Eina sem ég óska mér er að lifa mínu lífi með börnunum mínum. Ég hugsa mikið til þeirra núna. Stríðið sem nú geisar kemur alltaf aftur og það er ekki hægt að lífa eðlilegu lífi á Gaza. Ég sé ekki neina framtíð þar og það eina sem ég hugsa núna er að konan mín og börnin mín geti lifað eðlilegu lífi. Það er það eina sem ég hugsa um núna.“
Þetta segir Ahmed Irheem 28 ára gamall Palestínumaður sem synjað hefur verið um hæli á Íslandi en hann flúði frá heimalandinu til Tyrklands árið 2018 og þaðan til Grikklands. Hann á eiginkonu og þrjú ung börn sem búa nú við skelfilegar aðstæður á Gaza en þar hafa átt sér stað loftárásir Ísraelsmanna síðastliðna viku.
Ahmed kom til hingað til lands um miðjan september á síðasta ári. Nú, eftir synjun frá kærunefnd Útlendingamála, fer í gang ferli fyrir dómstólum. Lögmaður hans segir að ef fer sem horfir þá muni hann enda á götunni eftir fjórar til fimm vikur – en hann dvelur nú í íbúð ásamt öðrum hælisleitendum í Reykjavík.
Vistarverur frekar ætlaðar dýrum en mönnum
Dvölinni í Grikklandi lýsir Ahmed sem hræðilegri – og voru vistarverur hans frekar ætlaðar dýrum frekar en mönnum, að hans sögn. Hann segist þess vegna ekki hafa séð neina framtíð fyrir sig eða fjölskyldu sína þar í landi.
Flúði hann til Belgíu í kjölfarið enda taldi hann sig ekki eiga annarra kosta völ. Hann segist ekki hafa viljað fara til baka til Palestínu – og í reynd lítur hann ekki á það sem val – heldur vildi hann reyna áfram að finna sér og fjölskyldu sinni skjól. Nú eru öll framtíðaráform enn og aftur í uppnámi eftir synjunina.
Meiddist í sprengjuárás árið 2008
Ahmed er alinn upp í Gaza og þegar hann var ungur drengur árið 2008 voru stríðsátök á svæðinu, sem svo oft áður. Hann lýsir því þegar sprengjum var varpað á byggingar, þar á meðal á blokk nálægt skólanum sem hann gekk í. „Einn vinur minn dó í þessum árásum og ég meiddist mikið – sérstaklega á utanverðu hægra lærinu,“ segir hann og bendir niður eftir fætinum. Var hann með skerta heyrn eftir þetta.
Hann segir að síðan þetta gerðist hafi honum oft liðið mjög illa og verið þunglyndur. Hann segist þó hafa fengið læknisþjónustu á ákveðnum tímabilum í lífinu sem hafi látið honum líða ögn betur. Segir hann að tíminn í Grikklandi hafi verið skelfilegur hvað þetta varðar. Hann hafi ekki fengið þá aðstoð sem hann þurfti þá sjö mánuði sem hann var þar.
Í úrskurði kærunefndar kemur fram að nefndin telji gögn málsins ekki bera með sér að heilsufar kæranda sé með þeim hætti að hann teljist glíma við mikil eða alvarleg veikindi, s.s. skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm og meðferð við honum sé aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki. „Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður í Grikklandi verður ráðið að kærandi hafi aðgang að grunnheilbrigðisþjónustu þar í landi,“ segir í úrskurðinum.
Myndbandið hér að ofan sýnir vistarverur Ahmed í Grikklandi þar sem hann bjó í herbergi með 15 öðrum mönnum en hann er einn þeirra sem liggur í rúminu.
Hvað olli því að þú ákvaðst að flýja heimalandið?
„Síðan árið 2010 hef ég hugsað um að flýja og ég fann að ég var mjög veikur. Svo skall á annað stríð árið 2014 sem hafði slæmar afleiðingar. Aðalatriðið hjá mér núna er náttúrulega að ég og fjölskylda mín fái athvarf til að lifa og til að ég nái heilsu.“
Ahmed segir að eina landið sem hann sjái sem öruggt fyrir sig og fjölskyldu sína sé Ísland. „Ég vil búa hér á Íslandi. Mig langar að fá börnin mín hingað. Ég er ekki að segja að Grikkland sé slæmt land en mér leið ekki vel þar og aðstæður þar eru ekki góðar.“
Strákurinn hans alltaf að tala um stríð
Eiginkona hans íhugaði það að flýja með honum en Ahmed segist ekki hafa viljað gera ungum börnum sínum það. „Ég hugsaði með mér að ég myndi fara fyrst og síðan myndu þau fylgja á eftir síðar. Við myndum finna leið til að koma fjölskyldunni til mín.“ Segist hann vera að reyna að gera allt sem í hans valdi stendur til að bjarga fjölskyldunni sinni en börnin eru fjögurra, sex og sjö ára gömul. „Það er alltaf stríð heima og maður veit aldrei hvað gerist næst. Miðdrengurinn minn er alltaf að tala um stríð – og honum líður alls ekki nógu vel.“
Fáum dylst að ástandið í Gaza er grafalvarlegt en að minnsta kosti 217 Palestínumenn hafa látið lífið í árásum Ísraelsmanna síðastliðna viku, þar af 63 barn, en rúmlega 1.500 hafa særst í átökunum.
Ahmed hefur ekki heyrt í eiginkonu sinni í rúma viku en hann fékk sent myndband frá öðrum fjölskyldumeðlimum sem sýnir hvernig það er að búa á þessu svæði. Frændi konunnar hans tók myndbandið sem um ræðir frá þaki hússins sem hann býr.
„Fyrir viku síðan langaði mig ekki að lifa lengur og vildi ég enda þetta allt saman. Ég var að reyna að hafa samband við fjölskylduna mína en náði ekki í gegn. Það var rafmagnslaust á mörgum stöðum en vinur minn náði að senda mér sms þar sem hann greindi frá slæmu ástandi í Gaza. Mér líður alveg hræðilega núna.“
Þegar Ahmed er spurður út í líðan fjölskyldu hans segist hann ekki almennilega vita það. Móðir hans býr á Gaza og þrír bræður hans og fjölskyldur. „Það er ekkert samband, og ekkert rafmagn. Þetta ástand er búið að vera núna í níu daga þar sem á mörgum stöðum er ekkert rafmagn. Það er mjög erfitt.
Það eina sem mér hefur borist er sms. Ég var alltaf að reyna að hafa samband en það eina sem ég heyrði var að það væri í lagi með þau en mér skilst að þau séu búin að koma sér saman í einu herbergi,“ segir hann.
Vilja „frekar deyja á götunni á Íslandi en að fara aftur til Grikklands“
Kjarninn greindi frá því í gær að fimm ungir Palestínumenn, sem hingað komu og sóttu um alþjóðlega vernd, hefðu misst húsnæði sem þeir voru í á vegum Útlendingastofnunar sem og framfærslu frá stofnuninni. Mál þeirra voru ekki tekin til efnislegrar meðferðar hér á landi á þeim rökum að þeir hefðu þegar fengið dvalarleyfi og stöðu flóttamanna í Grikklandi. Tveimur öðrum mönnum í sömu stöðu var vísað út í fyrradag.
„Við tókum eftir því í dag að búið var að loka fyrir framfærsluna,“ sagði Suliman Al Marsi í samtali við Kjarnann í gær. Hann sagði að þeir hefðu fengið hálftíma fyrirvara. Ástæðan fyrir þessari aðgerð stofnunarinnar er sú að ungu mennirnir eiga samkvæmt ákvörðun stjórnvalda að yfirgefa landið og fara aftur til Grikklands. Það vilja þeir hins vegar ekki gera, þeir óttast um öryggi sitt þar, og hafa af þeim sökum neitað að fara í COVID-próf sem er forsenda þess að hægt sé að senda þá úr landi.
Allir eiga þeir ástvini í Gaza í Palestínu eins og Ahmed og hafa þeir einnig lítið heyrt í fjölskyldum sínum vegna stopuls netsambands.
Suliman sagði við Kjarnann í gær að starfsmenn Útlendingastofnunar hefðu sagt að þeir gætu fundið húsnæði í Grikklandi en hann þekkti það af eigin reynslu að það er illmögulegt. Líklega ómögulegt. Á götum Aþenu og annarra grískra borga væri ofbeldi daglegt brauð og þess vegna óttuðust þeir um öryggi sitt. „Þar eru líka miklir fordómar í garð Palestínumanna,“ bætti hann við.
„Hvernig get ég snúið til baka?“
Ahmed hefur eins og margir hælisleitendur gengið í gegnum mörg áföll og dynja þau ekki einungis yfir í stríðshrjáðu landi eða á götum Grikklands heldur jafnframt hér á Íslandi. „Ég hef gengið í gegnum þrjú áföll núna á stuttum tíma. Ég hef verið veikur, fengið synjun og svo þetta stríð. Mér líður svo illa út af þessu og stundum langar mig bara að læsa mig inni í herbergi og ekki koma út. Bara vera þar. Ég hef ekki kraft til að taka allt þetta á mig.“
Hann bætir því við að núna í þrjá daga hafi hann ekki getað borðað – ekki haft lyst til þess. „Lyfin sem ég hef tekið undanfarið hafa virkað en núna finnst mér þau ekki gera það. Þau virka ekki í þessum erfiðleikum. Þau gera ekkert gagn núna.“
Vonin sem Ahmed eygði um betra líf hér á landi hvarf þegar hann fékk synjunina. „Þá hætti ég að sjá framtíðina fyrir mér og mér líður hræðilega út af því. Hvernig get ég snúið til baka? Ég sé enga framtíð lengur.“
Lesa meira
-
16. desember 2022Segir Múlaþing ekki vera að útiloka flóttafólk frá öðrum ríkjum en Úkraínu
-
14. desember 2022Hlutverk RÚV ekki „að mála opinbera embættismenn upp sem einhverjar grýlur“
-
13. desember 2022„Í alvörunni vinna engar gribbur hjá Útlendingastofnun“
-
9. desember 2022Segja stjórnarmeirihlutann stilla öryrkjum upp á móti útlendingum
-
8. desember 2022Leggja til að fjölskyldur sem ekki var hægt að senda úr landi fái dvalarleyfi
-
6. desember 2022„Þau hefðu bara átt góðan séns á því að fá hæli á Íslandi“
-
17. nóvember 2022Ítalskir lögregluþjónar hafi undrast komu Antons og Viktoríu
-
17. nóvember 2022Fáum verið vísað frá Noregi og Danmörku til Grikklands á grundvelli verndar þar
-
16. nóvember 2022Telja að heimilislausum muni fjölga og mansal aukast ef útlendingalögum verði breytt
-
15. nóvember 2022Svona varð ég „glæpamaður“ á Íslandi