„Það er skammarlegt að það sé engin heildarsýn og plan fyrir þessi ungmenni,“ segir Sara Dögg Svanhildardóttir, verkefnastjóri samhæfingar námsframboðs og atvinnutækifæra hjá Þroskahjálp, en ár eftir ár þurfa mörg fötluð ungmenni að bíða milli vonar og ótta eftir að fá að vita hvort þau komist inn á starfsbrautir í framhaldsskólum eftir að hafa lokið grunnskólagöngu sinni.
Fyrr í sumar voru í kringum 20 ungmenni enn í óljósri stöðu varðandi það hvort þau færu í framhaldsskóla eða í hvern en samkvæmt upplýsingum Kjarnans hafa þau nú fengið úrlausn sinna mála. Sara Dögg segir að unnið hafi verið hörðum höndum að finna úrræði fyrir þessi ungmenni og „að redda þessu“ – en að þetta sé vond staða að vera í. „Burt séð frá því hvort kerfið sé að gera sitt allra besta þá er þetta ömurleg og óásættanleg staða fyrir einstaklinginn og foreldra.“
Starfsbrautirnar komnar að mörkum varðandi nemendafjölda
Samkvæmt svörum frá Menntamálastofnun við fyrirspurn Kjarnans tókst að útvega öllum umsækjendum á starfsbraut úrræði en nokkrir nemendur lentu „því miður í því að vera boðið pláss annars staðar heldur en þeir og forsjáraðilar þeirra hefðu kosið“.
Nokkuð erfiðlega gekk að finna öllum nemendum sem sótt höfðu um á starfsbraut pláss í vor á höfuðborgarsvæðinu og þar spiluðu nokkrir þættir inn í, að því er fram kemur í svari stofnunarinnar.
Í fyrsta lagi hafi nokkrir af þeim skólum sem starfrækja starfsbrautir talið sig ekki geta tekið við eins mörgum nemendum og á fyrri árum vegna plássleysis. Starfsbrautirnar hafi verið komnar að mörkum varðandi nemendafjölda. Í öðru lagi hafi starfsbrautarnemendum, samkvæmt tölum Menntamálastofnunar, farið fjölgandi undanfarin ár, eða um það bil 19 prósent síðan 2017. Í þriðja lagi hafi óvenjuhátt hlutfall nemenda sótt um á starfsbraut árið 2021 eða um 4,17 á landsvísu samanborið við 3,51 árið á undan. Erfitt sé að skýra þennan mun nákvæmlega.
Fá engin svör frá ráðuneytinu
Þroskahjálp óskaði eftir fundi með Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra í vor þegar ljóst var að mörg fötluð ungmenni bjuggu við óvissu um framtíð sína – en samtökin hafa enn ekkert svar fengið eða boð á fund. „Við höfum margítrekað við ráðuneytið að fá þennan fund, annars vegar um þetta ferli hvernig innritað sé inn á starfsbrautirnar og hins vegar frístundaúrræði fyrir þessi ungmenni,“ segir Sara Dögg.
Ekki er einungis um að ræða óvissu varðandi skólasetu á framhaldsskólastigi heldur hvort þessi ungmenni fái pláss í frístund eftir skóla á daginn. Hitt húsið heldur uppi frístund fyrir ungmenni búsett í Reykjavík frá 16 til 20 ára aldurs.
Á vef Hins hússins segir að þau bjóði upp á skólatengt frístundaúrræði fyrir ungmenni með fötlun sem stunda nám á starfsbrautum framhaldsskólanna. Meginmarkmið starfsins sé að stuðla að virkni og félagslegri þátttöku ungmenna í frístundum. Í starfinu sé nærumhverfið notað að þjálfa ungmennin í sjálfstæði, félagsfærni og samskiptafærni. Starfsemin byggi á einstaklingsmiðaðri þjónustu þar sem reynt sé að vinna með styrkleika hvers og eins og ávallt sé reynt að koma til móts við ólíkar þarfir og áhuga ungmennanna.
Stórt skref að fara úr grunnskóla yfir í framhaldsskóla
Sara Dögg segir aftur á móti að úrræðið sé meira og minna sprungið. „Eftir að þessir krakkar klára grunnskóla þá fá þau jafnvel ekki skólann sem þau velja og er þeim bara úthlutað einhverjum skóla. Bréfin og tilkynningarnar sem berast foreldum eru með takmörkuðum upplýsingum, engar útskýringar á einu eða neinu og ekkert samráð haft við foreldra eða viðkomandi einstaklinga. Og síðan fá þeir ekki að fylgja félögum sínum inn í frístund ef þeir eru ekki búsettir í Reykjavík.“
Þetta hafi í för með sér að þessi ungmenni einangrist enn frekar. „Þá verða þau bara að bíða eftir því að vita hvaða úrræði stendur til boða.“
Hún bendir á að á hverju ári endurtaki sama sagan sig. „Það er ekkert samráð og upplýsingaflæðið til foreldra er meira og minna ekkert. Allir eru að bíða en þessi skil að fara frá Klettaskóla eða úr öðru sértæku úrræði innan grunnskólanna yfir í framhaldsskóla er mjög stórt. Þessu fylgir gríðarlega mikil breyting og það er algjört happadrætti hvort barnið þitt lendi með félögum sínum í skóla eða ekki,“ segir hún og bætir því við að upplýsingaflæðið sé bagalegt.
Ekkert samtal um hvað koma skal
Starfsbrautirnar fylgja ákveðnum inntökureglum og geta þær verið ólíkar á milli skóla, að sögn Söru Daggar. „Þær búa yfir mjög ólíku umhverfi og aðstæðum. Þannig að það er auðvitað bundið því hvað þær eru að bjóða upp á og hvaða skerðingar viðkomandi einstaklingur er með. Þetta þarf auðvitað að meta og vega og það er fullur skilningur á því.“
Það sem henni finnst aftur á móti óvarlega unnið varðandi ferlið „er að þessi ungmenni og aðstandendur fá ekki þetta samtal um hvað verður í boði þegar það sem þú valdir er ekki það sem þú færð. Það er ekkert samtal og svo bara einhvern tímann löngu seinna berast þær fréttir að þú hafir fengið einn inn í einhvern ákveðinn skóla og ekkert meir. Sumir myndu segja að þetta gengi þannig yfir alla framhaldsskólanema, að enginn geti verið öruggur með pláss en þessi hópur er náttúrulega einstaklega viðkvæmur og það er svo mikið í húfi. Þess vegna er stórmál þegar viðkomandi einstaklingur fær ekki tækifæri til að fylgja félögum sínum. Þetta verður mjög flókið og yfirþyrmandi fyrir þau sem í því lenda.“
Það sama megi segja um frístundina sem tekur við eftir skólann á daginn. „Við hjá Þroskahjálp höfum bent á að þetta sé að minnsta kosti ekki til þess að styðja við þessar fjölskyldur sem eru í þessu ströggli alla daga. Mér finnst svo með ólíkindum að kerfið taki ekki betur utan um þennan hóp og þetta ferli. Þetta er engin kjarneðlisfræði.“
Þessi hópur alltaf „einhver afgangsstærð“
Sara Dögg segir að á hverju ári liggi fyrir hvað hópurinn sem sækir um á starfsbrautum sé stór og í raun sé það vitað með margra ára fyrirvara. „Það er verið að lofa fjölbreyttu menntakerfi og það er alltaf verið að tala um menntun fyrir alla en svo er þessi hópur alltaf einhver afgangsstærð – alveg sama hvað. Einhvern veginn næst aldrei að laga þetta og það er einfaldlega algjörlega óþolandi og óviðunandi.“
Í kringum 50 krakkar útskrifast á hverju ári af starfsbrautunum og telur hún að vegna þess að hópurinn er ekki stærri þá ætti að vera auðvelt að laga kerfið þannig að allir kæmust að við viðeigandi starfsbrautir.
Vegna starfa hennar fyrir Þroskahjálp hefur hún komið í marga framhaldsskóla og segir hún að víða vanti fullnægjandi húsnæði fyrir starfsbrautirnar – og séu þær margar hverjar búnar að sprengja það utan af sér. Einnig telur hún að allir framhaldsskólar ættu að vera með starfsbrautir en núna bjóða 23 skólar um land allt upp á slíkar brautir.
„Sumar þeirra eru mjög sérhæfðar, við höfum til dæmis Menntaskólinn í Kópavogi sem er með starfsbraut sem er sérstaklega ætluð fyrir einhverf ungmenni. Ég veit að sú deild er orðin of lítil og verða þau að taka mikið fleiri en rýmið í raun býður upp á.“
Talað um að mæta öllum – en svo sé það ekki í reynd
Eins og áður segir hafa þau hjá Þroskahjálp ekkert svar fengið frá ráðuneytinu varðandi fund um þessi málefni. Sara segist þó hafa náð sambandi við einn aðstoðarmann menntamálaráðherra í sumar til að ítreka óskina um fund; til þess að fara í saumana á þessu ferli og kanna af hverju þetta færi endurtekið í sama farið. „En við fengum ekki nein viðbrögð nema það að málið væri í vinnslu. Við höfum ekki fengið neitt svar.“
Hún segir að henni sé verulega brugðið að ástandið sé alltaf við það sama. „Það er alltaf talað um að það eigi að mæta öllum og að kerfið sé til þess fallið að gera það en svo einhvern veginn verður þessi hópur alltaf út undan og þá verður ástandið verulega þreytt.
En þessi hópur er sem betur fer að alast upp í breyttu umhverfi þar sem gerðar eru kröfur um sama rétt til menntunar og þjónustu og aðrir búa við. Sjálfsögð mannréttindi sem við sem samfélag höfum ákveðið að virða með staðfestingu mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Menntunartækifæri ungs fatlaðs fólks er eitt af þeim málum sem okkur virðist ganga allt of seint og illa að bæta. Þetta er eitt af stóru málunum.“
Lesa meira
-
27. desember 2022Góð orð eru eitt – en aðgerðirnar telja
-
10. desember 2022Skólastarf verðskuldar virðingu í umfjöllun
-
24. október 2022Hvíta húsið, UNESCO og endurbætt rannsóknamat
-
28. september 2022Píratar vilja að Menntasjóður fái heimild til að fella niður námslánaskuldir
-
1. september 2022Hvar eru strákarnir?
-
5. júlí 2022Vilja netöryggiskennslu inn í námskrá grunnskólanna
-
8. júní 2022Halda ekki utan um tölur um kvartanir er varða kynþáttafordóma
-
2. maí 2022Afborganir námslána í aukinni dýrtíð: Hvar er stefna stjórnvalda?
-
7. apríl 2022Áskorun og tækifæri í hversdagsleikanum
-
6. apríl 2022Hugsað til framtíðar