Fjöldi fólks tók þátt í Druslugöngunni í ár en gengið var frá Hallgrímskirkju klukkan 14 í dag niður á Austurvöll. Gangan er gengin til að sýna samstöðu með þolendum kynferðisofbeldis og skila skömm þolenda þangað sem hún á heima, hjá gerendum. Gangan hefur stækkað frá ári til árs síðan hún var gengin fyrst árið 2011 og í fyrra gengu hátt í 20.000 manns.
Á Facebook-síðu göngunnar segir: „Druslugangan er okkar. Hún er vopn okkar gegn óréttlæti og ofbeldi. Við sættum okkur ekki við samfélag sem samþykkir kynferðisofbeldi með þögn sinni og aðgerðarleysi, sama hvort við séum þolendur, aðstandendur eða tengjumst göngunni á annan hátt.“
Þá er bent á að kynferðisofbeldi eigi sér stað í öllum lögum samfélagsins, þar sem þöggun virðist kerfislæg og nauðgunarmenning rótgróin. Við skulum ganga saman Druslugöngu og standa saman gegn kynferðisofbeldi.
Varðhundar feðraveldisins klóra í bakkann með því að kæra þolendur fyrir meiðyrði. Þeir reyna að draga úr ofbeldi og upplifun fólks sem verður fyrir ofbeldi sagði Eva Sigurðardóttir í samtali við Kjarnann í vikunni en hún er í skipulagsteymi Druslugöngunnar í ár.
Í ár var engin ákveðin yfirskrift Druslugöngunnar en þó voru ákveðnir hlutir sem skipuleggjendur vilja leggja áherslu á. „Eins og í fyrra vildum við leggja áherslu á að allir geti orðið fyrir ofbeldi óháð kyni, uppruna og stétt. Kynferðisofbeldi getur gerst allst staðar og geta gerendur og þolendur verið alls staðar. Við viljum vera meira inklúsív,“ sagði Eva.
„Það hefur sýnt sig í kjölfar aukinnar umræðu að það er þörf á Druslugöngunni. Við sjáum magnið af ofbeldi í samfélaginu,“ sagði Eva spurð um mikilvægi Druslugöngunnar. „Við sjáum varðhunda feðraveldisins klóra í bakkann með því að kæra þolendur fyrir meiðyrði. Þeir reyna að draga úr ofbeldinu og upplifun fólks sem verður fyrir ofbeldi.“
Eva sagði Druslugönguna vera mikilvægt vopn í baráttunni gegn kynferðisofbeldi. „Við þurfum að halda áfram þangað til að þetta er ekki lengur partur af samfélaginu.“
Sigrún Bragadóttir, hannyrðapönkari og aktívisti, og Aldís Schram fluttu ávarp á Austurvelli en þær hafa báðar talað opinberlega um kynferðisofbeldið sem þær hafa orðið fyrir.
Lesa meira
-
29. desember 2022Öfga uppgjör
-
25. desember 2022Hátíðarhugvekja: Heimilisofbeldi um jólin og gerendameðvirkni í lok árs
-
27. september 2022Stjórn Ferðafélags Íslands hafnar lýsingum fráfarandi forseta
-
27. september 2022Fyrsti kvenkyns forseti Ferðafélagsins segir af sér vegna framferðis stjórnarkarla
-
20. ágúst 2022Teymi þjóðkirkjunnar hætt að kanna mál konu sem ásakaði prest um kynferðisbrot
-
7. júlí 2022Vítalía búin að gefa skýrslu hjá lögreglu
-
5. júní 2022Vítalía um fráfarandi forstjóra Festi: „Ég á Eggerti mikið að þakka“
-
25. maí 2022Einstaklingar sem eru til rannsóknar skuli stíga til hliðar
-
24. maí 2022„Á meðan helvítis eftirspurnin er þá er framboð“
-
28. apríl 2022„Var ólofaður og ógiftur þegar þetta átti sér stað“