Miðflokkurinn heldur áfram að dala en Sósíalistaflokkurinn heldur áfram að rísa
Ríkisstjórnin stendur tæpt og undir helmingur þjóðarinnar hefur í hyggju að kjósa flokkana sem að henni standa. Hin frjálslynda miðja á þingi græðir þó lítið á þeirri stöðu, að minnsta kosti enn sem komið er. Sá flokkur sem er að hrista mest upp í stöðunni eru Sósíalistar. Þeir eru á fljúgandi siglingu. Þetta kemur fram í nýjustu kosningaspá Kjarnans.
Miðflokkurinn og Sósíalistaflokkur Íslands hafa sætaskipti á stærðarlista stjórnmálanna samkvæmt nýjustu kosningaspá Kjarnans og Baldurs Héðinssonar. Fyrir rúmri viku mældist Miðflokkurinn með 6,6 prósent fylgi og var sjöundi stærsti flokkur landsins. Sósíalistaflokkurinn mældist hins vegar með 6,2 prósent fylgi og var minnstur þeirra átta flokka sem mældust með öruggan möguleika á að ná manni inn á þing.
Nú, níu dögum síðar, er staða sú að Sósíalistaflokkurinn mælist með 7,5 prósent fylgi en Miðflokkurinn hefur skroppið saman niður í 6,2 prósent.
Miðflokkurinn vill gefa fólki peninga
Sósíalistaflokkurinn kynnti framboðslista sína síðar en flestir aðrir og virðast þeir mælast vel fyrir hjá þeim sem hafa áhuga á að kjósa flokkinn. Þá hefur hann mánuðum saman birt það sem hann kallar tilboð til kjósenda. Þau eru nú orðin ellefu talsins, og snúast meðal annars um að byggja 30 þúsund íbúðir á áratug, að lækka skatta á almenning og ráðast að rótum spillingar. Það nýjasta, sem kynnt var í dag, snýst um sósíalíska byggðarstefnu.
Miðflokkurinn birti kosningaáherslur sínar í gær í tíu punkta skjali sem hann kallaði „Tíu ný réttindi fyrir íslensku þjóðina“. Uppistaðan í þeim loforðum snýst um að greiða landsmönnum háar fjárhæðir úr ríkissjóði með innlögnum á bankareikninga þeirra.
Miðflokkurinn vill til dæmis greiða helminginn af öllum afgangi sem ríkissjóður skilar á hverju ári til fullorðinna landsmanna, greiða auðlindagjald vegna nýtingu fiskimiða, orku og sölu losunarheimilda til þeirra, gefa þjóðinni þriðjung í Íslandsbanka (markaðsvirði er um 80 milljarðar króna) sem hún á nú þegar og greiða mótframlag úr ríkissjóði sem gefur öllum tækifæri til að eignast húsnæði. Þá ætlar flokkurinn að afnema skerðingar, hækka lífeyrisgreiðslur upp í lágmarkslaun og hækka frítekjumark atvinnutekna upp í 500 þúsund krónur.
Ríkisstjórnin tæp
Stjórnarflokkarnir þrír, sem eiga flestir eftir að kynna áherslur sínar í komandi kosningum, mælast samtals með 48,7 prósent fylgi, sem gæti dugað til að þeir næðu næfurþunnum meirihluta á þingi. Þeir fengu samtals 52,9 prósent atkvæða í kosningunum 2017 og því hafa þeir saman tapað 4,2 prósentustigum á kjörtímabilinu.
Sjálfstæðisflokkur og Vinstri græn mælast bæði undir kjörfylgi og síðarnefndi flokkurinn hefur tapað þorra þess fylgis sem kvarnast hefur af stjórnarflokkunum á kjörtímabilinu, eða 3,9 prósentustig. Sjálfstæðisflokkurinn hefur tapað 1,2 prósentustigi en Framsókn hefur einn stjórnarflokkanna bætt við sig fylgi, farið úr 10,7 í 11,6 prósent.
Frjálslynda miðjan þarf að bæta við sig til að ná í ríkisstjórn
Frjálslyndu miðjuflokkarnir á Alþingi: Samfylking, Píratar og Viðreisn, fengu samtals 28 prósent atkvæða árið 2017. Þeir mælast nú saman með 32,6 prósent, eða 4,6 prósentustigum meira en í síðustu kosningum. Ljóst er að þessir flokkar þurfa að bæta við sig fylgi á næstu vikum ef þeir ætla sér í ríkisstjórn. Hið svokallaða Reykjavíkurmynstur er nú með 45,6 prósent fylgi og ef það myndi skipta út Viðreisn fyrir Framsóknarflokkinn færi fylgið upp í 47,3 prósent.
Gott gengi Sósíalistaflokksins er að höggva í fylgi Samfylkingarinnar, sem mælist undir kjörfylgi, og bæði frambjóðendur flokksins og stuðningsmenn eru farnir að hvetja vinstra fólk opinberlega til að „spreða ekki atkvæði á flokka“ sem vilji ekki taka þátt í myndun stórnar í anda Reykjavíkurmódelsins. Erfitt er að skilja þá herkvaðningu með öðrum hætti en að henni sé beint gegn Sósíalistaflokknum.
Flokkurinn kynnti kosningastefnu sína í gær, en þar eru sett fram loforð um kjarabætur eldri borgara, öryrkja og barnafjölskyldna. Auk þess boðar flokkurinn upptöku stóreignaskatta, hærri álögur á stærstu útgerðarfyrirtækin og metnaðarfyllri aðgerðir í loftslagsmálum.
Viðreisn sýnir á spilin um komandi helgi
Viðreisn er líklega ekki sátt með að vera komin undir tíu prósent markið á ný í síðustu kosningaspám. Þekkt nöfn hafa tekið sæti á listum flokksins, hann hefur tekið þátt í meirihlutasamstarfi í Reykjavík í næstum heilt kjörtímabil og er nú að fara í sínar þriðju þingkosningar. Viðreisn er því ekki nýr flokkur lengur.
Heimatilbúinn vandræðagangur í kringum val á listum og höfnun á stofnanda flokksins, yfirlýsingar varaformanns flokksins um að nýtt fiskveiðistjórnunarkerfi eigi ekki að skila ríkissjóði meiri tekjum og misskilningur formanns flokksins á spurningu í viðtali við Pál Magnússon hefur valdið Viðreisn erfiðleikum á síðustu vikum. Þrátt fyrir það er flokkurinn að mælast með 3,2 prósentustigum yfir því sem hann fékk í síðustu kosningum, en með minna fylgi en hann fékk í jómfrúar-kosningum sínum árið 2016. Viðreisn mun kynna kosningaáherslur sínar um komandi helgi.
Píratar eru að dala lítillega og mælast nú með 11,4 prósent fylgi í kosningaspánni. Það er þó yfir því sem flokkurinn fékk árið 2017 en undir því sem Píratar fengu árið 2016. Þeir samþykktu sína kosningastefnuskrá í júlí.
Eyða miklu en skila litlu
Sá flokkur sem hefur verið að eyða mestum fjármunum í að auglýsa á samfélagsmiðlum og er einnig duglegur að kaupahefðbundnar auglýsingar í íslenskum fjölmiðlum til að vekja athygli á sér, Flokkur fólksins, virðist ekki vera að hafa erindi sem erfiði enn sem komið er. Sú ákvörðun flokksins að raða þjóðþekktum tónlistarmanni, Jakobi Frímanni Magnússyni, í eitt forystusætið á listum hans fyrir komandi kosningar virðist heldur ekki hafa aukið fylgið sem neinu nemur. Flokkurinn skipti algjörlega um ásýnd í lok árs í fyrra þegar hann tók upp nýtt merki og nýja einkennandi liti.
Samkvæmt nýjustu kosningaspánni er afar tæpt að Flokkurinn nái yfir fimm prósenta þröskuldinn til að fá úthlutað jöfnunarmönnum, en hann gæti þó náð inn kjö0rdæmakjörnum mönnum í einhverjum kjördæmum.
Þær kannanir sem liggja til grundvallar nýjustu kosningaspánni eru eftirfarandi:
- Skoðanakönnun MMR í samstarfi við Morgunblaðið 18 - 24. ágúst (vægi 35,4 prósent)
- Skoðanakönnun Maskínu í samstarfi við Fréttastofu Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis 13 – 23. ágúst (20,2 prósent)
- Þjóðarpúls Gallup 29. júlí-15. ágúst (vægi 44,4 prósent)
Hvað er kosningaspáin?
Fyrir hverjar kosningar um allan heim birta fjölmiðlar gríðarlegt magn af upplýsingum. Þessar upplýsingar eru oftar en ekki tölfræðilegar, byggðar á skoðanakönnunum þar sem fólk hefur verið spurt hvernig það upplifir stjórnmálin og hvað það getur ímyndað sér að kjósa. Stjórnmálafræðingar og fjölmiðlar keppast svo við að túlka niðurstöðurnar og veita almenningi enn meiri upplýsingar um stöðuna í heimi stjórnmálanna.
Allar þessar kannanir og allar mögulegar túlkanir á niðurstöðum þeirra kunna að vera ruglandi fyrir hinn almenna neytanda. Einn kannar skoðanir fólks yfir ákveðið tímabil og annar kannar sömu skoðanir á öðrum tíma og með öðrum aðferðum. Hvor könnunin er nákvæmari? Hverri skal treysta betur? Svarið er oftar en ekki óljóst því vandinn er að hinn almenni kjósandi hefur ekki forsendur til að meta áreiðanleika hverrar könnunar.
Þar kemur kosningaspáin til sögunnar.
Kosningaspálíkan Baldurs Héðinssonar miðar að því að setja upplýsingarnar sem skoðanakannanir veita í samhengi. Fyrirliggjandi skoðanakannanir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosninga. Niðurstöður spálíkansins eru svo birtar hér á Kjarnanum reglulega í aðdraganda kosninga.
Lestu meira:
-
5. janúar 2023Ásmundur Einar Daðason staðið sig best allra ráðherra – Bjarni Benediktsson langverst
-
3. janúar 2023Samfylkingin ekki stærri hjá Gallup í tólf ár en Vinstri græn hafa aldrei mælst minni
-
21. desember 202242,1 prósent innflytjenda greiddu atkvæði í síðustu alþingiskosningum
-
26. nóvember 2022Allir formenn stjórnarflokkanna tapað umtalsverðu trausti á kjörtímabilinu
-
21. nóvember 2022Tíð ríkisstjórnarskipti og kórónuveiran hafa stóraukið nýtingu fjáraukalaga
-
19. nóvember 2022Samfylkingin hefur næstum tvöfaldað fylgið og andar ofan í hálsmálið á Sjálfstæðisflokki
-
27. október 2022Guðlaugur Þór horfir til þess að fella Bjarna
-
21. október 2022Kristrún Frostadóttir verður ein í framboði til formanns Samfylkingarinnar
-
20. október 2022Píratar og Samfylkingin hafa samanlagt bætt við sig tíu prósentustigum á kjörtímabilinu
-
16. október 2022Guðmundur Árni býður sig fram til varaformanns en Heiða hættir við framboð