Bjarney Lúðvíksdóttir

Mörg börn fá ekki stuðning við hæfi – og skólagangan verður þar af leiðandi „hreint helvíti“

Margt hefur breyst í aðstæðum einhverfra á Íslandi á undanförnum áratugum en ýmislegri þjónustu er þó ábótavant. „Við viljum að allir eigi rétt til síns lífs á þeim forsendum sem þeir vilja en ekki á forsendum annarra,“ segir framkvæmdastjóri Einhverfusamtakanna. Ekki eigi að líta á einhverft fólk sem vandamál heldur leita lausna til að þjónusta börn jafnt sem fullorðna með þeirra þarfir í huga.

Breyt­ing­arnar hafa nátt­úru­lega gerst allt of hægt, en þetta mjakast. Það sem mér finnst mik­il­væg­ast og frá­bær­ast í þessu öllu saman er að ein­hverfir sjálfir eru að taka völdin í sínar hendur með kröfur og kennslu. Þau eru að kenna okkur svo afskap­lega mikið um það hvað er að vera ein­hverf­ur. Okkar sýn á ein­hverf­una er orðin allt önnur í dag. Það kemur með fólk­inu sem segir frá.“

Þetta segir Sig­rún Birg­is­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri Ein­hverfu­sam­tak­anna, í sam­tali við Kjarn­ann þegar hún er spurð út í þær breyt­ingar sem orðið hafa á síð­ustu ára­tugum varð­andi við­horf til ein­hverfra.

Auglýsing

Ein­hverfu­sam­tökin voru stofnuð árið 1977 en það voru for­eldrar og fag­fólk á barna- og ung­linga­geð­deild (BUGL) sem börð­ust fyrir búsetu­úr­ræðum fyrir ein­hverfa. „Á þeim tíma fengu börnin grein­ingu þar og voru í inn­lögn vikum sam­an. Þetta fer auð­vitað allt öðru­vísi fram í dag. Þetta var byrj­unin að sam­tök­un­um.“

Segir hún að þekk­ing á ein­hverfu hafi verið komin mjög skammt á veg á þessum tíma og þeir einu sem fengu grein­ingu hafi verið með veru­lega mikil ein­kenni. Yfir­leitt hafi þar verið um að ræða þroska­skerð­ingu og sjaldn­ast höfðu þessir ein­stak­lingar tal­mál. „Þetta voru krakkar sem þurftu þjón­ustu allan sól­ar­hring­inn. Síðar kom það í ljós að rófið er miklu fjöl­breytt­ara – alveg gjör­ó­líkt. Og kannski þá breytt­ust bar­áttu­málin í kjöl­far­ið.“

Áherslu­málin núna eru ein­fald­lega þau, að sögn Sig­rún­ar, að unnið sé eftir samn­ingum Sam­ein­uðu þjóð­anna um rétt­indi fatl­aðs fólks og öðrum mann­rétt­inda­sátt­mál­um. „Og að okkar hópur sé ein­fald­lega við­ur­kennd­ur. Þau eru bara með annan tauga­þroska – öðru­vísi tauga­þroska og þau eiga að fá að vera eins og þau eru í sam­fé­lagi sem kemur til móts við þarfir þeirra.“

Sig­rún hefur lengi starfað fyrir sam­tökin en hún gekk í þau fyrir 24 árum. Fljót­lega fór hún í stjórn sam­tak­anna og síðar fór hún að vinna á skrif­stof­unni þar sem hún hefur starfað síð­an.

Fólk var hrætt við ein­hverfa hér áður fyrr

Varð­andi for­dóma í garð ein­hverfs fólks þá segir Sig­rún að hún hafi orðið vör við það hér á árum áður að fólk hafi verið hrætt við ein­hverfa. „Það var hrætt við þá sem voru öðru­vísi og ég tala nú ekki um þegar fólk var með steldar hreyf­ing­ar, blak­andi höndum og ýmis­legt. Það var litið horn­auga. Umburð­ar­lyndi hefur sem betur fer aukist,“ segir Sig­rún.

En betur má en duga skal því enn má greina for­dóma í garð ein­hverfra. Sig­rún segir að þeir lýsi sér í því að fólk sé meðal ann­ars talið skrít­ið. „En erum við ekki bara öll svo­lítið skrít­in? Við höfum öll okkar sér­kenni þannig að ég sé ekki hvers vegna það ætti að hlið­ar­setja ein­hvern hóp út af því.“

Hún bætir því við að von­andi endum við á góðum stað þar sem allir eru við­ur­kenndir – algjör­lega óháð grein­ing­um, húð­lit eða kyn­ferði. „Það er það sem við viljum nátt­úru­lega. Við viljum að allir eigi rétt til síns lífs á þeim for­sendum sem þeir vilja en ekki á for­sendum ann­arra.“

Auglýsing

Umhverfið verður að bjóða þessi börn vel­komin

Nokkur umræða hefur átt sér stað um hug­takið skóla án aðgrein­ingar og er flestir sam­mála um að hug­myndin sé góð. „Hug­myndin er frá­bær, að allir eigi sinn rétt á því að fara í sinn heima­skóla á sínum for­send­um. En hverjar eru þær for­send­ur?“ spyr Sig­rún. „Um­hverfið verður að bjóða þessi börn vel­kom­in.“

Hvernig upp­lifið þið í sam­tök­unum reynsl­una af skóla án aðgrein­ing­ar?

Sig­rún segir að sum ein­hverf börn hafi þrí­fist ágæt­lega í almennum bekk og fengið þann stuðn­ing sem þau þurfa og séu mjög ánægð með sína skóla­göngu. „En því miður er það alls ekki algild regla því það eru einnig mörg börn sem hafa ekki fengið stuðn­ing við hæfi – bara langt frá því. Og skóla­gangan hefur verið hreint hel­víti. Bæði af því að bekkirnir eru of fjöl­mennir og áreiti of mik­ið; hávaði og lýs­ingin óþægi­leg. Og það er ekki tekið til­lit til þeirra þarfa. Oft er náms­efnið ekki við hæfi því að það þarf að byggja það á áhuga­sviði barna. Þau sjá oft ekki til­gang­inn með að læra eitt­hvað sem þau hafa ekki áhuga á.“

Þannig sé hægt að semja lestr­ar- og stærð­fræði­bækur út frá áhuga­sviðum barna. „En það tekur auð­vitað tíma og hafa kenn­arar tíma í slíkt? Við vitum að það er alls ekki næg mönnun í skólum og sér­stak­lega ekki varð­andi sér­hæft starfs­fólk, þroska­þjálfa og iðju­þjálfa til dæm­is. Þannig að það er mjög mik­il­vægt að huga að þessum þátt­um: hús­næði, mann­afla og svo við­horf­um,“ segir hún.

„Manni fynd­ist að kenn­ar­inn þyrfti alltaf að hafa grunn­þekk­ingu á ein­hverfu. Mér fynd­ist það bara mjög eðli­leg krafa á kenn­ara að ef hann þarf að þjón­usta þetta barn og kenna því þá þarf hann að hafa eitt­hvað í hönd­unum til þess að geta gert það og grunn­þekk­ing er algjör nauð­syn. En hann þarf líka að fá stuðn­ing sér­hæfðs starfs­fólks til þess að geta búið barn­inu þann ramma sem því líður vel í. Og þar kemur iðju­þjálfun til dæmis inn í, og þroska­þjálfun til að setja upp pró­gramm og aðstæð­ur. Svo eru það nátt­úru­lega sér­kenn­ar­arnir en það þarf að búa til náms­efni sem hæfir barn­inu ef það fylgir ekki almennu náms­skránni og miðað við það að kenn­arar eru með 25 börn í bekk þá eru þeir ekki að fara að sinna þessu. Það er ekki raun­hæft.“

Svör frá Reykja­vík­ur­borg ekki nægi­lega góð

Kjarn­inn greindi frá því í lok apríl að fá útvalin börn fengju laus pláss í sér­deild fyrir börn með ein­hverfu næsta skólaár í Reykja­vík. Alls bár­ust 38 umsóknir í slíkt úrræði – sem er met­fjöldi – en ein­ungis 8 pláss eru laus þetta árið. Nú hafa for­eldrar margra barna fengið svo­kall­aða „fyr­ir­hug­aða synj­un“ frá Reykja­vík­ur­borg og má greina mikla reiði og örvænt­ingu hjá þeim.

Hvernig hefur ábend­ingum ykkar verið tekið varð­andi þessi mál?

Sig­rún segir að þau heyri ekki mik­ið, eða eig­in­lega bara ekki neitt. „Ég hef einmitt verið í sam­bandi við for­eldra tveggja þess­ara barna sem standa út af. Þau eru svo sem búin að heyra frá Reykja­vík­ur­borg en þar er lofað öllu fögru að það verði gengið í verkið og barn­inu búin sú aðstaða sem það þarf í skól­an­um. En þessir for­eldrar eru ekki að sjá að það sem er í boði sé að ganga upp.“ Enn sem komið er séu svörin alls ekki nægi­lega góð frá Reykja­vík­ur­borg.

Bendir Sig­rún á að sum þess­ara 30 barna þurfi mik­inn stuðn­ing í námi. Þau hafa til dæmi ekki tal­mál og að setja þau í bekk með 25 öðrum börnum – jafn­vel stærri bekk – sé óboð­legt fyrir þau.

Orðið „sér­deild“ getur haft nei­kvæða merk­ingu

Sig­rún bendir á annan vinkil varð­andi þetta mál. „Skóli án aðgrein­ingar er nátt­úru­lega almenn stefna en sumir vilja meina að setja barn í sér­deild sé ekki boð­legt í ljósi samn­ings Sam­ein­uðu þjóð­anna um rétt­indi fatl­aðs fólks. Ég tel að þetta orð „sér­deild“ hafi nei­kvæða merk­ingu en það er miklu æski­legra að kalla þetta náms­ver.“

Enn fremur bendir hún á að börn þurfi ekki að vera í sér­deild/­náms­veri allan dag­inn. „Mark­miðið er að barnið eigi sinn heima­bekk í þeim fögum sem það ræður við og þeim aðstæðum sem það ræður við. En þegar aðstæður bjóða ekki upp á það að barnið sé að höndla að vera inn í bekk þá fari það inn í sér­deild og taki þau fög þar inni. Sér­deild­irnar byggja á þessu. Þannig að barn getur til dæmis verið 18 tíma á viku inn í bekk og rest­ina inn í sér­deild – eða bara hvernig sem er. Þetta á að fara eftir þörfum hvers og eins.“

Hún segir að þau séu alls ekki að fara fram á að það sé byggður sér­skóli heldur að börnin hafi þann aðbúnað sem þau þurfa. „Sumir þurfa ekki á sér­deild að halda en þau þurfa það sem við myndum kalla „quiet room“ eða „hljótt her­berg­i“. Slík her­bergi eru víða erlendis en þetta er afdrep þar sem er öryggi og róleg­heit – þar sem þau geta dregið sig út úr bekknum þegar þau eru komin í van­líð­an. Þar geta þau róað sig niður og kúp­lað sig frá í þessu her­bergi. Þá ætti að vera starfs­maður þar sem passi upp á að allt sé eins og það á að ver­a.“

Verið er að reyna að koma þess­ari hug­mynd á kopp­inn en Sig­rún veit ekki til þess að ein­hver skóli hér á landi sé kom­inn með slíkt her­bergi. „Það er kannski ein­hvers staðar komið en þetta þyrfti líka að vera á vinnu­stöð­um. Við sjáum það þegar við förum á ráð­stefnur erlendis sem ein­hverft fólk sækir að þar er yfir­leitt alltaf boðið upp á slíkt her­bergi. Það er einnigt oft boðið upp á sér­staka aðstöðu svo þau geti mat­ast þar sem ekki er mikil lykt og mat­ur­inn er settur fram á ákveð­inn hátt svo þau eigi auð­veld­ara með að velja.“

Ein­hverft fólk er með allt öðru­vísi skynjun en annað fólk og segir Sig­rún að það þurfi öðru­vísi aðstæð­ur. „Þetta vantar ennþá hér – þessa hugs­un.“

Sigrún bendir á að þjónusta við fatlað fólk ætti ekki að vera vandamál og að leita ætti lausna í staðinn fyrir að líta á hana sem slíkt.
Bára Huld Beck

Bakslag á hinum Norð­ur­lönd­unum

Hvernig stendur Ísland sig í sam­an­burði við önnur lönd?

Sig­rún segir að við stöndum okkur þol­an­lega vel í alþjóð­legum sam­an­burði en bætir því við að ákveðið bakslag hafi átt sér stað í þessum málum á hinum Norð­ur­lönd­unum und­an­farin ár.

„Sví­þjóð er eig­in­lega það land sem er komð lengst og er að reyna að halda þeirri stöðu. En í Dan­mörku er til dæmis verið að byggja risa búsetu­úr­ræði í stað þess að kaupa stakar íbúðir á almennum mark­aði svo fatlað fólk hafi meira val um hvar það vill búa. Nor­egur er að fara aftur í það far núna en á tíma­bili voru byggðar fjórar til sex íbúðir í kjarna fyrir ein­hverft fólk en núna eru þeir aftur komnir í stórar bygg­ing­ar. Það er aft­ur­för.“ Hér á landi eru byggðir litlir íbúða­kjarnar en einnig keyptar íbúðir í almennu blokk­ar­hús­næði.

Telur hún þetta vera óhugn­an­lega þró­un.

Breyta þarf orð­ræð­unni

Annað sem veldur Sig­rúnu áhyggjum er að sum Evr­ópu­ríki bjóða nú þjón­ustu fyrir fatlað fólk út. „Meira að segja þjón­ust­una í búsetu­úr­ræðum og það er kannski á tveggja til fjög­urra ára fresti sem þeir bjóða út og þá þarf kannski að skipta algjör­lega um starfs­fólk. Þannig að þetta getur verið mjög stremb­ið.“

Telur hún að þrátt fyrir þessa þróun erlendis þá sé ekki sami hugs­un­ar­háttur hér á landi. „Sem betur fer,“ segir hún. „Við viljum líka breyta orð­ræð­unni. Við viljum ekki tala um „bú­setu­úr­ræði“ – við viljum bara tala um heim­ili fólks. Og eins „sér­kennsla“ – þetta er bara kennsla á annan hátt.“

Hún segir að þjón­usta við fatlað fólk ætti ekki að vera vanda­mál og að leita ætti lausna í stað­inn fyrir að líta á hana sem slíkt.

Auglýsing

Krakk­arnir úti­lok­aðir frá jafn­öldrum sínum

Hvað með frí­stund­ina, hvernig finnst þér þjón­ustan við ein­hverfu börnin þar?

Sig­rún segir að það sé mjög mis­jafnt hvernig gengur hjá þeim í frí­stund­inni. „Sum börn hafa fengið ágætis stuðn­ing í sinni frí­stund og liðið alveg þokka­lega þar. Yngri krakk­arnir eru almennt með öðrum börnum í frí­stund en síðan aftur á móti þegar þau fara í fimmta bekk þá fara þau í sér frí­stund – svo­kall­aða frí­stunda­klúbba fyrir eldri börn og ung­menni, alveg upp að 16 ára.

Ég er ekki alveg nógu sátt við það því að mér finnst þessir krakkar of úti­lok­aðir frá jafn­öldrum sín­um. Væri ekki hægt að búa til ein­hver prógrömm í mið­stöðv­unum þar sem jafn­aldrar eru hvort sem er að koma sam­an? Þessir krakkar gætu þá fengið að vera með þar. Ekki bara í ein­hverju sér­úr­ræð­i,“ segir hún.

Svo fara þessir ein­stak­lingar í fram­halds­skóla, hvað ger­ist þá?

Sig­rún bendir á að í mörgum fram­halds­skólum eru svo­kall­aðar starfs­brautir og segir hún að þar sé víða unnið gott starf. „Í mörgum til­fellum er það þannig að þú getur farið út í almenna áfanga ef þú ræður við það. Það er reyndar ekki stuðn­ingur með inn í þá tíma en það er hægt að fara í þessa áfanga. Það hefur mælst mjög vel fyrir – þannig að þú ert ekki endi­lega fastur inn á starfs­braut­inni allan dag­inn. Það er flott starf sem fer þarna fram.“

Seg­ist hún þó hafa viljað sjá aðeins meiri fjöl­breytni í því þegar ein­stak­lingur er á mörk­unum við að ráða við almennt nám, þ.e. að hann fengi meiri aðstoð til þess að þurfa ekki að fara á starfs­braut.

„Svo myndi maður vilja sjá meiri fjöl­breytni í námsúr­vali fyrir þennan hóp. Ef ein­hvern til dæmis langar að fara í raf­virkj­ann eða smið­inn en nær ekki að taka próf í slíku námi þá væri hægt að útbúa nám þar sem hægt væri að ger­ast aðstoð­ar­maður raf­virkja eða smiðs. Búa til fjöl­breytt­ari lausnir – hafa meira úrval,“ segir hún.

Er nóg af plássum á starfs­brautum í fram­halds­skól­un­um?

Sig­rún segir að það eigi að vera nægi­lega mörg pláss fyrir alla þá sem þurfa á slíkum brautum að halda. „Það á að vera, segi ég. Fyrir svona þremur til fjórum árum stóðu tveir út af og átti þeir ekki að fá inn í skóla að hausti til. Á end­an­um, eftir smá her­ferð, komust þeir inn í októ­ber en þá var búið að búa til pláss fyrir þá.“

Gagn­rýnir óviss­una

Varð­andi sér­deildir og sér­kennslu bendir Sig­rún á að þegar börn eru að klára leik­skóla þá sé nákvæm­lega vitað hvaða þjón­ustu þau þurfi á að halda í grunn­skóla. „Samt kemur það alltaf jafn mikið á óvart hversu mörg börn þurfa þjón­ustu. Síðan fara þau í gegnum grunn­skóla, í 10 ár, og hvers vegna í ósköp­unum er ekki búið að gera áætlun sem nýt­ist tvö síð­ustu árin um hvað tekur við?“ spyr hún.

Sigrún spyr hvers vegna þessi hópur þurfi að búa við mikla óvissu um hvað taki við í skólakefinu.
Pixabay

Gagn­rýnir hún þessa miklu óvissu. „Af hverju þurfa þessir krakkar að vera í óvissu svona lengi? Þetta er hópur sem þolir einna síst að vera í óvissu. Eins með grunn­skól­ana, þarna standa 30 börn út af og for­eldr­arnir vita ekki hvar þau lenda næsta haust. Þetta er ofboðs­lega óþægi­leg­t.“

Sig­rún bendir á að leik- og grunn­skólar hafi mörg ár til þess að búa til lista og und­ir­búa hvert næsta skref ætti að verða.

„Við höfum lengi bent á það að það ætti að vera til heild­ar­á­ætlun þegar barn fær grein­ingu – áætlun fyrir næstu ár. Það gæti verið skamm­tíma­á­ætlun næstu mán­uði og ár og svo þyrfti einnig að vera til lang­tíma­á­ætl­un. Hún ætti að vera lif­andi plagg sem tæki breyt­ingum eftir þroska og áhuga­svið­um. Halda þessu alltaf í end­ur­skoð­un. Ekk­ert slíkt er í gang­i,“ bendir hún á.

Öll töl­fræði í molum

Hver eru helstu áherslu­málin hjá sam­tök­unum núna?

„Það eru nátt­úru­lega skóla­málin og svo atvinnu­mál­in,“ segir Sig­rún og bætir því við að nú þurfi virki­lega að vinna í þeim mál­efn­um. Hún útskýrir að engar tölur sé að fá hér inn­an­lands yfir atvinnu­þátt­töku ein­hverfra. Erlendis séu töl­urnar skugga­legar en þar er atvinnu­þátt­takan mjög lítil miðað við tölur um þátt­töku ann­arra hópa fatl­aðs fólks.

Þá bendir hún á að skrán­ing hér­lendis sé mjög slök. „Það eru til tölur yfir börn sem hafa fengið grein­ingu á BUGL, Grein­ing­ar­stöð og Þroska- og hegð­un­ar­stöð en þeir sem fá grein­ingar á stofum út í bæ eru ekki endi­lega skráðir – og þar fær mik­ill fjöldi full­orð­inna grein­ing­ar. En það eru ekki til neinar skrár yfir það. Þannig að öll töl­fræði á bak við þennan hóp er í raun­inni í mol­u­m,“ segir hún.

Vegna þessa sé mjög erfitt að gera kann­anir eða fá heild­ar­sýn yfir aðstæður ein­hverfra á Íslandi. Þetta verði að laga.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiViðtal