Stór hluti þeirra sem fengu að kaupa í Íslandsbanka eru ekki lengur á meðal hluthafa
Samanburður á hluthafalista Íslandsbanka fyrir lokaða útboðið í mars og listanum eins og hann leit út í gær sýnir að margir þeirra sem fengu að taka þátt í útboðinu hafa selt sig niður að einhverju eða öllu leyti. Hópurinn hefur hagnast um 1,6 til 2,1 milljarð króna á því að eiga bréfin í nokkra daga. Lífeyrissjóðir hafa verið að kaupa bréf af miklum móð síðustu vikur á hærra verði en stóð til boða í útboðinu.
Alls eru 132 þeirra 207 fjárfesta sem fengu úthlutað hlutum í Íslandsbanka í nýlegu lokuðu útboði ekki skráðir fyrir sama hlut og þau fengu úthlutað. Margir þeirra hafa selt sig niður að einhverju eða öllu leyti. Samanlagt keyptu þessir aðilar fyrir um 18,7 milljarða króna í útboðinu þann 22. mars síðastliðinn, en útboðsgengið var 117 krónur á hlut sem var 4,1 prósent lægra en markaðsgengi þess dags.
Frá því að greitt var fyrir bréfin 28. mars hefur gengi bréfa í Íslandsbanka verið lægst 126,8 krónur á hlut og hæst 130,2 krónur á hlut. Miðað við það hefur þessi 132 aðila hópur hagnast um 1,6 til 2,1 milljarða króna á því að taka þátt í hinu lokaða útboði og selja bréfin aftur skömmu síðar.
Þetta má sjá með því að bera saman lista yfir kaupendur að hlut í Íslandsbanka, sem birtur var síðastliðinn miðvikudag, og hluthafalista bankans eins og hann var í lok dags í gær, 11. apríl 2022.
Langflestir þeirra 132 félaga, sjóða og einstaklinga sem tóku þátt í útboðinu en hafa selt hluti síðan þá eru ekki lengur skráðir fyrir neinum hlut í Íslandsbanka.
Mikil velta eftir útboð
Heimildarmenn Kjarnans innan bankakerfisins segja að í flestum tilvikum séu viðkomandi einfaldlega búnir að selja hlutinn og leysa út hagnaðinn af því að hafa fengið að taka þátt í útboðinu með afslætti. Í einhverjum tilvikum hafi verið framvirkir samningar við þá og viðkomandi fengið lán fyrir kaupunum sem hafi svo í sumum tilvikum verið gert upp strax á fyrstu dögum eftir að hægt var að selja að nýju. Það sem eftir sat lenti svo í vasa viðkomandi fagfjárfestis sem hreinn hagnaður.
Í öðrum tilvikum hafi hluturinn þó verið fluttur á vörslureikninga í eignarstýtingu viðkomandi. Ómögulegt er að sjá af hluthafalistanum hverjir færðu bréfin sín með þeim hætti og hverjir seldu. Velta með bréf í Íslandsbanka, þar sem sem þau eru keypt og seld, daganna eftir að útboðinu lauk var margföld það sem hún var að meðaltali á dag frá áramótum og fram að útboði. frá 23. mars og til 11. apríl höfðu um 152,6 milljónir hluta skipt um eigendur. Það er um þriðjungur þess sem selt var í útboðinu.
Uppfært 15. apríl. Bankasýsla ríkisins birti yfirlit yfir það hvernig hún ætlar að þróun á eignarhaldi þeirra sem keyptu hlut í Íslandsbanka 22. mars hafi verið frá útboði. Hægt er að lesa umfjöllun um það yfirlit hér að neðan.
Í kynningu sem Bankasýsla ríkisins hélt fyrir ráðherranefnd um efnahagsmál 1. apríl síðastliðinn var há hlutdeild einkafjárfesta í útboðinu rökstudd með því að áskriftir þeirra hefðu skertar á kostnað almennra fjárfesta í frumútboðinu á hlutum í Íslandsbanka í fyrrasumar.
Erlendu sjóðirnir farnir
Mesta athygli vekur að þeir erlendur sjóðir sem söluráðgjafar Bankasýslu ríkisins buðu að taka þátt í lokaða útboðinu eru flestir búnir að selja allan þann hlut sem þeir fengu úthlutað. Um er að ræða sjóði sem tóku líka þátt í almenna útboðinu í fyrrasumar og seldu sig þá strax niður í kjölfarið. Þeir voru því að taka snúning númer tvö á hlutabréfaeign í Íslandsbanka þar sem söluaðilinn var íslenska ríkið. Eftir almenna útboðið seldur sex þeirra erlendu sjóða sem keyptu í bankanum bréfin sem þeim var úthlutað innan þriggja daga eftir skráningu með umtalsverðum hagnaði, en söluandvirðið var um fjórir milljarðar króna. Á meðal þessara sex voru sjóðir Silver Point Capital, Fiera Capital, Lansdowne Partners og Key Square Partners.
Allir fjórir sjóðirnir voru aftur með í lokaða útboðinu. Silver Point keypti fyrir rúmlega 1,3 milljarða króna, Landsdown Partners fyrir næstum 556 milljónir króna, Fiera Capital fyrir 468 milljónir króna og KeySquare Partners fyrir 409,5 milljónir króna. Samtals keyptu þessir fjórir sjóðir því fyrir rúmlega 2,7 milljarða króna í lokaða útboðinu og fengu í staðinn 5,2 prósent hlut í Íslandsbanka.
Samkvæmt hluthafalista Íslandsbanka í gær hafa Silver Point, Fiera Capital og KeySquare Partners þegar selt allan þann hlut sem þeim var úthlutað í lokaða útboðinu í mars.
Auk þess var sjóður í stýringu bandaríska sjóðstýringarfyrirtækisins RWC Asset Management valinn sem einn hornsteinsfjárfestanna í Íslandsbanka í aðdraganda almenna útboðsins í fyrra. Sá sjóður fékk þá að kaupa 1,54 prósent hlut á 2,4 milljarða króna. Hann hafði selt þorra eignar sinnar um síðustu áramót og leyst um leið út umtalsverðan hagnað. Sjóður í stýringu RWC Asset Management fékk að kaupa hluti fyrir tæplega tvo milljarða króna í útboðinu í mars. Hann hefur þegar selt rúmlega fjórðung þeirra bréfa og leyst út hagnað.
Flestir „litlu“ fjárfestarnir búnir að selja
Á samanburðarlistanum sem Kjarninn hefur undir höndum kemur skýrt fram að flestir „litlu“ fjárfestarnir, sem keyptu fyrir smærri upphæðir, eru búnir að selja sinn hlut, en alls fengu 59 aðilar að kaupa fyrir undir 30 milljónir króna og 79 fyrir minna en 50 milljónir króna. Gagnrýnt hefur verið að fjárfestar sem kaupa fyrir svo lágar upphæðir fái afslátt í gegnum lokað útboð. Engin ástæða er fyrir því að lokka þá sérstaklega inn í eigendahópinn í gegnum slíka söluaðferð heldur geti þeir keypt á eftirmarkaði eins og aðrir.
Á meðal stærri fjárfesta, sem keyptu fyrir nokkur hundruð milljónir króna, sem eru ekki lengur skráðir fyrir hlut í Íslandsbanka eru Eignarhaldsfélagið Steinn, í eigu Þorsteins Más Baldvinssonar og fyrrverandi eiginkonu hans, tvö félög í eigu bræðranna Ágústs og Lýðs Guðmundssona, félag í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur og fjölskyldu, félag í eigu Pálma Haraldssonar, félög Þórðar Más Jóhannessonar og fjárfestingafélagið Stoðir. Í frétt sem Innherji birti miðvikudaginn 13. apríl neita Þorsteinn Már og Guðbjörg því að hafa selt hluti og segja að kaup þeirra hafi verið í gegnum framvirka samninga. Sömu sögu er að segja um Þórð Má Jóhannesson og Ágúst og Lýð Guðmundsson.
Umdeildasta nafnið sem birtist á kaupendalistanum var félagið Hafsilfur, í eigu Benedikts Sveinssonar. Ástæða þess er að Benedikt er faðir Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, sem ber ábyrgð á sölu Íslandsbanka samkvæmt lögum. Félag Benedikts heldur enn á þeim hlut sem það keypti fyrir tæplega 55 milljónir króna. Virði hlutarins hefur hækkað um fimm milljónir króna frá því að útboðið átti sér stað.
Lífeyrissjóðirnir að kaupa mikið magn á hærra verði
Veruleg umframeftirspurn var eftir bréfum í útboðinu. Bankasýslan hefur þegar opinberað að fjárfestar hafi skráð sig fyrir hlutum fyrir samtals meira en 100 milljarða króna, en selt var fyrir 52,65 milljarða króna. Fram hefur komið að lífeyrissjóðirnir fengu að kaupa mun minna en þeir vildu í útboðinu.
Á samanburðarlistanum má sjá að það eru aðallega lífeyrissjóðir sem hafa verið að bæta við sig hlutum í Íslandsbanka á eftirmarkaði eftir að útboðið var gert upp. Þannig hefur Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins keypt 29 milljónir hluta frá þeim tíma, sem á virði dagsins í dag kosta um 3,6 milljarða króna. Lífsverk lífeyrissjóður hefur keypt fyrir um 1,7 milljarða króna, Brú lífeyrissjóður fyrir tæplega 600 milljónir króna og Gildi fyrir tæplega 400 milljónir króna.
Aðrir stofnanafjárfestar eins og tryggingafélögin Sjóvá og VÍS, ásamt íslenskum sjóðstýringarfyrirtækjum, hafa líka bætt við sig hlutum á verði sem er töluvert umfram það sem stóð til boða í útboðinu. Þegar við er bætt þeim hlut sem sjóðurinn Capital Group, einn stærsti eigandi Íslandsbanka, hefur bætt við sig frá því að útboðið fór fram kemur í ljós að níu stofnanafjárfestar hafa keypt rúmlega 40 prósent þeirra hluta sem seldir hafa verið eftir útboð.
Því hafa lífeyrissjóðir og aðrir stofnanafjárfestar, sem líta á eign í Íslandsbanka sem langtímaeign, síðustu vikur keypt stóran hluta þeirra bréfa sem minni fjárfestar hafa selt með skyndigróða á hærra verði en bauðst í útboðinu.
Fréttaskýringin var uppfærð og leiðrétt 13. apríl með upplýsingum um að félög Þorsteins Más Baldvinssonar, Guðbjargar Matthíasdóttur, Þórðar Más Jóhannssonar og Ágústar og Lýðs Guðmundssona hefðu ekki selt hlut sinn í Íslandsbanka. Samhliða var orðalagi í fyrstu málsgrein breytt lítillega. Hún var aftur uppfærð og leiðrétt 15. apríl eftir að upplýsingar komu fram um að starfsmenn og eigendur söluráðgjafa sem ráðnir voru til að sinna útboðinu væru enn skráðir fyrir sínum hlutum, og uppfærð í þá veru.
Lestu meira:
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
7. janúar 2023Dreifing Fréttablaðsins fer úr 80 þúsund í 45 þúsund eintök á dag eftir breytingarnar
-
7. janúar 2023Tæknispá 2023: Tími gervigreindar er kominn og samfélagsmiðlar verða persónulegri
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
4. janúar 2023Hálfgerð Eurovision-stigagjöf hjá matsnefnd Hörpu sögð óhefðbundin
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
1. janúar 2023Þrennt sem eykur forskot Íslands
-
30. desember 2022Verslun í alþjóðlegu umhverfi