Verðmiðinn á Valitor og verksmiðjunni í Helguvík lækkað um nálægt tíu milljarða á einu ári
Arion banki átti sitt langversta rekstrarár í sögu sinni í fyrra, þegar hagnaðurinn var einn milljarður króna. Mestur var tæplega 50 milljarðar króna árið 2014. Erfiðleikar síðasta árs eru fyrst og síðast vegna tveggja eigna sem bankinn er að reyna að selja, Valitor og kísilmálmverksmiðju í Helguvík, sem hafa hrunið í bókfærðu virði síðastliðið ár.
Í byrjun árs 2019 mat Arion banki virði greiðslumiðlunarfyrirtækisins Valitor á 15,8 milljarða króna. Í dag er bókfært virði fyrirtækisins um sex milljarðar króna. Það hefur því lækkað um nálægt tíu milljarða króna á einu ári.
Á enn styttri tíma, frá lokum mars og fram til dagsins í dag, hefur önnur vandræðaeign Arion banka, kísilmálmverksmiðja United Silicon í Helguvík, rúmlega helmingast í bókfærðu virði. Í byrjun tímabilsins var hún metin á 6,9 milljarða króna í bókum Arion banka en er nú metin á um 3,2 milljarða króna. Niðurfærslan, á níu mánuðum, nemur því 3,7 milljörðum króna.
Samtals hefur bókfært virði þessara tveggja eigna Arion banka, sem hann hefur lengi reynt að selja, lækkað um vel á fjórtánda milljarð króna á einu ári.
Minnsti hagnaður frá upphafi
Arion banki sendi frá sér aðkomuviðvörun vegna þessa í gærkvöldi. Þar kom fram að neikvæð áhrif af annars vegar Valitor og hins vegar Stakksbergi, eignarhaldsfélagi utan um kísilmálmverksmiðjuna í Helguvík, verði átta milljarðar króna á síðasta ársfjórðungi 2019. Afkoma bankans verður því jákvæð um einn milljarð króna.
Það er langminnsti hagnaður sem orðið hefur hjá Arion banka síðan að bankinn var reistur á grunni hins fallna Kaupþings á haustmánuðum 2008. Frá 2009, sem var fyrsta heila starfsár Arion banka, og fram til loka árs 2018 nam hagnaður bankans alls 188,3 milljörðum króna.
Mestur var hagnaðurinn árið 2015, þegar hann var 49,7 milljarðar króna, eða um 50 sinnum meiri en áætlaður hagnaður Arion banka í fyrra. Minnstur var hagnaðurinn á árinu 2018, þegar hann nam 7,8 milljörðum króna, sem þáverandi bankastjóri, Höskuldur H. Ólafsson, sagði að hefðu verið mikil vonbrigði.
Vert er að taka fram að á fyrstu árunum eftir bankahrunið þá féll stór hluti hagnaðar Arion banka til vegna endurmats á eignum eða sölu á eignum sem bankinn hafði fengið í vöggugjöf við stofnun. Því var ekki um hagnað að ræða sem útskýrðist að uppistöðu af stöndunum undirliggjandi rekstri.
Miklar væringar hjá Valitor
Valitor, sem er dótturfélag Arion banka, hefur verið í formlegu söluferli frá haustinu 2018. Lítið hefur gengið að selja félagið, enda hefur rekstur þess gengið afleitlega á undanförnum árum.
Tekjur Valitor drógust saman um 1.240 milljónir króna á fyrstu níu mánuðum ársins 2019, eða um rúman fjórðung. Á sama tíma jókst hins vegar rekstrarkostnaður um 31 prósent og var tæplega 7,8 milljarðar króna. Samanlagt tap fyrirtækisins frá byrjun árs 2018 og til loka september 2019 nam sex milljörðum króna.
Ein helsta ástæðan fyrir tapinu er sú að einn stærsti viðskiptavinur Valitor, Stripe, hætti færsluhirðingarviðskiptum sínum við Valitor um mitt ár 2018, líkt og Kjarninn greindi frá í mars 2018 að stæði til. Þá hafa stórtækar fjárfestingar í alrásarlausnum, sem námu um sex milljörðum króna frá árinu 2014, ekki staðið undir væntingum.
Vegna þessa hefur Arion banki verið að ráðast í kostnaðarsamar aðgerðir til að taka til í Valitor. Bankinn bókfærði meðal annars 600 milljón króna kostnað vegna endurskipulagningar á Valitor á síðasta ársfjórðungi 2019.
Í byrjun janúar var starfsfólki Valitor fækkað um 60. Kjarninn hafði greint frá því í desember 2019 að fækkað hefði verið í stjórnendateymi Valitor úr tíu í fjóra.
Fært niður um tæpa sex milljarða
Í afkomuviðvöruninni sem birt var í Kauphöllinni í gær sagði að stjórn Valitor hefði í gær samþykkt nýja viðskiptaáætlun fyrirtækisins. „Niðurstöður virðisrýrnunarprófanna fela í sér að færa þarf óefnislega eign Valitor niður um 4 milljarða króna. Þessi virðisrýrnun mun endurspeglast í afkomu af eignum til sölu á fjórða ársfjórðungi hjá Arion banka og kemur til viðbótar við rekstrartap Valitor á fjórðungnum og kostnað við söluferli félagsins, samtals 1,7 milljarð króna. Kostnaður við endurskipulagningu Valitor upp á 600 m.kr. sem greint var frá í tilkynningu frá bankanum 30. desember sl. er innifalinn í þeirri fjárhæð. Óefnisleg eign Valitor eftir virðisrýrnunina nemur um 3,4 milljörðum króna og tilheyrir starfsemi sem skilað hefur rekstrarhagnaði. Þar sem um óefnislegar eignir er að ræða hefur þessi niðurfærsla engin áhrif á eiginfjárhlutföll Arion banka.“
Þessar breytinga eiga að draga úr fjárfestingaþörf og rekstrarkostnaði Valitor og snúa tapi í hagnað, svo hægt verði að selja fyrirtækið.
Verðmiðinn á Valitor hefur þó hríðlækkað á skömmum tíma samhliða þessu miklu rekstrarerfiðleikum. Hann var 15,8 milljarðar króna í byrjun árs 2019. Nú er hann um sex milljarðar króna, en öll virðisrýrnun óefnislegra eigna, alls fjórir milljarðar króna, og allt rekstrartap Valitor á síðasta fjórðungi 2019, mun lækka beint bókfært virði. Rekstrartapið og kostnaður Arion banka við söluferli Arion banka var 1,7 milljarður króna á síðasta fjórðungi, en sú tala er ekki sundurliðuð í afkomuviðvöruninni. Samkvæmt upplýsingum frá Arion banka fellur kostnaðurinn við söluferlið beint á bankann, og dregst þar með ekki frá bókfærðu virði, en hann er einungis lítill hluti af þessum 1,7 milljörðum króna.
Hækkaði í verði þrátt fyrir enga framleiðslu
Slökkt var á kísilmálmverksmiðjunni í Helguvík haustið 2017. Félagið utan um rekstur hennar var svo sett í þrot í janúar 2018. Kostnaður við uppsetningu verksmiðjunnar hafði verið um 22 milljarðar króna.
Arion banki, sem var stærsti kröfuhafi hennar, tók yfir verkefnið, afskrifaði 4,8 milljarða króna af skuldum en ætlaði sér svo að koma verksmiðjunni aftur í gang með tilheyrandi kostnaði og selja hana. Þær áætlanir hafa gengið illa.
Þrátt fyrir að mikil andstaða væri við fyrirhugaða endurræsingu verksmiðjunnar hjá íbúum í Reykjanesbæ, sem kvörtuðu mjög yfir mengun frá henni, að viðbótarkostnaður við standsetningu hennar hrannaðist upp og þeirri staðreynd að miklu til viðbótar þyrfti að kosta til svo hún myndi uppfylla sett skilyrði til að hljóta umhverfismat, þá hækkaði bókfært virði verksmiðjunnar sífellt í bókum Arion banka.
Í árslok 2017 var hún bókfærð á 5,2 milljarða króna en í mars í fyrra var virðið komið upp í 6,9 milljarða króna án þess að nokkuð hefði verið framleitt í Helguvík í millitíðinni.
Síðan þá hefur bókfært virði fallið hratt. Á níu mánuðum hefur verðmiðinn fallið niður í 3,2 milljarða króna.
Í afkomuviðvöruninni sem send var út í gær kom fram að vegna „óvissu á mörkuðum með sílikon hafa nokkrir framleiðendur dregið úr framleiðslu eða lokað verksmiðjum. Því er til staðar ónýtt framleiðslugeta sem leiða má líkur að hafi neikvæð áhrif á söluferli sílikonverksmiðjunnar í Helguvík. Arion banki niðurfærir því eignir Stakksbergs og nema áhrifin á afkomu fjórða ársfjórðungs um 2,3 milljörðum króna að teknu tilliti til skatta.“
Lestu meira:
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
7. janúar 2023Dreifing Fréttablaðsins fer úr 80 þúsund í 45 þúsund eintök á dag eftir breytingarnar
-
7. janúar 2023Tæknispá 2023: Tími gervigreindar er kominn og samfélagsmiðlar verða persónulegri
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
4. janúar 2023Hálfgerð Eurovision-stigagjöf hjá matsnefnd Hörpu sögð óhefðbundin
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
1. janúar 2023Þrennt sem eykur forskot Íslands
-
30. desember 2022Verslun í alþjóðlegu umhverfi