Sagan endurtekur sig – Borg á ný í spennitreyju
Mikill fjöldi fólks bjó á Bræðraborgarstíg 1, þrátt fyrir að húsið hafi ekki verið stórt og ekki í góðu ásigkomulagi. Hvers vegna bjuggu svona margir þar við slæmar aðstæður í einu af dýrustu hverfum landsins?
Bræðraborgarstígur 1 var 114 ára gamalt hús og að niðurlotum komið, miðað við kvartanir frá nágrönnum þess og fyrri leigjendum. Þrátt fyrir það er talið að yfir 20 manns hafi búið þar í nokkur hundruð fermetra rými.
Tilvist íbúða sem þessa er engin tilviljun, heldur afleiðing efnahagslegra og samfélagslegra þátta. Uppgangur ferðaþjónustunnar ásamt lítilli nýbyggingu, takmörkuðum almenningssamgöngum og vilja til þess að búa nálægt miðbænum, hefur leitt til þess hægt hefur verið að leigja húsnæði í svipuðu ástandi og herbergin á Bræðraborgarstíg á síðustu árum.
Þéttbýlasta borg Norðurlanda
Árið 1928 vann Páll Zóphóníasson húsnæðisrannsókn til að kanna húsakost Reykvíkinga. Þar kom fram að helmingur bæjarbúa byggði í of miklu þéttbýli, þar sem innan við 15 fermetrar voru á hvern íbúa. Auk þess voru 15,3 prósent allra íbúða kjallaraíbúðir og 17 prósent þeirra voru undir súð.
Á þessum tíma náði þéttbýli í Reykjavík ekki mikið út fyrir póstnúmerið 101, eða frá Ánanaustum í vestri til Hlemms í austri. Þrátt fyrir það voru borgarbúar um 28 þúsund manns árið 1930, en það eru tæplega tvöfalt fleiri en búa á sama svæði núna.
Ásgeir Jónsson hagfræðingur og nú seðlabankastjóri gerði grein fyrir sögulega þéttri byggð í höfuðborginni í jólahefti Vísbendingar árið 2013, en samkvæmt honum mætti ætla að Reykjavík hafi verið ein þéttbýlasta borgin á Norðurlöndunum undir lok þriðja áratugar síðustu aldar.
Landfræðileg spennitreyja
Að mati Ásgeirs stöfuðu þrengslin í Reykjavík af örri íbúafjölgun á fyrstu áratugum 20. aldar vegna fólksflutninga utan af landi. Á þessum tíma var mikill uppgangur í sjávarútvegi og jókst þá byggð ört í helstu sjávarplássum landsins. Þetta sést glöggt ef mannfjöldatölur Reykjavíkur eru skoðaðar, en íbúafjöldi borgarinnar tvöfaldaðist á tímabilinu 1920-1930.
Á sama tíma voru samgöngur takmarkaðar um bæinn, þar sem eingöngu var hægt að treysta á leigubíla og eigin fætur. Einnig voru nýbyggingar af skornum skammti þar sem nær ómögulegt var að taka húsnæðislán hjá bönkunum. Af þessum ástæðum skrifar Ásgeir að borgin hafi verið í landfræðilegri „spennitreyju“ á þessum tíma.
Án almennilegs samgöngukerfis og fjármögnunarleiða var því of dýrt að byggja hús í útjaðri Reykjavíkur fyrir hverja fjölskyldu. Í stað þess einkenndist borgin af stórum tveggja til þriggja hæða einbýlishúsum sem efnameiri fjölskyldur byggðu, en þær leigðu þá gjarnan út kjallara- og risíbúðir þeirra og jafnvel útskot eða bakhýsi. Bræðraborgarstígur 1 var nákvæmlega svona hús, en þar voru fimm íbúðir á þremur hæðum árið 1910.
Gistipláss vantar fyrir tíu þúsund
Margt sambærilegt má finna í efnahagsþróun höfuðborgarsvæðisins á síðustu tíu árum og á þriðja áratug síðustu aldar í Reykjavík. Samhliða uppgangi ferðaþjónustunnar og störfum tengdum henni hefur eftirspurn eftir gistiplássi í borginni aukist til muna. Á árunum 2010-2019 fjölgaði íbúum höfuðborgarsvæðisins um 30 þúsund, auk þess sem skráðum gistirúmum fyrir ferðamenn fjölgaði um átta þúsund og óskráðum gistirýmum gæti hafa fjölgað um allt að fjögur þúsund.
Á sama tíma hefur orðið hökt í uppbyggingu íbúða, sér í lagi á fyrstu árunum eftir fjármálahrunið árið 2008. Á síðustu tíu árum hafa rétt rúmlega tíu þúsund íbúðir verið fullkláraðar á höfuðborgarsvæðinu, en megnið af því var byggt á síðustu fimm árum. Ef gert er ráð fyrir að þessar íbúðir hýsi að jafnaði rúmlega tvo íbúa, líkt og meðaltalið er í Reykjavík, mætti búast við að safnast hafi upp þörf á gistiplássi fyrir um það bil tíu þúsund manns á þessu tímabili.
Af þessum tölum að dæma hafa tugþúsundir manna sætt sig við þrengri húsnæðisskilyrði en aðrir höfuðborgarbúar á síðustu árum.
Ungir innflytjendur
En hverjir eru þessir nýju borgarbúar? Samkvæmt Hagstofu er meirihluti þeirra innflytjendur, en þeim hefur fjölgað um rúmlega tuttugu þúsund á síðustu tíu árum á höfuðborgarsvæðinu. Þeir eru líka ungir að jafnaði, en sex af hverjum tíu sem fluttu hingað frá árinu 2010 voru undir 30 ára aldri. Til viðmiðunar eru fjórir af hverjum tíu Íslendingum á þessu aldursbili.
Lágur aldur innflytjenda sést einnig greinilega á vinnumarkaði. Hlutfall þeirra sem eru yngri en 25 ára er mun hærra í þeim atvinnugreinum þar sem hátt hlutfall starfsmanna hefur erlendan bakgrunn, til að mynda í ferðaþjónustu og í öðrum þjónustustörfum á gisti- og veitingastöðum.
Staðsetning skiptir máli
Fyrirtæki í þessum geirum eiga það öll sameiginlegt að meirihluti þeirra er staðsettur í eða nálægt miðbæ Reykjavíkur. Því kemur ekki á óvart að húsnæðisverð hafi hækkað meira þar heldur en í öðrum hverfum borgarinnar. Samkvæmt Þjóðskrá hefur fermetraverð hækkað mest miðsvæðis, þ.e. í miðbænum, Vesturbænum og hjá Kringlunni, en minnst í Grafaholti, Réttarholti og Árbænum, sem eru fjær miðbænum, á tímabilinu 2010-2020.
Aukin eftirspurn eftir búsetu miðsvæðis í höfuðborginni er einnig skiljanleg ef horft er til samgöngumynsturs milli aldurshópa. Ferðalög milli hverfa eru erfiðari fyrir unga og tekjulága, sem eru líklegri til að reiða sig á almenningssamgöngur í stað einkabílsins, sem er enn fljótlegasti samgöngumátinn í höfuðborginni. Þess vegna eru þeir líklegri til að kjósa heimili nær vinnustað sínum heldur en aðrir.
Spennitreyjan enn til staðar
Höfuðborgin er því enn í nokkurs konar landfræðilegri spennitreyju svipaðri þeirri sem hún var í fyrir tæpri öld síðan. Mikil eftirsókn ungra innflytjenda til miðbæjarins, á sama tíma og hökt hefur verið á byggingarmarkaði og samgöngumátar þeirra eru takmarkaðir, hefur leitt til þess að líklegra sé að þeir sætti sig við þrengri húsakost en aðrir íbúar höfuðborgarinnar.
Þessar aðstæður gera leigusölum kleift að leigja út húsnæði sem annars hefði ekki þótt boðlegt, einungis vegna staðsetningar þess.
Hins vegar er þetta ekki óhjákvæmileg þróun allra borga sem upplifa mikinn efnahagsuppgang á stuttum tíma. Samkvæmt grein Ásgeirs Jónssonar var húsnæðisvandinn í Reykjavík á þriðja áratug síðustu aldar fyrst og fremst leystur á skömmum tíma með tilkomu almenningssamgöngukerfis, sem gerði fólki kleift að búa fjær miðbænum en áður.
Með auknum og tíðari almenningssangöngum yrði líklegra að tekjulágir sæju sér fært að búa fjær vinnustöðum sínum, þar sem ódýrara yrði fyrir þá að ferðast innan borgarinnar. Þannig gæti umframþörfin á húsnæði miðsvæðis minnkað og þannig yrði ólíklegra að leigusalar kæmust upp með að leigja út íbúðir í svipuðu ástandi og á Bræðaborgarstíg 1.
Umfjöllun Kjarnans um brunann á Bræðraborgarstíg
Lesa meira
-
23. október 2021„Vanda þarf til verka á þessu mikilvæga og viðkvæma horni“
-
14. október 2021Byggingin „lík virki“ og skýringarmyndir „fráhrindandi“
-
9. október 2021Byggt verði af virðingu við fórnarlömb brunans og húsin í kring
-
19. júní 2021„Ég get ekki grátið fyrir innan afgreiðsluborðið“
-
11. júní 2021Bæturnar aðeins „dropi í hafi“ miðað við tjónið
-
10. júní 2021Ríkissaksóknari ætlar ekki áfrýja dómi í Bræðraborgarstígsmálinu
-
3. júní 2021Marek metinn ósakhæfur og sýknaður af refsikröfu ákæruvaldsins
-
5. maí 2021„Hér er ekki um leikaraskap, slysni eða eitthvað grín að ræða“
-
28. apríl 2021Marek segist ekki hafa tekið geðlyfin í hálft ár
-
27. apríl 2021„Íslenska parið“ og yfirlýsingar Mareks um Moskvuferð
-
26. apríl 2021„Ég man allt saman. Þó að ég hafi verið veikur“
-
25. apríl 2021Eitt stærsta manndrápsmál sögunnar loks fyrir dóm
-
26. mars 2021Kjarninn vann Blaðamannaverðlaunin fyrir umfjöllun um brunann á Bræðraborgarstíg
-
20. mars 2021Bruninn á Bræðraborgarstíg: Græðgin æðri mennskunni og reisn allra
-
19. mars 2021Kjarninn tilnefndur til verðlauna fyrir umfjöllun um Bræðraborgarstígsbrunann