Bára Huld Beck

Skammarlegt að heildarsýn vanti fyrir fötluð ungmenni – „Ömurleg og óásættanleg staða“

Þroskahjálp hefur ítrekað óskað eftir fundi með menntamálaráðherra til að ræða stöðu fatlaðra ungmenna sem eru að stíga sín fyrstu skref í framhaldsskóla en ekki haft erindi sem erfiði. Samtökin gagnrýna skort á heildarsýn í málaflokknum en á hverju vori bíður fjöldi fatlaðra ungmenna í algjörri óvissu um framtíð sína.

„Það er skammar­legt að það sé engin heild­ar­sýn og plan fyrir þessi ung­menn­i,“ segir Sara Dögg Svan­hild­ar­dótt­ir, verk­efna­stjóri sam­hæf­ingar náms­fram­boðs og atvinnu­tæki­færa hjá Þroska­hjálp, en ár eftir ár þurfa mörg fötluð ung­menni að bíða milli vonar og ótta eftir að fá að vita hvort þau kom­ist inn á starfs­brautir í fram­halds­skólum eftir að hafa lokið grunn­skóla­göngu sinni.

Fyrr í sumar voru í kringum 20 ung­menni enn í óljósri stöðu varð­andi það hvort þau færu í fram­halds­skóla eða í hvern en sam­kvæmt upp­lýs­ingum Kjarn­ans hafa þau nú fengið úrlausn sinna mála. Sara Dögg segir að unnið hafi verið hörðum höndum að finna úrræði fyrir þessi ung­menni og „að redda þessu“ – en að þetta sé vond staða að vera í. „Burt séð frá því hvort kerfið sé að gera sitt allra besta þá er þetta ömur­leg og óásætt­an­leg staða fyrir ein­stak­ling­inn og for­eldra.“

Starfs­braut­irnar komnar að mörkum varð­andi nem­enda­fjölda

Sam­kvæmt svörum frá Mennta­mála­stofnun við fyr­ir­spurn Kjarn­ans tókst að útvega öllum umsækj­endum á starfs­braut úrræði en nokkrir nem­endur lentu „því miður í því að vera boðið pláss ann­ars staðar heldur en þeir og for­sjárað­ilar þeirra hefðu kos­ið“.

Auglýsing

Nokkuð erf­ið­lega gekk að finna öllum nem­endum sem sótt höfðu um á starfs­braut pláss í vor á höf­uð­borg­ar­svæð­inu og þar spil­uðu nokkrir þættir inn í, að því er fram kemur í svari stofn­un­ar­inn­ar.

Í fyrsta lagi hafi nokkrir af þeim skólum sem starf­rækja starfs­brautir talið sig ekki geta tekið við eins mörgum nem­endum og á fyrri árum vegna pláss­leys­is. Starfs­braut­irnar hafi verið komnar að mörkum varð­andi nem­enda­fjölda. Í öðru lagi hafi starfs­braut­ar­nem­end­um, sam­kvæmt tölum Mennta­mála­stofn­un­ar, farið fjölg­andi und­an­farin ár, eða um það bil 19 pró­sent síðan 2017. Í þriðja lagi hafi óvenju­hátt hlut­fall nem­enda sótt um á starfs­braut árið 2021 eða um 4,17 á lands­vísu sam­an­borið við 3,51 árið á und­an. Erfitt sé að skýra þennan mun nákvæm­lega.

Fá engin svör frá ráðu­neyt­inu

Þroska­hjálp óskaði eftir fundi með Lilju Alfreðs­dóttur mennta- og menn­ing­ar­mála­ráð­herra í vor þegar ljóst var að mörg fötluð ung­menni bjuggu við óvissu um fram­tíð sína – en sam­tökin hafa enn ekk­ert svar fengið eða boð á fund. „Við höfum marg­ít­rekað við ráðu­neytið að fá þennan fund, ann­ars vegar um þetta ferli hvernig inn­ritað sé inn á starfs­braut­irnar og hins vegar frí­stunda­úr­ræði fyrir þessi ung­menn­i,“ segir Sara Dögg.

Ekki er ein­ungis um að ræða óvissu varð­andi skóla­setu á fram­halds­skóla­stigi heldur hvort þessi ung­menni fái pláss í frí­stund eftir skóla á dag­inn. Hitt húsið heldur uppi frí­stund fyrir ung­menni búsett í Reykja­vík frá 16 til 20 ára ald­urs.

Á vef Hins húss­ins segir að þau bjóði upp á skóla­tengt frí­stunda­úr­ræði fyrir ung­menni með fötlun sem stunda nám á starfs­brautum fram­halds­skól­anna. Meg­in­mark­mið starfs­ins sé að stuðla að virkni og félags­legri þátt­töku ung­menna í frí­stund­um. Í starf­inu sé nærum­hverfið notað að þjálfa ung­mennin í sjálf­stæði, félags­færni og sam­skipta­færni. Starf­semin byggi á ein­stak­lings­mið­aðri þjón­ustu þar sem reynt sé að vinna með styrk­leika hvers og eins og ávallt sé reynt að koma til móts við ólíkar þarfir og áhuga ung­menn­anna.

Sara Dögg segir að upplýsingaflæðið til foreldra sé nánast ekkert. „Þessu fylgir gríðarlega mikil breyting og það er algjört happadrætti hvort barnið þitt lendi með félögum sínum í skóla eða ekki.“
Bára Huld Beck

Stórt skref að fara úr grunn­skóla yfir í fram­halds­skóla

Sara Dögg segir aftur á móti að úrræðið sé meira og minna sprung­ið. „Eftir að þessir krakkar klára grunn­skóla þá fá þau jafn­vel ekki skól­ann sem þau velja og er þeim bara úthlutað ein­hverjum skóla. Bréfin og til­kynn­ing­arnar sem ber­ast for­eldum eru með tak­mörk­uðum upp­lýs­ing­um, engar útskýr­ingar á einu eða neinu og ekk­ert sam­ráð haft við for­eldra eða við­kom­andi ein­stak­linga. Og síðan fá þeir ekki að fylgja félögum sínum inn í frí­stund ef þeir eru ekki búsettir í Reykja­vík.“

Þetta hafi í för með sér að þessi ung­menni ein­angr­ist enn frek­ar. „Þá verða þau bara að bíða eftir því að vita hvaða úrræði stendur til boða.“

Hún bendir á að á hverju ári end­ur­taki sama sagan sig. „Það er ekk­ert sam­ráð og upp­lýs­inga­flæðið til for­eldra er meira og minna ekk­ert. Allir eru að bíða en þessi skil að fara frá Kletta­skóla eða úr öðru sér­tæku úrræði innan grunn­skól­anna yfir í fram­halds­skóla er mjög stórt. Þessu fylgir gríð­ar­lega mikil breyt­ing og það er algjört happa­drætti hvort barnið þitt lendi með félögum sínum í skóla eða ekki,“ segir hún og bætir því við að upp­lýs­inga­flæðið sé baga­legt.

Ekk­ert sam­tal um hvað koma skal

Starfs­braut­irnar fylgja ákveðnum inn­töku­reglum og geta þær verið ólíkar á milli skóla, að sögn Söru Dagg­ar. „Þær búa yfir mjög ólíku umhverfi og aðstæð­um. Þannig að það er auð­vitað bundið því hvað þær eru að bjóða upp á og hvaða skerð­ingar við­kom­andi ein­stak­lingur er með. Þetta þarf auð­vitað að meta og vega og það er fullur skiln­ingur á því.“

Það sem henni finnst aftur á móti óvar­lega unnið varð­andi ferlið „er að þessi ung­menni og aðstand­endur fá ekki þetta sam­tal um hvað verður í boði þegar það sem þú valdir er ekki það sem þú færð. Það er ekk­ert sam­tal og svo bara ein­hvern tím­ann löngu seinna ber­ast þær fréttir að þú hafir fengið einn inn í ein­hvern ákveð­inn skóla og ekk­ert meir. Sumir myndu segja að þetta gengi þannig yfir alla fram­halds­skóla­nema, að eng­inn geti verið öruggur með pláss en þessi hópur er nátt­úru­lega ein­stak­lega við­kvæmur og það er svo mikið í húfi. Þess vegna er stór­mál þegar við­kom­andi ein­stak­lingur fær ekki tæki­færi til að fylgja félögum sín­um. Þetta verður mjög flókið og yfir­þyrm­andi fyrir þau sem í því lenda.“

Það sama megi segja um frí­stund­ina sem tekur við eftir skól­ann á dag­inn. „Við hjá Þroska­hjálp höfum bent á að þetta sé að minnsta kosti ekki til þess að styðja við þessar fjöl­skyldur sem eru í þessu ströggli alla daga. Mér finnst svo með ólík­indum að kerfið taki ekki betur utan um þennan hóp og þetta ferli. Þetta er engin kjarneðl­is­fræð­i.“

Auglýsing

Þessi hópur alltaf „ein­hver afgangs­stærð“

Sara Dögg segir að á hverju ári liggi fyrir hvað hóp­ur­inn sem sækir um á starfs­brautum sé stór og í raun sé það vitað með margra ára fyr­ir­vara. „Það er verið að lofa fjöl­breyttu mennta­kerfi og það er alltaf verið að tala um menntun fyrir alla en svo er þessi hópur alltaf ein­hver afgangs­stærð – alveg sama hvað. Ein­hvern veg­inn næst aldrei að laga þetta og það er ein­fald­lega algjör­lega óþol­andi og óvið­un­and­i.“

Í kringum 50 krakkar útskrif­ast á hverju ári af starfs­braut­unum og telur hún að vegna þess að hóp­ur­inn er ekki stærri þá ætti að vera auð­velt að laga kerfið þannig að allir kæmust að við við­eig­andi starfs­braut­ir.

Vegna starfa hennar fyrir Þroska­hjálp hefur hún komið í marga fram­halds­skóla og segir hún að víða vanti full­nægj­andi hús­næði fyrir starfs­braut­irnar – og séu þær margar hverjar búnar að sprengja það utan af sér. Einnig telur hún að allir fram­halds­skólar ættu að vera með starfs­brautir en núna bjóða 23 skólar um land allt upp á slíkar braut­ir.

„Sumar þeirra eru mjög sér­hæfð­ar, við höfum til dæmis Mennta­skól­inn í Kópa­vogi sem er með starfs­braut sem er sér­stak­lega ætluð fyrir ein­hverf ung­menni. Ég veit að sú deild er orðin of lítil og verða þau að taka mikið fleiri en rýmið í raun býður upp á.“

Sara Dögg segir að alltaf sér verið að tala um að það eigi að mæta öllum og að kerfið sé til þess fallið að gera það – en svo einhvern veginn verði þessi hópur alltaf út undan.
Pexels

Talað um að mæta öllum – en svo sé það ekki í reynd

Eins og áður segir hafa þau hjá Þroska­hjálp ekk­ert svar fengið frá ráðu­neyt­inu varð­andi fund um þessi mál­efni. Sara seg­ist þó hafa náð sam­bandi við einn aðstoð­ar­mann mennta­mála­ráð­herra í sumar til að ítreka óskina um fund; til þess að fara í saumana á þessu ferli og kanna af hverju þetta færi end­ur­tekið í sama far­ið. „En við fengum ekki nein við­brögð nema það að málið væri í vinnslu. Við höfum ekki fengið neitt svar.“

Hún segir að henni sé veru­lega brugðið að ástandið sé alltaf við það sama. „Það er alltaf talað um að það eigi að mæta öllum og að kerfið sé til þess fallið að gera það en svo ein­hvern veg­inn verður þessi hópur alltaf út undan og þá verður ástandið veru­lega þreytt.

En þessi hópur er sem betur fer að alast upp í breyttu umhverfi þar sem gerðar eru kröfur um sama rétt til mennt­unar og þjón­ustu og aðrir búa við. Sjálf­sögð mann­rétt­indi sem við sem sam­fé­lag höfum ákveðið að virða með stað­fest­ingu mann­rétt­inda­sátt­mála Sam­ein­uðu þjóð­anna. Mennt­un­ar­tæki­færi ungs fatl­aðs fólks er eitt af þeim málum sem okkur virð­ist ganga allt of seint og illa að bæta. Þetta er eitt af stóru mál­un­um.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiViðtal