Rannsóknir vegna Hvalárvirkjunar „áfram á fullu“
Áfram er unnið að því að Hvalárvirkjun í Árneshreppi verði að veruleika. Margar hindranir eru þó í veginum sem gætu haft áhrif á áformin, m.a. fyrirhugaðar friðlýsingar, landamerkjadeilur og þjóðlendukröfur. Málið liggur því ekki bara og sefur, líkt og oddviti hreppsins sagði nýverið.
Vísindamenn á vegum Vesturverks voru við rannsóknir á Ófeigsfjarðarheiði vegna fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar í lok apríl þrátt fyrir að rannsóknarleyfi frá Orkustofnun sé útrunnið og nýtt leyfi ekki enn verið gefið út. „Við erum með rannsóknar- og nýtingarsamning við landeigendur og stundum árvissar rannsóknir með mælakerfi á vatnasviði virkjunarinnar,“ segir Ásbjörn Blöndal, stjórnarformaður Vesturverks og framkvæmdastjóri þróunar hjá HS Orku, við Kjarnann. „Rannsóknarleyfið frá Orkustofnun er meira formleg heimild og erum við með það í vinnslu eftir ábendingar frá stofnuninni. En, sem sagt rannsóknir áfram á fullu og áætlanir hafa ekkert breyst. Áfram er unnið að virkjanaáformum.“
Rannsóknarleyfi Orkustofnunar vegna Hvalárvirkjunar rann út í lok mars í fyrra. Ósk um framlengingu þess barst of seint, ekki fyrr en í lok maí, og stofnunin komst að því sækja þyrfti um nýtt leyfi. Það gerði Vesturverk í október.
Í byrjun janúar sendi stofnunin Vesturverki svarbréf þar sem komið var á framfæri ákveðnum athugasemdum um umsóknina. Var m.a. farið fram á að gefin yrði upp hnitaskrá yfir hið áformaða rannsóknarsvæði. Engin afmörkun er tilgreind í umsókn Vesturverks, hvorki í orðum né með hnitum. „Þetta er eitt af því sem kannski meira hefur verið lagt út frá nú upp á síðkastið, eftir því sem aðgengi að upplýsingum og gögnum hefur batnað,“ útskýrir Kristján Geirsson, verkefnastjóri hjá Orkustofnun. „Rannsóknarleyfi veitir jú nokkuð víðtækar heimildir um rannsóknir, umgang, umferð og afnot af landi,“ heldur hann áfram og vísar í því sambandi í auðlindalög. „Við höfum því lagt upp úr því að fyrir liggi – eftir því sem aðgengilega upplýsingar gefa færi á – á hvaða svæðum áformað er að rannsóknir fari fram.“
Kort og hnitaskrá af rannsóknarsvæði fyrir Hvalárvirkjun var fylgiskjal hins nú útrunna rannsóknarleyfis. Það var fyrst gefið út árið 2015 og svo framlengt í tvígang. En síðan þá og ekki síst allra síðustu ár hafa komið upp nokkur vafamál um eignarhaldið á svæðinu sem og fleira sem gæti sett þau áform að virkja á Ófeigsfjarðarheiðinni í uppnám.
Friðun, þjóðlendukrafa og landamerkjamál
Í fyrsta lagi hefur Náttúrufræðistofnun lagt til að friðun 26 fossa verði sett á framkvæmdaáætlun Náttúruminjaskrár. Þar á meðal eru fossar í Hvalá, Eyvindarfjarðará og Rjúkandi á Ströndum – ánum þremur sem vilji er til að nýta til virkjunarinnar.
Í öðru lagi hefur komið fram krafa óbyggðanefndar um að ríkið eigi landsvæði á vatnasviðinu sem Vesturverk vill nýta. Í þriðja lagi standa enn fyrir dyrum málaferli vegna deilna landeigenda á svæðinu um landamerki. Að auki hefur Náttúrufræðistofnun lagt til friðlýsingu Drangajökuls og nágrennis hans. Áhrifasvæði Hvalárvirkjunar yrði innan hins friðaða svæðis. Allt þetta, saman og sitt í hverju lagi, gæti gert út um áformin.
„Það vekur undrun að virkjunarkostur sem Alþingi hefur samþykkt að henti betur en aðrir virkjunarkostir til nýtingar, samkvæmt mati rammaáætlunar, skuli sæta atlögu af hálfu ríkisins/umhverfisráðuneytisins,“ skrifaði Ásbjörn stjórnarformaður í umsókn Vesturverks um nýtt rannsóknarleyfi í október. „Alþingi samþykkti að landsvæði og vatnasvið sem fylgdi virkjun Hvalár skyldi ekki friða, annars hefði virkjunarkosturinn fengið röðun í verndarflokki.“
Vesturverk hyggst gera athugasemd við friðunartillögur og jafnframt leggja áherslu á að landeigendamál verði útkljáð og þeirri óvissu eytt.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson benti árið 2018 á það í viðtali við mbl.is, er hann var umhverfisráðherra, að flokkun virkjanahugmynda í rammaáætlun væri ekki meitluð í stein. Hægt er að hrófla við flokkun í meðförum þings allt þar til virkjanaleyfi hefur verið gefið út fyrir kosti í nýtingarflokki og kostir í verndarflokki verið friðlýstir með lögum. Ekkert virkjunarleyfi hefur enn verið gefið út fyrir Hvalárvirkjun.
Hvalárvirkjun hefur í um áratug verið mjög umdeild framkvæmd, ekki síst í hinu víðfeðma en fámenna sveitarfélagi Árneshreppi. Þar eru nú 42 manneskjur með lögheimili.
„Ég held að það séu allir búnir að segja það sem þeir vilja segja í þessu Hvalárvirkjunarmáli,“ sagði Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps, í viðtali í kosningahlaðvarpi RÚV nýverið. Eva hefur lengi verið meðal ötulustu stuðningsmönnum virkjunarinnar í hreppnum og gefur áfram kost á sér í því persónukjöri sem fram mun fara í sveitarstjórnarkosningunum næstu helgi. „Ég veit ekkert hvort að það verði nokkurn tímann af þessari virkjun og það veit það sjálfsagt enginn hérna í sveitinni,“ segir hún við RÚV. „Þannig að þetta mál liggur bara og sefur. Ég held að við séum nokkurn veginn búin að koma þessu út úr umræðunni. Þetta er ekkert í okkar höndum, þannig lagað. Eins og þetta er núna þá liggur þetta bara og það er ekkert að gerast.“
Að byggja eða byggja ekki
Eva hefur ríka ástæðu til að tala um að Hvalárvirkjun liggi í dvala þó að svör Vesturverks við spurningum Kjarnans nú séu á annan veg. Síðari hluta ársins 2020 ákváðu HS Orka og dótturfélagið Vesturverk að hægja verulega á verkefninu. Það var aldrei slegið að fullu út af borðinu en Ásbjörn sagði engu að síður í samtali við Kjarnann á þessum tíma að rannsóknir næstu ára ættu að bæta þann grunn sem ákvörðun um „að byggja eða byggja ekki“ yrði tekin á. Þá um vorið hafði skrifstofu Vesturverks á Ísafirði verið lokað og starfsmönnum sagt upp. Til hafði staðið að hefja undirbúningsframkvæmdir um sumarið en af þeim varð ekki.
Á þessum tíma, skömmu eftir að heimsfaraldurinn skall á, var ástæða frestunarinnar m.a. sögð sviptingar á raforkumarkaði. Eftirspurn eftir raforku hafði einfaldlega minnkað. Í umsókn sinni um nýtt rannsóknarleyfi í haust skrifaði Ásbjörn að lágt raforkuverð setti auknar kröfur á ný virkjunarverkefni, þar sem erfiðara væri að ná viðunandi arðsemi af verkefnunum. „Framkvæmdasvæði Hvalárvirkjunar er auk þess krefjandi, með tilliti til veðurskilyrða og framkvæmdatíma, og mun Vesturverk á rannsóknartímabilinu skoða og meta lausnir sem gætu lækkað framkvæmdakostnað. Vesturverk telur engu að síður að Hvalárvirkjun sé mikilvægur virkjunarkostur fyrir raforkukerfi landsins, [hafi] mikla miðlunargetu, framkvæmdasvæðið er fjarri eldsumbrotum og jarðskjálftasvæðum og hefur mjög jákvæð áhrif á raforkukerfi Vestfjarða.“
Nú er aukin eftirspurn eftir raforku áberandi í umræðunni enda afurðaverð málmbræðslna, stórnotenda íslenskrar orku, að hækka og orkusamningar þeirra við Landsvirkjun fullnýttir. Nýir aðilar í gagnaversiðnaði vilja líka komast að. Iðnaði þar sem gröftur eftir rafmynt er stór þáttur í starfseminni. Er þá ónefnd umræðan um orkuskiptin en skiptar skoðanir eru um hvort virkja þurfi sérstaklega til þeirra.
En það var ekki bara orkuframleiðsla sem virkjanasinnar í Árneshreppi horfðu hýru auga til þegar sem mest var rætt um Hvalárvirkjun. Þeir vonuðu að betri samgöngur, betri fjarskipti og viðhald og uppbygging í sveitarfélaginu myndi fylgja framkvæmdunum.
Nokkuð hefur þokast í þessum verkefnum síðustu misseri þrátt fyrir að engin sé virkjunin. Lagning ljósleiðara og áframhaldandi vinna við lagningu þriggja fasa rafmagns hófst í fyrra. Vegagerðin er að leggja lokahönd á umhverfismat nýs vegar yfir Veiðileysuháls, einn helsta farartálmann um hreppinn að vetrarlagi. Í vetur stóð svo yfir tilraunaverkefni Vegagerðarinnar um reglulegan snjómokstur yfir háveturinn sem lengi hefur verið af skornum skammti. Í síðustu viku fékk Árneshreppur svo næsthæsta styrkinn við úthlutun úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða, styrk sem mun nýtast til að bæta öryggismál og aðgengi gesta að höfninni í Norðurfirði.
Lesa meira um Hvalárvirkjun
-
6. júlí 2022Barón og eigendur Ófeigsfjarðar sýknaðir í landamerkjamáli
-
10. maí 2022Rannsóknir vegna Hvalárvirkjunar „áfram á fullu“
-
9. desember 2021Hvað er svona merkilegt við þessa Dranga?
-
7. desember 2021Rannsóknarleyfi Hvalárvirkjunar útrunnið
-
19. september 2020Megi sú hönd visna
-
14. september 2020Auður Árneshrepps
-
4. september 2020Stjórnarformaður Vesturverks: Hægt að bæta afhendingaröryggi án Hvalárvirkjunar
-
7. maí 2020Vesturverk segir upp starfsfólki og lokar skrifstofunni
-
17. apríl 2020Vesturverk: Við höldum okkar striki
-
17. apríl 2020Höfða landamerkjamál á Ströndum sem gæti sett áform um Hvalárvirkjun í uppnám