Af háum stalli að falla
Í kjölfar metoo-byltingarinnar hafa fleiri konur treyst sér til að greina frá sinni reynslu af kynbundinni áreitni og ofbeldi en áður. Eitt skýrasta dæmi síðustu missera er vitnisburður fjögurra kvenna sem stigu fram í Stundinni fyrir rúmri viku síðan og þá hefur fjöldi kvenna gengið í metoo-hóp á Facebook þar sem fleiri sögur af kynferðisbrotum hans og ósæmilegri háttsemi hafa komið fram. Við fyrstu sýn virðist samfélagið ætla að bregðast öðruvísi við þeim frásögnum en áður fyrr. Kjarninn kannaði málið.
Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi ráðherra, sendiherra og formaður Alþýðuflokksins, hefur haft orð á sér að vera rökfastur, traustur og vel gefinn stjórnmálamaður og hefur í gegnum tíðina verið gríðarlega áhrifamikill. Stjórnmálaferill hans er langur en Jón Baldvin kemur einnig úr þekktri stjórnmálafjölskyldu þar sem faðir hans var Hannibal Valdimarsson, alþingismaður og ráðherra. Mörgum brá því í brún þegar Guðrún Harðardóttir, systurdóttir Bryndísar Schram eiginkonu hans, steig fram og greindi frá samskiptum sínum við Jón Baldvin í viðtali við tímaritið Nýtt líf árið 2012 – og bréfaskriftum hans til hennar sem nú eru orðin landskunn.
Samkvæmt heimildum Kjarnans var þó orðrómur innan Samfylkingarinnar um „að eitthvað einkennilegt væri í gangi“ hjá Jóni Baldvin um miðjan fyrsta áratuginn en fyrir þann tíma hefðu sögusagnir af meintum brotum hans einungis verið flökkusögur. Þær fjölluðu um téð bréf til Guðrúnar en fáir fengu staðfestingu á tilvist þeirra þar til þau birtust árið 2012. Eftir umfjöllunina var töluvert fjallað um málið í fjölmiðlum en ekki voru áhrifin þó langvinn.
Jóni Baldvin var þó meinað að kenna sem stundakennari í HÍ við námskeið um stöðu smáþjóða í alþjóðakerfinu eftir gagnrýni á ráðningu hans í kjölfar birtingar bréfanna. Þá mótmæltu einstakir kennarar ráðningunni en þáverandi rektor, Kristín Ingólfsdóttir, taldi ráðningu Jóns geta ógnað starfsfriði við skólann vegna mótmælanna. Hann fékk aftur á móti greidda hálfa milljón króna frá Háskóla Íslands í bætur árið 2014, auk þess sem rektor bað hann afsökunar á að málsmeðferð varðandi ráðningu hans hefði verið ábótavant og bitnað á honum að ósekju. Fyrir vikið féll Jón Baldvin frá málshöfðun á hendur Háskóla Íslands.
Kristín taldi jafnframt að mótmælin hefðu verið tilhæfulaus að því leyti að Jón Baldvin uppfyllti hæfisskilyrði til að starfa við skólann. „Rektor staðfestir, að Háskóli Íslands muni í framtíðinni leitast í hvívetna við að fara að lögum í tilvikum, sem tengjast Jóni Baldvini," stóð í tilkynningu vegna málsins. Jafnframt kom fram að Háskóli Íslands viðurkenndi þó ekki bótaskyldu en engu að síður hefði verið ákveðið að greiða Jóni Baldvini hálfa milljón í bætur vegna málsins.
Fyrsta frásögnin yfir 50 ára gömul
Jón Baldvin er fæddur á Ísafirði 21. febrúar 1939 og eru foreldrar hans sem fyrr segir Hannibal Valdimarsson og Sólveig Ólafsdóttir húsmóðir. Hann er giftur Bryndísi Schram, systur Ellerts B. Schram alþingismanns. Saman eiga þau fjögur björn, þau Aldísi, Glúm, Snæfríði sem lést árið 2013 og Kolfinnu. Hann kenndi í Hagaskóla í Reykjavík á árunum 1964 til 1970. Elsta atvikið sem komið hefur fram í fjölmiðlum mun hafa átt sér stað árið 1967 þegar Jón Baldvin var kennari í téðum skóla. Þolendur meintrar áreitni hans og nemendur við skólann, Matthildur Kristmannsdóttir og María Alexandersdóttir, voru á bilinu 13 og 14 ára.
Í fyrrnefndri umfjöllun Stundarinnar segir Matthildur frá því þegar hún var nemandi við Hagaskóla árið 1967, þegar Jón Baldvin vann þar sem kennari. „Hann fór að segja mér að ég lærði ekki nógu vel heima, sem er mjög líklega alveg rétt, og vildi að ég sæti eftir. Það var ekki í sömu kennslustofu heldur í herbergi hinum megin á ganginum. Þar fór hann með mig inn og læsti. Þar var einn stóll og borð og hann gekk svona fram og til baka og lét mig skrifa. Hann var alltaf að beygja sig yfir mig til þess að vita hvernig ég skrifaði. Um leið og hann beygði sig yfir mig fann ég að hann var að strjúka mér. Og hann gerðist alltaf nærgöngulli.“
Matthildur segir að hún hafi farið að kvíða fyrir tímunum hjá Jóni Baldvini, þar sem hann lét hana alltaf sitja eftir eina. „Ég fór að reyna að læra betur heima en það breytti engu. Hann sagðist bara þurfa að láta mig læra þetta betur. Ég bara skynjaði það að það væri eitthvað fram undan sem mundi gerast,“ segir hún.
Loks hafi Jón Baldvin farið að færa sig upp á skaftið. „Hann hélt áfram að strjúka mér og fór að troða sér aftan á stólinn hjá mér. Þetta var svona gamall skólastóll með algjörlega beinu baki og beinu sæti. Honum tókst að troða sér fyrir aftan mig á milli mín og stólbaksins. Ég sat alveg á nippinu á stólnum. Hann var mjög grannur á þessum árum og ég líka og þetta tókst honum að gera. Hann byrjaði að káfa á mér allri og sleikti á mér hálsinn og eyrað og kinnina. Ég var algjörlega frosin. Ég gat ekki staðið upp. Ég gat ekki sagt neitt. Ég bara sat. Ég man eftir hvað ég skammaðist mín fyrir hvað væri að gerast.“
Óttaðist að verða næst
María segir í viðtalinu á Stundinni að hún hafi óttast að verða næst. „Hann var alltaf mjög hortugur og leiðinlegur við krakkana,“ segir hún og bætir því við að stuttu eftir að samnemendur Matthildar mótmæltu eftirsetu hennar hafi Jón Baldvin alltaf verið að grúfa sig yfir hana í tímum, eins og hann væri að skoða hvað hún væri að gera og strjúka á henni axlirnar í leiðinni. „Hann lagði hendurnar yfir axlirnar og strauk mig og grúfði sig alveg upp við andlitið á mér. Og þetta fannst mér alveg hræðilega óþægilegt.“
Loks hafi komið að því að hann hafi sagt henni að sitja eftir. „Þá sagði ég nei, ég vildi ekki lenda í því sama og Matthildur. Eftir það lét hann mann í friði. Þetta var alveg nóg til að maður var alltaf drulluhræddur. Ég var búin að lenda í ýmsu tvö sumur áður í sveit. Ég vissi nákvæmlega hvað karlinn ætlaði sér,“ segir hún.
Nýlegasta frásögnin síðan í sumar
„Þegar ég stóð upp á einum tímapunkti og fór að skenkja í glösin, þá bara gerði kallinn sér lítið fyrir og byrjaði að strjúka á mér rassinn.“ Þannig lýsir Carmen Jóhannsdóttir í samtali við blaðamann Stundarinnar samskiptum sínum við Jón Baldvin en hún segir að hann hafi áreitt hana kynferðislegra síðasta sumar en það er síðasta dæmið um slíka hegðun af hans hálfu. Carmen segir að atvikið hafi átti sér stað á Spáni í júní 2018, að loknum leik Íslands og Argentínu á HM í knattspyrnu. Hún segir að Jón Baldvin hafi áreitt sig kynferðislega á heimili hans og Bryndísar Schram, eiginkonu hans, í bænum Salobreña í Andalúsíu.
Carmen segist hafa frosið, horft á hinar konurnar við borðið og reynt að átta sig á hvað væri að gerast. „Ég fékk svo mikið áfall að ég vissi ekki hvað ég ætti að gera. Ég veit ekki hvernig ég á að útskýra þetta.“ Hún settist niður hjá móður sinni og vissi ekki hvað hún átti að segja. Laufey, móðir hennar, staðfestir í samtali við Stundina að hún hafi séð Jón Baldvin káfa á Carmen. „Ég horfði á þetta gerast,“ segir Laufey. „Ég sagði honum við borðið að ég hefði séð hann gera þetta og að það minnsta sem hann gæti gert væri að biðja hana afsökunar fyrir framan okkur. Hann hélt nú ekki.“
Carmen lýsir atburðarásinni með sama hætti. „Hann sagðist ekki vita hvað hún væri að tala um. Og mamma sagði „ég sá hvað þú gerðir, Jón Baldvin“. Ég stóð upp frá borðinu og fór niður.“ Vinkona Jóns Baldvins og Bryndísar, Hugrún Jónsdóttir, sem einnig var á staðnum, segist í samtali við Stundina ekki hafa séð meinta áreitni eiga sér stað. Hún hafi aðeins orðið vitni að ágreiningnum sem fylgdi í kjölfarið.
Carmen segir þær mæðgurnar hafa ákveðið stuttu síðar að yfirgefa heimilið. „Við heyrðum Jón Baldvin sturlaðan, öskrandi, þegar við fórum út. Mamma kom klyfjuð út með allan farangurinn okkar og hann hrópaði á eftir henni: „Ef þið farið með þetta í fjölmiðla þá lögsæki ég ykkur!““
Stjórnmálamaður í tugi ára
Jón Baldvin var skólameistari Menntaskólans á Ísafirði 1970 til 1979 og síðan ritstjóri Alþýðublaðsins 1979 til 1982 en sama ár og hann hætti sem ritstjóri gerðist hann alþingismaður Reykvíkinga fyrir Alþýðuflokkinn og sinnti því starfi til ársins 1998. Hann var skipaður fjármálaráðherra árið 1987 og gegndi því embætti til 1988. Sama ár var hann skipaður utanríkisráðherra og sinnti hann því starfi til 1995. Þremur árum síðar varð hann sendiherra Íslands í Bandaríkjunum til ársins 2002 og í Finnlandi á árunum 2002 til 2005.
Hann var í nefnd til undirbúnings aðildar að EFTA 1968 til 1970, bæjarfulltrúi á Ísafirði 1971 til 1978 og forseti bæjarstjórnar 1975 til 1976. Jón Baldvin var formaður Alþýðuflokksins í tólf ár frá 1984 til 1996 og formaður ráðherraráðs EFTA 1989, 1992 og 1994, svo eitthvað sé nefnt.
„Ærlegur og hlífir hvorki sjálfum sér né samferðamönnum“
Árið 2002 kom út ævisaga Jóns Baldvins en Kolbrún Bergþórsdóttir skráði. Í tilkynningu frá Vöku-Helgafelli á sínum tíma kom fram að Kolbrún byggði á samtölum við Jón Baldvin og samferðamenn hans, minnispunktum og einkabréfum. Í ævisögunni greindi Jón Baldvin ítarlegar frá einkalífi sínu en áður, meðal annars samskiptum sínum við föður sinn, uppvexti á Vestfjörðum og í Reykjavík, eiginkonu sinni, námi heima og erlendis, skólameistaraárunum á Ísafirði, ritstjóraferli sínum á Alþýðublaðinu og uppgjörinu við Vilmund Gylfason í kjölfar deilna sem áttu sér stað í kringum blaðið.
Þess má geta að Tilhugalíf var söluhæsta bókin á landinu í desember árið 2002, samkvæmt samantekt Félagsvísindastofnunar. Í lýsingu á bókinni á vefsíðu Forlagsins segir að Tilhugalíf sé Íslendingasaga í nýjum stíl þar sem bræður berjast og brugguð eru launráð á bakvið tjöldin. Þetta sé saga ungs manns sem leggur af stað út í heim með samhygðina með bræðrum sínum og systrum í veganesti úr foreldrahúsum. Hann rati víða og fari um skeið villur vegar en finni loks leiðina heim. Og hreppi á leið sinni ballerínuna sem á hug hans allan.
„Jón Baldvin er flugbeittur að vanda, mælskur og ástríðufullur. Umfram allt er hann þó ærlegur og hlífir hvorki sjálfum sér né samferðamönnum. Saga Jóns Baldvins er umbúðalaus, hvort sem sagt er frá einkahögum eða stjórnmálum,“ segir í lýsingu á bókinni.
Útgáfu á nýrri bók frestað
Í tilefni af áttræðisafmæli Jóns Baldvins á þessu ári stóð til að gefa út bók með ræðum hans, ritum og greinum um „frumkvæði Íslands að stuðningi við sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsþjóða, samningana við ESB um Evrópska efnahagssvæðið (EES) og Norræna módelið sem raunhæfan valkost við auðræði nýfrjálshyggjunnar.“ Í frétt Eyjunnar um málið kemur fram að velunnurum hins aldna leiðtoga íslenskra jafnaðarmanna eins og hann er nefndur, hafi gefist þess kostur að skrá nafn sitt á heillaóskaskrá í tilefni útgáfunnar og fá bókina á forlagsverði í staðinn, eða 6000 krónur.
Vegna umfjöllunar fjölmiðla um kynferðislega áreitni síðastliðnar vikur var útgáfunni þó frestað um óákveðinn tíma. Þetta staðfesti Steingrímur Steinþórsson hjá útgáfufélaginu Skruddu við Eyjuna. Bókin var langt komin, en ekkert var fjallað um ósæmilegar bréfaskriftir Jóns Baldvins til Guðrúnar.
Dóttirin segir frá
Aldís Schram, dóttir Jóns Baldvins og Bryndísar, hefur til margra ára reynt að koma sjónarmiðum sínum og reynslusögu á framfæri við mismikla athygli fjölmiðla. Eftir umfjöllun Stundarinnar um meint brot föður hennar sagði hún í Morgunútvarpinu á Rás 2 í síðustu viku að Jón Baldvin hefði notað bréfsefni sendiráðs Íslands í Washington þegar hann óskaði eftir því að hún yrði nauðungarvistuð á geðdeild. Með því hefði hann misnotað stöðu sína sem sendiherra til þess að reka persónuleg erindi.
Aldís sagðist hafa gengið á föður sinn árið 1992 vegna kynferðisbrota eftir að gömul skólasystir hennar hafði sagt Aldísi frá því að hún hefði vaknað við að Jón Baldvin væri að áreita hana kynferðislega. Aldís telur að sá fundur hafi orðið til þess að hún var í fyrsta sinn nauðungarvistuð á geðdeild.
Hún sagði að eftir þetta hefði hann getað hringt í lögreglu hvenær sem er til að handtaka hana. „Umsvifalaust er ég í járnum farið með mig upp á geðdeild, ég fæ ekki viðtal og það er skrautlegt að lesa þessar yfirlýsingar geðlækna. Það er um einhverjar ímyndanir mínar og ranghugmyndir sem ég er með þegar ég er reið út í föður minn,“ sagði hún.
Segir að ásakanir séu „hreinn uppspuni“ eða „skrumskæling á veruleikanum“
Eftir að umfjöllun Stundarinnar komst í hámæli kvaðst Jón Baldvin ekki ætla að svara strax nýjum ásökunum þegar fjölmiðlar leituðust eftir því en gaf loks út yfirlýsingu í Fréttablaðinu í morgun. Í henni segir hann að sögusagnir og ásakanir á hendur honum, um brot gegn konum og kynferðislega áreitni hans, séu ýmist „hreinn uppspuni“ eða „skrumskæling á veruleikanum.“
Hann segir elstu dóttur sína og Bryndísar Schram, eiginkonu hans, Aldísi Schram, glíma við geðræn vandamál og að ásakanir hennar og annarra kvenna megi rekja til þess.
Yfirlýsing Jóns Baldvins: Án dóms og laga
Að undanförnu hefur mátt lesa í hefðbundnum fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum sögur nafngreindra kvenna um vítaverða hegðun undirritaðs gagnvart kvenþjóðinni, jafnvel hálfa öld aftur í tímann.
Þessar sögur eiga það meðal annars sameiginlegt að vera ýmist hreinn uppspuni eða þvílík skrumskæling á veruleikanum, að sannleikurinn er óþekkjanlegur. Sannleikurinn er því nú þegar fyrsta fórnarlambið í þessu leikriti. Það bíður síns tíma að leiðrétta það, m.a. af eftirfarandi ástæðum:
Meginástæðan er sú, að sögurberar eru ýmist í nánum fjölskyldutengslum við okkur Bryndísi eða nánir vinir elstu dóttur okkar. Við Bryndís erum sammála um, að fjölskylduböl af þessu tagi – því að það er það – verði ekki útkljáð í réttarsal, né heldur til lykta leitt í fjölmiðlum. Við stefnum dóttur okkar ekki fyrir dóm – lái okkur hver sem vill.
En hver er þá okkar ábyrgð á fjölskyldubölinu, sem mér er svo tíðrætt um? Ætlum við að skella allri skuld af ógæfu fjölskyldunnar á aðra? Er þetta virkilega allt öðrum að kenna? Því fer fjarri. Sjálfur ber ég þunga sök af því að hafa valdið langvarandi ósætti innan fjölskyldu Bryndísar. Bréfaskipti mín við Guðrúnu Harðardóttur, systurdóttur Bryndísar, þegar hún var 17 ára, voru hvort tveggja með öllu óviðeigandi og ámælisverð. Á því hef ég beðist margfaldlega afsökunar, bæði Guðrúnu sjálfa og fjölskyldu hennar, sem og opinberlega. Ég hef leitað eftir fyrirgefningu, en án árangurs. Á þessu máli ber ég einn ábyrgð – og enginn annar.
Seinni tíma ásakanir um áreitni við Guðrúnu á barnsaldri eru hins vegar tilhæfulausar með öllu. Það mál var rannsakað í tvígang af lögreglu og saksóknara, m.a. með yfirheyrslum og vitnaleiðslum, og vísað frá í bæði skiptin, enda varð vitnum við komið. Öll gögn, sem máli skipta, liggja fyrir og eru öllum aðgengileg, m.a. á heimasíðu minni (www.jbh.is).
Hvers vegna er elstu dóttur okkar svo mjög í nöp við foreldra sína, eins og raun ber vitni? Hversu margar eru þær fjölskyldur í okkar litla samfélagi, sem eiga um sárt að binda vegna geðrænna vandamála einhvers í fjölskyldunni? Hversu algengt er það ekki, að reiði og hatur, sem af hlýst, beinist fyrst og fremst að nánustu aðstandendum? Þetta er kjarni málsins. Eftir að hafa oftar en einu sinni orðið við ákalli geðlækna um nauðungarvistun elstu dóttur okkar á geðdeild, snerist vinarþel og ástúð dóttur til föður að lokum í hatur, sem engu eirir, eins og frásagnir hennar bera vott um. Nauðungarvistun er síðasta neyðarúrræði geðlæknis. Á þessum tíma þurfti að lögum heimild náins aðstandanda til að beita þessu neyðarúrræði. Dóttir okkar treysti mér einum til þess og lét bóka það. Þeir sem halda því fram, að einhver svokallaður „valdamaður“ geti sigað lögreglu á varnarlausa einstaklinga að geðþótta, vita ekki hvað þeir eru að tala um. Sem betur fer hefur þessari kvöð nú verið létt af aðstandendum.
Allar tilraunir til sátta, einnig með milligöngu sálusorgara og sérfræðinga, hafa engan árangur borið. Þetta er nógu sár lífsreynsla fyrir alla, sem hlut eiga að máli, þótt ekki bætist við, að fjölmiðlar vilji velta sér upp úr ógæfu annarra með því að lepja upp einhliða og óstaðfestan óhróður, að óathuguðu máli. Það er satt að segja hreinn níðingsskapur að færa sér í nyt fjölskylduharmleik eins og þann, sem við höfum mátt búa við í áratugi, til þess að ræna fólk mannorðinu, í skjóli þess að vörnum verði vart við komið. Það verður hvorki réttlætt með sannleiksást né réttlætiskennd. Það er ekki rannsóknarblaðamennska. Það er sorp-blaðamennska.
Hvað er þá til ráða til að hnekkja ósönnum og ærumeiðandi aðdróttunum í fjölmiðlum? Varðar það ekki við lög að bera ósannar sakir á aðra? Hingað til hefur það talist vera svo. Og til þess eru dómstólar í réttarríki að leiða sannleikann í ljós – útkljá málin. En eins og áður sagði, munum við Bryndís hvorki lögsækja veika dóttur okkar né þær frændsystur Bryndísar, sem hlut eiga að máli. Fremur kjósum við að láta þetta yfir okkur ganga; og bera harm okkar í hljóði að sinni.
Ég vil líka taka það fram, að ómerkilegan pólitískan skæting, hvort heldur hann er framreiddur af formanni Sambands sjálfstæðiskvenna eða af fyrrverandi formanni Samfylkingarinnar, virðum við ekki svars. Það hefur ekki þótt vera neinum til vegsauka með okkar þjóð hingað til að sparka í liggjandi fólk. Og að því er varðar mína pólitísku arfleifð uni ég því vel að vera að lokum dæmdur af verkum mínum.
Fyrst í stað fannst mér, að ég gæti með engu móti setið þegjandi undir öllum þessum ásökunum, ásamt persónuníðinu, sem flæðir yfir alla bakka á svokölluðum samfélagsmiðlum. Við nánari íhugun er niðurstaðan samt sú, að í þessu eitraða andrúmslofti, þar sem ósannar fullyrðingar og níð hafa fengið að grassera athugasemdalaust dögum saman, sé það til lítils annars en að skemmta skrattanum. Ekki vegna þess að þögn sé sama og samþykki; heldur vegna hins, að málflutningur sem byggir á staðreyndum, mun engin áhrif hafa á óvildarmenn mína. Við treystum því hins vegar, að það fólk, sem þekkir okkur Bryndísi persónulega af eigin reynslu, sjái í gegnum moldviðrið.
Að öllu þessu virtu, er það niðurstaða okkar Bryndísar, að sálarheill okkar umsetnu fjölskyldu eigi að hafa forgang, umfram réttarhöld í kastljósi fjölmiðla, að svo stöddu. Heildstæð greinargerð, þar sem öllum framkomnum sakargiftum verði gerð verðug skil, verður því að bíða betri tíma.
Því er ekki að neita, að mál af þessu tagi vekja upp ýmsar áleitnar spurningar, sem eru ekki á sviði einkamála, heldur varða almannaheill. Getum við ekki lengur treyst því, að hver maður teljist saklaus, uns hann hefur verið sekur fundinn fyrir dómi? Skal hann samt teljast sekur samkvæmt dómstóli fjölmiðla, þótt sýknaður hafi verið af réttum yfirvöldum að rannsókn lokinni? Þetta er sjálfur tilvistarvandi okkar brothætta réttarríkis. Á því berum við öll ábyrgð.
Tekin af framboðslista Samfylkingarinnar
Ljóst er að nokkrir einstaklingar innan Samfylkingarinnar vissu af bréfum Jóns Baldvins til Guðrúnar áður en þau voru gerð opinber. Í byrjun árs 2007 hafði Jón Baldvin verið skipaður í heiðurssæti á framboðslista Samfylkingarinnar fyrir komandi alþingiskosningar en í mars sama ár var Guðrúnu tilkynnt að Ríkissaksóknari hefði ákveðið að fella mál hennar gegn Jóni Baldvini niður.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þáverandi formaður Samfylkingarinnar, fékk vitneskju um bréfin og þar af leiðandi aðgang að þeim. Í kjölfarið boðaði hún Jón Baldvin til fundar ásamt Degi B. Eggertssyni borgarfulltrúa, þar sem Jóni Baldvini var tjáð að hann yrði fjarlægður af framboðslista flokksins.
„Tókum ranga ákvörðun“
Í byrjun árs 2012 – rétt áður en viðtalið við Guðrúnu birtist í Nýju lífi – var Jón Baldvin leiðbeinandi á námskeiði Samfylkingarfélagsins í Reykjavík sem fjallaði um skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið en það var einungis opið flokksmönnum.
Kjartan Valgarðsson, þáverandi formaður Samfylkingarfélagsins í Reykjavík, segir í samtali við Kjarnann að vitneskjan um bréfin hefði komið fram á þriðja degi námskeiðsins og að einn dagur hefði verið eftir. „Ég tel að við höfum tekið ranga ákvörðun, að láta hann klára námskeiðið. Ég sé það núna ég hefði átt að taka málstað Guðrúnar,“ segir hann.
Í frétt Stundarinnar um málið segir Kjartan að hann hafi rætt málið við Jón Baldvin. „Hann var ekki ánægður, eins og þú getur ímyndað þér. Ég vildi bara láta hann vita að ég vissi af þessu og „confrontera“ hann með þetta. Auðvitað var það álitamál hvort það ætti að láta hann halda áfram eða ekki. Þetta varð hins vegar til þess að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði sig úr Samfylkingarfélaginu í Reykjavík. Mér fannst vont að missa þessa miklu forystukonu úr félaginu.“
Allir viðmælendur Kjarnans eru sammála um að nú séu viðhorfin breytt og að viðbrögðin við frásögnum þeim – sem hér hefur verið lýst – séu ólík þeim fyrir sjö árum, svo ekki sé minnst á áratugina þar á undan. Og þrátt fyrir að ekki sé lengri tími liðinn þá sé fólk frekar tilbúið að hlusta á reynslusögur kvenna og velta fyrir sér ábyrgð og afleiðingum meintra gjörða. Nú sé af háum stalli að falla fyrir áhrifamenn sem brotið hafa gegn öðrum í skjóli meðvirkni og aðdáunar.
Lesa meira
-
29. desember 2022Öfga uppgjör
-
25. desember 2022Hátíðarhugvekja: Heimilisofbeldi um jólin og gerendameðvirkni í lok árs
-
27. september 2022Stjórn Ferðafélags Íslands hafnar lýsingum fráfarandi forseta
-
27. september 2022Fyrsti kvenkyns forseti Ferðafélagsins segir af sér vegna framferðis stjórnarkarla
-
20. ágúst 2022Teymi þjóðkirkjunnar hætt að kanna mál konu sem ásakaði prest um kynferðisbrot
-
7. júlí 2022Vítalía búin að gefa skýrslu hjá lögreglu
-
5. júní 2022Vítalía um fráfarandi forstjóra Festi: „Ég á Eggerti mikið að þakka“
-
25. maí 2022Einstaklingar sem eru til rannsóknar skuli stíga til hliðar
-
24. maí 2022„Á meðan helvítis eftirspurnin er þá er framboð“
-
28. apríl 2022„Var ólofaður og ógiftur þegar þetta átti sér stað“