Ástandið er ein löng jógaæfing – Jóga nidra hugleiðsla handa lesendum Kjarnans
Auður Jónsdóttir rithöfundur hitti Auði Bjarnadóttur, eiganda Jógasetursins, sem í meðfylgjandi myndbandi leiðir lesendur Kjarnans í gegnum jóga nidra hugleiðslu til að ná djúpslökun. Hér er viðtal við jógakennarann og djúphugleiðsla handa ykkur.
Í þessu skrýtna ástandi, nú um mundir, leitar kvíði á marga, á sama tíma og við þurfum að huga að heilsu og ónæmiskerfi. Jóga er skilvirk leið til að dempa kvíða og styrkja ónæmiskerfið svo ég bað Auði Bjarnadóttur, eiganda Jógasetursins, um að leiða lesendur inn í jógaæfingar góðar til þess. Auður taldi best, til að byrja með, að gera djúphugleiðslu kennda við jóga nidra – sem þýðir jógískur svefn – en það er tuttugu mínútna slökun sem fylgir með þessu viðtali. Hugleiðslan styrkir líkama og sál.
Auður Bjarnadóttir er frumkvöðull í jógakennslu á Íslandi. Þessi fyrrum ballettstjarna sneri baki við alþjóðlegum balletferli fyrir löngu síðan og má segja að hún hafi fylgt köllun sinni: Að kenna jóga. Margar konur eru henni djúpt þakklátar eftir að hafa verið í meðgöngujóga hjá henni en líklega hefur inngripum í fæðingar fækkað eftir að konum gafst kostur á að stunda meðgöngujóga og undirbúa sig þannig fyrir fæðingu.
Eitthvað við ástandið nú minnir á fæðingu; við erum vanmáttug á valdi afls sem hefur tekið af okkur völdin í einhverjum skilningi. Ég settist niður með Auði til að tala um þetta skrýtna ástand – sem margumtöluð veira hefur skapað. Veira sem á örskömmum tíma hefur sett háþróuð nútímasamfélög á hvolf.
Í spjallinu sagði Auður við mig: Í rauninni er ástandið ein löng jógaæfing.
Mér fundust þessi orð nöfnu minnar svo rétt. Þetta ástand reynir á styrk okkar og líka æðruleysi. Um leið og ástandið ýfir upp vanmáttarkennd þvingar það okkur til að hvíla í óvissu. Anda inn í kvíðann, halda stöðunni. Standa upprétt, þó að sum okkar langi mest til að sofna til að gleyma þessum vonda draumi. Þetta er jú draumkennt ástand, svo óraunverulegt að eina stundina virðist allt með felldu, þá næstu líður manni eins og heimsendir sé á næsta leiti. Við stöndum öll frammi fyrir hverfulleika lífsins og getum ekki litið undan. Gleymt okkur. Því það getur kostað líf.
Svo við verðum að sleppa tökunum. Eins og í jóga. Bara vera. Og gera eins og okkur er sagt. Anda inn, anda út. Standa styrk. Þegar Auður undirbýr konur fyrir fæðingu kennir hún þeim öndun sem hjálpar, miðlar jógasýn á lífið og styrkir þær í að má út óttann. Ég man að í fæðingu hjálpaði þessi hugsun mér heilmikið, að fæðingin væri jógaæfing sem ég þyrfti aðeins að hvíla í þangað til barnið væri komið.
Sleppa tökunum á eigin líkama. Bara vera, á valdi aflsins, náttúrunnar. Því óttinn skapar spennu og þar með mótspyrnu, spennan gerir allt erfiðara.
Að vera getur reynst flókið þegar veran verður svona snúin, eins og í ástandi sem þessu. En lífið er alltaf hverfult, öllum stundum, munurinn aðeins sá að nú blasir það svo æpandi áberandi við að það reynir á okkur að taka tillit til fallvaltleikans í öllum okkar athöfnum næstu vikurnar og mánuðina. Við erum tilneydd til að hvíla í óvissunni og það reynist manneskjum oft svo strembið, enda er erfiðasta jógastaðan sú að liggja í algjörri slökun og sleppa tökunum.
Þessi einfalda mantra, að sleppa tökunum, er í raun það flóknasta í lífinu. Okkur reynist oft um megn að sleppa óttanum, stjórnseminni, tiktúrum hugans; þráhyggjunni að hafa stjórn á hverjum degi, vera sífellt með plön og vilja ráða framtíðinni.
Ónæmiskerfið skelfur með óttanum
Ég hóf samtal okkar Auðar með eftirfarandi orðum: Nú troðum við marvaðann í áður ókunnugu ástandi, við skiljum ekki alveg ástandið sem við erum inn í og skyndilega blasir við óvissa. Þá koma jóga og hugleiðsla inn sem svo sterk hjálpartæki. Hvað getur þú sagt fólk um það?
Ástandið sem við erum að fara í gegnum er ein stór jógaæfing, svaraði Auður þá. Við förum öll inn í svo mikinn ótta, kvíða og spennu. Og það segir kannski svolítið mikið um hvar við erum stödd. Ef ég tala út frá jógískri sýn, þá er óttinn svo eðlilegur í mannlegu eðli. Einhver á veika móður eða einhver annar í fjölskyldunni er með viðkvæmt ónæmiskerfi eða undirliggjandi sjúkdóma og þar fram eftir götum. Við panikkum ansi mikið; hugurinn skelfur og ónæmiskerfið skelfur með óttanum. En óttinn hefur áhrif á ónæmiskerfið. Sumir myndu jafnvel segja að óttinn geti verið verri veiran. Að vera í stöðugum kvíða og stöðugri spennu er ekki gott fyrir heilsuna, sagði hún og hreiðraði um sig með tebolla.
Síðan hélt nafna mín áfram: Um leið og ég brosi, þá styrki ég hamingjuna. Alltaf þegar ég brosi styrki ég slökunartaug líkamans, svokallaða flökkutaug. Já, þegar ég brosi eða syng og geri hluti sem láta mér líða vel, þá styrki ég ónæmiskerfið. Það er gott að verja sig og vita allt um sprittið – en um leið megum við ekki hætta að gera það sem gerir okkur gott og styrkir okkur, sagði hún og tók sem dæmi að sama dag hefði hún til dæmis farið í göngutúr með vinkonu í Elliðárdalinn, til að anda að sér fersku lofti og vera í kringum plöntur.
Síðan fórum við í sund og önduðum að okkur útilofti og sól – og stungum okkur í heitt og kalt. Þetta allt styrkir ónæmiskerfið, útskýrði Auður.
Við þurfum að vera eins mikið úti núna og við getum. Þeim sem finna til depurðar eða eru kvíðnir líður oft betur bara við að fara út að ganga.
Okkur líður líka betur ef við erum í kringum tré, plöntur og náttúru. Bara það að lyfta upp bringunni og búa til rými fyrir lungun færir okkur meiri vellíðan. Það er svo gott að muna að við getum öll gert eitthvað smá – eins og heilbrigðisráðherrann okkar sagði í sjónvarpinu um helgina: Ég er bara að læra núna að stoppa annað slagið og draga djúpt inn andann.
Við drógum báðar djúpt inn andann að þessu mæltu. Auður leggur áherslu á að allt þetta skipti máli því í streitunni og kvíðanum verði öndunin grynnri, án þess við séum meðvituð um það, og slíkt dragi úr okkur orku.
Góður svefn styrkir líka ónæmiskerfið, sagði hún. Sama gildir um hreyfingu, útivist, jóga og hugleiðslu. Þetta styrkir jákvæðnina í huganum, en það er búið að sanna að við eigum til að leita meira í neikvæðnina í huganum. Manneskjan rennur ósjálfrátt niður í rennibraut neikvæðna hugsanaferlisins. Hugsanir okkar eru 60 til 70 % neikvæðar.
Svo það er verkefni hvers og eins að finna jáið og ljósið innra með sér. Þakklætið, sagði Auður, vön að pæla í mekkanismanum innra með okkur og miðla slíkum pælingum í jógatímum.
Er þessi hugsun að gera mér gott?
Hugurinn er allan daginn að hugsa allskonar bull, það poppar inn í höfuðið, bætti hún við. En með meiri meðvitund get ég ákveðið hvort ég vilji næra erfiðar hugsanir. Ef ég hugsa stöðugt, ómeðvitað, neikvætt, þá get ég verið að mylja niður ónæmiskerfið, án þess að vita af því. En með meðvitund get ég hugsað: Úpps, hvaða hugsun er þetta? Er hún að gera mér gott? Ég get talað við hugann og því getur ásetningur skipt máli, til dæmis að stíga inn í daginn og segja við sjálfan sig: Ég er heilbrigð/ur og heil/l. Vegna þess að taugakerfið nemur hugsanir okkar.
Það nemur hugsunina sem ég trúi. Þannig get ég nært óttann en ég get á sama hátt nært öryggi og ást. Ég þarf að velja hvort ég næri: Óttann eða öryggið. Við erum öllum stundum að næra annað hvort.
Auður tók sér málhvíld en sagði síðan að manneskjan væri kannski í grunninn svolítið hrædd. Þess vegna leitaðist hún við að vera stöðugt að tryggja sig.
Með allskonar dóti og græjum – eða bara eins og núna, fólk hamstrar varning í búðunum af því að óttinn er undirliggjandi, tók hún sem dæmi. En svo er magnað að um leið og við hugsum þetta sem langa jógaæfingu, eins konar heimsvitund, þá þvæ ég mér um hendurnar fyrir mig, en líka fyrir þig. Og líka fyrir konuna í Afríku! Við erum öll í því sama.
Ráðin hennar Auðar
Nú eru margir í sóttkví og það tekur á að vera lokaður inni dögum saman, sagði ég næst við Auði og spurði hvort hún ætti til ráð, æfingar eða hugleiðslu, sem gætu gagnast vel í einangrun jafnt sem í daglega lífinu.
Já, sagði Auður og hló lágt þegar hún minnti á að lífið væri ein stór óvissa!
Við þurfum að treysta, anda inn í það sem er, slaka inn í það sem er. Og ég held það sé svo gott ef okkur tekst að lifa í æðruleysi í óvissunni.
Leyfa æðruleysinu að hjálpa okkur í gegnum svona aðstæður. Hugsa: Ég geri mitt besta en ég held ró minni. Ég get ekki meira, ég get ekki vitað hvað gerist á morgun. Ég get bara vitað að ég get gert mitt besta í dag, botnar hún.
Að þessu mæltu fylgdi Auður mér inn í jógasalinn sinn, sótthreinsaðan í hverjum króka og kima, og ég lagðist á dýnu, lygndi aftur augunum og hvarf inn í vitundina, þangað til ég vaknaði endurnærð.
Hér er tuttugu mínútna hugleiðsla, ef þú, lesandi góður, þráir að sleppa tökunum um stund. Þess má geta að á Facebook-síðu Jógasetursins er nú verið að streyma jógatímum, þ.e. nú eru þar jógatímar í beinni útsendingu. Strax síðastliðinn mánudag var byrjað að streyma tímum þar og það hugsað sem gjöf til samfélagsins. Flesta daga er bætt við tímum; í jóga nidra, jógaflæði, kundalini jóga, hugleiðslum og fjölskyldujóga. Þá geta allir gert jóga heima. Auður mælir með að fólk búi sér til jógahorn, á sama stað með reykelsi og kertaljósi, þannig geti það skapað vissa helgi á staðnum sínum. Allt hér.
Lesa meira
-
6. janúar 2023Mögulega mest smitandi afbrigðið hingað til
-
3. janúar 2023Segja skimun kínverskra ferðamanna ekki byggða „á neinum vísindalegum rökum“
-
15. desember 2022Segir aðstoðarmann Ásmundar Einars hafa „staðfest“ að ÍBV ætti að fá 100 milljóna styrk
-
5. nóvember 2022Bóluefnakapphlaupið kostaði 1,3 milljónir manna lífið
-
19. júlí 2022Takmarkanir myndu þjóna takmörkuðum tilgangi
-
12. júlí 2022Skjátími barna rauk upp í faraldrinum
-
2. júlí 2022Alls fóru 0,0002% af fjármagni í COVID-viðbragðsáætlunum í að uppræta kynbundið ofbeldi
-
29. júní 2022Staðfest: Köttur smitaði manneskju af COVID-19
-
3. júní 2022Ferðaskrifstofur fá áratug til þess að greiða lánin frá Ferðaábyrgðarsjóði til baka
-
12. maí 2022„Þarf að huga betur að mér sjálfum og minni fjölskyldu“