Röngum aðila stefnt, skaðabótakröfum Samherja hafnað en Þorsteinn Már var beittur órétti
Samherji vildi að Seðlabanki Íslands yrði látinn greiða sér um 316 milljónir króna í bætur vegna rannsóknar á sér. Héraðsdómur hefur hafnað þessari kröfu, segir röngum aðila stefnt og gefur lítið fyrir rökstuðning á mörg hundruð milljón króna skaðabótakröfu. Seðlabanki Íslands sýndi hins vegar af sér saknæma og ólögmæta háttsemi í garð Þorsteins Más Baldvinssonar, sem fær greiddar bæði skaða- og miskabætur.
Sjávarútvegsrisinn Samherji stefndi árið 2019 Seðlabanka Íslands til greiðslu skaða- og miskabóta vegna rannsóknar þess síðarnefnda á ýmsum ætluðum brotum fyrirtækisins á meðan að fjármagnshöft voru við lýði á Íslandi.
Samherji fór fram á alls 316 milljónir króna í skaða- og miskabætur vegna rannsóknar Seðlabankans á fyrirtækinu. Samhliða stefndi Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, bankanum persónulega og fór fram á samanlagt 6,5 milljónir króna í bætur.
Skaðabótakrafa Samherja, sem var upp á 306 milljónir króna, byggði meðal annars á kostnaði við einn starfsmann, rannsóknarlögreglumanninn fyrrverandi Jón Óttar Ólafsson, sem hefur starfað fyrir Samherja um nokkurra ára skeið. Kostnaður vegna starfa hans var sagður 135 milljónir króna.
Á föstudag var Seðlabanki Íslands sýknaður af kröfum Samherja, en fyrirtækinu var gert að greiða 3,5 milljónir króna í málskostnað.
Bankinn var hins vegar dæmdur til að greiða Þorsteini Má persónulega tvær og hálfa milljón króna í skaðabætur og tvö hundruð þúsund krónu að auki í miskabætur í hans persónulega máli gegn bankanum sem talin er hafa sýnt af sér ólögmæta og saknæma háttsemi gagnvart honum. Auk þess þarf Seðlabanki Íslands að greiða um 1,5 milljón króna í málskostnað.
Hér að neðan verður það helsta úr dómum í málunum tveimur rakið.
Röngum aðila stefnt
Samherji höfðaði mál gegn Seðlabanka Íslands og krafðist skaða- og miskabóta vegna húsleitar- og haldlagningaraðgerða í svokölluðu Seðlabankamáli. Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði kröfum Samherja, meðal annars á þeirri forsendu að fyrirtækið hafi átt að beina bótakröfum vegna húsleitar- og haldlagningaraðgerða að íslenska ríkinu samkvæmt bótareglum laga um meðferð sakamála, ekki Seðlabankanum. Því hafi röngum aðila verið stefnt.
Dómarinn í málinu, Kjartan Bjarni Björgvinsson, gaf auk þess lítið fyrir skaðabótakröfu Samherja í málinu. Hún var sögð vera vegna lögfræði- og sérfræðikostnaðar sem komi til viðbótar við kostnað hans vegna eiginlegs málareksturs í málinu vegna stjórnvaldssektar sem var lögð á fyrirtækið, og fór Samherji fram á 305,8 milljónir króna frá Seðlabanka Íslands vegna hans.
Í dómnum segir að um umfang tjónsins hafi Samherji vísað til bréfa endurskoðunarfyrirtækisins KPMG ehf., sem dagsett voru annars vegar 24. maí og hins vegar 13. ágúst 2019. Í dómnum segir að ljóst sé að Samherji hafi „aflað þessara skjala einhliða og án aðkomu stefnda, en í skjölunum er beinlínis tekið fram að það séu stjórnendur stefnanda sem séu ábyrgir fyrir þeirri samantekt kostnaðar sem skjölin byggjast á. Í samræmi við almenn sjónarmið einkamálaréttarfars um sönnunarmat á gögnum sem aflað er með þessum hætti verður að telja að þessi skjöl hafi takmarkað sönnunargildi og að með þeim séu ekki færðar viðhlítandi sönnur á meint tjón stefnanda vegna rannsóknar stefnda.“
Sömu sögu er að segja um skriflega aðilaskýrsla fyrirsvarsmanns Samherja, sem dagsett er 20 janúar 2020 og lögð var fyrir dóminn. Dómarinn telur hana í besta falli hafa takmarkað sönnunargildi um deiluefnið. „Það athugast einnig að framlagning aðilaskýrslu af þessu tagi felur í sér skriflegan málflutning sem er í andstöðu við almennar reglur laga.“
135 milljónir vegna félaga Jóns Óttars
Varðandi önnur gögn sem Samherji lagði fram til að rökstyðja skaðabótakröfu sína þá segir í dómnum að margt sé óljóst að hvaða leyti sú vinna og kostnaður sem þar sé vísað til tengist rannsókn Seðlabanka Íslands og skaðabótaskyldri háttsemi í því sambandi. „Af skýrslutökum fyrir dómi verður raunar ráðið að sumir þeirra reikninga sem stefnandi hefur vísað til í málinu séu vegna kostnaðar sem tæplega verða taldir í málefnalegum tengslum við rannsókn stefnda eða aðrar aðgerðir. Á það meðal annars við um reikning Lex lögmannsstofu að fjárhæð 55,5 milljónir vegna kostnaðar sem Arna Bryndís McClure, starfsmaður stefnanda, kvað meðal annars annars að kominn væri til vegna umfangsmikilla starfa í tengslum við kæru til Mannréttindadómstóls fyrir breskt fyrirtæki en Mannréttindadómstóllinn hefði síðan vísað kærunni frá. Engin frekari gögn um þá vinnu og hvernig hún tengist þeirri háttsemi stefnda sem skaðabótakrafa stefnanda byggist á liggja hins vegar fyrir í málinu.“
Stór hluti af skaðabótakröfu Samherja var vegna greiðslna til tveggja félaga, Juralis-ráðgjafarstofu slhf. og PPP sf. Alls var um að ræða útgefna reikninga upp á rúmlega 135 milljónir króna sem féllu til vegna ráðgjafastarfa Jóns Óttars Ólafssonar, fyrrverandi rannsóknarlögreglumanns, sem starfað hefur fyrir Samherja árum saman að ýmis konar verkefnum.
Í dómnum segir að það verði ekki sé af gögnum málsins að ráðgjafastörf Jóns Óttars hafi verið nauðsynleg vegna rannsóknar Seðlabankans á starfsemi Samherja og þar með afleiðingi af háttsemi bankans sem sjá mátti fyrir.„ Hefur dómurinn þá litið til þess að gögn sem lögð hafa verið fyrir dóminn bera ekki merki um að hvaða leyti störf Jóns Óttars og gögn sem hann aflaði voru nýtt af hálfu stefnanda í samskiptum hans við og málarekstri gegn stefnda og við önnur stjórnvöld. Í ljósi þessa getur skýrsla Jóns Óttars fyrir dómi heldur ekki rennt fullnægjandi stoðum undir að þessi kostnaður eigi að teljast til bótaskylds tjóns vegna háttsemi stefnda.“
Sömu sjónarmið og rakin voru hér að ofan, um sönnun tjóns, eru í dómnum sögð eiga við um aðra reikninga sjálfstætt starfandi sérfræðinga og lögmanna sem Samherji lagði fram í málinu. „Er sönnunarfærsla stefnanda sama marki brennd að því leyti að umræddir reikningar geta einir og sér ekki talist fullnægjandi sönnun fyrir því að kostnaðurinn sem þar greinir verði talinn til bótaskylds tjóns stefnanda.“
Ekki hægt að nota bók sem rök fyrir bótaskyldu
Þegar Garðar Gíslason, lögmaður Samherja, flutti málið fyrir hönd skjólstæðings síns í héraðsdómi í september sagði hann að Seðlabankinn hefði valdið Samherja margföldu tjóni. Því til stuðnings vísaði hann meðal annars í bókina Gjaldeyriseftirlitið – Vald án eftirlits? eftir Björn Jón Bragason frá árinu 2016. Hann sagði að af bókinni mætti ráða að enginn rökstuddur grunur hafi verið fyrir hendi fyrir aðgerðum Seðlabanka Íslands gagnvart Samherja. Samkvæmt frétt í Fréttatímanum frá því í desember 2016 keypti Samherji heilt upplag af umræddri bók og gaf starfsmönnum sínum í jólagjöf.
Dómurinn segir að hann fái „hvorki séð að umrædd umfjöllun hafi sönnunargildi fyrir málsástæðum stefnanda eftir þeim sjónarmiðum sem hér hafa verið rakin né að almenn skírskotun til efnis sömu umfjöllunar feli sér fullnægjandi reifun á atvikum sem varða eiga bótaskyldu.“
Störf yfirlögfræðings
Bótakrafa Samherja í málinu tók einnig til svonefnds innri kostnaður sem fyrirtækið sagði að hefði fallið til vegna eigin vinnu starfsmanna þess, sem rannsókn Seðlabankans hefði kallað á. Þar var meðal annars vísað í launakostnað yfirlögfræðings Samherja, Örnu Bryndísar McClure, frá því hún hóf störf hjá fyrirtækinu í maí 2013 og í 23 mánuði þar eftir. „Af hálfu stefnanda er byggt á því að Arna Bryndís hafi á þessu tímabili eingöngu sinnt verkefnum sem sprottið hefðu af rannsókn stefnda.“
Dómurinn taldi gögn ekki hafa verið lögð fram sem bæru vott um hvaða vinnu Arna lagði af mörkum í þágu Samherja vegna rannsóknar stefnda, t.d. skjöl sem hún útbjó eða bréf sem hún skrifaði. „Takmörkuð sönnunarfærsla stefnanda um tjón sitt hvað þetta varðar gerir enn fremur að verkum að dómurinn getur ekki tekið afstöðu til þess að hversu miklu leyti störf Örnu voru tengd húsleitar- og haldlagningaraðgerðum samkvæmt kröfu stefnda, þar sem dómurinn hefur hafnað bótaskyldu, og hversu stór þáttur starfa hennar sneri að rannsókn stefnda, þar sem dómurinn hefur fallist á að tiltekin skilyrði skaðabótaskyldu séu uppfyllt. Í ljósi þessa duga skýrslur fyrirsvarsmanns stefnanda og Örnu sjálfrar sem vitnis ekki til sem sönnunargagn til þess að dómurinn geti fallist á þann málatilbúnað stefnanda að störf Örnu á tæplega tveggja ára tímabili hafi alfarið verið helguð rannsókn stefnda.“
Fréttaflutningur ekki viðunandi sönnunarfærsla
Til viðbótar var hluti af bótakröfu Samherja til vegna launakostnaðar fyrrverandi fjármálastjóra félagsins, Sigursteins Ingvarssonar, í uppsagnarfresti frá 1. júní til 31. október 2016, en hann hvarf frá störfum hjá Samherja í kjölfar andlegra veikinda sem hann segir að hafi verið bein afleiðing aðgerða og rangra ásakana Seðlabankans á hendur honum.
Í dómnum segir að ekki sé ástæða til að vefengja framburð Sigursteins í skýrslu fyrir dómi um að rannsókn stefnda hafi verið honum afar þungbær. Hins vegar sé það Samherja að sanna að fyrirtækið hafi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni af þessum sökum sem rakið verði til bótaskyldrar háttsemi Seðlabankans. „Í þessu sambandi er ekki unnt að horfa framhjá því að stefnandi hefur ekki lagt fram nein frekari gögn t.d. um óvinnufærni Sigursteins og hvernig hún tengist rannsókn stefnda, sem geta orðið grundvöllur dómsniðurstöðu um þetta atriði samkvæmt reglum skaðabótaréttarins. Þannig verður ekki talið að gögn sem stefnandi hefur lagt fram um fréttaflutning af starfslokum Sigursteins af vefsíðunum audlindin.is, vb.is og visir.is og ummæli sem þar eru höfð eftir honum geti talist viðunandi sönnunarfærsla fyrir bótakröfu að þessu leyti. Verður af þeim sökum að hafna bótakröfu stefnanda að því er þennan lið kröfu hans varðar.“
Í dómnum er sérstaklega tekið fram að engin afstaða sé tekin til þess hvort Sigursteinn kunni persónulega að eiga kröfu á Seðlabankann vegna rannsóknarinnar sem málið fjallar um.
Öllum bótakröfum Samherja var því hafnað og fyrirtækinu gert að greiða 3,5 milljónir króna í málskostnað. Samherji hefur þegar ákveðið að áfrýja niðurstöðunni.
Saknæm og ólögmæt háttsemi
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, stefndi Seðlabankanum líka í eigin nafni og krafðist bæði skaða- og miskabóta upp á samtals 6,5 milljónir króna.
Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu í máli Þorsteins Más að hafna þyrfti þeim sjónarmiðum Seðlabanka Íslands að röng túlkun bankans á refsiheimildum og beiting á sektarheimild gegn Þorsteini má í september 2016, sem Hæstiréttur dæmdi ólögmæta rúmum tveimur árum síðar, væri afsakanleg í ljósi atvika málsins. „Verður því lagt til grundvallar að sú ranga túlkun á refsiheimildum sem stefndi viðhafði við meðferð máls stefnanda og þegar stefndi tók ákvörðun um að leggja á hann sekt 1. september 2016 hafi falið í sér saknæma og ólögmæta háttsemi.“
Þorsteinn Már taldi að tjón sitt vegna þessa hefði einkum orðið vegna kostnaðar af vinnu lögmanns við að fá ólögmætri stjórnvaldsákvörðun Seðlabankans um álagningu stjórnvaldssektar hnekkt og kostnaði vegna þeirrar vinnu sem féll til eftir að hafist var handa við þá vinnu.
Grein í Stundinni og samskipti við blaðamann Morgunblaðsins
Í dómnum kemur fram að samkvæmt tímaskrá sem Þorsteinn Már lagði fram í málinu hófst sú vinna lögmanna og lögfræðinga sem bótakrafa stefnanda byggðist á 22. mars 2018 og stóð til 5. júlí 2019 og nam samanlagt alls 167,25 vinnustundum. Kostnaðurinn var samtals tæplega 5,9 milljónir króna en Þorsteinn Már ákvað að takmarka skaðabótakröfuna við fimm milljónir króna.
Dómurinn segir, í niðurstöðu sinni, að hann telji „ljóst að hluti af þeirri vinnu sem vísað er til af hálfu stefnanda og samsvarandi kostnaður vegna hennar verði ekki talinn til tjóns sem rakið verði með beinum hætti til bótaskyldrar háttsemi stefnda í þessu máli. Á það til dæmis við um fundi hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, yfirferð á grein í Stundinni og samskipti við tilgreindan blaðamann hjá Morgunblaðinu. Þá er jafnframt ljóst af tímaskránni að verulegur fjöldi þeirra vinnustunda sem þar er vísað til er kominn til vegna samskipta stefnanda við lögmann, sem og samskipta lögmanns stefnanda við Örnu Bryndísi McClure, lögfræðing Samherja hf. Að mati dómsins verður ekki ráðið hvernig og að hvaða leyti umrædd samskipti og kostnaður vegna þeirra verði talin afleiðing af bótaskyldri háttsemi stefnda.“
Hins vegar telur dómurinn að það verði ekki um villst að stærstur hluti þess kostnaðar sem Þorsteinn Már vísaði til sé kominn til vegna lögfræðikostnaðar af beiðni til hans um að ákvörðun um álagningu sektar yrði endurskoðuð sem og vegna kvörtunar til umboðsmanns Alþingis og samskipta við Seðlabankann eftir að álit umboðsmanns lá fyrir. „Verður að telja að kostnaður vegna þessarar vinnu sé afleiðing af hinni ólögmætu málsmeðferð stefnda og eðlilegt hafi verið að stefnandi leitaðist við að rétta hlut sinn með þeim hætti að óska endurskoðunar á ákvörðun stefnda og bera málið í kjölfarið undir umboðsmann Alþingis.“
Því var fallist á kröfu Þorsteins Más um skaðabætur, en í ljósi þess að tímaskráin sem hann byggði kröfu sína á var ekki alls kostar nákvæm um þá vinnu sem kostnaður hans stafaði af varð fjárhæð bóta ákveðin að álitum 2.480.000 krónur, eða tæpur helmingur þess sem Þorsteinn Már fór fram á. „Við ákvörðun bótanna hefur dómurinn jafnframt horft til þess að málarekstur stefnanda beindist alfarið að því að ekki hefðu verið fyrir hendi viðhlítandi lagaheimildir fyrir ákvörðun stefnda um álagningu stjórnvaldssektar í máli stefnanda. Verður því ekki séð að kostnaður vegna samskipta og funda stefnda sem og starfsmanna Samherja hf. við lögmann stefnanda verði rakinn til háttsemi stefnda í máli því sem hér er til umfjöllunar og talinn til sennilegrar afleiðingar af henni.“
Fékk minna en helming af því sem sóst var eftir
Þorsteinn Már fór líka fram á 1,5 milljónir króna í miskabætur. Sú krafa byggði á því að Seðlabankinn hefði, með stjórnvaldsákvörðun sinni og álagningu stjórnvaldssektar á hendur Þorsteini Má, gerst sekur um ólögmæta meingerð gegn æru og persónu hans. Hann taldi að margra ára rannsóknaraðgerðir Seðlabankans, stjórnvaldssektin og opinber umræða um mál Þorsteins Más eftir að umboðsmaður Alþingis lét í té álit sitt á því hefði „laskað orðspor stefnanda.“
Dómurinn segir að engin gögn liggi fyrir í málinu um að opinber umræða hafi átt sér stað um þær ákvarðanir sem beindust að Þorsteini persónulega í málinu „að öðru leyti en því sem stefnandi kaus sjálfur að fjalla um þau mál, eins og ráðið verður af þeirri fjölmiðlaumfjöllun sem stefnandi hefur lagt fyrir dóminn. Verður því að hafna málatilbúnaði stefnanda um að stefndi hafi gerst sekur um ólögmæta meingerð sem hafi laskað orðspor hans.“
Hins vegar liggi fyrir sú niðurstaða dómsins að Seðlabankinn hefði með réttu mátt draga þá ályktun af ákvörðunum ríkissaksóknara frá 20. maí 2014 að ekki væru fyrir hendi heimildir til þess að Þorsteinn Már yrði beittur viðurlögum vegna þeirrar háttsemi sem Seðlabankinn ákvað að gera honum stjórnvaldssekt fyrir með ákvörðun sinni 1. september 2016. Sú ákvörðun Seðlabankans að leggja stjórnvaldssekt á Þorstein Má hafi því falið í sér ólögmæta meingerð gegn persónu hans. „Verður því fallist á að stefnanda beri miskabætur vegna þessarar háttsemi stefnda og þykja þær hæfilega ákveðnar 200.000 krónur.“
Þorsteinn Már fékk því dæmdar tæplega 2,5 milljónir króna í skaðabætur, 200 þúsund krónur í miskabætur og Seðlabanka Íslands var gert að greiða málskostnað upp á tæplega 1,5 milljónir króna.
Persónulegur sigur
Samherji birti tilkynningu um dómana á föstudag, eftir að þeir voru gerðir opinberir, á heimasíðu sinni. Þar er haft eftir Þorsteini Má að niðurstaðan í hans máli sé persónulegur sigur sem staðfesti það sem hann hafi haldið fram frá öndverðu. „Það var enginn grundvöllur fyrir þessari sektarákvörðun Seðlabankans og sektin var ólögmæt. Þetta mál mitt snerist ekki um bæturnar sem slíkar heldur það grundvallaratriði að fá þessa röngu niðurstöðu Seðlabankans leiðrétta. Ég er því mjög ánægður með niðurstöðuna. Dómurinn í því máli sem Samherji höfðaði er hins vegar vonbrigði.“
Þorsteinn Már segir einnig að stjórnendur Samherja telji, eftir að hafa farið yfir dómsniðurstöður í báðum málunum, að forsendur dóms í máli Samherja séu ekki í samræmi við niðurstöðuna í hans máli. „Við höfum þegar tekið ákvörðun um að áfrýja dómi í máli Samherja gegn Seðlabankanum til Landsréttar.“
Lestu meira:
-
2. nóvember 2022BÍ sendir umboðsmanni Alþingis ábendingu vegna máls gegn fjórum blaðamönnum
-
22. júlí 2022Hagnaður Samherja nam 17,8 milljörðum
-
15. júlí 2022„Guð minn góður, af hverju hefði ég átt að fá greiddar mútur?“
-
15. júlí 2022Fitty segir milljónirnar hafa verið ráðgjafagreiðslur frá Samherja
-
20. febrúar 2022Endalausar tilraunir til þöggunar
-
19. febrúar 2022Yfirheyrslum yfir blaðamönnum frestað
-
18. febrúar 2022Ákvæði til að verjast stafrænu kynferðisofbeldi nýtt til að gera blaðamenn að sakborningum
-
15. febrúar 2022Bjarni: „Eru fjölmiðlamenn of góðir til að mæta og svara spurningum lögreglu?“
-
15. febrúar 2022Lýsa yfir áhyggjum og undrun yfir því að blaða- og fréttamenn fái stöðu sakborninga vegna starfa sinna
-
14. febrúar 2022Blaðamenn með stöðu sakbornings fyrir að skrifa fréttir um „skæruliðadeild Samherja“