Við erum ekki að þýða samstöðuna gegn veirunni
Erlendum ríkisborgurum sem búa á Íslandi hefur fjölgað gríðarlega á undanförnum árum. Þeir eru nú yfir 50 þúsund. Þær aðstæður sem nú ríkja í íslensku samfélagi skapa allskyns áskoranir fyrir þennan hóp sem eru kannski ekki sýnilegar öðrum. Kjarninn ræddi við borgarfulltrúa og verkefnastjóra hjá Reykjavíkurborg sem eru í framlínunni við að aðstoða nýju Íslendingana.
Á uppgangstímum síðustu ára urðu til tug þúsundir starfa hérlendis. Flest í ferðaþjónustu og tengdum geirum en aukin neysla, og aukin eftirspurn eftir húsnæði, kallaði líka eftir mikilli aukningu á starfsfólki í öðrum mannaflsfrekum geirum.
Hérlendis var ekki til vinnuafl til að manna þessi störf og Íslendingar fjölga sér ekki nægilega hratt til að „framleiða“ það vinnuafl sem þurfti til. Því blasti við að það þurfti að flytja vinnuaflið inn. Og það var gert að umfangi sem hefur ekki áður sést í Íslandssögunni.
Í byrjun mars síðastliðinn voru alls 50.309 erlendir ríkisborgarar búsettir hérlendis. Það er stærri hópur en allir eldri borgarar landsins. Í þeirri tölu vantar þá sem komu hingað tímabundið til að starfa á vegum starfsmannaleiga. Þrátt fyrir samdrátt í ferðaþjónustu í fyrra og mun minni vöxt í hagkerfinu þá hélt þeim samt sem áður áfram að fjölga.
Frá lokum árs 2011 hefur erlendum ríkisborgurum sem hér búa fjölgað um 30 þúsund talsins. Þeir eru nú 13,8 prósent landsmanna. Langflestir útlendinganna sem hér búa koma upprunalega fá Póllandi, eða tæplega 21 þúsund alls.
Það blasti alltaf við að að þessi hópur yrði fyrir meiri áhrifum en flestir aðrir sem mynda íslenskt samfélag þegar skóinn færi að kreppa að. Þar til fyrir nokkrum vikum var þó búist við mjúkri lendingu. Það hefur gjörbreyst.
Fyrir helgi var staðan sú að 46 þúsund manns, rúmlega fjórðungur íslensks vinnumarkaðar, var annað hvort án atvinnu eða á hlutabótum. Af þeim rúmlega 30 þúsund sem sótt höfðu um hlutabætur vegna minnkaðs starfshlutfalls eru tæplega fjórðungur erlendir ríkisborgarar.
Vant að fá upplýsingar frá heimalandinu
Það eru margskonar áskoranir sem blasa við þeim hópi innflytjenda sem hér búa þegar fordæmalausar aðstæður sem innihalda heilsuvá, stórkostlega skerðingu á frelsi og áður óséð atvinnuleysi vegna þess að botninn datt á nokkrum vikum úr efnahagslífinu, að minnsta kosti tímabundið.
Sabine Leskopf, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar í Reykjavík, og Edda Ólafsdóttir, verkefnastjóri á velferðarsviði Reykjavíkurborgar, eru í framvarðarsveit Reykjavíkurborgar, þar sem langflestir erlendu ríkisborgararnir búa, sem tekst á við þær áskoranir.
Sabine segir að áskoranir innflytjenda séu að einhverju leyti þær sömu og Íslendingar takist á við í þessum aðstæðum. Það hafa til að mynda allir áhyggjur af heilsu sinni og sinna. „Það sem er öðruvísi er til dæmis hvernig fólk fær upplýsingar. Stóra vandamálið er vantraustið gagnvart þeim stjórnvöldum sem eru að miðla upplýsingunum núna.“
Hún segir að ein birtingarmynd þessa sé sú að foreldrar af erlendum uppruna séu síður að senda börn sín í skóla þrátt fyrir að þeir séu opnir. Það ráðist af því að í heimalöndum þeirra séu þeir lokaðir. „Þótt Vísir og RÚV séu til dæmis komin með fréttir á pólsku, sem er frábært, þá eru Pólverjarnir sem búa hérna ekki að skoða þá vefi og þeir byrja ekki á því bara allt í einu. Fólk er vant því að fá upplýsingar frá heimalandinu. Úr fjölmiðlum þar.“
Edda bendir á að hér sé líka ört stækkandi hópur flóttafólks, en 530 manns fengið vernd, komið hingað sem kvótaflóttamenn eða vegna fjölskyldusameiningar á síðasta ári. „Velferðarsvið borgarinnar hefur áhyggjur af þessum hópi. Í þessum hópi eru einstaklingar sem líða af áfallatreitu og þetta er enn eitt áfallið sem það er það takast á við.“
Margt sé þó líka vel gert. Upplýsingagjöf á COVID.is síðunni sé til að mynda nú til fyrirmyndar þótt það hafi tekið smá tíma að þýða upplýsingarnar þar yfir á fleiri tungumál og til staðar sé mikill sjáanlegur áhugi á að standa betur að upplýsingagjöf til þessa hóps.
Hið opinbera þarf að ráða fleiri innflytjendur
Sabine segir að það muni taka einhverjar vikur fyrir stöðuna í atvinnumálum innflytjenda að teiknast almennilega upp, þótt sterkar vísbendingar séu þegar komnar fram um áhrif. Atvinnumálastefnan hérlendis hafi verið þannig að Ísland hefur ekki verið að reyna að gera sig aðlaðandi fyrir vel menntað starfsfólk með því að skapa störf fyrir það, heldur hafi starfsgreinar sem séu vinnuaflsfrekar og búi til störf sem krefjist ekki mikillar menntunar verið í forgrunni.
Edda bendir á að kreppan sem nú hefur skollið á komi í beinu framhaldi af víðtækum verkföllum í leikskólum þar sem margir foreldrar þurftu að vera mikið frá vinnu. Innflytjendur séu margir hverjir með lítið eða ekkert bakland hérlendis til að hjálpa sér að takast á við þá stöðu og því lítið annað í boða en skert viðvera í vinnu. „Við höfum áhyggjur af þessum hópi en við vitum lika að það eru margir Íslendingar í sambærilegri stöðu.“
Reykjavíkurborg hefur verið mjög áfram um það árum saman að ráða starfsfólk af erlendum uppruna inn í stjórnsýslu borgarinnar. Hún hefur til að mynda haldið úti Facebook-síðum með upplýsingum á ensku og pólsku frá árinu 2012. Af því býr borgin nú þegar nauðsynlegt er að þýða mikið magn af upplýsingum sem þarf að koma til þeirra fjölmörgu íbúa hennar sem skilja ekki íslensku.
Sabine segir að þannig sé staðan ekki hjá ríkinu. Það hafi einfaldlega vantað verulega upp á að til dæmis ráðuneytin og undirstofnanir þess hafi ráðið fólk af erlendum uppruna í störf, þrátt fyrir að hún viti að margir úr þeim hópi sæki um störfin. „Það er alltaf ráðinn Íslendingur sem hefur búið í Svíþjóð. Ef við hleypum innflytjendunum aldrei að þrátt fyrir góða menntun og íslenskukunnáttu þá verðum við áfram með þetta tvískipta samfélag sem við erum að glíma við.“
Flest landamæri upprunalanda þeirra erlendu ríkisborgara sem hér búa eru sem stendur lokuð. Þrátt fyrir að fólk sem lendir í til dæmis atvinnumissi á Íslandi myndi vilja fara aftur til heimalandsins þá er það sem stendur nánast ómögulegt fyrir það að komast þangað.
Sabine segist skynja að það séu margir í hópi innflytjenda að velta þessari stöðu fyrir sér. Hún heyri þó víða að fólk efist um að staðan í heimalandinu sé betri og því sé mjög ólíklegt að það myndi fara héðan, þótt það gæti.
Erum ekki að þýða samstöðuna
Þessi staða gerir það að verkum að í aðstæðum eins og þeim sem nú eru uppi þá liggja ekki fyrir leiðir til að ná til ýmissa jaðarhópa í samfélaginu, að sögn Eddu. Þeir geta auðveldlega gleymst. Dæmi um það sé til dæmis það að fólk sé hvatt til að hringja í síma 1700 til að tilkynna um grun um COVID-19 smit í stað þess að mæta á heilsugæslur. Við uppsetningu á því kerfi virðist sem ekki hafi verið gert ráð fyrir fólki sem tali hvorki íslensku né ensku.
Sabine tekur undir þetta og bendir á að það nánast almenna traust sem íslenskir ríkisborgarar bera til þríeykisins Ölmu Möller landlæknis, Þórólfs Guðnasonar sóttvarnarlæknis og Víðis Reynissonar, yfirlögregluþjóns hjá almannavarnardeild ríkislögreglustjóra, sé ekki til staðar hjá mörgum erlendum ríkisborgurum. Þegar hún hafi hlustað á lagði „Ferðumst innanhúss“, sem sló í gegn í vikunni í flutningi stórkostaliðs íslenskra tónlistarmanna og þríeykisins svokallaða, þá hafi hún skynjað þessi skýru skilaboð um að standa saman víða í kringum sig. „En við erum ekki að þýða samstöðuna í skilaboð sem ná til innflytjenda eða annarra erlendra ríkisborgara í sama mæli.“
Edda bendir á að við sem samfélag þurfum að vera mjög vakandi fyrir þessum hópi. Hann gleymist einfaldlega oft. „Þau eru þarna þegar við þurfum á þeim að halda en annars viljum við sem minnst af þeim vita. Ég keyri oft framhjá stórum vinnusvæðum. Byggingasvæðum. Þar eru margir verkamenn enn að vinna, og allar líkur á að flestir þeirra séu útlendingar. Ég sé þá oft í mikilli nálægt við hvora aðra, til dæmis saman inni í bílum, og velti því fyrir mér hvort að upplýsingar um til að mynda tveggja metra regluna séu að berast til þeirra.“
Samfélagið hefur sætt sig við tvískiptingu
Sabine segir að íslenskt samfélag hafi sætt sig við að samfélagið sé tvískipt. Það íslenska sem sé í góðum málum og hið útlenska sem virkar og glímir ekki við stór sýnileg vandamál. „Útlendingarnir sinna störfum sínum, trufla ekki mikið, krefjast ekki mikils en við erum ekki að taka þau að fullu inn í okkar samfélag. Innflytjendurnir hafa líka margir hverjir sætt sig við þetta ástand. Þar er svo að finna ákveðna stéttaskiptingu. Þar er hópur sem talar góða íslensku, á íslenska vini og tekur þátt í íslenska samfélaginu. Við erum svo með annan hóp sem á samskipti við aðra en þau fara öll fram á ensku. Svo erum með þriðja hópinn, mest kannski pólska samfélagið, sem er orðið svo sjálfbært að lítil tengsl séu við íslenska málsamfélagið.“
Til þess að byggja brýr milli þessara hópa og íslenska samfélagsins þurfi að auka áherslu á íslenskuna en líka breytingar í viðhorfum allra. Edda bendir á að afar mikilvægt sé læra af reynslunni sem fæst af yfirstandandi aðstæðum og tryggja í framtíðinni að það verði reiknað með þessum hópi í upplýsingagjöf þegar upp kemur einhverskonar vá. „Við megum ekki gleyma þessum mikilvæga hópi og verðum að reikna með honum í okkar viðbrögðum hver sem þau eru.“
Lestu meira:
-
6. janúar 2023Mögulega mest smitandi afbrigðið hingað til
-
3. janúar 2023Segja skimun kínverskra ferðamanna ekki byggða „á neinum vísindalegum rökum“
-
15. desember 2022Segir aðstoðarmann Ásmundar Einars hafa „staðfest“ að ÍBV ætti að fá 100 milljóna styrk
-
5. nóvember 2022Bóluefnakapphlaupið kostaði 1,3 milljónir manna lífið
-
19. júlí 2022Takmarkanir myndu þjóna takmörkuðum tilgangi
-
12. júlí 2022Skjátími barna rauk upp í faraldrinum
-
2. júlí 2022Alls fóru 0,0002% af fjármagni í COVID-viðbragðsáætlunum í að uppræta kynbundið ofbeldi
-
29. júní 2022Staðfest: Köttur smitaði manneskju af COVID-19
-
3. júní 2022Ferðaskrifstofur fá áratug til þess að greiða lánin frá Ferðaábyrgðarsjóði til baka
-
12. maí 2022„Þarf að huga betur að mér sjálfum og minni fjölskyldu“