Kynferðisleg áreitni og ofbeldi í leikhúsunum og verklag þeirra
Tæplega sex hundruð konur í sviðslistum og kvikmyndagerð skrifuðu undir áskorun í lok árs 2017 þar sem þær kröfðust þess að fá að vinna vinnuna sína án áreitni og ofbeldis. Kjarninn kannaði hvað hefur gerst í þessum málum í þremur stærstu leikhúsum landsins.
Mál Þóris Sæmundssonar og Atla Rafns Sigurðarsonar leikara, sem og mál Jóns Páls Eyjólfssonar fyrrverandi leikhússtjóra Leikfélags Akureyrar, hafa valdið fjaðrafoki í metoo-umræðu á Íslandi, svo vægt sé til orða tekið. Nokkrar konur ásökuðu Atla Rafn nafnlaust um kynferðislega áreitni og ofbeldi í lok árs 2017 og tóku Kristín Eysteinsdóttir og stjórn Leikfélag Reykjavíkur þá ákvörðun að reka hann í kjölfarið. Mikið var fjallað um málið í fjölmiðlum á sínum tíma.
Atla Rafni fannst að sér vegið með uppsögninni og kærði ákvörðunina. Eftir nokkur ár í dómskerfinu komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að Leikfélagið hefði gerst brotlegt og dæmdi félagið til að greiða leikaranum 1,5 milljónir króna í miskabætur ásamt þremur milljónum króna í málskostnað. Hann fékk ekki að áfrýja sambærilegu máli gegn Kristínu Eysteinsdóttur leikhússtjóra til Hæstaréttar en bæði leikfélagið og Kristín voru sýknuð af kröfum hans í Landsrétti.
Mál Þóris Sæmundssonar þarf vart að kynna en Kveikur fjallaði um mál hans á dögunum og hefur sú umfjöllun verið umdeild. Í viðtali við Kveik sagðist leikarinn vera í vonlausri stöðu. Eftir að hann var gerður brottrækur úr Þjóðleikhúsinu fyrir fjórum árum kveðst hann hafa sótt um 200 til 300 störf án árangurs. Var Þórir ásakaður um að hafa sent ólögráða stúlku kynferðislega mynd en hann heldur því sjálfur fram að hún hafi verið orðin sjálfráða.
Þriðja málið olli titringi innan leikhússenunnar þegar Jón Páll Eyjólfsson, fyrrverandi leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar, var dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur í nóvember í fyrra í tveggja og hálfs árs skilorðsbundið fangelsi fyrir að nauðga konu á hótelherbergi í útlöndum sumarið 2008. Jón Páll áfrýjaði dómnum til Landsréttar.
Jón Páll tilkynnti í árslok 2017 að hann hefði ákveðið að hætta störfum sem leikhússtjóri og sagði það vera vegna fjárhagsmála, að því er fram kemur í frétt RÚV um málið á sínum tíma. Ákveðið hefði verið að hann myndi starfa áfram þar til nýr yrði ráðinn en honum hefði svo verið gert að hætta í ársbyrjun 2018 eftir að hann viðurkenndi fyrir framkvæmdastjóra Menningarfélags Akureyrar að hann hefði verið borinn þessum sökum.
Smæð bransans og takmarkaður fjöldi hlutverka gera aðstæður erfiðari
Tæplega sex hundruð konur í sviðslistum og kvikmyndagerð skrifuðu undir áskorun í nóvember 2017 þar sem þær kröfðust þess að fá að vinna vinnuna sína án áreitni, ofbeldis eða mismununar.
„Kynferðisofbeldi, áreitni og kynbundin mismunun á sér stað í sviðslista- og kvikmyndageiranum, rétt eins og annars staðar í samfélaginu. Þá gerir smæð bransans og takmarkaður fjöldi hlutverka/tækifæra aðstæður erfiðari. Óþarfi er að taka fram að allir karlar gerast ekki sekir um áreitni eða mismunun – en hins vegar verða nær allar konur fyrir því á starfsferli sínum og það er algerlega óásættanlegt.
Við krefjumst þess að karlkyns samverkamenn okkar taki ábyrgð; að yfirvöld, leikhús og framleiðslufyrirtæki taki af festu á málinu og komi sér upp verkferlum og viðbragðsáætlun. Við eigum ekki að þurfa að þegja lengur né leiða ástandið hjá okkur. Við verðskuldum að okkur sé trúað og sýndur stuðningur. Fyrst og fremst á misréttinu að linna. Við krefjumst þess að fá að vinna vinnuna okkar án áreitni, ofbeldis eða mismununar. Við stöndum saman og höfum hátt,“ sagði í áskoruninni.
Kjarninn sendi fyrirspurnir á þrjú stærstu leikhús landsins, Þjóðleikhúsið, Borgarleikhúsið og Leikfélag Akureyrar, til þess að kanna hversu margar tilkynningar hefðu borist stjórnendum og hvernig verkferlum væri háttað. Hér fyrir neðan má finna svörin.
Enginn tilkynning til Magnúsar Geirs
Stjórnendum Þjóðleikhússins hefur ekki borist neinar tilkynningar um kynferðislega áreitni/áreiti eða ofbeldi í leikhúsinu á síðustu fjórum árum eða frá því Þórir var rekinn, að því er fram kemur í svari þjóðleikhússtjóra, Magnúsar Geirs Þórðarsonar, við fyrirspurn Kjarnans.
„Í gildi er viðbragðsáætlun sem gripið er til ef og þegar upp koma mál af þessu tagi. Samskiptasáttmáli starfsfólks lýsir vel vinnulagi og gildum í samskiptum í leikhúsinu. Kappkostað er að samskiptasáttmálinn sé alltaf aðgengilegur og að allt nýtt starfsfólk fái góða kynningu á honum við upphaf starfa,“ segir í svari leikhússtjóra.
Fram kemur í starfsmannahandbók Þjóðleikhússins að tilkynningu sé hægt að koma á framfæri við næsta yfirmann, þjóðleikhússtjóra, öryggistrúnaðarmann, jafnréttisfulltrúa eða trúnaðarmann stéttarfélags viðkomandi innan Þjóðleikhússins, og beri þeim að koma málinu í rétt ferli, enda hafi þeir verið upplýstir um hlutverk sitt og ábyrgð. Meintur þolandi getur tekið mál upp við einhvern þessara aðila og leitað ráða áður en formleg kvörtun er lögð fram.
Sá sem verður vitni að ótilhlýðilegri háttsemi getur gert athugasemd við framkomu gerandans, komið að máli við þolandann og boðið fram stuðning, snúið sér til næsta yfirmanns eða einhvers framangreindra aðila og vakið athygli á málinu.
Allar tilkynningar verða kannaðar til hlítar, að því er fram kemur í handbókinni. Brugðist verði hratt við og af nærgætni og þagmælsku þar sem slík mál séu viðkvæm. Sá sem tilkynnir um mál getur óskað eftir að málið fari í óformlegt eða formlegt ferli.
Óformlegt ferli: Telji starfsmaður sig verða fyrir ótilhlýðilegri háttsemi af hendi samstarfsfólks er æskilegt að hann láti meintan geranda eða gerendur vita að honum mislíki framkoma hans/þeirra í sinn garð og óski eftir að slík hegðun endurtaki sig ekki.
Ef starfsmaður treystir sér ekki til að koma slíkri ósk á framfæri við meintan geranda eða gerendur skal hann óska eftir aðstoð yfirmanns/þjóðleikhússtjóra/öryggistrúnaðarmanns/jafnréttisfulltrúa/trúnaðarmanns stéttarfélags viðkomandi innan Þjóðleikhússins. Sá af þessum aðilum sem leitað er til skal upplýsa tilkynnanda um rétt sinn, málsmeðferð og úrræði. Yfirmaður skal ræða strax við meintan geranda og fara fram á að hin ótilhlýðilega hegðun hætti. Yfirmaður getur einnig talað við meintan þolanda og meintan geranda saman til að fara yfir málið.
Mikilvægt er að málinu sé fylgt eftir, segir í handbókinni. Takist ekki að ná sátt skal reynd sáttaleið með utanaðkomandi sérfræðingi og/eða að vinnuveitandi leitast við að haga starfi viðkomandi aðila þannig að þeir þurfi ekki að eiga nema lágmarkssamskipti vegna starfa sinna.
Ef ótilhlýðilegri háttsemi linnir ekki skal málið sett í formlegt ferli. Tilkynnanda skal boðið að málið sé skráð í trúnaðarbók.
Formlegt ferli: Takist ekki að leysa úr málum samkvæmt því sem lýst er hér að framan skal starfsmaður leggja fram skriflega kvörtun við öryggistrúnaðarmann eða þjóðleikhússtjóra. Æskilegt er að kvörtun sé lögð fram innan þriggja mánaða frá því að viðkomandi telur að óæskileg framkoma samstarfsmanns/-a hafi átt sér stað. Mun kvörtunin þá verða meðhöndluð í samræmi við eftirfarandi verklag.
Formlegt ferli hefst alla jafna aðeins ef skrifleg kvörtun berst frá starfsmanni. Þó geta stjórnendur ákveðið að hefja formlegt ferli ef talið er að um einelti eða aðra háttsemi sé að ræða sem ógnað geti heilsu og vellíðan starfsfólks. Þetta má gera þrátt fyrir að sá sem hefur kvartað óski ekki eftir að fara lengra með kvörtunina.
Hluti af formlegu ferli getur meðal annars verið að meintur þolandi og/eða meintur gerandi séu fluttir til í starfi eða fari í tímabundið leyfi til að fyrirbyggja álag sem fylgir því að vera á vinnustaðnum meðan málið er rannsakað formlega í samræmi við þessa áætlun.
Í handbókinni segir jafnframt að nauðsynlegt sé að yfirmaður, eða sá sem fer með málið, fylgi því eftir með því að fylgjast með líðan og félagslegri stöðu þolanda og geranda á vinnustað og veita þolanda og/eða geranda viðeigandi stuðning og hjálp. Enn fremur þarf hann að meta og endurskoða árangur inngrips.
Ekkert nýtt mál komið á borð leikhússtjóra Borgarleikhússins
Engar ásakanir um kynferðislega áreitni/áreiti eða ofbeldi hafa borist í tíð núverandi leikhússtjóra, Brynhildar Guðjónsdóttur, að því er fram kemur í svari Borgarleikhússins. Einungis hefur þetta eina mál sem reifað var stuttlega hér fyrir ofan er varðar ásakanir á hendur Atla Rafni komið á borð þáverandi leikhússtjóra á síðustu fjórum árum.
Varðandi verkferla, þá er til staðar skýr stefna og viðbragðsáætlun ef slík mál koma upp í Borgarleikhúsinu, segir enn fremur í svarinu.
Í handbók starfsfólks Borgarleikhússins kemur fram að ef starfsmaður telur sig hafa orðið fyrir einelti, ofbeldi og/eða kynferðislegri áreitni beri honum þegar í stað að tilkynna næsta yfirmanni eða samskiptastjóra um það. Starfsmaður getur jafnframt leitað aðstoðar trúnaðarmanns við að koma slíkri tilkynningu á framfæri.
Starfsmenn eru hvattir til að láta næsta yfirmann eða samskiptastjóra þegar í stað vita ef minnsti grunur vaknar um að einelti, ofbeldi eða kynferðisleg áreitni eigi sér stað í leikhúsinu.
Starfsmaður sem telur sig upplifa einelti, ofbeldi eða áreitni af einhverju tagi, eða hafa rökstuddan grun um slíka háttsemi skal tilkynna málið við fyrsta tækifæri.
Hægt er að tilkynna málið til næsta yfirmanns, samskiptastjóra eða trúnaðarmanns. Tilkynningin má vera munnleg eða skrifleg og um hana er gætt fyllsta trúnaðar. Áhersla er lögð á í handbókinni að þolandi njóti stuðnings og upplifi sig öruggan við meðferð málsins.
Allar kvartanir vegna eineltis, kynferðislegra eða kynbundinnar áreitni verða teknar alvarlega og rannsakaðar um leið og þær berast, að því er fram kemur í handbókinni. Skal um leið meta þörf fyrir faglegan stuðning.
Samkvæmt verklaginu eru fyrstu viðbrögð ætíð að meta þörf fyrir utanaðkomandi aðstoð og stuðning áður en ákvörðun er tekin um næstu skref. Öllum hlutaðeigandi ber að virða trúnað og ræða málið eingöngu við þá sem hafa með það að gera. Sérstakt tillit skal tekið til óska um nafnleynd í sérstaklega viðkvæmum málum og skal utanaðkomandi fagaðili þá koma að vinnslu málsins á fyrstu stigum.
Málsmeðferð getur annars vegar verið í formi óformlegra aðgerða og hins vegar formlegra aðgerða:
- Óformleg málsmeðferð er framkvæmd með þeim hætti að leitað er upplýsinga hjá þolanda og geranda í sitthvoru lagi og í kjölfarið rætt við annað starfsfólk ef þurfa þykir. Aðrir en þeir sem málið varðar innan vinnustaðarins eru ekki upplýstir um málið.
- Formleg málsmeðferð felur í sér hlutlausa athugun á málsatvikum. Rætt er við þá sem upplýsingar geta veitt um málið. Aflað er upplýsinga um tímasetningar, atvik og reynt eftir fremsta megni að fá fram gögn þegar við á. Leitast er við að finna lausn í samræmi við alvarleika málsins og þolanda er boðinn stuðningur fagaðila. Ef aðstæður eru margslungnar skal kalla til utanaðkomandi sérfræðiaðstoðar.
Öllum málum er fylgt eftir með því að kanna líðan og stöðu bæði geranda og þolanda, segir í handbókinni. Veita skuli viðeigandi stuðning og hjálp ásamt því að meta árangur aðgerða.
Vilja ekki gefa upplýsingar um fjölda ásakana
Menningarfélag Akureyrar, sem rekur Leikfélag Akureyrar, sér ekki fært að veita upplýsingar um ásakanir um kynferðislega áreitni/áreiti eða ofbeldi sem borist hafa á borð stjórnenda Leikfélags Akureyrar eða leikhússtjóra á síðustu fjórum árum á grundvelli persónuverndarlaga. Þetta kemur fram í svari framkvæmdastjóra Menningarfélagsins, Þuríðar Helgu Kristjánsdóttur.
Kjarninn ítrekaði fyrirspurn sína og var hún borin undir stjórn Menningarfélagsins. Í nýju svari kemur fram að stjórnin sé sammála túlkun framkvæmdastjórans um að þessar upplýsingar geti varðað persónuverndarlög.
Menningarfélagið er með verkferla er varða svona mál og má finna þá á vefsíðu félagsins. „Reglulega eru gerðar starfsmannakannanir þar sem spurt er fyrir um hvort starfsfólk hefur orðið áskynja, upplifað eða orðið fyrir kynferðislegri áreitni,“ segir í svari framkvæmdastjórans.
Á vefsíðu félagsins kemur fram að kynbundið ofbeldi geti tekið á sig ýmsar myndir til að mynda með dónalegum bröndurum og kynferðislegum athugasemdum í máli, myndum eða skriflegum athugasemdum, óviðeigandi spurningum um kynferðisleg málefni, snertingu sem ekki er óskað eftir, endurteknum beiðnum um kynferðislegt samband sem mæta áhugaleysi eða er hafnað, hótun um nauðgun og nauðgun.
Ef starfsmaður verður fyrir áreiti eða ofbeldi á hann að mótmæla og gefa skýr skilaboð um að hegðunin sé óæskileg. Ef hann á erfitt með að mótmæla hegðuninni munnlega þá sé hægt að skrifa bréf. Starfsmaður sem lendir í slíku er hvattir til að skrifa niður það sem gerðist og hver upplifun hans var.
„Skráðu niður atburðarásina, tímasetningar, hugsanleg vitni, hvað var sagt og gert, hvernig þú brást við og hver upplifun þín var. Ræddu málið við fólk sem þú treystir, mögulega hafa fleiri sömu reynslu eða hafa lent í svipuðum aðstæðum. Hafðu samband við trúnaðarmann á vinnustað, yfirmann eða formann þíns stéttarfélags allt eftir því hvað þér finnst best og greindu frá því sem gerðist,“ segir á vefsíðu félagsins.
Jafnframt kemur fram að trúnaðarmanni, yfirmanni á staðnum eða formanni stéttarfélags beri að tala einslega og í trúnaði við þann sem hefur orðið fyrir áreiti eða ofbeldi, viðkomandi þarf að hafa fulla stjórn á því hvernig framhaldið verður.
Hann þarf að afla gagna um málsatvik, smáskilaboð, tölvupóstar og vitnisburður annarra og fleira. Hann þarf að meta stöðuna í samráði við þolandann, hversu alvarlegt var atvikið og hvort ástæða er til að kalla til ráðgjafa/fagaðila og tala við gerandann og fá hans útgáfu af því sem gerðist.
Ef gerandi og þolandi sættast á það má kalla þá saman í ráðgjöf, helst með fagaðila og ákvarða hvernig samskiptum verður háttað í framhaldinu. Til að koma í veg fyrir slúður og slæman starfsanda ber að bjóða upp á samtal við starfsfélaga sem eru í návígi við geranda og þolanda og setja þá inn í málin. Eins og aðrar aðgerðir ber að gera þetta í samráði við þolanda.
Ef um alvarlegt ofbeldi er að ræða ber að styðja þolandann í að leggja fram kæru, segir í verkferlum Menningarfélagsins.
Trúnaðarmanni, yfirmanni á staðnum eða formanni stéttarfélags ber að gera öllu starfsfólki grein fyrir því að kynbundið ofbeldi, áreitni og kynferðisleg áreitni sé ekki liðin á vinnustaðnum og gera öllu starfsfólki grein fyrir aðgerðaáætluninni og birta hana á vef félagsins.
Lesa meira
-
29. desember 2022Öfga uppgjör
-
25. desember 2022Hátíðarhugvekja: Heimilisofbeldi um jólin og gerendameðvirkni í lok árs
-
27. september 2022Stjórn Ferðafélags Íslands hafnar lýsingum fráfarandi forseta
-
27. september 2022Fyrsti kvenkyns forseti Ferðafélagsins segir af sér vegna framferðis stjórnarkarla
-
20. ágúst 2022Teymi þjóðkirkjunnar hætt að kanna mál konu sem ásakaði prest um kynferðisbrot
-
7. júlí 2022Vítalía búin að gefa skýrslu hjá lögreglu
-
5. júní 2022Vítalía um fráfarandi forstjóra Festi: „Ég á Eggerti mikið að þakka“
-
25. maí 2022Einstaklingar sem eru til rannsóknar skuli stíga til hliðar
-
24. maí 2022„Á meðan helvítis eftirspurnin er þá er framboð“
-
28. apríl 2022„Var ólofaður og ógiftur þegar þetta átti sér stað“