekki meirihluta atkvæða í fyrri umferðinni þá ræður fyrri umferðin því hvaða tveir frambjóðendur eru vinsælastir og fá að vera í kjöri í seinni umferð forsetavalsins. Þetta er gert til þess að kjörinn forseti sé valinn af meirihluta þjóðarinnar.
Gallinn við að kjósa forseta í tveimur umferðum getur verið að frambjóðendur reyna að höfða til breiðari hóps til þess að kjósendur annarra frambjóðenda útiloki þá ekki í seinni umferðinni. Svo í stað þess að stíga fram fyrir skjöldu með sín stefnumál og áherslur, gætu frambjóðendur reynt að hlífa sér þar til á hólminn er komið.
Fyrri umferð kosninganna fer fram 23. apríl og seinni umferðin fer fram 7. maí.
Forsetaþingræði
Þegar fjallað er um mismunandi form stjórnskipunar lýðræðisríkja er yfirleitt fjallað um þrjú meginform. Það eru forsetaræði, þingræði og forsetaþingræði. Í Frakklandi ríkir nefnilega forsetaþingræði sem er einskonar blanda af hinu tvennu, þingræði og forsetaræði.
Hér á Íslandi ríkir þingræði því ríkisstjórnin situr í umboði þingsins og þingið hefur úrslitavald. Í þingræðinu er skilin milli framkvæmdavalds og löggjafarvaldsins nokkuð óskýr og þjóðhöfðinginn (forsetinn) er nærri valdalaus og gegnir aðallega táknrænu hlutverki.
Í forsetaræðinu er þrískipting ríkisvaldsins yfirleitt nokkuð skýr og forysta ríkisins er í höndum forseta sem er jafnframt þjóðhöfðingi. Forsetinn skipar ríkisstjórn og fer með framkvæmdavald. Bandaríkin eru nærtækasta dæmið um forsetaræði.
Forsetaþingræðið er svo blanda af ofangreindum stjórnskipunarformum. Í Frakklandi er þingræði við lýði en framkvæmdavaldið er tvískipt milli kjörins forseta og ríkisstjórnar sem situr í umboði þingsins. Forsetinn er jafnframt valdameiri en þekkist í þingræðisríkjum en hefur minni völd en forseti í þingræði.
Fimm frambjóðendur
Fimm fulltrúar fimm stjórnmálaflokka sem sækjast eftir forsetaembættinu hafa ítrekað mælst best í skoðanakönnunum. Jafnvel þó það hafi staðið honum til boða þá ákvað Francois Hollande, sitjandi forseti, að sækjast ekki eftir endurkjöri. Þetta er í fyrsta sinn í hinu svokallaða fimmta lýðveldi (sem stofnað var árið 1958) að sitjandi forseti sækist ekki eftir endurkjöri. Hollande ákvað þetta í byrjun desember þegar hann hafði ítrekað mælst vera óvinsælasti forseti í manna minnum.
Þeir fimm fulltrúar sem mælast best í könnunum eru eftirfarandi
- Benoît Hamon, Sósíalistaflokkur (Parti socialiste, PS)
- Francois Fillon, Íhaldsflokkur (Les Républicains, LR)
- Marine Le Pen, Þjóðfylkingin (Front national ,FN)
- Jean-Luc Mélenchon, Flokkur óháðra (France insoumise, FI)
- Emmanuel Macron, Framsóknarflokkur (En Marche!, EM)
Ellefu frambjóðendur eru í kjöri. Auk þessara fimm eru Nicolas Dupont-Aignan, Nathalie Arthaud, Phillipe Poutou, Jacques Cheminade, Jean Lassalle og François Assenlineau í kjöri.
Emanuel Macron og Marine Le Pen hafa undanfarnar vikur mælst með mest fylgi frambjóðandanna og eru líklegust til þess að verða í kjöri í seinni umferð kosninganna. Það hefur hins vegar dregið saman með þeim og Francois Fillon og Jean-Luc Mélenchon síðustu daga, ef marka má skoðanakannanir.
Fulltrúar valdaflokka ekki á toppnum
Það er óvanalegt þegar svo stutt er til kosninga í Frakklandi að í það minnsta annar fulltrúi hinna hefðbundnu valdaflokka í Frakklandi skuli ekki vera meðal tveggja vinsælustu frambjóðenda. Hvorki Fillon, fulltrúi Íhaldsflokksins, né Hamon, fulltrúi Sósíalistaflokksins, hafa mælst í efstu sætunum á síðan í febrúar.
Það má kannski benda á það hér að jafnvel þó Hamon sé talinn upp hér að ofan með þeim fimm sem best mælast í könnunum þá á hann varla séns á að komast í næstu umferð. Fylgi við þennan samflokksmann sitjandi forseta er nú um sjö prósent.
Fréttaskýrendur telja að innanflokksátök og prófkjör hafi veikt stöðu þessara frambjóðenda. Hamon var valinn í prófkjöri af flokki sínum í stað þess að sósíalistar myndu tefla fram sitjandi (og óvinsælum) forseta en Fillon þurfti að etja kappi við gamlan sjálfhverfan draug Nicolas Sarkozy að nafni. Draugnum var hins vegar hafnað með afgerandi hætti, en þá hafði hann náð að sá illgresi innan flokksins sem smitaði svo út frá sér.
Skandalar Fillon hafa svo ekki bætt úr skák en hann sjálfur hefur sagt þetta vera tilraun pólitískra andstæðinga til þess að koma höggi á sig.
Þjóðernissinnaður íhaldsvængur fær byr
Þjóðfylkingin hefur gengið í endurnýjun lífdaga síðan Marine Le Pen tók við af föður sínum Jean-Marie árið 2011. Orðræðan hefur breyst þannig að hún höfðar betur til almennings í Frakklandi þó innihald stefnunnar sé það sama.
Mikið hefur verið fjallað um uppgang Þjóðfylkingarinnar í aðdraganda forsetakosninganna undir forystu Marine Le Pen. Hún hefur verið nefnd sem þriðji fulltrúi hinnar þjóðernissinnuðu popúlistabylgju á Vesturlöndum sem þegar hefur rekið á strandir Bandaríkjanna og Bretlands.
Marine Le Pen hefur heitið því að boða til atkvæðagreiðslu um áframhaldandi þátttöku Frakklands í Evrópusambandinu og knýja þannig á um „Frexit“ í anda hins breska „Brexit“.
Hún hefur einnig viðrað skoðanir sínar á útlendingum og vill loka landamærum Frakklands fyrir flóttamönnum; þá sérstaklega þeim sem aðhyllast Islam.