Bára Huld Beck

„Stríðið sem nú geisar kemur alltaf aftur – það er ekki hægt að lífa eðlilegu lífi á Gaza“

Margir hælisleitendur sem hingað koma í leit að skjóli þurfa frá að hverfa þegar þeir hafa þegar fengið hæli í Grikklandi. Þriggja barna faðir í leit að mannsæmandi lífi er einn þeirra en hann kemur frá Gaza þar sem stríðsátök geisa nú um dagana – sem svo oft áður.

Eina sem ég óska mér er að lifa mínu lífi með börn­unum mín­um. Ég hugsa mikið til þeirra núna. Stríðið sem nú geisar kemur alltaf aftur og það er ekki hægt að lífa eðli­legu lífi á Gaza. Ég sé ekki neina fram­tíð þar og það eina sem ég hugsa núna er að konan mín og börnin mín geti lifað eðli­legu lífi. Það er það eina sem ég hugsa um nún­a.“

Þetta segir Ahmed Irheem 28 ára gam­all Palest­ínu­maður sem synjað hefur verið um hæli á Íslandi en hann flúði frá heima­land­inu til Tyrk­lands árið 2018 og þaðan til Grikk­lands. Hann á eig­in­konu og þrjú ung börn sem búa nú við skelfi­legar aðstæður á Gaza en þar hafa átt sér stað loft­árásir Ísra­els­manna síð­ast­liðna viku.

Ahmed kom til hingað til lands um miðjan sept­em­ber á síð­asta ári. Nú, eftir synjun frá kæru­nefnd Útlend­inga­mála, fer í gang ferli fyrir dóm­stól­um. Lög­maður hans segir að ef fer sem horfir þá muni hann enda á göt­unni eftir fjórar til fimm vikur – en hann dvelur nú í íbúð ásamt öðrum hæl­is­leit­endum í Reykja­vík.

Auglýsing

Vist­ar­verur frekar ætl­aðar dýrum en mönnum

Dvöl­inni í Grikk­landi lýsir Ahmed sem hræði­legri – og voru vist­ar­verur hans frekar ætl­aðar dýrum frekar en mönn­um, að hans sögn. Hann seg­ist þess vegna ekki hafa séð neina fram­tíð fyrir sig eða fjöl­skyldu sína þar í landi.

Flúði hann til Belgíu í kjöl­farið enda taldi hann sig ekki eiga ann­arra kosta völ. Hann seg­ist ekki hafa viljað fara til baka til Palest­ínu – og í reynd lítur hann ekki á það sem val – heldur vildi hann reyna áfram að finna sér og fjöl­skyldu sinni skjól. Nú eru öll fram­tíð­ar­á­form enn og aftur í upp­námi eftir synj­un­ina.

Meidd­ist í sprengju­árás árið 2008

Ahmed er alinn upp í Gaza og þegar hann var ungur drengur árið 2008 voru stríðs­á­tök á svæð­inu, sem svo oft áður. Hann lýsir því þegar sprengjum var varpað á bygg­ing­ar, þar á meðal á blokk nálægt skól­anum sem hann gekk í. „Einn vinur minn dó í þessum árásum og ég meidd­ist mikið – sér­stak­lega á utan­verðu hægra lær­in­u,“ segir hann og bendir niður eftir fæt­in­um. Var hann með skerta heyrn eftir þetta.

Hann segir að síðan þetta gerð­ist hafi honum oft liðið mjög illa og verið þung­lynd­ur. Hann seg­ist þó hafa fengið lækn­is­þjón­ustu á ákveðnum tíma­bilum í líf­inu sem hafi látið honum líða ögn bet­ur. Segir hann að tím­inn í Grikk­landi hafi verið skelfi­legur hvað þetta varð­ar. Hann hafi ekki fengið þá aðstoð sem hann þurfti þá sjö mán­uði sem hann var þar.

Í úrskurði kæru­nefndar kemur fram að nefndin telji gögn máls­ins ekki bera með sér að heilsu­far kær­anda sé með þeim hætti að hann telj­ist glíma við mikil eða alvar­leg veik­indi, s.s. skyndi­legan og lífs­hættu­legan sjúk­dóm og með­ferð við honum sé aðgengi­leg hér á landi en ekki í við­töku­ríki. „Af þeim gögnum sem kæru­nefnd hefur kynnt sér um aðstæður í Grikk­landi verður ráðið að kær­andi hafi aðgang að grunn­heil­brigð­is­þjón­ustu þar í land­i,“ segir í úrskurð­in­um.

Mynd­bandið hér að ofan sýnir vist­ar­verur Ahmed í Grikk­landi þar sem hann bjó í her­bergi með 15 öðrum mönnum en hann er einn þeirra sem liggur í rúm­inu.

Hvað olli því að þú ákvaðst að flýja heima­land­ið?

„Síðan árið 2010 hef ég hugsað um að flýja og ég fann að ég var mjög veik­ur. Svo skall á annað stríð árið 2014 sem hafði slæmar afleið­ing­ar. Aðal­at­riðið hjá mér núna er nátt­úru­lega að ég og fjöl­skylda mín fái athvarf til að lifa og til að ég nái heilsu.“

Ahmed segir að eina landið sem hann sjái sem öruggt fyrir sig og fjöl­skyldu sína sé Ísland. „Ég vil búa hér á Íslandi. Mig langar að fá börnin mín hing­að. Ég er ekki að segja að Grikk­land sé slæmt land en mér leið ekki vel þar og aðstæður þar eru ekki góð­ar.“

„Það er alltaf stríð heima og maður veit aldrei hvað gerist næst,“ segir Ahmed.
Bára Huld Beck

Strák­ur­inn hans alltaf að tala um stríð

Eig­in­kona hans íhug­aði það að flýja með honum en Ahmed seg­ist ekki hafa viljað gera ungum börnum sínum það. „Ég hugs­aði með mér að ég myndi fara fyrst og síðan myndu þau fylgja á eftir síð­ar. Við myndum finna leið til að koma fjöl­skyld­unni til mín.“ Seg­ist hann vera að reyna að gera allt sem í hans valdi stendur til að bjarga fjöl­skyld­unni sinni en börnin eru fjög­urra, sex og sjö ára göm­ul. „Það er alltaf stríð heima og maður veit aldrei hvað ger­ist næst. Mið­dreng­ur­inn minn er alltaf að tala um stríð – og honum líður alls ekki nógu vel.“

Ahmed, börnin hans þrjú og eiginkonan Hanan Myndir: Aðsendar

Fáum dylst að ástandið í Gaza er grafal­var­legt en að minnsta kosti 217 Palest­ínu­menn hafa látið lífið í árásum Ísra­els­manna síð­ast­liðna viku, þar af 63 barn, en rúm­lega 1.500 hafa særst í átök­un­um.

Ahmed hefur ekki heyrt í eig­in­konu sinni í rúma viku en hann fékk sent mynd­band frá öðrum fjöl­skyldu­með­limum sem sýnir hvernig það er að búa á þessu svæði. Frændi kon­unnar hans tók mynd­bandið sem um ræðir frá þaki húss­ins sem hann býr.

„Fyrir viku síðan lang­aði mig ekki að lifa lengur og vildi ég enda þetta allt sam­an. Ég var að reyna að hafa sam­band við fjöl­skyld­una mína en náði ekki í gegn. Það var raf­magns­laust á mörgum stöðum en vinur minn náði að senda mér sms þar sem hann greindi frá slæmu ástandi í Gaza. Mér líður alveg hræði­lega nún­a.“

Þegar Ahmed er spurður út í líðan fjöl­skyldu hans seg­ist hann ekki almenni­lega vita það. Móðir hans býr á Gaza og þrír bræður hans og fjöl­skyld­ur. „Það er ekk­ert sam­band, og ekk­ert raf­magn. Þetta ástand er búið að vera núna í níu daga þar sem á mörgum stöðum er ekk­ert raf­magn. Það er mjög erfitt.

Það eina sem mér hefur borist er sms. Ég var alltaf að reyna að hafa sam­band en það eina sem ég heyrði var að það væri í lagi með þau en mér skilst að þau séu búin að koma sér saman í einu her­berg­i,“ segir hann.

Auglýsing

Vilja „frekar deyja á göt­unni á Íslandi en að fara aftur til Grikk­lands“

Kjarn­inn greindi frá því í gær að fimm ungir Palest­ínu­menn, sem hingað komu og sóttu um alþjóð­lega vernd, hefðu misst hús­næði sem þeir voru í á vegum Útlend­inga­stofn­unar sem og fram­færslu frá stofn­un­inni. Mál þeirra voru ekki tekin til efn­is­legrar með­ferðar hér á landi á þeim rökum að þeir hefðu þegar fengið dval­ar­leyfi og stöðu flótta­manna í Grikk­landi. Tveimur öðrum mönnum í sömu stöðu var vísað út í fyrra­dag.

„Við tókum eftir því í dag að búið var að loka fyrir fram­færsl­una,“ sagði Suliman Al Marsi í sam­tali við Kjarn­ann í gær. Hann sagði að þeir hefðu fengið hálf­tíma fyr­ir­vara. Ástæðan fyrir þess­ari aðgerð stofn­un­ar­innar er sú að ungu menn­irnir eiga sam­kvæmt ákvörðun stjórn­valda að yfir­gefa landið og fara aftur til Grikk­lands. Það vilja þeir hins vegar ekki gera, þeir ótt­ast um öryggi sitt þar, og hafa af þeim sökum neitað að fara í COVID-­próf sem er for­senda þess að hægt sé að senda þá úr landi.

Allir eiga þeir ást­vini í Gaza í Palest­ínu eins og Ahmed og hafa þeir einnig lítið heyrt í fjöl­skyldum sínum vegna stop­uls net­sam­bands.

Suliman sagði við Kjarn­ann í gær að starfs­menn Útlend­inga­stofn­unar hefðu sagt að þeir gætu fundið hús­næði í Grikk­landi en hann þekkti það af eigin reynslu að það er ill­mögu­legt. Lík­lega ómögu­legt. Á götum Aþenu og ann­arra grískra borga væri ofbeldi dag­legt brauð og þess vegna ótt­uð­ust þeir um öryggi sitt. „Þar eru líka miklir for­dómar í garð Palest­ínu­manna,“ bætti hann við.

„Hvernig get ég snúið til bak­a?“

Ahmed hefur eins og margir hæl­is­leit­endur gengið í gegnum mörg áföll og dynja þau ekki ein­ungis yfir í stríðs­hrjáðu landi eða á götum Grikk­lands heldur jafn­framt hér á Íslandi. „Ég hef gengið í gegnum þrjú áföll núna á stuttum tíma. Ég hef verið veik­ur, fengið synjun og svo þetta stríð. Mér líður svo illa út af þessu og stundum langar mig bara að læsa mig inni í her­bergi og ekki koma út. Bara vera þar. Ég hef ekki kraft til að taka allt þetta á mig.“

Hann bætir því við að núna í þrjá daga hafi hann ekki getað borðað – ekki haft lyst til þess. „Lyfin sem ég hef tekið und­an­farið hafa virkað en núna finnst mér þau ekki gera það. Þau virka ekki í þessum erf­ið­leik­um. Þau gera ekk­ert gagn nún­a.“

Vonin sem Ahmed eygði um betra líf hér á landi hvarf þegar hann fékk synj­un­ina. „Þá hætti ég að sjá fram­tíð­ina fyrir mér og mér líður hræði­lega út af því. Hvernig get ég snúið til baka? Ég sé enga fram­tíð leng­ur.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiViðtal