Sumir illvirkjar reyna, þegar þeir eru teknir höndum, að kenna einu eða öðru um gerðir sínar, eða allavega um að hafa veitt sér innblástur. Einn þeirra er David Berkowitz, einn alræmdasti raðmorðingi síðustu aldar.
En meira um það síðar. Byrjum á upphafinu.
Erfið æska og áfallið stóra
Berkowitz þessi fæddist árið 1953. Móðir hans gaf hann til ættleiðingar þegar drengurinn var nokkurra daga gamall, sennilega tengdist það því að faðir hans var giftur annarri konu. Hvað sem því líður, var hann ættleiddur af miðaldra hjónum í Bronx, sem hafði ekki orðið barna auðið.
David var frekar ódæll sem barn. Hann þótti nokkuð vel gefinn, en fann sig ekki í námi og leiddist út í smáþjófnaði og íkveikjur. Þegar hann var fjórtán ára lést fósturmóðir hans og olli það honum miklu hugarvíli og sambandið milli hans og föður hans varð sífellt stirðara, sérstaklega eftir að sá síðarnefndi giftist aftur.
Átján ára gamall gekk Berkowitz í herinn og þjónaði bæði heima í Bandaríkjunum og í herstöðvum í Suður Kóreu áður en hann lauk þjónustu þremur árum seinna. Hann gat sér gott orð í hernum, sérstaklega þar sem hann þótti afbragðsskytta.
Þá hafði hann upp á raunmóður sinni, sem sagði honum frá því hvernig faðerni hans var háttað. Þessar upplýsingar voru honum mikið áfall og ollu honum mikilli vanlíðan. Eru andlegir brestir hans síðar á ævinni raktir aftur til þessa.
Morðæðið hefst
Næstu árin varð David Berkowitz sífellt einrænni. Hann hafði fengið vinnu sem öryggisvörður, en andlegri líðan hans fór sífellt hrakandi og árið 1975 fór hann að taka upp á því að kveikja elda víða um New York, en hann náðist aldrei.
Hann fór að heyra raddir sem hann sagði að væru djöflar sem skipuðu honum að vinna ýmis konar ódæði, jafnvel morð. Það var svo á aðfangadagskvöld þetta ár sem hann lét undan kröfu raddanna og réðist á 15 ára gamla stúlku og særði hana alvarlega með veiðihníf.
Í ársbyrjun 1976 flutti Berkowitz til Yonkers í New York þar sem hann gerðist sannfærður um að hundar nágranna sinna væru að skipa honum að myrða ungar aðlaðandi konur. Hann flutti, enda ekki við slíkt búandi, nema í nýja húsinu bjó fullorðinn maður, Sam Carr að nafni, sem átti Labrador að nafni Harvey, en Berkowitz var viss um að Carr þessi væri eins konar ári sem beindi til hans skipunum um að myrða konur, í gegnum hundinn Harvey.
Berkowitz framdi fyrsta morðið á aðfaranótt 26. júlí þessa árs, en þá skaut hann á tvær stúlkur sem sátu í kyrrstæðum bíl í Bronx, Donna Lauria, sem var 18 ára, og Jody Valenti sem var ári eldri. Lauria, lést samstundis en Valenti fékk skot í lærið og lifði af. Berkowitz hvarf út í nóttina, eins og átti eftir að gerast margoft næstu mánuði. Við verknaðinn notaði hann .44 kalibera skammbyssu.
Í október lét hann svo aftur til skarar skríða og skaut þá inn um bílrúðu á par sem hafði numið staðar í Queens, Carl Denaro og Rosemary Keenan. Þau náðu að leggja á flótta og þrátt fyrir að pilturinn hafi fengið skot í höfuðið lifði hann af. Þrátt fyrir að líkindi væru með þessu atviki og fyrstu árás Berkowitz var ekkert sem vakti grun um að sami gerandi gæti verið þar að verki.
Mun styttri tími leið fram að næstu árás þar sem Berkowitz skaut tvær stúlkur í nóvember, Donna DeMasi and Joanne Lomino, en þær lifðu af. Næst var það í janúar 1977 sem Berkowitz skaut unga konu, Christine Freund að nafni, sem sat í bíl með unnusta sínum John Diel, til bana.
Það var fyrst þá sem lögregla viðurkenndi að rannsóknin miðaði að því að málin tengdust öll. Meðal annars þar sem árásarmaðurinn, eða -mennirnir, virtust leggjast sérstaklega á ungar laglegar konur með sítt, dökkt og liðað hár.
Í mars réðist Berkowitz svo að enn einni stúlkunni, Virginia Voskerichian, nítján ára háskólanema sem bar skólabækurnar sínar fyrir sig, en hann skaut hana í höfuðið í gegnum bækurnar svo hún lést strax.
Þegar þarna var komið við sögu hafði gripið um sig mikið fár í tengslum við morðin. Fjölmiðlar um allan heim sögðu frá ógninni sem vomaði yfir borgarbúum í New York. Blöðin voru farin að tala um „The .44 caliber killer“.
Sonur Sáms
Í kjölfar morðsins á Voskerichian setti lögreglan á fót sérstaka sveit, „Omega Task force“ sem var helguð því að hafa uppi á raðmorðingjanum sem hafði haldið borginni í heljargreipum.
Skömmu síðar dró enn til tíðinda þegar Berkowitz skaut til bana ungt par sem var að kyssast í bíl sínum. Þau hétu Alexander Esau og Valentina Suriani . Á vettvangi glæpsins fannst orðsending frá Berkowitz, ætluð yfirmanni rannsóknarhópsins. Bréfið var samhengislaust þvaður að miklu leyti, en boðaði áframhald á morðunum og þar sagði meðal annars: „I am the Son of Sam“, sem fjölmiðlar tóku fljótt upp og fóru að kenna morðin við the Son of Sam.
Skömmu síðar, heima í Yonkers, tók Berkowitz upp á því að skjóta Harvey, svarta hundinn sem hann taldi að Sam, nágranni sinn, væri að nota til að koma til sín skipunum. Hann hafði áður sent Sam hótunarbréf varðandi hundinn (sem lifði skotið að vísu af).
Berkowitz lét ekki staðar numið þar heldur tók að senda bréf víða um hverfið, þannig að viðtakendur fór að gruna að þarna gætu verið tengsl við skotárásirnar. Lögregla brást hins vegar ekki við ábendingum, enda flæddu slíkar inn um lúgu lögreglu í miklu magni.
Næsta árás, var gerð hinn 26. júní þar sem hann skaut enn á ný á par í bíl utan við diskótek í Queens. Þau Sal Lupo og Judy Placido særðust, en komust lífs af.
Berkowitz var aftur á ferðinni hinn 31. júlí þegar hann skaut á par í bíl í Brooklyn. Stúlkan, Stacy Moskowitz lést af sárum sínum, en pilturinn, Robert Violante, missti annað augað og var nær sjónlaus á hinu.
Þegar þarna var komið við sögu höfðu morðin heltekið samfélagið í New York þar sem aðsókn á skemmtistaði borgarinnar hafði dregist verulega saman og ungar konur með dökkt sítt hár, létu klippa hár sitt stutt, eða jafnvel lita það ljóst.
Stöðumælasekt varð morðingjanum að falli
Eftir rúmlega ár hafði lítið dregið til tíðinda í rannsókn málsins, nema að tegund skotvopnsins lá fyrir og talið var öruggt að einn maður væri þarna að verki.
Þá kom loksins að því að vitni gaf sig fram og gat gefið greinargóða lýsingu á manni sem það hafði séð með byssu rétt áður en síðasta árásin var gerð í Brooklyn. Það rifjaði svo upp fyrir tveimur lögreglumönnum að þeir höfðu verið að sekta bíla fyrir stöðubrot í götunni þessa sömu örlagaríku nótt.
Þegar farið var yfir sektarmiðana beindust böndin að Berkowitz, en á sama tíma bárust lögreglu enn fleiri kvartanir vegna ofsókna hans og bréfaskrifa til nágranna sinna.
Hinn tíunda ágúst var Berkowitz svo handtekinn þegar hann settist inn í bíl fyrir utan heimili sitt. Hann játaði undanbragðalaust, með bros á vör, að vera Sonur Sáms og lögregla fann svo í bílnum skammbyssu sem reyndist vera morðvopnið.
Heimildir herma að orðaskipti Berkowitz og lögreglumannsins Johns Falotico hafi verið eitthvað á þessa leið:
Berkowitz: „Loksins náðuð þið mér. Hvað tók ykkur svo langan tíma?“
Falotico: „Nú fyrst ég er búinn að ná þér, hver er það sem ég er búinn að ná?“
B: „Þú veist það“
F: „Nei. Segðu mér það.“
B: „Ég er Sam.“
F: „Sam? Hvaða Sam?“
B: „Sam. David Berkowitz“
Áhöld voru um hvort Berkowitz ætti að teljast sakhæfur vegna andlegra veikinda, en árið 1978 dró hann til baka yfirlýsingu sína þess efnis að hann væri veikur á geði og lýsti sig sekan um morðin sex. Hann hlaut fyrir það sex dóma sem hver um sig hljóðaði upp á 25 ár til lífstíðarfangelsi.
David Berkowitz er nú 64 ára gamall og situr enn í fangelsi, en hefur fyrir nokkru tekið kristna trú. CBS-sjónvarpsstöðin birti nú fyrir helgi einkaviðtal við Berkowitz í tilefni af því að 40 ár eru síðan hann var handsamaður.
Í viðtalinu segist hann sjá mikið eftir ódæðunum og vildi óska þess að hann gæti breytt því sem gerðist. Hann hafi þarna látið undan illum öflum sem hrærðust innra með honum. Aðspurður hvort það sé eitthvað sem hann vildi geta sagt sjálfum sér þegar hann var 23ja ára segir Berkowitz að hann myndi biðja sjálfan sig um að „snúa af þessari braut áður en það verður of seint því að hún leiði aðeins til tortímingar“.
Hér má sjá umræddan þátt þar sem er meðal annars viðtal við Berkowitz og fórnarlömb hans.