Geðheilsa þjóðar í krísu
Áhrif COVID-19 á samfélagið eru mikil og víða marka afleiðinga sjúkdómsins og sóttvarnaaðgerða djúp spor. Fyrirséð er að efnahagsáhrif verða mikil enda atvinnuleysi við það mesta sem Íslendingar hafa séð í áraraðir. Þetta hefur áhrif á ýmsa þætti og búast má við því að áhrifa muni ekki síst gæta í geðheilsu landans. Kjarninn spjallaði við Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra um geðheilbrigðismál á Íslandi, hvað hefði verið gert og hvað stæði til að gera.
Á tímum COVID-19 sjúkdómsins höfum við öll þurft að læra nýja siði; hvernig við umgöngumst aðra og högum okkur til þess að gæta að ýtrustu sóttvörnum. Vissulega eru aðgerðir yfirvalda umdeildar, eins og gefur að skilja, en þó er óumflýjanlegt að þær muni hafa áhrif á okkur flest með einhverjum hætti.
Eitt af því sem nefnt hefur verið eru áhrif á geðheilsu þjóðarinnar. Hvað eru yfirvöld að gera til þess að takast á við þau mál? Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra svarar þeirri spurningu í samtali við Kjarnann.
Hvernig metur ráðherrann stöðuna um þessar mundir?
„Í fyrsta lagi þegar ég tók við embætti 2017 þá lagði ég strax mjög mikla áherslu á að geðheilbrigðismál þyrftu að fá meiri athygli en þau höfðu fengið. Mér fannst mikilvægt að fjármagna og standa við geðheilbrigðisáætlun sem þá var til og samþykkt árið áður,“ segir Svandís.
Hún útskýrir að heilbrigðisþjónustan sé á þremur stigum. „Í fyrsta lagi er það heilsugæsla og á hinum endanum er það þriðja stigs þjónusta sem er hátæknisjúkrahúsið eða Landspítalinn. Þarna á milli er sérfræðiþjónusta af ýmsu tagi.“ Þar á hún við hina ýmsu sérfræðinga sem vinna á stofum, heilbrigðisstofnunum út um land eða sérhæfðum móttökum og teymum á vegum heilsugæslunnar.
Hún segir að á árinu 2017 hafi þetta þrennt verið fyrir hendi, en aðallega þó þegar rætt var um líkamlega heilsu. „Þú kemur til heilsugæslunnar þegar þú ert með hósta. Þú ferð til háls-, nef- og eyrnalæknis ef þú ert með stækkaða kirtla. Ef þetta er orðið meira mál og þú þarft að fara í aðgerð þá þarftu að öllum líkindum að fara á spítala. Kannski dugar að vera í annars stigs þjónustunni,“ útskýrir hún.
Þá segir Svandís að þegar talað var um geðheilbrigðismál á þessum tíma þá hafi um brotakennda mynd í kerfinu verið að ræða. „Þá vorum við með þriðja stigs þjónustu, það er að segja innlagnir fyrir þá sem glíma við alvarlega geðsjúkdóma á Landspítala og á sjúkrahúsið á Akureyri. Að öðru leyti vorum við í hinu opinbera kerfi með sálfræðinga í heilsugæslunni og á öðrum opinberum stofnunum, og geðlækna sem störfuðu á stofum. Þannig var þróunin í átt að öflugri geðheilbrigðisþjónustu farin af stað í kerfinu en þjónustan enn svolítið brotakennd.“
Geðheilsa líka verkefni heilsugæslunnar
Stefna heilbrigðisráðherra hefur verið að efla sálfræðiþjónustu í heilsugæslunni og segir Svandís að með því að fjölga sálfræðingum í slíku „lágþröskuldaúrræði“ sem standa öllum til boða séu stjórnvöld í raun og veru að segja að geðheilsa sé „eitthvað sem við erum öll að glíma við og hlúa að í daglegu lífi“.
Við erum jú öll með geðheilsu alveg eins og við erum öll með heilsu. Geðheilsa sé ekki einungis eitthvað sem talað er um þegar manneskja þarf innlögn á geðdeild heldur þegar fólk glímir við vægan kvíða eða þyngsli eða bara að halda jafnvægi í dagsins önn. „Eða þegar við lendum í þunglyndi eftir barnsburð eða leiða þegar við eigum í erfiðleikum út af vinnustaðnum, vináttu eða hjónabandi.“
Fjöldi sálfræðinga í heilsugæslunni hefur þannig nánast tvöfaldast á þessum tíma. „Þeir eru núna 66 og staðsettir um land allt. Þetta var stóra skrefið í því að segja að geðheilsa sé líka verkefni heilsugæslunnar,“ segir hún.
Svandís nefnir jafnframt að þau hafi sett á laggirnar svokölluð geðheilsuteymi – þrjú á höfuðborgarsvæðinu og eitt í hverju hinna umdæmanna, auk sérstaks geðheilsuteymis fyrir fanga. „Þessi geðheilsuteymi hafa sinnt 2.600 manns nú þegar á árinu 2020. Og hvað þýðir það? Það þýðir að fólk sem hefði mögulega á einhverjum tímapunkti þurft oftar að leggjast inn, þurft oftar að líða illa og svo framvegis njóti teymanna sem bæði eru með aðstöðu en sinna líka mögulega fólki heima, með viðeigandi og einstaklingsmiðaðri heilbrigðisþjónustu. Þetta eru þverfagleg teymi en þarna eru læknar, hjúkrunarfræðingar, sálfræðingar og fleiri stéttir – og hér á höfuðborgarsvæðinu hefur Reykjavíkurborg lagt til félagsráðgjafa. Einnig eru í sumum teymunum starfandi fulltrúar fólks með eigin reynslu af geðröskunum en mikilvægt er að þjónustan taki í ríkari mæli tillit til þeirra sem nýta sér hana.
Þarna erum við með alhliða þjónustu við þá sem glíma við geðheilbrigðisvanda án þess að við séum að segja að nú sé þetta orðið það alvarlegt að það þurfi sjúkrahúsinnlögn. Þetta er í raun og veru bylting á þessu kerfi. Að það taki eitt við af öðru; að við séum með samfellu í kerfinu. Það léttir á þyngri endanum og fækkar innlögnum. En við þurfum að gera enn betur, til dæmis varðandi göngudeildarþjónustu og þvíumlíkt. Þar þurfum við að gera betur um allt land.“
Þriðja bylgjan gengur nær fólki
Varðandi líðan þjóðar í COVID þá segir Svandís að von sé á viðamikilli rannsókn á vegum landlæknisembættisins og Háskóla Íslands.
„Ekki eru komnar niðurstöður úr þessari rannsókn en við sáum það strax í fyrstu bylgju að sumum leið hreinlega betur – meiri samvera og minni æsingur. Það eru aftur á móti mjög mörg merki um að þessi svokallaða þriðja bylgja gangi að sumu leyti nær fólki vegna þess að nú sér það fyrir sér meiri efnahagslegar áskoranir. Fólk er í vandræðum með vinnu til dæmis og við erum að sjá mikið atvinnuleysi.
Við erum líka að sjá merkjanlegt og aukið heimilisofbeldi og erfiðleika þeirra sem búa við erfiðar heimilisaðstæður vaxa. Þegar ekki er einu sinni hægt að fara út af heimilinu eykst tíðni vandamála sem rekur á fjöru barnaverndar, félagsþjónustu og svo framvegis og svo framvegis,“ bendir ráðherrann á.
Þess vegna sé mjög mikil ástæða til að bregðast við.
Orsakanna oft að leita annars staðar
Hvernig eru stjórnvöld að bregðast við?
„Strax á þessu ári bættum við við 540 milljónum, bara inn í geðheilbrigðismálin, út af COVID og við gerðum það út um allt land í heilsugæsluna, í teymin og í mönnun almennt. Við fjölguðum heilsugæslusálfræðingum og hvöttum til þess að það yrðu ráðnir geðlæknar og svo framvegis,“ svarar hún og bætir því við að í fjárlagafrumvarpinu 2021 sé sama upphæð lögð í geðheilbrigðismálin, auk framlaga til eflingar geðheilbrigðisþjónustu í samræmi við geðheilbrigðisáætlun.
„Enn og aftur er heilbrigðisþjónustan á þeim enda að við erum að fjalla um einkenni en oft er orsakanna að leita annars staðar. Þær geta hreinlega verið í þessum stóru samfélagslegu þáttum, eins og ég segi, í félagslegu öryggi og þessu lími í samfélaginu. Hef ég eitthvað til að hlakka til? Hvernig er til dæmis að vera ung manneskja í COVID þegar skólinn er takmarkaður og geta ekki hitt vini sína? Einnig varðandi menningu og listir, að fara í matarboð – og gleðjast og hlæja, hitta marga og vera í kös og allt þetta sem að maður nýtur svo vel og finnur svo vel þegar maður nýtur þess ekki. Að fara á mis við þetta allt veldur álagi og mögulega þyngslum. Þarna eru áhrifaþættir á samfélagsendanum ef svo má segja.“
Hún segir að á hennar borði sé fyrst og fremst sá þáttur sem lýtur að þjónustunni sjálfri en þó jafnframt geðrækt og forvörnum og þangað þurfi að beina sjónunum enn meira. Þar eru sóknarfæri sem geti orði þjóðinni til mikillar gæfu. Þess vegna þurfi heilbrigðisyfirvöld einnig að vera í samtali við félagsmálaráðuneytið og menntamálaráðuneytið og svo sveitarfélögin.
Minnt á að manneskjan þrífst illa nema í félagi við annað fólk
Þegar teknar eru ákvarðanir varðandi sóttvarnaraðgerðir, eru þessir þættir teknir inn í myndina?
Svandís svarar og segir að þau reyni að gera það. „Þetta er svolítið áhugavert vegna þess að við erum að tala um skýrustu myndina af sjúkdómi. Það er að segja, það er veira sem smitast milli fólks og við getum séð, hvort sem er í gegnum mannkynssöguna eða bókmenntir, faraldra sem þennan stinga upp kollinum með reglubundnum hætti. Við vitum hvað þeir gera við samfélög; þeir ógna heilsu og þeir ógna lífi – og við erum alltaf að verða betri og betri að takast á við faraldra af þessu tagi en samt erum við berskjölduð þegar faraldurinn kemur. Meira að segja þessi þróuðu Vesturlönd með heilbrigðiskerfið sitt og öflugt efnahagslíf.“
En við höfum líka lært af sögunni og alþjóðlegt samstarf varðandi hvernig best sé að takast á við þennan háska hefur aldrei verið skilvirkara. Hún segir að samstarf heilbrigðiskerfisins og almannavarna sýni okkur að innviðir eru fyrir hendi hér á landi og að við höfum leiðir til að bregðast við. „Við höfum þó alltaf vitað um mikilvægi þess að halda fjarlægð. Við þurfum að passa upp á hreinlæti og halda fjarlægð og það höfum við vitað mjög lengi. Allt í einu eru orð eins og sóttkví og einangrun partur af okkar orðaforða sem maður hefði frekar haldið að væri partur af einhverri skáldsögu fyrir hundrað árum. Þetta er veruleikinn.“
Svo þegar bylgjan er lent og skollin á samfélagið þá komi fram ákveðin samfélagsáhrif –geðræn áhrif sem verki ekki síður á okkur hvert og eitt. „Mér finnst við vera svo minnt á það núna að við erum partur af samfélagi og manneskjan þrífst illa nema í félagi við annað fólk,“ segir hún.
Söfnuðu yfir 30.000 undirskriftum
Geðhjálp stóð nýverið fyrir miklu átaki og afhentu fulltrúar samtakanna heilbrigðisráðherra 30.093 undirskriftir þeirra sem vilja setja geðheilsu í forgang.
Undirskriftasöfnunin stóð yfir í nokkrar vikur á vefsíðunni 39.is en talan 39 vísar í þá sem féllu fyrir eigin hendi hér á landi á árinu 2019. Samtökin komu með 9 tillögur að aðgerðum til þess að setja geðheilsu í forgang.
Þegar Svandís er spurð út í þessar tillögur Geðhjálpar segist hún í grunninn vera sammála þessum áherslum. „Ég held að það sé alveg ofboðslega mikilvægt að setja geðheilbrigðismálin svona kirfilega á dagskrá eins og þau hafa gert. Þessar aðgerðir sem þau leggja til eru algjörlega í takti við það sem ég hef verið að gera og sumt að því sem ég hef verið að nefna núna. Til dæmið það að efla heilsugæsluna og gera þjónustuna þar þverfaglega.
Þau nefna fleiri starfsstéttir eins og þroska- og iðjuþjálfa og ég held að það sé allt til bóta. Í geðheilsuteymi höfum við verið með notendaráðgjafa, það er að segja fólk sem hefur reynslu af geðheilbrigðisþjónustu sjálft og er partur af teymunum. Það getur veitt stuðning frá sjónarhóli jafningja. Mér finnst sá partur mjög mikilvægur,“ segir Svandís.
COVID hægði á vinnunni
Ein aðgerðin sem Geðhjálp leggur til er að styðja foreldra í uppalendahlutverki sínu. Að auka mæðraeftirlit, foreldrafræðslu og ungbarnaeftirlit með það fyrir augum að fræða foreldra um mikilvægi tengslamyndunar fyrstu 1.000 dagana í tilveru hvers barns. Á leikskóla- og grunnskólaaldri þurfi einnig að styðja við foreldra og draga þannig úr árekstrum og erfiðleikum síðar meir í lífi barnsins.
Svandís segir í þessu sambandi að þau hafi nú kynnt nýja þjónustu á vegum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem heitir geðheilsuteymi fjölskylduvernd sem sé fyrir foreldra með ung börn sem þurfa á að halda meiri og sérhæfðari þjónustu en sé í heilsugæslunni. Þverfagleg þjónusta við foreldra og börn á sér langa sögu í heilsugæslu, þar er boðið upp á þverfaglega mæðravernd, ungbarnavernd, ráðgjöf sálfræðinga og gangreynd uppeldisnámskeið.
Í tillögum Geðhjálpar er einnig talað um að gera geðrækt hluta af aðalnámskrá grunnskóla. „Við eigum mjög flotta skýrslu sem tekin var saman af embætti landlæknis á vegum heilbrigðisráðuneytisins í samstarfi við Menntastofnun, sveitarfélögin og fleiri. Þar höfum við það að meginmarkmiði að efla geðrækt á öllum skólastigum. Það má segja að COVID hafi sett hægagang í það sem við vorum að setja af stað núna rétt upp úr áramótum. Við erum að taka þetta plagg upp aftur og félagsmálaráðherra og menntamálaráðherra eru samferða mér í því – og ég vona að við getum kynnt aðgerðaáætlunina fljótlega,“ segir Svandís.
Gengur ekki eins langt og Geðhjálp varðandi það að útiloka þvingun
Geðhjálp talar jafnframt um að útiloka nauðung og þvingun við meðferð. Í aðgerðaáætlun samtakanna kemur fram að samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sé hvers kyns nauðung og þvingun óheimil. Ísland hafi enn ekki lögfest þennan samning en ítrekað hafi verið bent á að nauðung og þvingun í meðferð einstaklinga með geðrænar áskoranir standist ekki lög. Samhliða núverandi endurskoðun lögræðislaga leggur Geðhjálp til að Ísland verði gert að þvingunarlausu landi sem tilraunaverkefni til þriggja ára.
Svandís segir að nú vinni hún að breytingu á lögum um réttindi sjúklinga og stefnir hún á að leggja það fram ekki síðar en á vorþingi.
„Í því frumvarpi verður áréttuð þessi meginregla um friðhelgi einkalífs og að þvingun sé óheimil – og að hvaða skilyrðum uppfylltum í undantekningartilfellum væri unnt að beita þvingun. Þannig að ég geng ekki alveg eins langt og kemur fram hjá Geðhjálp en mér finnst algjörlega rétt að þau dragi sína línu mjög skýrt í sandinn í þessum efnum. Það þarf að tryggja betur mannréttindi þessara sjúklinga sem eiga í hlut.“
Varðandi tillöguna að koma á geðráði, breiðum samráðsvettvangi um geðheilbrigðismál, segir Svandís það vera afar góða hugmynd. „Við höfum verið með tímabundinn samráðsvettvang sem er raun og veru vettvangur sem skiptist á skoðunum í gegnum COVID auk þess sem samráð við notendur þjónustunnar hefur verið aukið á okkar vettvangi.“
Hægt að flokka alls konar hluti undir geðheilbrigðisþjónustu
Enn fremur nefnir Geðhjálp mikilvægi þess að gera heildarúttekt á umfangi og framkvæmd geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi.
„Ég held að það sé líka bara mjög góð ábending og við munum skoða hana í heilbrigðisráðuneytinu. Geðheilbrigðisþjónustan er svo ofboðslega víðtæk. Það er heilsugæslan, geðteymin, spítalarnir en það eru líka sveitarfélögin og sálfræðiþjónusta skólanna.
Það eru einkaaðilar og alls konar fyrirtæki. Það eru geðlæknar með stofur og svo gæti maður spurt sig hvort til dæmis hvort námsráðgjafar. og mannauðsstjórar sinni ekki líka geðvernd að einhverju leyti,“ segir Svandís.
Næstu skref að meta hvert umfang samningsins ætti að vera
Alþingi samþykkti í lok júní að fella nauðsynlegar sálfræðimeðferðir og aðrar klínískar viðtalsmeðferðir undir greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga Íslands. Frumvarpið var samþykkt samhljóða með 54 atkvæðum en níu þingmenn voru fjarstaddir. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, var fyrsti flutningsmaður frumvarpsins en með henni voru þingmenn Pírata, Samfylkingar, Miðflokks, Flokks fólksins, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokksins.
Margir fögnuðu frumvarpinu enda er það ekki á allra færi að fara til sjálfstæðs starfandi sálfræðings enda kostnaðarsamt. Þrátt fyrir samþykkt frumvarpsins er þó ekki gert ráð fyrir eyramerktu fjármagni í þessa heilbrigðisþjónustu í fjárlagafrumvarpi næsta árs.
Hvað stendur í vegi fyrir því að Sjúkratryggingar Íslands geri samninga við sjálfstætt starfandi sálfræðinga?
Svandís segir að þegar frumvarpið var samþykkt og gert að lögum þá hafi henni fundist eins og fólk hafi haldið að þarna væri málið í höfn. „En þarna er í raun heimild sjúkratrygginga til að semja við sjálfstætt starfandi sálfræðinga eins og aðrar heilbrigðisstéttir.“
Hún telur að næstu skref í málinu séu þau að meta hvert umfang samningsins ætti að vera.
Ríkið sem kaupandi tekur afstöðu til samningsins
Svandís segir að hún hafi lagt áherslu á það á sínum tíma sem ráðherra að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga og sett í það fjármuni.
„Það eru merktar háar fjárhæðir á fjárlögum næsta árs í að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga. Við höfðum til dæmis áform um það að draga ennþá úr kostnaði aldraðra og öryrkja við tannlækningar. Við til dæmis felldum niður komugjöld þeirra hópa í heilsugæsluna um síðustu áramót. Og við höfum verið að skoða ýmsar leiðir til þess hvar við ættum að bera niður varðandi greiðsluþátttöku og þetta er eitt af því sem er á því borði. Ég vænti þess að það skýrist, að minnsta kosti áður en þingið afgreiðir fjárlagafrumvarpið.“
Samkvæmt ráðherra mun það skýrast hvert umfang samnings sjúkratrygginga við sjálfstætt starfandi sálfræðinga verður. „Það yrði þá eitthvað sem ríkið sem kaupandi slíkrar þjónustu myndi taka afstöðu til. Hversu stór slíkur samningur ætti að vera og þá við hverja og svo framvegis. Þannig að sú skoðun er í gangi ásamt öðru sem er til skoðunar varðandi það að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga.“
Verða að ákveða fyrirfram hversu miklir fjármunir munu fara til sjálfstætt starfandi sálfræðinga
Svandís segir enn fremur að vilji þingsins hafi verið mjög skýr í þessu máli þegar frumvarpið var samþykkt. „Ég hef sjálf verið þeirrar skoðunar að það sé mikilvægt að efla sálfræðiþjónustu almennt, eins og ég hef sýnt með því að stórauka aðgengi að sálfræðingum á heilsugæslunni og koma á þessum geðheilsuteymum. Öll þessi skref lúta að því að efla geðheilbrigðisþjónustu og hafa þau verið mjög ofarlega á dagskrá hjá mér.“
Hún bendir á að Sjúkratryggingar Íslands geri rammasamning um heilbrigðisþjónustu við hinar ýmsu stéttir, til að mynda sérgreinalækna. Varðandi það að gera samning við sjálfstætt starfandi sálfræðinga þá telur hún að taka verði ákvörðun fyrirfram um hversu margir tímar yrðu keyptir hjá ákveðnum aðilum til þess að fjármunum yrði varið með sem bestum hætti.
„Við þurfum að vita áður en við förum af stað í raun og veru hversu miklum peningum við ætlum að ráðstafa í þennan samning.“
Boða til vinnustofu um mótun framtíðarsýnar í geðheilbrigðismálum
Hvað er mest aðkallandi núna varðandi geðheilbrigðismál, í miðjum faraldri?
Í þessu samhengi eru nokkur atriði sem skipta mestu, að mati ráðherra. Áframhaldandi efling geðheilbrigðisþjónustu í heilsugæslunni skipti miklu núna.
„Stefna og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum sem samþykkt var á Alþingi árið 2016 er að renna sitt skeið. Meginmarkmið geðheilbrigðisstefnu var aukin vellíðan og betri geðheilsa landsmanna. Mikilvægt er að halda áfram að byggja upp geðrækt, forvarnir og geðheilbrigðisþjónustu í landinu og því þurfum við að huga að næstu skrefum hvað varðar framtíðarstefnu í geðheilbrigðismálum,“ segir hún.
Heilbrigðisstefna til ársins 2030 var samþykkt á Alþingi árið 2019. Svandís segir að ný framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum þurfi að endurspegla lykilviðfangsefni heilbrigðisstefnunnar. Heilbrigðisráðuneytið muni boða til vinnustofu um mótun framtíðarsýnar í geðheilbrigðismálum, líklega í lok þessa árs, og í kjölfarið setja saman slíka framtíðarsýn og forgangsraðaðar aðgerðir.
„Einnig má nefna önnur og sértækari verkefni sem eru framundan, til dæmis innleiðingu geðræktar og forvarnarstarfs í leik-, grunn- og framhaldsskólum og vinnu við að bæta og samhæfa þjónustu við börn sem fellur undir málefnasvið margra ráðuneyta,“ segir hún að lokum.
Lesa meira
-
6. janúar 2023Mögulega mest smitandi afbrigðið hingað til
-
3. janúar 2023Segja skimun kínverskra ferðamanna ekki byggða „á neinum vísindalegum rökum“
-
31. desember 2022WHO ýtir enn og aftur við Kínverjum – Nauðsynlegt að fá nýjustu gögn um COVID-bylgjuna
-
31. desember 2022Endalok COVID-19 – Eða hvað?
-
21. desember 2022Núll-stefnan loks frá og COVID-bylgja á uppleið
-
6. desember 2022Mikill veikindavetur framundan
-
5. nóvember 2022Bóluefnakapphlaupið kostaði 1,3 milljónir manna lífið
-
27. ágúst 2022„Skunkurinn í lautarferðinni“ yfirgefur Hvíta húsið
-
21. júlí 2022Veruleg styrking rannsókna á kynferðisbrotum
-
12. júlí 2022Skjátími barna rauk upp í faraldrinum