„Valdaójafnvægi og yfirgangur“
Samband heimamanna í Skeiða- og Gnúpverjahreppi við Landsvirkjun er óheilbrigt og áform um virkjanaþrennu í neðri hluta Þjórsá er dæmi um valdaójafnvægi og yfirgang. Þetta er mat Önnu Bjarkar Hjaltadóttur, formanns Gjálpar, félags atvinnuuppbyggingar við Þjórsá. Sjálf er hún uppalin á Fossnesi og hefur barist gegn virkjanaframkvæmdum í neðri hluta árinnar í áraraðir. „Ég veit eiginlega ekki hvað þarf til að stoppa þá.“
Gjálp, félag um atvinnuuppbyggingu við Þjórsá, fagnar því að Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun í neðri hluta Þjórsár, verði færðar úr nýtingarflokki yfir í biðflokk, líkt og meirihluti umhverfis- og samgöngunefndar hefur lagt til í meirihlutaáliti nefndarinnar á þingsályktunartillögu þriðja áfanga rammaáætlunar.
„En rökstuðningurinn fyrir því á alveg jafn vel við Hvammsvirkjun. Þannig ég skil ekki af hverju Hvammsvirkjun er tekin út fyrir sviga, annað en það að hún er bara komin lengst í ferlinu,“ segir Anna Björk Hjaltadóttir, formaður Gjálpar, í samtali við Kjarnann.
Hvammsvirkjun, sem hefur verið í nýtingarflokki frá 2015, verður áfram í nýtingarflokki samkvæmt þingsályktunartillögu umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um þriðja áfanga rammaáætlunar sem lögð var fram í febrúar. Umhverfis- og samgöngunefnd gerir ekki athugasemd við það en í meirihlutaáliti nefndarinnar, sem birt var í síðustu viku, er hins vegar lagt til að færa Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun úr nýtingarflokki í biðflokk. „Auðvitað hefði ég viljað fá þetta allt í verndarflokk,“ segir Anna Björk.
Gjálp lýsa sér sem samfélagssamtökum sem vilja „auðga okkar fallegu sveitir með atvinnutækifærum tengdum Þjórsá“. Samtökin voru stofnuð árið 2016 og hefur Anna Björk verið formaður frá upphafi. Hún ólst upp á bænum Fossnesi í Gnúpverjahreppi og ljóst er að Hvammsvirkjun mun hafa mikil áhrif á bæinn og nánasta umhverfi hans, til að mynda mun fjögurra þverkílómetra manngert stöðuvatn myndast, verði Hvammsvirkjun að veruleika.
Samfélagsleg áhrif, atvinnuuppbygging og landið sjálft
„Ég er uppalin með þetta fyrir augunum og útsýnið frá Fossnesi er stórkostlegt. Það eru þessi samfélagslegu áhrif, áhrif á uppbyggingu á atvinnu í samfélaginu og svo landið sjálft sem varð til þess að ég fann mig knúna til þess að gera eitthvað.“
Anna Björk er búsett á höfuðborgarsvæðinu í dag en móðir hennar er bóndi í Fossnesi og tengslin við bæinn og sveitina eru enn náin. „Ég er mikið hjá henni, ég er með hestana mína hjá henni og ríð mikið út og hjálpa til við helstu stóru sveitaviðburðina, svo sem smalamennsku.“ Þá er sonur Önnu Bjarkar á leikskólaaldri og veit hann fátt betra en að fara í sveitina til ömmu.
Hvammsvirkjun muni ekki leiða til atvinnuuppbyggingar
Atvinnuuppbygging í tengslum við virkjanaframkvæmdir er Önnu Björk hugleikin eftir að hún fylgdist með slíkri við framkvæmd Kárahnjúkavirkjunar en hún starfaði fyrir Alcoa Fjarðaál um tíma og var búsett á Reyðarfirði í sjö ár, frá 2008 til 2015.
„Ég sá hvað uppbyggingin þar á virkjun Kárahnjúkavirkjunar hafði góð áhrif á samfélagið fyrir austan þar sem ungt fólk var að flytja aftur í bæinn og uppbyggingin var mikil.“
Anna Björk kom fyrst á Reyðarfjörð árið 2003 og segir bæinn þá hafa verið deyjandi samfélag. Uppbyggingin hafi hins vegar verið óumdeilanleg með Kárahnjúkavirkjun. Áhrifin sem Hvammsvirkjun mun hafa á samfélagið í Skeiða- og Gnúpverjahreppi eru þveröfug að mati Önnu Bjarkar. „Það er ekki hægt að líkja þessu tvennu saman.“ Áhrifin eru þegar orðin greinanleg að hennar mati.
Neikvæð áhrif þegar orðin áþreifanleg
Hugmyndir um virkjanir á þessu svæði eru ekki nýjar af nálinni. Síður en svo. Athuganir á hagkvæmni virkjana í neðanverðri Þjórsá hófust árið 1999. Hvamms,- Holta- og Urriðafossvirkjun voru þar á meðal og árið 2003 kom út skýrsla um mat á umhverfisáhrifum þessara kosta.
Mikil andstaða var við áformin og segir Anna Björk að ákveðin stöðnun hafi átt sér stað í samfélaginu og neikvæðra áhrifa strax farið að gæta. Virkjanaáformin voru fljótt sett á ís og við tók vinna við áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, betur þekkt sem rammaáætlun, þar sem virkjanakostir eru flokkaðir í orkunýtingar-, bið- og verndarflokk. Árið 2013 fóru allar þrjár virkjanirnar í biðflokk og sama ár var svokölluð Norðlingaölduveita, sem reisa átti í náttúruperlunni Þjórsárverum, sett í verndarflokk rammáætlunar.
Andstæðingar virkjananna gátu andað léttar. Um stund.
Í byrjun sumars 2015 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu þess efnis að færa Hvammsvirkjun eina og sér í orkunýtingarflokk.
Umhverfis- og samgöngunefnd vill skoða betur samfélagsleg áhrif á nærsamfélagið
Í þingsályktunartillögu að þriðja áfanga rammaáætlunar, sem lögð var fram á Alþingi í febrúar er lagt til að allar virkjanirnar þrjár verði í nýtingarflokki. Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, er fjórði umhverfisráðherrann á rúmlega fimm árum sem leggur tillöguna fram.
Samkvæmt breytingartillögum meirihlutaálits umhverfis- og samgöngunefndar á að færa Holts- og Urriðafossvirkjun úr nýtingarflokki í biðflokk. Í áliti nefndarinnar segir meðal annars að óhætt sé að segja að tillögur um flokkun Holtavirkjunar og Urriðafossvirkjunar í nýtingarflokk hafa vakið upp reiði í nærsamfélaginu, enda sé um að ræða „stórar virkjunarhugmyndir í byggð“.
Meirihlutinn telur ljóst að „hluti af sjálfsmynd margra íbúa í sveitinni er sambýlið við Þjórsá og þær breytingar sem virkjunarframkvæmdir hefðu á umhverfið þar eru í huga margra íbúa óásættanlegar,“ segir í nefndarálitinu. „Mætti því færa rök fyrir því að sú niðurstaða sem aðferðafræðin leiðir af sér um flokkun virkjunarkosta í neðri hluta Þjórsár í nýtingarflokk samrýmist ekki þeim samfélagslegu viðhorfum sem eru undirliggjandi í nærsamfélaginu.“
Vegna þessa telur meirihlutinn nauðsynlegt að leggja til þá breytingartillögu að Holta- og Urriðafossvirkjun verði flokkaðar í biðflokk þar til umfjöllun um samfélagsleg áhrif á nærsamfélagið á grundvelli nýrrar nálgunar í aðferðafræði verði lokið. Mikilvægt sé að horfa á neðri hluta Þjórsár „sem eina heild“ og því er beint til ráðherra og verkefnisstjórnar að horft verði til „allra þriggja virkjunarkosta“ í neðri hluta Þjórsár við það mat.
Fólki í sveitinni haldið í heljargreipum
Anna Björk gerir sérstaklega athugasemd við þetta mat meirihluta nefndarinnar. „Þau segja að það beri að líta á neðri hluta Þjórsár sem eina heild en samt er það ekki gert.“ Með því að halda Hvammsvirkjun í nýtingarflokki er í raun og veru, að mati Önnu Bjarkar, verið að halda fólki í sveitinni í heljargreipum og koma í veg fyrir fjárfestingar til atvinnuuppbyggingu, til að mynda í ferðaþjónustu á svæðum í nágrenni virkjunarinnar.
„Við erum búin að gera allt sem í okkar valdi stendur í þessu matsferli. Við höfum skilað inn mörgum umsögnum á mörgum, mörgum blaðsíðum þar sem við listum upp í mjög mörgum liðum af hverju Hvammsvirkjun ætti ekki að vera,“ segir Anna Björk, sem er hóflega bjartsýn á að áform um „umfjöllun um samfélagsleg áhrif á nærsamfélagið á grundvelli nýrrar nálgunar í aðferðafræði á samfélagslegum áhrifum“, líkt og lagt er til í meirihlutaálitinu, muni hafa áhrif.
„Ég veit eiginlega ekki hvað þarf til að stoppa þá. Ég velti fyrir mér hvaða áhrif það hefur að það eigi að rannsaka samfélagsáhrif. Hvaða áhrif hefur það ef að niðurstaðan verði neikvæð áhrif. Halda þeir bara samt áfram?“
Fyrrverandi umhverfisráðherra hafnar því að verið sé að drekkja Þjórsárverum
Þingmenn þriggja stjórnarandstöðuflokka, meðal annars varaformaður umhverfis- og samgöngunefndar, lögðu fram breytingartillögu við breytingartillögu umhverfis- og samgöngunefndar á rammaáætlun, þar sem lagt er til að horfið verði frá því að færa fimm virkjanakosti úr verndarflokki rammaáætlunar líkt og meirihluti nefndarinnar vill.
I nefndaráliti sem Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, undirritar segir að minnihlutinn styðji þá tillögu meirihluta nefndarinnar að færa Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun úr orkunýtingarflokki í biðflokk, en telur að ef ekki verði gengið lengra muni lítið fara fyrir heildstæðu endurmati á öllum þremur virkjunarkostum í Neðri-Þjórsá. Í tillögunni er lagt til að allir þrír virkjunarkostir í Neðri-Þjórsá verði færðir úr orkunýtingarflokki í biðflokk.
Tillagan var felld á Alþingi á miðvikudag. Að því loknu var þriðji áfangi rammáætlunar samþykktur með 34 atkvæðum. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra og fyrrverandi umhverfisráðherra, sagðist eiga erfitt með að sitja undir því að verið sé að drekkja Þjórsárverum, líkt og hann sagði stjórnarandtöðuþingmenn halda fram í umræðu um rammaáætlun.
„Það sem að hér er verið að gera, það er einfaldlega verið að stækka biðflokkinn, það er verið að fresta ákvörðun, rétt eins og það er verið að fresta ákvörðun um að taka Skrokköldu og neðri hluta Þjórsár til skoðunar eða til ákvörðunar núna og ég verð hér að lokum að hafna því að það sé verið að drekkja Þjórsárverum,“ sagði fyrrverandi umhverfisráðherra.
Inntakslón á stærð við tvö Seltjarnarnes
Anna Björk segir að verið sé að draga úr áhrifunum sem Hvammsvirkjun mun hafa með því að leggja áherslu á að um rennslisvirkjun verði að ræða. Miðlunarlón, þar sem vatni er safnað og notað eftir þörfum þegar rennsli minnkar, muni því ekki myndast heldur inntakslón. „Þetta er samt fjögurra þverkílómetra inntakslón,“ bendir hún á.
Inntakslónið, Hagalón, verður í raun manngert stöðuvatn og með tilkomu þess myndi fjölbreytt landslag við ána og bakka hennar breytast.
„Þegar var byrjað að tala um virkjanir í neðri hluta Þjórsár var alltaf talað um rennslisvirkjanir. Þegar þú hugsar um rennslisvirkjanir þá hugsar þú að það sé ekki lón. En það er helst lónið sem er að valda þessum neikvæðu áhrifum. Það er ekki útlitið á virkjuninni sjálfri,“ segir Anna Björk, sem hefur borið stærð lónsins saman við þekktar svæði á höfuðborgarsvæðinu.
„Seltjarnarnesið er tveir ferkílómetrar. Ef þú myndir draga línu frá Suðurgötunni og taka allt sem er vestan við hana þá ertu komin með fjóra ferkílómetra. Þetta er ekkert smá. Það er verið að taka land af fólki.“
Hélt að Þjórsárverin væru komin í örugga höfn
Virkjanirnar þrjár eru ekki þær einu á Þjórsársvæðinu sem fjallað er um í rammaáætlun. Kjalalda er virkjunarhugmynd Landsvirkjunar skammt sunnan Þjórsársvera. Verkefnastjórn rammaáætlunar vildi setja hana í verndarflokk en meirihluti umhverfis- og samgöngunefndar leggur til að hún fari í biðflokk.
„Maður hélt að Þjórsárverin væru komin í örugga höfn. Fólk er slegið,“ segir Anna Björk um áform nefndarinnar að taka Kjalöldu úr verndarflokki. „Ég hef ekki tekið beinan þátt í þessum slag, ég hef ákveðið að taka slaginn um neðri hluta Þjórsár út frá samfélags- og atvinnuuppbyggingu,“ segir Anna Björk, sem ver fyrst og fremst frítímanum í þessi baráttumál. „Og maður er að berjast á móti fólki sem er að þessu í vinnunni með sérfræðinga á bakvið sig.“
Sambandið við Landsvirkjun orðið óheilbrigt
Anna Björk er samt sem áður kunnug starfseminni sem hún er að berjast á móti en hún starfaði hjá Landsvirkjun á sumrin sem unglingur, auk þess sem hún starfaði í mötuneyti orkufyrirtækisins meðfram námi. „Ég þekki fyrirtækið og Landsvirkjun hefur gert rosalega margt gott fyrir sveitina en þetta er orðinn svolítill yfirgangur, þetta er orðið óheilbrigt samband. Þetta er valdaójafnvægi og yfirgangur.“
Anna Björk ætlar að halda baráttunni áfram, ekki síst nú þegar útlit er fyrir að Hvammsvirkjun sé á meðal næstu virkjanaáforma sem Landsvirkjun ætlar að ráðast í
„Það er að flagga þessum málum og fræða fólk, fá fólk á staðinn og sýna þeim hvað er að fara undir,“ segir hún, aðspurð um verkefnin fram undan.
„Þetta er ekkert smá.“
Lestu meira
-
22. júní 2022Raforkukerfið þarf sveigjanleika
-
19. júní 2022„Meira rennsli“ forsenda þess að stækkun Þjórsárvirkjana skili meiri orku
-
17. júní 2022„Valdaójafnvægi og yfirgangur“
-
15. júní 2022Rammaáætlun samþykkt: Virkjanir í Héraðsvötnum og við Þjórsárver aftur á dagskrá
-
15. júní 2022Tár, bros og leitin að grænu hjörtunum
-
15. júní 2022Fyrrverandi ráðherra VG „krefst þess“ að jökulsárnar í Skagafirði verði áfram í vernd
-
14. júní 2022Lýsa vonbrigðum með að jökulsárnar í Skagafirði séu teknar úr verndarflokki
-
14. júní 2022Niðurstaða meirihlutans „barin fram“
-
14. júní 2022Er Kjalölduveita Norðlingaölduveita í dulargervi?
-
13. júní 2022Pólitísk stjórnsýsla hindrar virkjunarkosti vindorku á samkeppnismarkaði