Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hefur skipað 27 manns í samráðsnefnd um sjávarútvegsstefnu. Hún verður sjálf formaður nefndarinnar og allir aðrir flokkar á þingi eiga í henni fulltrúa. Það eiga líka fulltrúar flestrar hagaðila, svo sem Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og þeirra sem gæta hagsmuna annarra í greininni. Sömu sögu er að segja um fulltrúa umhverfis- og náttúruverndarsamtaka.
Undir samráðsnefndinni starfa fjórir starfshópar. Þeir kallast Samfélag, Aðgengi, Umgengni og Tækifæri.
Í tilkynningu á vef stjórnarráðsins segir að fyrirhugaðar lokaafurðir þessa starfs séu meðal annars ný heildarlög um stjórn fiskveiða eða ný lög um auðlindir hafsins og aðrar lagabreytingar, verkefni á sviði orkuskipta, nýsköpunar, hafrannsókna og gagnsæi og kortlagning eignatengsla í sjávarútvegi.
Gert er ráð fyrir því að samráðsnefndin starfi til loka árs 2023. Því er að minnsta kosti rúmt eitt og hálft ár þangað til að umræddar lokaafurðir eiga að liggja fyrir. Næstu kosningar eru fyrirhugaðar 2025. Því verður komið inn á síðasta heila starfsár sitjandi ríkisstjórnar þegar niðurstaðan úr starfinu á að liggja fyrir.
Í tilkynningunni er haft eftir Svandísi að í sjávarútvegi ríki djúpstæð tilfinning meðal almennings um óréttlæti. „Sú tilfinning tel ég að stafi aðallega af tvennu; samþjöppun veiðiheimilda og þeirri tilfinningu að ágóðanum af sameiginlegri auðlind landsmanna sé ekki skipt á réttlátan hátt. Markmiðið með þessari vinnu er því hagkvæm og sjálfbær nýting sjávarauðlinda í sátt við umhverfi og samfélag.“
Ekki önnur pólitísk nefnd
Fjallað var um skipun nefndar til að kortleggja áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi og tengdum greinum og meta þjóðhagslegan ávinning fiskveiðistjórnunar kerfisins í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar eftir að Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkurinn og Vinstri græn endurnýjuðu samstarf sitt seint á síðasta ári undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur.
Í tilkynningunni á vef stjórnarráðsins segir að í ljósi reynslu af vinnu við endurskoðun á fiskveiðilöggjöfinni á undanförnum árum og áratugum varð niðurstaða matvælaráðherra sú að beita þyrfti nýrri nálgun við þær fjölmörgu áskoranir og tækifæri sem eru í sjávarútvegi og snerta samfélagið allt með beinum og óbeinum hætti. „Í stað einnar stórrar pólitískrar nefndar er nú komið á laggirnar opnu, þverfaglegu og gagnsæju verkefni fjölmargra aðila sem unnið verður með skipulegum hætti á kjörtímabilinu.“
Starfshópurinn „Samfélag“ fær það hlutverk að fjalla um ágreining um stjórn fiskveiða og möguleika til samfélagslegrar sáttar, samþjöppun veiðiheimilda, veiðigjöld og skattspor.
Formaður þeirrar nefndar er Gunnar Haraldsson, framkvæmdastjóri ráðgjafafyrirtækisins Intellecon. Hann var um tíma efnahagsráðgjafi forsætisráðherra þegar Davíð Oddsson sat á þeim stóli, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands og hagfræðingur hjá OECD í París. Þá var hann stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins 2009 til 2010.
Aðrir í hópnum eru Catherine Chambers, rannsóknastjóri, Háskólasetur Vestfjarða, Hreiðar Þór Valtýsson, dósent við Háskólann á Akureyri, Katrín Júlíusdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja og fyrrverandi fjármálaráðherra og Valgerður Sólnes, dósent við Háskóla Íslands.
Sá starfshópur sem kallast „Aðgengi“ fær meðal annars það verkefni að fjalla um eignatengsl í sjávarútvegi og óskyldum greinum og aukið gagnsæi í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja. Formaður þess hóps er Eggert Benedikt Guðmundsson, verkfræðingur og fyrrverandi forstjóri HB Granda, sem nú heitir Brim, og N1. Aðrir í þeim hópi eru Alda B. Möller matvælafræðingur Arnór Snæbjörnsson, sérfræðingur í matvælaráðuneytinu, Friðrik Árni Friðriksson Hirst, framkvæmdastjóri Lagastofnunar Háskóla Íslands, og Ingveldur Ásta Björnsdóttir, framkvæmdastjóri North 65.
Hópurinn sem kallast „Umgengni“ mun meðal annars fjalla um umgengni við sjávarauðlindina, orkuskipti, vigtun, brottkast, eftirlit og viðurlög. Formaður þess hóps er Gréta María Grétarsdóttir, forstjóri Arctic Adventures, en aðrir meðlimir eru Freydís Vigfúsdóttir, sérfræðingur í matvælaráðuneytinu, Halla Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Optitog, Jónas Rúnar Viðarsson, sviðsstjóri hjá Matís, og Sigurður Ingi Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkustofnunar.
Síðasti hópurinn kallast „Tækifæri“ og á meðal annars að skoða stafræna umbreytingu, alþjóðasamskipti og orðspor Íslands. Formaður hans er Ingunn Agnes Kro, framkvæmdastjóri Jarðvarma, en aðrir í hópnum eru Ari Kristinn Jónsson, framkvæmdastjóri AwareGO, Hildur Ingvarsdóttir, skólameistari Tækniskóla Íslands, Hilmar Bragi Janusson, framkvæmdastjóri hjá Kviku banka og Óskar Veigu Óskarsson, sölustjóri hjá Marel.
Samráðsnefndin sem Svandís skipaði er þannig skipuð:
1. Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, formaður
2. Ásmundur Friðriksson, tilnefndur af Sjálfstæðisflokki
3. Stefán Vagn Stefánsson, tilnefndur af Framsóknarflokki
4. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, tilnefnd af Vinstrihreyfingunni- grænt framboð
5. Oddný Harðardóttir, tilnefnd af Samfylkingunni
6. Mörður Áslaugarson, tilnefndur af Pírötum
7. Hanna Katrín Friðriksson, tilnefnd af Viðreisn
8. Eyjólfur Ármannsson, tilnefndur af Flokki fólksins
9. Sigurður Páll Jónsson, tilnefndur af Miðflokknum
10. Rebekka Hilmarsdóttir, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga
11. Vífill Karlsson, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga
12. Heiðrún Lind Marteinsdóttir, tilnefnd af Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi
13. Ólafur Marteinsson, tilnefndur af Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi
14. Arthur Bogason, tilnefndur af Landssambandi smábátasjómanna
15. Arnar Atlason, tilnefndur af Samtökum fiskframleiðenda og útflytjenda
16. Örvar Marteinsson, tilnefndur af Samtökum smærri útgerða
17. Páll Rúnar M. Kristjánsson, tilnefndur af Félagi atvinnurekenda
18. Valmundur Valmundsson, tilnefndur af Sjómannasambandi Íslands
19. Árni Bjarnason, tilnefndur af Félagi skipstjórnarmanna
20. J. Snæfríður Einarsdóttir, tilnefnd af Félagi vélstjóra og málmtæknimanna
21. Sigurbjörg Árnadóttir, tilnefnd af Náttúruverndarsamtökum Íslands
22. Auður Önnu Magnúsdóttir, tilnefnd af Landvernd
23. Sigrún Perla Gísladóttir, tilnefnd af Ungum umhverfissinnum
24. Gunnar Haraldsson, formaður starfshópsins Samfélag
25. Gréta María Grétarsdóttir, formaður starfshópsins Umgengni
26. Eggert Benedikt Guðmundsson, formaður starfshópsins Aðgengi
27. Ingunn Agnes Kro, formaður starfshópsins Tækifæri
Tveir af hverjum þremur telja kvótakerfið ógna lýðræðinu
Í aðdraganda kosninganna í fyrrahaust voru gerðar ýmsar kannanir á skoðun almennings á þeim kerfum sem Ísland hefur komið sér upp í sjávarútvegi. Á meðal þeirra var könnun sem Gallup gerði fyrir þrýstihópinn Þjóðareign. Í henni var fólk spurt hvort það styddi að markaðsgjald væri greitt fyrir afnot af fiskimiðum þjóðarinnar. Niðurstaðan var sú að 77 prósent aðspurðra var fylgjandi því og einungis 7,1 prósent var andvígt slíkri kerfisbreytingu. Afgerandi meirihluti kjósenda allra flokka var fylgjandi breytingunni þótt stuðningurinn væri minni hjá kjósendum Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Miðflokks en þeim sem ætla að kjósa aðra flokka.
Í annarri könnun, sem MMR gerði fyrir Öldu – félags um sjálfbærni og lýðræði, og var birt í ágúst 2021, sögðust 66 prósent landsmanna, tveir af hverjum þremur, vera óánægðir með núverandi útfærslu á kvótakerfi í sjávarútvegi. Þar af sögðust 38 prósent vera mjög óánægð með hana. Tæpur fimmtungur, 19 prósent aðspurðra, sagðist ekki hafa sterka skoðun á útfærslunni en einungis 14 prósent voru ánægð með hana. Kjósendur Sjálfstæðisflokksins reyndust þeir einu sem eru ánægðari með útfærslu kvótakerfisins en óánægðari. Alls sögðust 42 prósent þeirra vera ánægðir með hana en 25 prósent eru óánægð.
Í sömu könnun sögðu 64 prósent landsmanna, næstum tveir af hverjum þremur, að núverandi útfærsla á kvótakerfinu ógni lýðræðinu.
Borga meira í arð en til ríkisins
Það er ekki að ástæðulausu að almenningur upplifir stöðuna svona. Kjarninn greindi frá því í fyrrahaust að á árinu 2020 greiddu útgerðir landsins eigendum sínum alls arð upp á 21,5 milljarða króna á sama tíma og þau greiddu samtals 17,4 milljarða króna í öll opinber gjöld: tekjuskatt, tryggingagjald og veiðigjald. Það var hæsta arðgreiðsla sem greinin hefur greitt eigendum sínum frá upphafi innan eins árs á sama tíma og greiðslan til hins opinbera var sú næst lægsta frá árinu 2011. Þetta var auk þess í fyrsta sinn frá bankahruni sem umfang greiddra opinberra gjalda var minna en arðgreiðsla sjávarútvegsfyrirtækja til eigenda sinna innan árs.
Þá á eftir að taka tillit til þess að ríkissjóður hefur umtalsverðan kostnað af eftirliti og rannsókna vegna fiskveiða og -vinnslu. Í fyrra voru heildarútgjöld hans vegna eftirlits og rannsókna vegna fiskveiða og -vinnslu um sjö milljarðar króna í ár. Árin 2015-2020 voru álögð veiðigjöld að meðaltali 7,4 milljarðar á verðlagi ársins 2020. Því fara veiðigjöld að uppistöðu í að greiða kostnað ríkissjóðs af eftirliti og rannsóknum, sem nýtast sjávarútveginum.
Samtals hagnaðist sjávarútvegurinn um 468 milljarða króna frá byrjun árs 2009 og til loka árs 2020. Frá árinu 2009 hafa sjávarútvegsfyrirtæki greitt 126,3 milljarðar króna í arð til eigenda sinna. Auk þess sátu eftir 325 milljarðar króna í eigið fé í útgerðarfyrirtækjunum um síðustu áramót. Það jókst um 28 milljarða króna árið 2020 þrátt fyrir metarðgreiðslur. Hagur sjávarútvegsfyrirtækja í heild vænkaðist því um næstum 50 milljarða króna á árinu 2020.
Eigið fé geirans er stórlega vanmetið þar sem virði kvóta, sem útgerðir eignfæra, er bókfært á miklu lægra verði en fengist fyrir hann á markaði.
Frá 2009 hefur sjávarútvegurinn greitt alls 196,7 milljarða króna í opinber gjöld, þar af 78 milljarða króna í veiðigjöld. Sú tala dregst frá áður en hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja er reiknaður.
Heildarhagnaðurinn á árinu 2020, fyrir skatta og gjöld, var því um 665 milljarðar króna. Af þeirri upphæð fór undir 30 prósent til íslenskra ríkisins, eiganda auðlindarinnar, í formi tekjuskatts, tryggingagjalds og veiðigjalda, en rúmlega 70 prósent sat eftir hjá eigendum fyrirtækjanna.
Ofangreindar tölur komu fram í árlegum sjávarútvegsgagnagrunni Deloitte sem kynntur er á Sjávarútvegsdeginum og fyrirtækið heldur í samstarfi við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Samtök atvinnulífsins.
Stóraukin samþjöppun
Samkvæmt lögum má engin ein blokk í sjávarútvegi halda á meira en tólf prósent af úthlutuðum heildarkvóta á hverjum tíma. Þegar Fiskistofa, sem hefur eftirlit með því að yfirráð einstakra aðila yfir aflahlutdeildum fari ekki umfram lögbundin mörk, birti nýja samantekt á samþjöppun aflahlutdeildar í nóvember í fyrra kom í ljós að Brim, eitt stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins, var komið yfir það mark. Það var leyst með því að Brim seldi annarri útgerð, Útgerðarfélagi Reykjavíkur, hluta af úthlutuðum veiðiheimildum sínum. Útgerðarfélags Reykjavíkur, sem er að uppistöðu í eigu Guðmundar Kristjánssonar forstjóra Brim, er stærsti eigandi Brim.
Í tölum Fiskistofu kom líka fram að heildarverðmæti úthlutaðs kvóta sem tíu stærstu útgerðir landsins halda á hafði farið úr því að vera 53 prósent í að vera rúmlega 67 prósent. Auknar heimildir til að veiða loðnu skiptu þar umtalsverðu máli.
Samanlagt halda fjórar blokkir: Þær sem kenndar eru við Samherja, Brim, Kaupfélag Skagfirðinga og Ísfélagið á rúmlega 60 prósent af öllum úthlutuðum kvóta á Íslandi.
Þessi mikla samþjöppun hefur leitt til þess að eigendur örfárra sjávarútvegsfyrirtækja hafa efnast verulega. Ítök þeirra í ótengdum geirum hérlendis hafa samhliða vaxið hratt.
Lestu meira:
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
30. desember 2022Rammi sameinaður Ísfélaginu og til stendur að skrá nýju risaútgerðina á hlutabréfamarkað
-
29. desember 2022Baldvin Þorsteinsson eignast erlenda útgerð Samherja sem metin er á 55 milljarða króna
-
19. desember 2022Hagnaður sjávarútvegs þrefaldaðist milli ára en afkoma tæknifyrirtækja breyttist lítið
-
13. desember 2022Fallið frá því að hækka gjöld á sjókvíaeldi um mörg hundruð milljónir á ári
-
9. desember 2022Prentsmiðjan og skuldir Árvakurs við hana færðar úr útgáfufélagi Morgunblaðsins
-
6. desember 2022Samherji Holding segist ekki líða mútugreiðslur, fyrirgreiðslur og ávinning í skiptum fyrir óeðlileg áhrif
-
30. nóvember 2022Samherjasamstæðan átti eigið fé upp á tæpa 160 milljarða króna um síðustu áramót
-
28. nóvember 2022SFS styðja frumvarp Svandísar um að hækka veiðigjöld á næsta ári en lækka þau árin á eftir
-
23. nóvember 2022Svandís leggur fram frumvarp sem hækkar veiðigjöld um 2,5 milljarða á næsta ári