„Amma mín hýsti 39 manns, gyðinga, á meðan á Helförinni stóð. Þau voru annarrar trúar og höfðu aðra siði. En það skipti engu, manneskja er manneskja,“ segir hin pólska Katarzyna Skopiec í samtali við Kjarnann. Blaðamaður ræddi við hana og Nilofar Ayoubi, flóttakonu, frumkvöðul og mannréttindafrömuð frá Afganistan, á rólegum veitingastað í úthverfi Varsjár undir lok marsmánaðar.
Katarzyna stendur ásamt eiginmanni sínum í stafni fyrir mannúðarsamtökin Humanosh, sem hafa starfað árum saman við að aðstoða flóttafólk í Póllandi. Samtökin eru stofnuð í minningu ömmu hennar og afa, Słöwu og Isydor Wołosiański sem földu 39 gyðinga í kjallaranum hjá sér í heila 22 mánuði á meðan nasistar voru með Pólland á sínu valdi í síðari heimststyrjöld.
Á undanförnum þremur árum hefur starfsemi samtakanna farið vaxandi og Katarzyna og samstarfsfólk hennar hafa helst unnið að málefnum flóttafólks frá Belarús, fólks sem hefur flúið ofsóknir Alexanders Lúkasjenkós – síðasta einræðisherrans í Evrópu.
Einnig vinna samtökin með flóttafólki frá öðrum ríkjum, eins og Nilofar, eiginmanni hennar og þremur börnum, sem komust til Varsjár í fyrra eftir að talíbanar náðu völdum í Afganistan. Vestrænir fjölmiðlar fjölluðu um flótta hennar og fjölskyldu hennar til Póllands í fyrra, en hún var á svörtum lista talíbana, verandi kona sem átti fyrirtæki og vann að kven- og mannréttindabaráttu. Nú leggur hún sjálf Úkraínumönnum í Póllandi lið og vinnur meðal annars með samtökum Katarzynu.
Fyrir rúmum tveimur árum opnuðu Humanosh fyrsta skýlið fyrir ofsótta Hvítrússa og hefur síðan þá hýst yfir 500 manns í athvörfum í Varsjá og suðurhluta Póllands; boðið upp á tímabundna griðastaði þar sem flóttafólk getur dvalið og komið sér á fætur á meðan það leitar atvinnu, varanlegs dvalarstaðar og skólavistar fyrir börnin.
Að aðstoða um 600 Úkraínumenn frá degi til dags
Fyrir rúmum mánuði umturnaðist svo starfsemi samtakanna, er innrás Rússa í Úkraínu sendi af stað holskeflu fólks, aðallega kvenna og barna yfir landamærin til Póllands og annarra landamæraríkja.
„Núna frá því að stríðið braust út höfum við endurskipulagt skýlið okkar, til þess að geta tekið á móti fleira fólki. Þar geta nú 25 dvalið í einu. Svo opnuðum við líka annað skýli, þar sem einnig geta dvalið 25 flóttamenn. Skýlunum er stýrt af konum, bæði frá Belarús og Úkraínu,“ segir Katarzyna í samtali við Kjarnann.
Hún býr í Varsjá en starfsemi samtakanna er þó að mestu í suðurhluta Póllands. Alls segir hún að samtökin séu þar að aðstoða um 600 manns í dag. „Þau eru í mismunandi húsum, en við önnumst þau að mestu. Við færum þeim mat, veitum þeim aðstoð í samskiptum við yfirvöld og gefum þeim ráð um hvað skuli gera,“ segir Katarzyna.
Sjálf var hún með alls sex flóttamenn inni á heimili sínu þegar blaðamaður ræddi við hana undir lok mars, fjögur sem nýlega höfðu komið frá Úkraínu og tvær afganskar stúlkur að auki.
Katarzyna segir að fyrstu dagarnir eftir að flóttafólk tók að streyma til Póllands hafi verið erfiðir, en fjöldi sjálfboðaliða á vegum samtaka hennar var starfandi í grennd við landamærin.
„Við buðum fram aðstoð í Premyzl og á landamærunum og þetta var mjög erfitt og mjög pirrandi, því það var engin aðstoð og engar upplýsingar í upphafi. Fólk var að bíða klukkustundum saman eftir rútum og var að stíga upp í rútur án nokkurra skílríkja og án þess að vita nokkuð hvert það væri að fara. Það var ískalt, en við komum með mataraðstoð og reyndum að hjálpa yfirvöldum í landamærabæjunum,“ segir Katarzyna.
Þrótturinn gæti fjarað út
Hún sagði það hafa verið ótrúlegt að sjá hvernig fólk skipulagði sig undir eins, til þess að takast á flóttamannaflauminn. „Fólk tók saman höndum og það var magnað að sjá samtakamátt pólsku þjóðarinnar. En nú er staðan aðeins farin að versna. Flóttafólk er fast í húsum einhvers ókunnugs fólks og það er þreytandi að búa með einhverjum sem þú þekkir ekki,“ segir Katarzyna og á þá við að það sé bæði þreytandi fyrir þá sem hafa boðið fram gistingu og flóttafólkið sjálft.
„Þú hefur séð fjölda flóttafólksins á lestarstöðvunum hérna í Varsjá,“ segir Nilofar. „Þetta er eins í Kraká, og í Szczecin. Í öllum hornum Póllands er fólk að hýsa flóttafólk. Og andi góðgerða svífur yfir vötnum,“ segir hún.
„En við erum kannski ekki góð í að veita stöðuga hjálp yfir lengri tíma,“ segir Katarzyna og Nilofar segir að það sé eins alls staðar í Evrópu.
„Þegar það er stríð einhversstaðar þá er allt blásið upp og umræðan er á þá leið að fólk ætli að hjálpa, taka við flóttamönnum. En svo fjarar áhuginn út. Og það sama finnst mér vera að gerast með Úkraínu. Það verða færri og færri og færri fréttir og færri fylgjast með tístunum hans Zelenskís [Úkraínuforseta] og þau fá minni viðbrögð,“ segir Nilofar.
Telur þörf á betri upplýsingum um ferðir til annarra ríkja
Samtök Katarzynu voru undir lok mars að fá afhent stórt atvinnuhúsnæði í miðborg Varsjár, sem þau ætla að breyta í móttökumiðstöð fyrir Úkraínumenn, þar sem boðið verður upp á mat, sálfræðiaðstoð og aðstoð af ýmsu tagi. Meðal annars verða veitt ráð um hvernig komast megi áfram til annarra ríkja og hvað geti beðið fólks þar, en Katarzyna segir að flóttafólk frá Úkraínu sé margt hvert smeykt við að setjast upp í rútur til fjarlægra landa.
Hún telur líka að upplýsingaflæði til Úkraínumanna um hvernig sé hægt að komast annað og hvað geti beðið á áfangastað sé ábótavant, þrátt fyrir að fjöldi evrópskra hjálparsamtaka vinni að því að flytja fólk frá Póllandi og til annarra landa, eins og Kjarninn fjallaði nýlega um.
„Fyrir nokkrum dögum síðan sagði vinur minn við mig að annars vegar væru sumir Úkraínumenn að fara aftur yfir landamærin bara vegna þess að það væri ekki hægt að finna neinn stað hér, en á sama tíma vissi hann til þess að hálftóm rúta væri á leiðinni til Noregs. Ég held að það sé skortur á upplýsingum um þetta og ég vil reyna að beita mér í því. Ég held að þetta muni ganga hjá okkur,“ segir Katarzyna.
„Á einhvern hátt gerum við upp á milli flóttafólks“
Blaðamaður spurði hvort viðbrögð pólsks almennings við komu flóttafólks frá Úkraínu hefðu komið henni á óvart.
„Já! Af því að ég er búin að vera að hjálpa Hvítrússum og það hefur stundum verið erfitt að útskýra fyrir fólki af hverju við þurfum að hjálpa því fólki. En þar er búið að vera að þagga niður í fólki sem mótmælir stjórnvöldum, þau hafa verið send í gúlög og drepin. En það var erfitt að útskýra það fyrir pólsku fólki,“ svarar Katarzyna.
Hún nefnir einnig þá atburðarás sem fór af stað við landamæri Póllands og Belarús síðasta haust, er fjöldi flóttafólks, aðallega frá Miðausturlöndum, reyndi að komast yfir til Póllands, sem harðneitaði þeim inngöngu og gerir enn. Pólska ríkisstjórnin hefur meinað bæði læknum og hjálparsamtökum að komast að landamærunum, þar sem koma flóttamannanna að landamærum Evrópusambandsins var runnin undan rifjum stjórnar Lúkasjenkós.
Þrátt fyrir mannúðarkrísuna sem skapaðist og varir enn við landamærin í kjölfar þessa alls segir Katarzyna að það hafi ekki verið mikil samúð á meðal pólsks almennings í garð fólksins sem þarna, þó að flestum megi vera ljóst að þær þúsundir sem leituðu inngöngu til Póllands séu peð í aðgerðum Lúkasjenkós. Nýlegar fréttir hafa borist af því að hermenn í Belarús hafi neytt flóttafólk til þess að fara yfir til Úkraínu síðan að innrás Rússa hófst.
„Á einhvern hátt gerum við upp á milli flóttafólks, þeim sem okkur líkar við og þeim sem okkur líkar ekki við. Mín leið til að hugsa um þetta er sú að manneskja sé manneskja og að allir eiga skilið að vera með hreinan kodda undir höfðinu. Öll börn ættu að njóta menntunar og vera örugg. Úkraínsk, hvítrússnesk, afgönsk, sýrlensk. Þau þurfa það sama og við og við ættum ekki að gera upp á milli fólks,“ segir Katarzyna.
Spurð um framtíðina, og hvort hún telji að hjálpsemi pólsk almennings muni fara þverrandi ef stríðið dregst á langinn, segist hún óviss. „Hjá sumum kannski, en sumum ekki. Ég held að í öllum málum hér í Póllandi sé þetta svona 50/50. Vonandi geta þau sem eru áfram um að hjálpa tekið á móti fleira fólki, eða þá að flóttafólk finni aðrar lausnir,“ segir Katarzyna.
Við ræðum aðeins pólsku ríkisstjórnina, sem Katarzyna telur að muni ekki gera neitt í málefnum Úkraínumanna, umfram algjöran lágmarks framfærslustuðning við fólk. Stuðningur stjórnvalda við hjálparsamtök sem eru að veita flóttamönnum lið er í algjöru skötulíki, segir Katarzyna.
„Ég er búin að vera í tvö og hálft ár að hjálpa fólki frá Belarús og hef ekki fengið svo mikið sem penní. Ég hef átt í vandræðum með að skaffa mat fyrir flóttafólkið mitt og þau sögðust ætla að hjálpa og ég sótti um en það gerðist ekkert. Það er engin hjálp frá ríkisstjórninni. Ég held að það trúi því ekki nokkur maður að ríkisstjórnin muni hjálpa neinum.“
Flóttafólk á þó að fá ákveðinn lágmarks framfærslustyrk. „Þau munu fá framfærslu, en þetta gengur allt rosalega hægt. Sumt fólk á bókaðan tíma hjá hinu opinbera til þess að skrá sig fyrir framfærslu og kennitölu í maí. Þau geta ekki beðið fram í maí. Þau þurfa einfalda hluti, skjól, rúm til að sofa í, mat og einhvern félagsskap til þess að líða vel. Þess vegna reyni ég að koma eins mörgum fyrir og mögulegt er heima og í mínum skýlum,“ segir Katarzyna.
Lestu meira
-
2. janúar 2023Hungurleikar Pútíns grimma
-
2. janúar 2023Úkraínustríðið 2023: Skugginn yfir Evrópu
-
6. desember 2022Sjálfheldan í Úkraínu. Hatrið sigrar?
-
6. nóvember 2022Niðursoðin fiskilifur á meðal þess helsta sem selt hefur verið til Rússlands frá innrás
-
30. október 2022Flúði Hvíta-Rússland með röntgenmyndir særðra rússneskra hermanna
-
29. október 2022Frá Pushkin til Pútíns: Hugmyndafræði keisaraveldis í rússneskum bókmenntum
-
25. október 2022Samkeppni stórveldanna – Frá Úkraínu til Taívan
-
17. október 2022Barnafátækt stóraukist vegna innrásar Rússa
-
24. september 2022Víðtækar afleiðingar ósigra Rússlands
-
6. september 2022Dularfull dauðsföll auðmanna sem tengdust Pútín