Svartasta sviðsmyndin reiknar með 50 þúsund landsmönnum á hlutabótum
Rúmlega fjórðungur starfandi Íslendinga mun fá hluta af launum sínum greiddum úr Atvinnuleysistryggingasjóði fram til 1. júní verði dekksta sviðsmynd stjórnvalda að veruleika. Í henni er gert ráð fyrir að kostnaðurinn við þá stöðu yrði 32 milljarðar króna.
Ef 50 þúsund manns leita eftir samningum við vinnuveitendur um að fá hluta launa sinna greidda úr Atvinnuleysistryggingasjóði á næstu mánuðum, og helmingur þeirra muni fara í 25 prósent starfshlutfall, 30 prósent í hálft starf og fimmtungur í 75 prósent starfshlutfall, mun það kosta ríkissjóð 12,8 milljarða króna á mánuði. Samtals mun kostnaðurinn, frá 15. mars til 31. maí, því nema 32 milljörðum króna.
Þetta kemur fram í kostnaðarmati sem félags- og barnamálaráðuneytið vann vegna breytinga á frumvarpi Ásmundar Einars Daðasonar, ráðherra málaflokksins, sem er ætlað að reyna að viðhalda ráðningarsambandi milli launafólks og atvinnurekenda í stað þess að þúsundum manns verði sagt upp um komandi mánaðamót. Tilurð frumvarpsins eru aðstæður efnahagslífinu sem skapast hafa vegna útbreiðslu veirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum. Vert er að taka fram að þetta er svartasta sviðsmyndin sem kostnaðarmatið dregur upp.
Samkvæmt tölum sem Hagstofa Íslands birti í gær var fjöldi þeirra sem voru starfandi á Íslandi á fjórða ársfjórðungi 2019 á aldrinum 15-69 ára að jafnaði 195.163. Um 80 prósent þeirra eru með íslenskan bakgrunn en um fimmtungur teljast til innflytjenda.
Því gerir svartasta sviðsmynd félags- og barnamálaráðuneytisins ráð fyrir því að rúmlega fjórðungur alls vinnuafls á landinu þurfi að gera samninga um að láta Atvinnuleysistryggingasjóð greiða hluta launa sinna næsta tvo og hálfan mánuðinn hið minnsta.
Til að setja þessa tölu í samhengi er hægt að benda á að skráð atvinnuleysi í febrúar mældist fimm prósent og að jafnaði voru 9.162 einstaklingar á atvinnuleysisskrá í þeim mánuði. Svartasta sviðsmynd ráðuneytisins gerir ráð fyrir að rúmlega fimm sinnum fleiri muni sækjast eftir hlutabótum.
Mat ráðherrans reiknar með 20 til 30 þúsund manns
Breytingarnar fela í sér að Atvinnuleysistryggingasjóður mun greiða frá 25 prósent og allt að 75 prósent af launum þeirra sem gera slíka samninga, en í upphaflegu frumvarpi hafði hámarkshlutfallið yrðu 50 prósent. Í kostnaðarmatinu er gengið út frá því að um helmingur allra sem það geri muni þurfa á hámarkshlutfallinu að halda, sem þýðir að fyrirtækin sem viðkomandi vinnur hjá munu einungis geta greitt 25 prósent af launum hans.
Aðrar lykilbreytingar sem gerðar hafa verið á frumvarpinu er að hámark á heildartekjum þeirra sem gera samninga hefur verið hækkað úr 650 þúsund krónum í 700 þúsund krónur og hver og einn getur fengið allt að 90 prósent af núverandi heildarlaunum upp að því þaki, en það hlutfall var 80 prósent í fyrstu útgáfu frumvarpsins. Þá hefur launalægsta hópnum verið tryggð full afkomu og þeir sem eru með laun undir 400 þúsund krónum á mánuði munu geta fengið þau að öllu leyti áfram, þrátt fyrir samninginn. Það vekur líka athygli að ákveðið hefur verið að stytta tímann sem bráðabirgðaúrræðið verður í boði frá 1. júlí til 1. júní.
Ásmundur Einar sagði í fréttum Stöðvar 2 í gær að „það fjármagn sem fer í þetta [fer] mjög mikið upp og má gera ráð fyrir því að það verði á bilinu tólf til tuttugu milljarðar, eftir því hversu margir nýta sér úrræðið.“
Miðað við kostnaðarmatið þá var Ásmundur Einar þar að gefa sér að á bilinu 20 til 30 þúsund landsmenn myndu gera samninga um skert starfshlutfall og nýta sér greiðslur úr Atvinnutryggingasjóði á móti. Þá myndu greiðslur, á ofangreindum forsendum, verða 12,8 til 19,2 milljarðar króna.
Verði bjartsýnasta sviðsmynd ráðuneytisins að veruleika, sem gerir ráð fyrir að fimm þúsund manns sækist eftir hlutabótum, mun kostnaðurinn hins vegar verða mun lægri, eða 3,2 milljarðar króna yfir umrætt tveggja og hálfs mánaðar tímabil.
Mikil eftirspurn þegar skapast
Í nefndaráliti velferðarnefndar, sem allir nefndarmenn skrifa undir (tveir þingmenn, Halldóra Mogensen Pírati og Anna Kolbrún Árnadóttir úr Miðflokknum, skrifa undir með fyrirvara) kemur fram að væntanlegur samdráttur vegna útbreiðslu COVID-19-sjúkdómsins muni hafa víðtæk samfélagsleg og efnahagsleg áhrif. „Við sérstakar aðstæður sem þessar er nauðsynlegt að mæta þeim vanda sem fyrirsjáanlegur er hjá fólki og fyrirtækjum. Tryggja þarf afkomu launafólks, gera atvinnurekendum kleift að minnka umfang starfsemi sinnar tímabundið vegna hægari gangs í hagkerfinu og styðja þá sjálfstætt starfandi einstaklinga sem þurfa að þola tilheyrandi samdrátt í rekstri. Markmið frumvarpsins er að treysta grundvöll fólks og fyrirtækja á óvissutímum og vinna gegn atvinnuleysi til skemmri og lengri tíma og þeim neikvæðu afleiðingum sem af því leiðir. Framlagning frumvarpsins er hluti af nauðsynlegum aðgerðum á tímum mikilla áskorana og er ætlað að skjóta stoðum undir viðspyrnu samfélagsins og hagkerfisins eftir að ástandið sem nú ríkir er yfirstaðið.“
Ljóst má vera að mikil eftirspurn hefur þegar skapast eftir úrræðinu, þrátt fyrir að ekki sé enn búið að afgreiða það á Alþingi.
Þegar farið er inn á heimasíðu Vinnumálastofnunar blasir við uppskot þar sem bent sé á að það sé ekki hægt að sækja um minnkað starfshlutfall vegna samdráttar eins og er þar sem frumvarpið sé enn til meðferðar á Alþingi og því liggi endanleg útfærsla ekki fyrir. „Þrátt fyrir það leggur Vinnumálastofnun nú kapp á að vinna að stafrænni útfærslu fyrir þessa umsókn miðað við frumvarpsdrögin og á meðan á þeirri vinnu stendur er ekki hægt að sækja um minnkað starfshlutfall á vef Vinnumálastofnunar. Við munum senda út tilkynningu þegar umsóknargrunnurinn er tilbúinn og einstaklingar sem fara í minnkað starfshlutfall geta sótt um. Athugið að allar umsóknir munu gilda afturvirkt frá 15. mars. Vinnumálastofnun biður fólk um að sýna biðlund vegna mikils álags og hvetur alla til að fylgjast með tilkynningum á heimasíðu stofnunarinnar.“
Lestu meira:
-
6. janúar 2023Mögulega mest smitandi afbrigðið hingað til
-
3. janúar 2023Segja skimun kínverskra ferðamanna ekki byggða „á neinum vísindalegum rökum“
-
15. desember 2022Segir aðstoðarmann Ásmundar Einars hafa „staðfest“ að ÍBV ætti að fá 100 milljóna styrk
-
5. nóvember 2022Bóluefnakapphlaupið kostaði 1,3 milljónir manna lífið
-
19. júlí 2022Takmarkanir myndu þjóna takmörkuðum tilgangi
-
12. júlí 2022Skjátími barna rauk upp í faraldrinum
-
2. júlí 2022Alls fóru 0,0002% af fjármagni í COVID-viðbragðsáætlunum í að uppræta kynbundið ofbeldi
-
29. júní 2022Staðfest: Köttur smitaði manneskju af COVID-19
-
3. júní 2022Ferðaskrifstofur fá áratug til þess að greiða lánin frá Ferðaábyrgðarsjóði til baka
-
12. maí 2022„Þarf að huga betur að mér sjálfum og minni fjölskyldu“