Nýr meirihluti veltur á að Dagur gefi eftir stólinn
Hægt verður að ganga frá myndun nýs meirihluta Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna hratt ef Samfylkingin felst á þá kröfu að ráðinn verði borgarstjóri. Viðreisn mun ekki vinna með Miðflokki, Sósíalistar hafa útiloka meirihlutaþátttöku og því er uppi flókin staða ef ekki næst saman.
Krafa Viðreisnar um að ráðinn verði borgarstjóri ef af meirihlutasamstarfi flokksins við Samfylkingu, Pírata og Vinstri græn verður er ófrávíkjanleg. Viðmælendur Kjarnans innan Viðreisnar segja að þótt flokkurinn nái fram þeim málefnaáherslum sem hann vill þá þurfi áferð nýs meirihluta að vera sú að ekki sé um sama vagn að ræða og á síðasta kjörtímabili, en bara með nýju dekki undir í stað Bjartrar framtíðar. Þess vegna sé útilokað að Dagur B. Eggertsson geti verið áfram borgarstjóri náist saman.
Takist það er ekki margt sem út af ber til að hægt sé að ná þessum meirihluta saman. Stefnur flokkanna fjögurra liggja saman í skipulags- og samgöngumálum og allir eru þeir tilbúnir í miklar aðgerðir til að auka enn í uppbyggingu húsnæðis í borginni til að tryggja fleiri borgarbúum húsnæði á kjörum sem þeir ráða við. Í því samhengi má benda á að Viðreisn var með það í stefnuskrá sinni að byggja 350 félagslegar íbúðir á kjörtímabilinu.
Viðreisn mun fara fram á að stefna flokksins í atvinnumálum, meðal annars lækkun á fasteignasköttum á fyrirtæki, og í menntamálum fái gott pláss í sáttmála meirihlutans. Auk þess er mikil áhersla á að einfalda kerfið þannig að þeir sem þurfi t.d. að fá ýmis athafnaleyfi geti gert það með minna flækjustigi. Viðreisn mun líka leggja áherslu á að fastar verði haldið um rekstur borgarinnar, en mörgum þar þykir hann ekki í nægilega góðum farvegi með aukinni skuldasöfnun í miðri uppsveiflu.
Enginn vafi er, samkvæmt niðurstöðu kannana, að kjósendur Viðreisnar vilja helst sjá flokkinn fara þessa leið í myndun meirihluta. Í könnun Gallup sem birt var rétt fyrir kosningar kom fram að 63 prósent af fylgi Viðreisnar kom frá þeim sem kusu fráfarandi meirihluta árið 2014. Einungis 17 prósent þess kom frá Sjálfstæðisflokki. Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði, benti á það í gær í stöðuuppfærslu á Facebook að kjósendaprófílar Viðreisnar í Reykjavík, til dæmis aldur, skólaganga og búseta í hverfum, sé miklu líkari prófílum Samfylkingar og Pírata en Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins.
Samfylkingin rak slaka kosningabaráttu
Sætti Dagur, og Samfylkingin, sig við það að leiða ekki meirihlutasamstarfið segja viðmælendur Kjarnans að hægt verði að koma honum saman jafnvel fyrir vikulok. Raunar ætti að draga til einhverra tíðinda þegar líður á daginn í dag, ef ekkert óvænt kemur upp á.
Innan Samfylkingarinnar er að eiga sér stað ákveðin naflaskoðun. Flokkurinn rak ekki góða kosningabaráttu og hún lítur enn verr út í baksýnisspeglinum í ljósi niðurstöðu kosninganna. Þótt sú niðurstaða hafi ekki verið afleit, og skilað sjö borgarfulltrúum, þá missti Samfylkingin stöðu sína sem stærsti flokkur borgarinnar. Samkvæmt skoðanakönnunum gerðist það alveg við lokamarkið, þegar kosningavél Sjálfstæðisflokks var komin á fullt. Þar var stór hópur þaulskipulags og duglegs hóps fólks að hringja í þúsundir síðustu daganna fyrir kosningar og flokkurinn auglýsti meira en nokkur annar á þeim tíma. Þær auglýsingar miðuðu á að herja á veika bletti Samfylkingar, meðal annars leikskólamál, og þar skipti framganga Hildar Björnsdóttur, sem sat í öðru sæti á lista Sjálfstæðisflokks, miklu máli. Hún var sá frambjóðandi á þeim lista, ásamt Katrínu Atladóttur, sem gat höfðað til ungs fjölskyldufólks og kvenna, sem Sjálfstæðisflokkurinn var ekki að mælast sterkur hjá. Þær voru báðar áberandi í auglýsingum flokksins síðustu daga fyrir kosningar.
Viðmælendur Kjarnans úr efstu lögum Samfylkingar segja að það hafi verið mistök hjá flokknum að leggja einungis áherslu á Dag í kosningabaráttunni en fela hina frambjóðendurna . Þar hafi verið sterkar konur eins og Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður flokksins, Kristín Soffía Jónsdóttir, Sabine Leskopf og Guðrún Ögmundsdóttir. Allt konur sem höfða til mismunandi hópa vegna mismunandi styrkleika. Þá hafi kosningabaráttan snúist allt of mikið um verk síðasta kjörtímabils en ekki það sem flokkurinn ætlaði sér að gera í borginni í framtíðinni.
Vonbrigðaniðurstaða Samfylkingarinnar í kosningunum styrkir þá kröfu annarra í væntanlegu meirihlutasamstarfi að nýr borgarstjóri verði fenginn til að setjast í ráðhúsið.
Hver á að verða borgarstjóri?
Stóra spurningin er hver það eigi að vera? Gísli Marteinn Baldursson, sem hefði verið nokkuð augljóst val sem líklega flestir innan meirihlutans hefðu sætt sig vel við, hefur ekki áhuga á starfinu. Honum hefur raunar heldur ekki verið boðið það með neinum formlegum hætti. Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar og fyrrverandi dómsmálaráðherra, er samkvæmt upplýsingum Kjarnans heldur ekki jákvæð. Sögusagnir um að Halla Tómasdóttir, fyrrverandi forsetaframbjóðandi, komi til greina eiga sér ekki fótfestu.
Vinstri meirihlutinn út af borðinu
Gangi þessi meirihlutamyndun ekki eftir er komin upp flókin staða. Ókjörnir aðalsmenn í Vinstri grænum hafa bakvið tjöldin reynt mikið að tala fyrir myndum meirihluta þeirra þriggja flokka sem sitja nú í meirihluta með Sósíalistaflokki og Flokki flokksins, þó ekki væri nema til að geta haldið þeim möguleika yfir höfðinu á Viðreisn. Sá möguleiki hvarf endanlega í gær þegar Sósíalistaflokkurinn tilkynnti að hann muni ekki taka þátt í meirihlutasamstarfi vegna þess að hann telji að ekkert „muni ávinnast í samningaviðræðum eins borgarfulltrúa við ríkjandi öfl.“
Vinstri græn eru raunar í mjög erfiðri stöðu. Borgarstjórnarkosningarnar, þar sem flokkurinn beið afhroð og rétt skreið inn með einn borgarfulltrúa, sýndu að klofningurinn innan flokksins er mun dýpri og alvarlegri en af er látið. Flokkur til vinstri við Vinstri græn, Sósíalistaflokkurinn, fékk miklu betri kosningu og sérstök Kvennahreyfing, sem í voru margar fyrrverandi flokkskonur í Vinstri grænum, bauð fram vegna þess að henni fannst að áhersla á jafnréttismál væri ekki nægilega mikil í kosningunum.
Það er staðreynd sem erfitt er að flýja frá að einungis 2.700 manns kusu Vinstri græn í Reykjavík. Til samanburðar kusu 14.477 einstaklingar Vinstri græn í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur í þingkosningum fyrir sjö mánuðum síðan.
Viðreisn mun ekki vinna með Miðflokki
Annar möguleiki sem rætt hefur verið um er meirihluti Viðreisnar með Sjálfstæðisflokki, Miðflokki og Flokki fólksins. Sá meirihluti er ekki raunhæfur af þeirri einföldu ástæðu að innan Viðreisnar er ekki neinn vilji til að vinna með Miðflokki. Flokkurinn lítur raunar á Miðflokkinn sem andstæðu sína. Þjóðernislegan einangrunarhyggjuflokk sem þrífst á stórum en illa útfærðum loforðum. Innan Miðflokksins er til að mynda hægt að finna helstu andstæðinga Evrópusambandsins sem starfa í stjórnmálum. Á meðal þeirra er formaður Heimsýnar, Vigdís Hauksdóttir. Hún er líka eini kjörni borgarfulltrúi Miðflokks. Viðreisn er á hinn bóginn sá flokkur sem leggur mest allra áherslu á Evrópusambandsaðild og alþjóðasamsamstarf. Flokkurinn var beinlínis stofnaður í kringum klofning Evrópusinna út úr Sjálfstæðisflokknum á sínum tíma. Þá á eftir að taka tillit til þess að stefna Viðreisnar og Miðflokks í borgarmálum er eins og svart og hvítt. Flokkarnir eru nánast ekki sammála um neitt. Ekki frekar en í landsmálunum.
Viðreisn gæti hins vegar alveg unnið með Sjálfstæðisflokknum í meirihluta borgarstjórnar. Viðræður hafa átt sér stað milli áhrifafólks innan flokkanna og þar hefur Sjálfstæðisflokkurinn sýnt „Hildar Björnsdóttur-hliðina“ á sér, sem fellur betur að sýn Viðreisnar en sú sýn fulltrúar flokksins úr úthverfum borgarinnar standa fyrir. Þótt fyrirferðamiklir menn innan Sjálfstæðisflokksins þreytist ekki á að setja fram þá söguskýringu að það sé nánast „pólitískur ómöguleiki“ að flokkurinn leiði ekki næsta meirihluta í ljósi kosningaúrslita þá er veruleikinn allt annar.
Mun Samfylking vinna með Sjálfstæðisflokki?
Fyrir liggur að Samfylking, Píratar og Vinstri græn hafa öll útilokað samstarf við Sjálfstæðisflokkinn opinberlega. Augljóst er með yfirlýsingu Sósíalistaflokksins í gær, að fimm flokka meirihluti til Vinstri verður ekki að veruleika. Viðreisn ætlar ekki að vinna með Miðflokki.
Ef núverandi meirihluti nær ekki saman við Viðreisn í vikunni verður því uppi staða þar sem einhver þarf að éta ofan í sig stór orð. Þá verður væntanlega ekki hægt að mynda starfhæfan meirihluta nema einhver þeirra þriggja flokka sem hafa útilokað Sjálfstæðisflokkinn gangi á bak þeirra orða. Vinstri græn gera það varla í ljósi þess afhroðs sem flokkurinn beið í borginni, og miklar líkur eru á að tengist setu hans í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki, þvert á vilja kjósenda flokksins.
Píratar telja Sjálfstæðisflokk standa fyrir misnotkun á valdi sem grafi undan trausti á stjórnmálum og stofnunum samfélagsins. Flokkurinn skilgreinir það sem eitt sitt aðalmarkmið að vinna gegn slíku. Og þar af leiðandi nær óhugsandi að hann kúvendist í afstöðu sinni.
Þá stendur eftir Samfylking og hvort hún sé tilbúin að höggva á hnút sem skapast hefur vegna þess að hún vildi ekki gefa eftir borgarstjórastólinn, og fara þess í stað í meirihluta með t.d. Sjálfstæðisflokki og Viðreisn þar sem flokkurinn gæti aldrei gert þá kröfu hvort eð er.
Stjórnmálamenn á Íslandi hafa verið klókir við að teikna upp stöður þar sem þeir telja sig þurfa að taka ákvarðanir um samstarf út frá heimatilbúnum ómöguleika. Það gerðist til að mynda við myndum ríkisstjórnar 2016 og aftur eftir síðustu þingkosningar.
Fleira tengt komandi borgarstjórnarkosningum
-
19. júní 2018Fyrsti borgarstjórnarfundurinn á nýju kjörtímabili í dag
-
15. júní 2018Athugasemdir í kæru Pírata leiða ekki til ógildingar kosninga
-
5. júní 2018Sósíalistaflokkurinn mun styðja valin mál í borgarstjórn
-
5. júní 2018Meirihlutaviðræður hefjast milli Sjálfstæðisflokks og Framsóknar í Kópavogi
-
4. júní 2018Ímynd og ímyndun
-
4. júní 2018Líkur aukast á því að Dagur verði áfram borgarstjóri
-
2. júní 2018Verðandi meirihluti fékk færri atkvæði en verðandi minnihluti
-
30. maí 2018Formlegar viðræður hefjast á morgun milli Viðreisnar og fráfarandi meirihluta
-
30. maí 2018Ég vil ekki verða húsþræll
-
30. maí 2018Nýr meirihluti veltur á að Dagur gefi eftir stólinn